Færsluflokkur: Dægurmál
15.12.2007 | 11:58
Uppboð Einars Arnar

Í upphafi benti Einar Örn á ástæður þess að hann ákvað að halda uppboðið. Mér hefur fundist þetta vel gert hjá honum. Hann hefur bæði minnt á gott málefni og leitt sjálfur mikið starf við að tala fyrir góðgerðarmálum. Það er alltaf virðingarvert að aðrir gefi sína hluti til að geta hlúð að öðrum.
Bendi því lesendum á að skoða uppboðið hans Einars Arnar. Þeir sem vilja ekkert kaupa en vilja gefa beint til Oxfam, þá er hægt að leggja pening inná reikning; 0323-13-701310 og kennitalan er170877-3659.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2007 | 01:01
Baggalútur toppar sig enn eina ferðina

Baggalútsmenn hafa tekið mörg heimsþekkt lög á síðustu árum og heillað landsmenn með, hengt á þau jólakúlur og englahár, svo að allir syngja með; allir sem eru yfir höfuð í einhverju jólastuði. Hver heldur annars orðið jól án þess að söngla Kósíheit par exelans? Það er eitt þessara laga, er eins og flestir vita gamla góða Islands in the Stream sem Bee Gees-félagar sömdu fyrir Dolly Parton og Kenny Rogers á níunda áratugnum.
Sá um daginn að Egill Helgason var mjög hneykslaður yfir því á vef sínum að Baggalútur væri að taka þessi gömlu góðu lög og hengja á þau jólakúlur, nefndi þar sérstaklega nýjasta lagið. Fannst þetta hallærislegt. Við Egill erum sannarlega ósammála í þessum efnum. Finnst þetta flott hjá Baggalút og ég held að það sé þorri fólks sem hefur haft gaman af þessari hefð þeirra með jólalögin.
Jól á Kanarí (áður Kokomo með Beach Boys úr kvikmyndinni Cocktail með Tom Cruise) er að sjálfsögðu í spilaranum. Hvað annað?
![]() |
Baggalútur heldur jól á Kanarí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.12.2007 | 00:14
Stormasamur dagur fyrir sunnan

Þeir hafa greinilega staðið sig mjög vel í Skógarhlíð. Þar eru fagmenn í öllum verkum og þeir eiga hrós skilið fyrir gott verk. Það er eðlilegt að hræðsla grípi um sig í svona veðri og gott að fólk leiti til fagmanna hjá Almannavörnum þegar að svona alvarlegt veður gengur yfir. Reyndar sést ekki betur í kortunum en að annað óveður sé á leiðinni, væntanlega þó ekki eins öflugt og það sem gekk yfir í dag.
Þetta er svolítið sérstakt veður í desember. Við eigum mun frekar að venjast því að vera að moka snjó á þessum árstíma og ylja okkur við heitt kakó í desemberfrostinu. Það er allt annað nú. Hér er að verða snjólaust og ekki hægt annað en að fara að efast um að jólin verði hvít í ár.
Hvítu jólin eru ómissandi þáttur jólanna að mínu mati en sennilega eru þau fokin út í veður og vind þetta árið. En hvað með það, jólin koma engu að síður. Allavega ætti enginn að þurfa að vera fúll hér með öll jólalögin í spilaranum í botni.
![]() |
Aðgerðum lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2007 | 18:43
Mikið um íkveikjur í Vestmannaeyjum
Rannsóknin í Eyjum er mjög umfangsmikil. Margir hafa verið yfirheyrðir og hið minnsta fjórir verið í haldi í allan dag og einn verið formlega handtekinn núna. Þetta var æfingasvæði fyrir hljómsveitir og áttu þeir sem voru með aðstöðu þar brátt að rýma hana. Það er vonandi að það muni ganga vel við rannsóknina og þeir sem stóðu að íkveikjunni svari til saka.
Varla eru tengsl á milli allra þessara mála í Vestmannaeyjum. Þetta vekur hinsvegar mikla athygli almennings í ekki stærra samfélagi en þetta.
![]() |
Maður handtekinn vegna bruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2007 | 14:56
Sigurjón M. Egilsson hættur á DV

