Færsluflokkur: Dægurmál

Rétt ákvörðun hjá Kaupþingi

Kaupþing Það er skynsamleg ákvörðun hjá Kaupþingi að hætta við yfirtökuna á NIBC. Eins og staðan er nú hefði það verið glapræði að láta fyrri ákvarðanir standa. Þetta styrkir Kaupþing til lengri tíma litið, en efasemdir voru uppi um hvort að þessi biti væri of stór fyrir bankann.

Eins og nú árar er skynsamlegt að halda að sér höndum og það er mikilvægt að Kaupþing sendi þau skilaboð nú um stundir. Eftir langa uppsveiflu í viðskiptalífinu hefur bissnessinn verið krappur dans síðustu vikur og sér ekki enn fyrir endann á því.

Það er ekki við því að búast að yfirmenn Kaupþings staðfesti að hætt hafi verið við því bitinn hafi verið of stór, þó það blasi reyndar við eins og staðan var. Það er vonandi að viðskiptalífið rétti úr kútnum á næstunni, það verði hægt að tóna niður þær blikur sem eru á lofti.

mbl.is Hætt við yfirtöku á NIBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kusk fellur á hvítflibba Dr. Phil

Dr. Phil Það eru ótrúlega margir sem horfa á vandamálaþætti Dr. Phil, Opruh og fleiri sjálfskipaðra snillinga sem heilagan sannleik og finnst þau vera boðberar hins rétta og heiðarlega í einu og öllu. Finnst svona þættir ekkert spes og skil ekki aðdráttaraflið sem t.d. Dr. Phil virðist hafa. Hann hefur nú á síðustu dögum sannað eðli sitt sem peningaplokkari með því hvernig hann þröngvaði sér inn á Britney Spears og ætlaði að hala inn fjölmiðlaathygli með því að ætla að hjálpa henni.

Nú eru að koma fram atriði sem sýna fram á vafasama fortíð sjónvarpssálfræðingsins. Hann er víst ekki heilög stjarna á fjölmiðlahimninum, eins og svo margir héldu, heldur mannlegur eins og aðrir og hefur kusk á hvítflibbanum. Það verður sennilega erfitt fyrir hann að halda stjörnu sinni bjartri eftir þetta, reyndar tel ég að margir hafi verið búnir að sjá í gegnum hann fyrir margt löngu. Sögusagnir hafa verið um að áhorfið á þættina hans hafi dalað og Oprah mun hafa fengið nóg þegar að hann ætlaði sér að ná athygli allra með því að "bjarga" Britney Spears úr því öngstræti sem hún hefur komið sér í.

Það hefur oft sannast að sjónvarpsfólk sem virðist hafa allar lausnir, sálfræðingar sjónvarpsins og sérfræðingar, eru ekki heilagir. Eru mannlegir eins og aðrir en byggja sér upp ímynd þess sem getur reddað öllu og fær aðra til að trúa að þeir séu heilagir. Dr. Phil virðist hafa misst eitthvað þessa ímynd niður og spurning hvort að hann verður höggvinn af og missi sjónvarpsplássið sitt.

mbl.is Dr. Phil sagður eiga sér vafasama fortíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður húmor

Jónsi Sagan um að Jónsi eigi að vera samkynhneigður er orðin ótrúlega lífseig og það er ekki hægt að hafa tölu á því hversu oft hann hefur þurft að neita þeim orðrómi. Þetta hefur fylgt honum í mjög mörg ár, löngu áður en hann varð frægur í sjálfu sér. Hressleiki hans og létt lund hefur fengið marga til að hugsa í gegnum árin allavega.

Það er ansi sniðugt hjá honum að snúa þessu upp í grín á árshátíð Icelandair með þessum hætti og snúa á allar kjaftasögurnar með þessu grínatriði í leiðinni. Það er gott að hafa góðan húmor fyrir sjálfum sér. Jónsi hlær kannski manna best að þessu er yfir lýkur. Hef reyndar spáð lengi í hvernig fólk nenni að breiða út þessar sögur þegar að flestir vita að hann er giftur tveggja barna faðir.