DV er ekki lengur í lestrarmælingum en þar verða samt áfram tveir ritstjórar; feðgarnir Jón Trausti og Reynir. Það verður áhugavert að sjá hvort að DV breytist við brotthvarf Sigurjóns. Mér finnst það ansi merkilegt að það skuli þurfa tvo ritstjóra á svo lítið lesið dagblað. Það hefur ekkert gengið að reisa blaðið aftur til þeirrar vegs og virðingar sem einkenndi það er þeir fóstbræður Jónas og Ellert þingmaður ritstýrðu því saman.
Það hefur vakið athygli hvað sme hefur komið oft af fjöllum vegna mála innan þessa fyrirtækis; fyrst er Reynir var ráðinn sem ritstjóri DV og síðar sem yfirmaður allra fjölmiðlanna undir þeim hatti. Það var mikil flugeldasýning í fjölmiðlaheimum þegar að sme var ráðinn yfir á DV og til að stýra risi þess úr duftinu. Eitthvað hefur minna gengið í því en eflaust var stefnt að. Skútan er altént of lítil til að rúma þessa menn báða.
![]() |
Sigurjón til Mannlífs og Jón Reynir til DV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2007 | 12:41
Óveður um allt land - hvítu jólin í stórhættu
Þetta óveður sem hefur geisað aðallega á suðvesturhorninu hefur að mestu farið framhjá okkur hér, en það er sennilega að breytast enda er farið að hvessa hér. Það er fátt ömurlegra en leiðindaveður og besta ráðið til þeirra sem komast hvorki lönd né strönd vegna veðursins að hafa það rólegt og gott, slappa af og hugsa um eitthvað allt annað en rokið, þó kannski erfitt sé. Best er sannarlega fyrir börnin að vera heima. Væntanlega kvarta þau ekki yfir að vera heima, þetta var með því betra í minni æskuminningu allavega.
Það eru bara tíu dagar til jóla. Held að það sé ekki óvarlegt að segja að hvítu jólin okkar séu í stórhættu. Væntanlega er útséð með þau á sunnanverðu landinu en við höldum enn í vonina hér þó snjórinn hafi minnkað talsvert. Ætla rétt að vona að við höfum allavega smá örðu af snjó um jólin. Á meðan skulum við ylja okkur við Bing Crosby syngja um hvítu jólin.
![]() |
Foreldrar beðnir um að halda börnum heima |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2007 | 00:16
Soprano-fjölskyldan kveður

Endalokin komu mér svosem ekki að óvörum. Hafði lesið allt um þau strax daginn eftir að lokaþátturinn var sýndur í Bandaríkjunum. Hafði ætlað mér að bíða eftir að þátturinn kæmi á klakann en náði ekki að standa við það. Þetta eru auðvitað frekar mögnuð endalok. Einkum vegna þess hvað þau geta verið tvíræð í sjálfu sér. Áhorfandinn situr eftir með eintómar spurningar og fléttuna á bakvið kveðjustundina verða þeir að ráða sjálfir, þó að ég tel að við blasi nokkuð vel hver endalokin eru.
Það var auðvitað pjúra snilld að byggja atriðið upp með þessum hætti á veitingastað, þar sem hægt er að fókusera á margar persónur og snöggar klippingar milli karaktera og líka komu Meadow sem svolítið beinir fókusnum frá því sem er greinilega að gerast. Svo þegar að Meadow kemur inn þagnar lagið og við sitjum aðeins eftir með svartan skjá. Þegar að lokaþátturinn var frumsýndur vestanhafs héldu flestir að það hefði orðið einhver bilun og ætluðu eflaust að fara að ýta á fjarstýringuna þegar að skjátextinn kom. Þetta er vissulega svolítið kaldhæðnislegur endir en samt mjög brilljant í sjálfu sér.
Það hefur mikið verið rætt um valið á lokalaginu á veitingastaðnum, sem Tony velur úr glymskrattanum áður en fjölskyldan tekur að mæta á svæðið. Don´t Stop Believin´ með Journey er auðvitað frábært lag og það hefur víða öðlast sess - verður nú endanlega ódauðlegt sem lokalagið í Soprano-þáttunum. Margir hafa velt því fyrir sér merkingunni á bakvið því af hverju nákvæmlega þetta lag markaði endalok þessarar sögu. Það kannski segir líka sitt að öllu lýkur með orðunum Don´t Stop... í laginu.
Það má kannski deila um það hvort að endirinn er hafður opnari en ella til að reyna að eygja von á einhverju framhaldi. Erfitt um að segja. Finnst samt blasa við að Tony var stútað á veitingastaðnum. Það er langeðlilegasta merking endalokanna. Finnst samt kalt og öflugt hjá þeim að sýna ekki morðið á Tony Soprano, sem hefði getað orðið magnaðasta móment í sögu sjónvarpsþáttaraðanna í Bandaríkjunum. Hefði verið mikil upplifun að sjá kappann drepinn.
Þættirnir voru tær snilld. James Gandolfini varð stórt númer í bransanum með hlutverki Tony Soprano og Edie Falco var yndisleg sem Carmela. Gandolfini hefur átt erfitt með að komast út úr skugga Sopranos. Annars voru flestallir leikarar þáttanna frábærir. Þar stendur Nancy Marchand upp úr sem Livia, mamma Tonys, auk t.d. Michael Imperioli sem Chris, Dominic Chianese sem Junior frændi og auðvitað Joe Pantoliano sem Ralphie.
En hér er lokaatriðið í þáttunum um Soprano-fjölskylduna. Umdeilt og hressandi atriði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.12.2007 | 14:41
Var símamálið ósköp venjulegt eftir allt saman?

Kannski hefði verið betra fyrir Vífil að leika forsetaritarann Örnólf Thorsson og fá þannig samband. Hefði verið prófessíonlegra. Fannst þetta mál samt allt mjög nett og skondið. Held að flestir hafi getað hlegið dátt að því. Finnst þessi lokahnykkur segja samt talsvert um af hverju Vífill náði ekki markmiði sínu; að tala við Bush. Ef þetta er rétt með almennu símalínuna verður lokapunkturinn enn skýrari. Væntanlega hefði Bush þegið íslenskt heimaboð og alles ef að þetta hefði verið gert án aðkomu Ólafs Ragnars sem símahringjarans í upphafi.
Enda held ég að Hvíta húsið sé ekki vant því að sjálfur Sarkozy, Brown eða hvað þeir annars heita nú allir þessir stórséffírar heimsins hringi sjálfir án aðstoðs starfsliðs í Hvíta húsið. Nema þá að þeir hafi kannski haldið um stund að Ólafur Ragnar sæti einn á forsetaskrifstofunni íslensku.
![]() |
Hvíta húsið: Vífill hringdi ekki í leyninúmer |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.12.2007 | 12:19
Tilnefningar til Golden Globe kynntar í dag

Fyrir ári voru allir nokkuð vissir um að Dame Helen Mirren myndi hreppa gullhnöttinn og Óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu II í The Queen og sama má segja um Forest Whitaker í hlutverki Idi Amin í The Last King of Scotland. Þá voru The Departed, Babel, Dreamgirls, The Queen og Little Miss Sunshine líka vænleg í kvikmyndaflokkunum. Það er merkilega lítið af stórum nöfnum sem drottna yfir núna og svo virðist vera sem að þetta sé galopið að þessu sinni. Það geti í raun allt gerst.
Heyri þó marga tala um að Marion Cotillard sé líkleg til að vera sigursæl fyrir túlkun sína á Edith Piaf og eða Julie Christie í hlutverk Alzheimer-sjúklingsins í Away From Her. George Clooney er mikið nefndur sem líklegur fyrir túlkun sína á Michael Clayton, Tommy Lee Jones, líka, bæði fyrir No Country og In the Valley of Elah. Cate Blanchett er líka mikið í sviðsljósinu fyrir túlkun sína á rokkgoðinu Bob Dylan í I'm Not There og Daniel Day-Lewis í There Will Be Blood.
Það er þó vel ljóst að Steven Spielberg er einn öruggur um gullhnött þetta árið, en hann fær heiðursverðlaun Cecil B. DeMille. Það er sannarlega verðskuldað, en Spielberg er eins og allir vita einn risanna í kvikmyndagerð síðustu áratuga og löngu kominn tími til að hann fái þessi verðlaun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 09:14
Ike Turner farinn yfir móðuna miklu

Hann og Tina voru gullið par í bransanum, en auðvitað var það meira og minna einhver hryggðarmynd bakvið tjöldin. Þessu var öllu svo innilega vel lýst í sjálfsævisögu Tinu, What´s Love Got to Do With It?, sem var síðar kvikmynduð með Angelu Bassett í hlutverki rokkgyðjunnar árið 1993. Laurence Fishburne átti þar leiftrandi takta, og væntanlega bestu leiktúlkun ferilsins, við að leika hinn skapmikla og dómínerandi eiginmann sem var eins og nístandi elding.
Ike neitaði alltaf dramatíseruðum lýsingum Tinu á hjónabandi þeirra. Hann veitti þó fá viðtöl til að hjóla í hana í seinni tíð og var mun minna áberandi eftir að gulltíma ferilsins lauk. Hvað svo sem Ike reyndi að segjast vera stórgoð í tónlistinni náði hann aldrei að komast undan skugga Tinu, sem hann tók undir verndarvæng sinn árið 1957 þegar að hún var ósköp venjuleg átján ára sveitastelpa frá Tennessee að nafni Anna Mae Bullock.
Hvet annars alla til að rifja upp kynnin af kvikmyndinni What´s Love Got to Do With It, uppgjöri Tinu við þennan skapmikla tónlistarsnilling. Þó að það sé sýn fyrrum eiginkonu á stormasöm ár þeirra er það ein besta heimildin um líf þeirra saman.
![]() |
Ike Turner látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)