En sá hlær best sem síðast hlær - það er sennilega lexían að þessu gríni Jónsa um kjaftasögurnar um sjálfan sig.

mbl.is Jónsi kom út úr skápnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Geir verður Borgarleikhússtjóri

Magnús Geir Það fór eins og ég spáði hér fyrir nokkrum vikum. Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, hefur verið ráðinn eftirmaður Guðjóns Pedersen í Borgarleikhúsinu. Það kemur okkur hér fyrir norðan ekki að óvörum. Allt frá því að fregnaðist að hann hefði sótt um vorum við viss um að hann fengi stöðuna; einfaldlega vegna þess að hann er alveg frábær leikhúsmaður, hefur verið að standa sig vel og kann þá list að gera leikhús bæði skemmtilegt og áhugavert.

Magnús Geir hefur gert hrein kraftaverk með Leikfélag Akureyrar á síðustu árum, rifið það upp af botninum og gert það metnaðarfullt, glæsilegt og öflugt leikhús sem er að gera það allra besta í íslenskri leikhúsmenningu. Hver sýningin á eftir annarri hefur slegið metin í langri sögu leikfélagsins og toppað. Sýningarnar hér hafa verið alveg pottþéttar og sá ferski vindblær sem hefur einkennt þessa velgengni er að mínu mati Magnúsi Geir einum að þakka. Nægir þar að nefna; Fullkomið brúðkaup, Óvita, Ökutíma, Svartan kött, Óliver og Litlu hryllingsbúðina.

Þegar að Magnús Geir kom norður var leikfélagið í tætlum og hreinlega horfði svo að það gæti liðið undir lok og myndi veslast upp. Bærinn þurfti að dæla í það peningum til að halda í það lífinu. Nú skilar leikfélagið hagnaði og hefur meira að segja þurft að hætta að sýna fyrir fullu húsi til að rýma til fyrir næstu sýningu. Þetta hefur verið ótrúleg velgengni og við hér fyrir norðan höfum getað verið stolt af þessari menningarstarfsemi. Þetta hefur verið rós í hnappagat Akureyrar og hingað höfum við fengið gesti sem vilja kynna sér leikhúsmenninguna.

Vil óska Magnúsi Geir innilega til hamingju með stöðuna, hann getur verið stoltur af sínum verkum hér. Það er eftirsjá af honum, en auðvitað er skiljanlegt að hann hafi metnað og áhuga á að gera eitthvað ferskt og gott með LR. Hann hefur byggt upp LA til vegs og virðingar að nýju og þeim fyrir sunnan datt auðvitað ekki í huga að hafna kröftum hans í það starf sem tekur við eftir að Guðjón hættir. Hann er einfaldlega spútnikk-maður - kann að stýra leikhúsinu með metnað og kraft að leiðarljósi.


mbl.is Magnús Geir ráðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heath Ledger látinn

Heath Ledger Ástralski leikarinn Heath Ledger er látinn, 28 ára að aldri, í New York. Varð alveg steinhissa þegar að ég sá þessa frétt fyrst á erlendri fréttavefsíðu í "Breaking News" dálki fyrir um klukkustund. Það eru alltaf tíðindi þegar að ungt og efnilegt fólk deyr í blóma lífsins, leikari með hæfileika og var traustur í sínum verkum. Ekki eru nema nokkrir dagar síðan að Brad Renfro dó, en hann var aðeins örfáum árum yngri en Heath.

Ledger verður sennilega fyrst og fremst minnst sem leikarans sem túlkaði samkynhneigða kúrekann í sálarkreppunni í Brokeback Mountain árið 2005, en rullan tryggði honum næstum því óskarsverðlaunin fyrir tveim árum, hann var grátlega nærri því að fá verðlaunin. Það var eftirminnilegur stjörnuleikur, eitthvað svo allt öðruvísi en hann hafði gert fram að því. Hann reis líka á hærra plan sem leikari með þeirri stjörnutúlkun og komst í hóp þeirra bestu. Var sennilega endanlega tekinn í hóp helstu leikaranna í Hollywood með því.

Akademían fór ekki alla leið í að viðurkenna myndina, treysti sér ekki til að staðfesta styrkleika myndarinnar þegar á hólminn kom, var íhaldssöm þá eins og venjulega reyndar. Brokeback Mountain sat því eftir án aðalverðlaunanna, sem margir spáðu henni, og leiktúlkanir Ledger, og Jake Gyllenhaal voru ekki verðlaunaðar. Gyllenhaal var ekki síðri, var alveg ótrúlega sannur og traustur í sinni túlkun. Hinsvegar fékk Ang Lee verðlaunin fyrir leikstjórn, sem hann átti skilið, enda hafði akademían sniðgengið hann fyrir Crouching Tiger, Hidden Dragon - hið eftirminnilega myndræna sjónarspil. 

Ledger varð þó fyrst þekktur fyrir leik sinn í ástralska þættinum Roar, og það var eflaust það fyrsta með honum sem ég sá, en þeir þættir voru sýndir hér upp á klakanum á miðjum tíunda áratugnum, og voru mjög góðir. Ætla að pára smágrein um Ledger þegar að frá líður og fara aðeins yfir feril hans.

Vandræðalegt klúður við greftrun skákmeistara

Gröf Bobby Fischer Það er ekki hægt að segja annað en að greftrun skákmeistarans Bobby Fischer hafi verið svolítið vandræðalega fljótvirknisleg og klaufalega að verki staðið í því að sóknarpresturinn í Hraungerðishreppi var ekki hafður með í ráðum. Það hlýtur að vera mjög sérstök tilfinning fyrir prestinn að hafa komið að nýtekinni gröf einkum þegar að viðkomandi er heimsþekktur maður og ekkert samráð skuli hafa farið fram um athöfnina.

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta endatafl skákmeistarans hafi komið flestum á óvart. Varð mjög hissa að heyra af þessu, enda var það síðasta sem ég hafði heyrt um málið viðtal við Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, forseta Skáksambandsins og varaþingmann, sem sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að það þyrfti að róa umræðuna og bíða eftir því hvað myndi gerast, í kjölfar umræðunnar um að Fischer ætti að hvíla á Þingvöllum. Þegar að orðin féllu hafði Fischer verið jarðsettur fyrir austan fjall og allt showið búið. Merkileg atburðarás.

Fischer tókst meira að segja að koma öllum á óvart úr gröf sinni. Þetta var stórmerkileg flétta. Taldi að þegar að lát skákmeistarans væri tilkynnt að þar með hefði hann leikið sitt endatafl og ekkert meira eftir sem gæti orðið umdeilt mál í kringum hann. Það reyndist rangt. Þeir hljóta þó að hafa orðið svekktir þeir sem voru í kringum skákmeistarann og kynntu sig sérstaklega í nafni hans og fóru í fjölmiðla með þeim formerkjum að skipuleggja útför hans en fá svo ekki að leika neitt hlutverk í lokadramanu, endatafli skákmeistarans og kveðjuathöfn hans. Merkileg flétta sem þeir höfðu ekkert með að segja eftir allt saman.

Reyndar er það merkilegast af öllu að þeir sem skipuðu sjálfa sig sem skipuleggjendur jarðarfarar Bobby Fischer vissi ekkert um það hvar hann vildi hvíla en fóru þess í stað að diskútera með þá ídiótísku hugmynd að jarða hann á Þingvöllum. Ekki það að það hefði verið skemmilega óraunverulegt að jarða Fischer á sama stað og Einar Ben og Jónas - enda allt menn sem fóru eigin leiðir í einu og öllu og voru eldhugar - jarða þá saman á einum stað og allt undir merki ríkisins.

En þetta var stórmerkilegur fjölmiðlaviðburður eftir allt saman, þó vegna þess að það var ekki boðaður einn einasti fjölmiðill og það varð ekkert vandræðalegt show í kringum það, eins og þegar að Fischer kom til landsins fyrir þrem árum í boði stórfyrirtækis og var allt að því notaður sem eign þeirra. Guði sé lof fyrir að við sluppum við fjölmiðlafíaskó af því tagi með því að kallgreyið fékk útför í kyrrþey.

mbl.is Engir eftirmálar af útför Fischers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endatafl Bobby Fischer í sunnlenskri sveitagröf

Bobby Fischer Í sannleika sagt veit ég varla hvort ég varð meira undrandi við andlátsfregn skákmeistarans Bobby Fischer eða þá fregn að hann hefði verið jarðsettur í kyrrþey í sunnlenskri sveitagröf í Flóanum. Fischer var óútreiknanlegur á litríkri ævi sinni og lék margar lífsins skákir án þess að hika og þorði að vera öðruvísi og erfitt að spá í næstu leiki hans við taflborðið eða í lífinu almennt.

Endatafl hans með því að velja legstað sinn við Laugardælukirkjugarði tókst allavega að koma flestum að óvörum, meira að segja mörgum velvildarmönnum hans í skákgeiranum sem voru ekki einu sinni viðstaddir í fámennri athöfn. Fannst það líklegra að skákmeistarinn vildi útför í kyrrþey, og sennilega varla hvíla á höfuðborgarsvæðinu, heldur á afviknum stað úti í sveit. Og það fór þannig, en það hafði enginn getað séð þetta fyrir þrátt fyrir allt í opinberri umræðu, þegar að allir aðrir kostir voru í fjölmiðlaumræðunni, þó vissulega hafi verið talað um Þingvelli, sem voru þó aldrei raunhæfur kostur, enda blasti við öllum að hann myndi ekki hvíla í þjóðargrafreitnum.

Þetta hefur verið stór fréttadagur. Vissi varla hvort ég ætti að skrifa um fyrst; meirihlutann eða greftrun Fischers í sveitakirkjugarði á Suðurlandi. Þar sem að ég hafði skrifað í gegnum daginn um fall vinstrimeirihlutans vildi ég frekar geyma Fischer til kvöldsins, enda kom það mér satt best að segja meira að óvörum að þetta endatafl skákmeistarans yrði með þessum hætti. Stórmerkileg endalok á litríkri ævi - meira að segja í dauðanum tókst honum að koma okkur að óvörum og komast í fréttirnar fyrir það.

Endalok af merkilegum skala. En það er merkileg ævi að baki, maður sem gat stuðað og fangað athygli allt að því í sömu andránni. Fannst absúrd að hann myndi hvíla á Þingvöllum, enda taldi ég hann sjálfan ekki vilja þann sess. Enda fór það svo að hann valdi að vera fjarri allri upphefð og valdi kyrrlátan og fagran stað á Suðurlandi sem hinstu hvílu sína. Þessi umdeildi skákmeistari kveður allavega með stæl, ekki hægt að segja annað.

mbl.is Fischer jarðsettur í kyrrþey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Bobby Fischer jarðaður á Þingvöllum?

Bobby Fischer Nú hefur stuðningsmannahópur Bobby Fischer tjáð þá skoðun sína að jarðsetja eigi skákmeistarann í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, þar sem Einar Benediktsson og Jónas Hallgrímsson hvíla. Eflaust verður lífleg umræða um þá skoðun þeirra. Þó að margir hafi virt framlag Fischers til skáklistarinnar var hann mjög umdeildur og eflaust deildar meiningar um hvort að Fischer eigi að hvíla á Þingvöllum.

Væntanlega mun unnusta skákmeistarans ráða því hvað verður um jarðneskar leifar hans og hvort hann verði jarðsettur hér. Ég vonast til að hann muni hvíla hér. Hér dvaldi hann síðustu þrjú ár ævi sinnar, hér fékk hann að deyja sem frjáls maður, eftir að við björguðum honum frá þeim örlögum að deyja sem fangi í fjarlægu landi. Þó að það hafi verið umdeild ákvörðun tel ég að leiðarlokum að það hafi það verið rétt skref. Það hefði verið vont að láta hann grotna í fangelsi, en það hlutskipti blasti við Fischer er Davíð Oddsson lagði honum lið.

Það hefur verið mikil umfjöllun um andlát skákmeistarans í öllum fjölmiðlum á alþjóðavettvangi í gær og í dag. Það verður ekki um það deilt að Fischer var einn þeirra samferðarmanna okkar sem vakti mesta athygli, hvað svo sem okkur fannst um skoðanir hans. Ég var ekki einn þeirra sem deildi hugsjónum hans og skoðunum, en mér fannst mikið til listagáfu hans í skákinni koma. Það er það sem hans verður minnst fyrir að leiðarlokum og það er framlag sem ber að virða. Margir misskildustu snillingar heimsins voru snartjúllaðir en nutu virðingar þrátt fyrir allt, einkum á kveðjustundu.

Þó að Bobby hafi verið gloppóttur snillingur hafði hann snilligáfu - hann var ein stjarnan í Íslandssögunni. Þó að hann hafi aðeins í þrjú ár verið íslenskur ríkisborgari; verið í raun með sama bakgrunn sem Íslendingur og þriggja ára barn á leikskóla, hafði hann markað söguna hér fyrr og nú. Sigur hans í einvígi aldarinnar í skák árið 1972 færði honum merkan sess og fyrir það verður hans minnst. Vonandi mun hann hvíla í íslenskri mold, hér vann hann sinn glæstasta sigur og hér fékk hann að lifa frjáls maður á ævikvöldi sínu.

mbl.is Fischer hvíli í íslenskri mold
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svandís Svavarsdóttir slasast - lélegur aðbúnaður

Svandís Svavarsdóttir Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi, slasaðist í dag er sæti hennar losnaði í flugvél á milli Reykjavíkur og Egilsstaða, í aðflugi til Egilsstaða. Fékk hún vont höfuðhögg og var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur, en heilsast vel miðað við allt, ef marka má heimildir.

----


Mér finnst það nú heldur lélegur aðbúnaður fyrir farþega hjá Flugfélagi Íslands þegar að sæti farþeganna losnar í flugferðinni með þessum hætti. Nógu dýrt er fargjaldið í innanlandsfluginu þó að farþegar eigi það ekki á hættu að lenda í svona aðstæðum í ferðinni eða slasast vegna þess, allt vegna þess að búið er illa að fólki. Það verður allavega áhugavert að sjá hvað kemur út úr rannsókn á þessu atviki, enda blasir við öllum að það er fjarri því eðlilegt að svona gerist.

Þegar að við kaupum okkur flugmiða erum við flest að velja öruggan ferðamáta og vonumst væntanlega eftir því að búið sé vel að okkur sem farþegum, öryggi okkar sé tryggt eftir fremsta megni - allavega að sætin sem við sitjum í geti ekki losnað. Þegar að það gerist er eðlilegt að kanna öryggið og hvað hafi farið úrskeiðis í eftirliti.

mbl.is Sæti losnaði í flugvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt

Kaffi Krókur Það var mjög dapurlegt að vakna í morgun við þær fregnir að Kaffi Krókur á Sauðárkróki hefði brunnið í nótt. Þetta er vægast sagt sögufrægt og stórmerkilegt hús og alveg grátlegt að það skuli hafa orðið eldi að bráð. Það er mikil saga sem fuðrar upp á skömmum tíma. Hef mikla samúð með eigendum hússins, það hlýtur að vera alveg sorglegt að sjá það brenna sem byggt hefur verið upp af metnaði og krafti.

Það var fastur liður í ferðum á Krókinn að fara á Kaffi Krók og fá sér að borða, enda mjög flottur veitingastaður og maturinn jafnan mjög góður. Fór þar síðast fyrir aðeins nokkrum vikum og fékk mér ljúffengan BBQ-borgara með alles. Frábær staður og sá besti að mínu mati á Króknum. En fleiri verða ferðirnar ekki á Kaffi Krók í bráð, en það er vonandi að eigendur staðarins láti þessa hörmung ekki stöðva sig.

Það er alltaf sorglegt að heyra af eldsvoðum, en þegar að hús með merka sögu fuðra upp með þessum hætti verður það enn dapurlegra og vonandi verður það endurbyggt í einhverri mynd.

mbl.is Stórbruni á Sauðárkróki í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband