Færsluflokkur: Dægurmál
12.12.2007 | 20:15
Verðskuldaður heiður fyrir Freyju

Hún hefur þrátt fyrir fötlun sína tekið þátt í hinu daglega lífi og lætur það ekki stöðva sig í því að reyna að nýta tækifærin sem lífið hefur upp á að bjóða. Þetta val verður væntanlega góð hvatning til fatlaðra um að erfiðleikarnir sem þau þurfa að lifa með alla tíð þurfi ekki að ráða lífi viðkomandi.
Ætla að lesa bráðlega bók þeirra bloggvinkvenna minna, Freyju og Ölmu Guðmundsdóttur, Postulín. Hún er klárlega á listanum mínum fyrir þessi jól - nú er kominn tími til að ná sér í eintak og fara að lesa.
Óska Freyju innilega til hamingju með þennan heiður, sem hún svo mjög verðskuldar.
![]() |
Freyja er kona ársins hjá Nýju lífi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.12.2007 | 11:26
Ómannúðleg meðferð í Bandaríkjunum
Mikið hefur verið gert með að Bandaríkin séu frjáls og heiðarleg. Það er rétt að efast um það í kjölfarið á þessu. Þetta opnar okkur sýn í áttir sem hvorki teljast geðslegar eða eftirsóknarverðar. Finnst þetta eiginlega of alvarlegt til að meta það sem einhverja tilviljun eða bara dæmi um óheppni. Það vill enginn lenda í svona, hafandi ekkert til saka unnið sem svo alvarlegt megi teljast.
![]() |
Fangelsuð í Bandaríkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.12.2007 | 00:09
Kennari dæmdur fyrir samband við nemanda
Það vekur athygli að grunnskólakennarinn sem dæmdur var fyrir ástarsamband sitt við nemanda fékk skilorðsbundinn dóm á forsendum þess að gagnkvæmt ástarsamband hafi verið til staðar. Ég hélt að það væru engar málsbætur á því að kennari svæfi hjá nemanda sínum, einkum og sér í lagi þar sem honum er treyst fyrir að sjá um kennslu og um leið eiginlega uppeldi hennar að vissu marki. Hef skrifað aðeins um svona mál áður hérna, þá dramatísk mál frá Bandaríkjunum, svo að flestir vita svosem skoðun mína á málinu.
Vissulega fellur dómur í málinu og refsing kemur fram. Hefði samt fundist eðlilegt að hafa ekki alla refsinguna skilorðsbundna. Það hlýtur í sjálfu sér að teljast alvarlegt mál að kennari hefji samband við nemanda sinn, gildir einu hvort gagnkvæm ást sé til staðar eða hrifning. Þegar að svona kemur til sögunnar og nemandinn er ekki sjálfráða hlýtur að teljast eðlilegt að litið sé svo á að kennarinn sé að misnota stöðu sína sem kennari til að hefja samband af því tagi.
Þetta mál vekur margar spurningar um samskipti kennara og nemenda. Það eru ekki mörg dæmi þess síðustu ár að kennari sé dæmdur fyrir samband við nemanda sinn. Hef vissulega heyrt dæmi um það að nemendur í framhaldsskóla hafi elskað kennara sinn og jafnvel hafi verið samband þeirra á milli. Finnst stigsmunur á því hvort svona gerist í framhaldsskóla eða grunnskóla, þó að sambönd kennara og nemenda verði alltaf metið alvarlegt mál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.12.2007 | 22:01
Guðmundur hættir - á að gengisfella dv.is?

Brotthvarf Guðmundar vekur spurningar um það hvað verði um dv.is. Hann hefur verið að standa sig vel með vefinn. Margt gott verið þar og ég hef litið þar nokkrum sinnum í gegnum daginn. Oft margir skemmtilegir punktar þar í gangi. En hvað gerist nú með þennan vef. Á að gengisfella hann í kjölfarið? Það hefur mikið verið pískrað um hvaða áhrif innkoma Reynis Traustasonar sem yfirmanns yfir alla fjölmiðla þarna þýði. Kjaftasögurnar segja að þar hafi komið til átaka um stefnumótun.
Miklar mannabreytingar hafa einkennt dv.is upp á síðkastið. Vonandi mun þessi vefur ekki deyja sem séreining og verða aðeins auglýsingavefur fyrir blað; svona eins og dv.is var áður.
![]() |
Hættur sem ritstjóri dv.is |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.12.2007 | 16:28
Þrítugsafmæli
Gerði það reyndar þegar að ég var tvítugur að hafa almennilegt afmæli með miklum tertum og öllum pakkanum. Fann ekki þörf hjá mér til að gera það núna, einhverra hluta vegna. Finnst ekkert gaman af svona veislum sjálfur og ég á reyndar afmæli líka á þeim tíma þegar að flestir hafa um nóg annað að hugsa. En samt finnst mér mikilvægt að hafa veislu fyrir þá sem hafa staðið mér næst og ætla að gera það. Þó að það verði ekki á neinum stórskala.
Afmæli í desember, að ég tali nú ekki um tveim dögum fyrir jól, er ekki sérstaklega skemmtilegt, nég heppilegt í sjálfu sér. Finnst þetta þó þolanlegra nú en þegar að ég var yngri. Þá fannst mér þessi tímasetning hrein pína. Þeir skilja það sem upplifa svona sjálfir. Þekki reyndar nokkra sem eiga afmæli á aðfangadag og jóladag. Ekki skemmtilegt í sjálfu sér að lenda á þessum dögum.
Sumir vinir minna hafa mikinn pirring yfir því að fara á fertugsaldurinn. Finnst það ekkert leiðinlegt. Það er samt svolítið sérstök tilhugsun. Þetta er enn þolanlegra eftir að ég hætti í svokölluðu pólitísku starfi og ungliðahreyfingunni, sem er reyndar furðulegasti monkey business sem ég hef staðið í.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.12.2007 | 23:39
Hálfvitagangur á Moggablogginu
Veit ekki hvort ég er einstakur í bloggsamfélagi heimsins eða landsins ef út í það er farið. Er bara einn mjög margra sem skrifa hér og hef bloggað í yfir fimm ár um það sem er að gerast í samfélaginu. Bloggið mitt hefur alla tíð verið samfélagsblogg og það hefur margoft komið fram að ég er áhugamaður um fréttir, stjórnmál og allt mögulegt sem er að gerast í samfélaginu. Morgunblaðið býður upp á fréttablogg og ég veit ekki betur en að ég sé einn fjöldamargra sem nota sér það og tjái mig með mínum hætti þar.
Hef ekkert verið að amast mikið síðustu árin yfir skítkasti og ómerkilegheitum í minn garð. Það dæmir sig held ég alveg sjálft. Það virðist vera að ráðist sé að mér vegna þess að ég held úti bloggi sem er vinsælt og talsvert mikið lesið. Það er alltaf nóg af fólki svosem sem er til sem er öfundsjúkt í garð annarra. Þetta mál í kvöld ber öll merki þess að ráðist sé að mér sem persónu og reynt að gera lítið úr þessum vef og vinsældum hans. Er í sjálfu sér alveg sama. Fannst þetta þó svolítið leiðinlegt mál, enda hef ég jafnan reynt að vera málefnalegur og forðast að ráðast mjög harkalega að öðru fólki.
Kannski er það stóra ástæða þessa alls að ég er málefnalegur og er ekki mikið í skítkasti. Veit það ekki og er í sjálfu sér alveg sama. Er samt svolítið hugsi yfir þessum leiðindum og því að virkilega sé til svo miklir hálfvitar í samfélaginu að nenna að kópera útlit þessa bloggs og reyna að telja öðrum trú um að þar skrifi ég. Held samt að allt hugsandi fólk hafi séð í gegnum þetta, enda var þetta svo afspyrnuilla gert og barnalega.
Jenný Anna Baldursdóttir spyr stórt í kvöld - hvort að mér sárni svona árásir að mér og persónu minni. Í sjálfu sér held ég að það sé mannlegt að sárna að til sé fólk sem hatar mann svo mjög að koma með vef af þessu tagi og eða vera svo öfundsjúkt í garð manns að nenna að standa í svona rugli. Það er mér svolítið heilagt þegar að aðrir nota nafn mitt, netfang og ljósmynd og reyna að telja öðrum trú um að ég standi þar að verki.
Að öðru leyti er mér sama. Vona samt að þetta sé ekki kristalsdæmi þess að svo barnalegur hálfvitagangur og árásir að vinsælum bloggurum sé að verða áberandi í þessu annars ágæta bloggsamfélagi.
Dægurmál | Breytt 11.12.2007 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
9.12.2007 | 15:54
Leiftrandi einvígi hinna ósigruðu í Las Vegas
Það var stórskemmtilegt að fylgjast með hnefaleikaeinvígi hinna ósigruðu Floyd Mayweather og Ricky Hatton í Las Vegas í nótt. Því lauk er Mayweather rotaði Hatton kaldan í tíundu lotu og batt enda á litríka sigurgöngu hans í bransanum. Held að það megi segja að sigur Mayweather hafi verið verðskuldaður. Annars mátti skilja á honum eftir bardagann að þetta væri jafnvel hans síðasti á ferlinum. Það eru vissulega stórtíðindi ef hann hættir, en hann hættir allavega á toppnum fari svo.
Annars var greinileg gremja á bresku fréttastöðvunum í morgun með tap Hattons en Bretar töldu sinn mann virkilega eiga séns og höfðu mikið fjallað um möguleika hans. Greinileg sárindi eru sérstaklega í heimahéraði Hattons sem eðlilegt er. Annars spilaði Hatton sig mjög stóran í aðdraganda þessa bardaga og var heldur betur ögrandi við Mayweather á blaðamannafundi á föstudaginn og litlu munaði að bardaginn myndi hefjast þá þegar. Minnti hann svolítið á hinn skrautlega Prince Naseem Hamed á sínum tíma.
Hef annars alltaf haft nokkuð gaman af hnefaleikabardögum. Það er alltaf skemmtilegt kikk út úr því að horfa á. Þeir Bubbi og Ómar hafa haldið vel utan um boxið í sjónvarpslýsingu sinni. Þeir hafa lifað sig inn í keppnina með öllu sem til þarf og það hefur jafnan verið sérstaklega gaman bara eitt og sér að fylgjast með töktum þeirra við að lýsa. Það er viss list að gera eina íþrótt enn skemmtilegri bara með vandaðri umgjörð en þeir Bubbi og Ómar hafa gert boxið enn skemmtilegra sjónvarpsefni fyrir okkur hérna heima.
Það er líka alltaf áhugavert að horfa á myndir tengdar boxinu. Raging Bull er ein besta mynd sem nokkru hinni hefur verið gerð. Besta sagan úr boxbransanum á hvíta tjaldinu alveg hiklaust. Það var auðvitað með hreinum ólíkindum að meistari Scorsese fékk ekki óskarinn fyrir þá eðalræmu, bæði fyrir leikstjórn og kvikmynd. Robert De Niro var aldrei betri á sínum leikferli en í hlutverki LaMotta, þar sem öll svipbrigði sjást og skapsveiflurnar verða hrein unun á tilfinningaskalanum. Þetta er mynd sem allir sannir kvikmyndaunnendur verða að sjá.
Rocky-myndirnar eru tær snilld. Sú fyrsta gerði Sylvester Stallone að heimsfrægri stórstjörnu og hlaut óskarinn á sínum tíma, fram yfir eðalræmur á borð við All the President´s Men, Taxi Driver og Network. Glæsilegur árangur það. Auk þess er The Great White Hope mynd sem ég fæ aldrei leið á. Túlkun James Earl Jones þar er auðvitað tær snilld. Hann hefði eflaust unnið óskarinn árið 1970 ef Scott hefði ekki farið svo eftirminnilega á kostum sem Patton og raun bar vitni. Jones er öllum þekktur sem rödd Svarthöfða í Star Wars og CNN.
En rifjum aðeins upp Raging Bull. Mynd sem klikkar aldrei.
![]() |
Mayweather rotaði Hatton í 10. lotu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.12.2007 | 10:55
Hvað er fólk að hugsa?
Það er alveg skelfilegt að heyra af þessum bruna á Suðurnesjum. Væntanlega er þetta íkveikja. Hvað er það fólk að hugsa sem kveikir eld með þessum hætti og skemmir eigur annarra með því? Þarna hafa brunnið margir bílar og bátur, svo að tjónið verður tilfinnanlegt. Finnst jafnan ömurlegt að heyra af skemmdaráráttu þeirra sem eyðileggja fyrir öðrum og það sama gildir auðvitað við í þessu tilfelli.
Það er vissulega svo að eldur getur alltaf komið upp en það er alltaf ömurlegra fyrir alla hlutaðeigandi þegar að sá eldur kviknar af ráðnum hug. Það má eiginlega telja mildi að ekki fór enn verr miðað við að sprengingar urðu í bílunum. Það er vonandi að lögregluyfirvöld muni hafa hendur í hári þeirra sem kveiktu þennan eld.
![]() |
Grunur leikur á íkveikju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2007 | 16:06
Ævintýraleg svikamylla Darwin-hjónanna

Finnst það eiginlega helst standa eftir hvað hjónin seildust langt til að blekkja alla í þessu sjónarspili sínu. Þau misstigu sig þó heldur betur með því að láta mynda sig saman, eftir þrjú ár við að spinna lygavef af þessu tagi hlýtur það að teljast ævintýralegt klúður. Sá á fréttastöð í gærkvöldi yfirlýsingu frá sonunum sem vilja ekkert meira af foreldrum sínum vita eftir þetta mál. Reiði þeirra er heldur betur skiljanleg.
Fyrst þegar að ég heyrði af þessu máli í vikubyrjun fannst mér tilviljanirnar eiginlega ótrúlega miklar. Það var eitthvað í þessu sem gekk ekki saman. Var eiginlega of ótrúleg flétta til að vera sönn. Enda reyndist of ævintýraleg fyrir raunveruleikann. Veit svosem ekki hvað margir hafa reynt að svíkja út tryggingarnar sínar, en ég held að þetta sé svæsnasta atburðarás þess í manna minnum.
Það má telja nokkuð öruggt að bæði hjónin þurfi að dvelja á bak við lás og slá næstu árin vegna þessa sjónarspils. Það sem í upphafi virtist dramatískt mál með mörgum spurningum er nú orðið að hreinum fjölskylduharmleik, þar sem of langt var seilst í svikamyllu, sem að lokum fór algjörlega úr böndunum.
![]() |
Bjó í fylgsni á heimilinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.12.2007 | 14:02
...að deyja einn og yfirgefinn
Það hlýtur að verða öllum umhugsunarefni að fólk sem býr í húsnæði á vegum Öryrkjabandalagsins deyi eitt og yfirgefið og finnist ekki fyrr en rúmlega viku síðar. Þetta mál sló mig svolítið í gær og mér fannst mjög mikilvægt að skrifa um það. Held að öllu fólki með mannlega taug blöskri að ekki sé betur hlúð að fólki og það geti svona farið, að það finnist seint og um síðir í húsnæði þar sem að öllum eðlilegum forsendum gefnum sé litið til með því, að allavega einhverju leyti. Það verði ekki eitt marga daga í einu hið minnsta.
Síðustu árin hefur umfjöllun af svona málum aukist að mér finnst. Það er vissulega ekki nýr hlutur heimsins að fólk lifi og deyi eitt og yfirgefið. Sumir hafa vissulega valið sér það hlutskipti að vera einstæðingar, lifa í kyrrþey síðustu ár ævi sinnar og vilja ekki vita af neinum, jafnvel eigi ættingja sem það eigi engin samskipti við. Það hlýtur að vera napurlegasta hlutskipti hvers einstaklings að vera einn og yfirgefinn, vera í skugga mannlífsins. Það eru örlög sem sumir velja, en aðrir lenda í aðstæðna sinna vegna.
Það er ekki eðlilegt að fólk verði svona algjörlega eitt og yfirgefið í húsnæði á borð við öryrkjablokkina. Þar ætti að vera hugsað um fólk að minnsta kosti að því leyti að það fái einhverja félagslega aðstoð og eftirlit. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa í húsnæði af þessu tagi. Það gildir kannski öðru búi fólk í eigin húsnæði úti í bæ og ekki á vegum neinna félagasamtaka eða félagslegu húsnæði af öðru tagi.
Þetta er svolítið stingandi sérstaklega á aðventunni. Þetta hefur gerst áður að mig minnir í Öryrkjablokkinni. Það er eðlilegt að farið verði eitthvað yfir þessi mál. Á þessum tímum velsældar og auðs í samfélaginu er þetta svolítið sláandi dæmi um mannlega eymd og einmanaleika þeirra sem minnst mega sín. Þetta er vandi sem þarf að tala um hreint út.
![]() |
Var ekki vitjað í rúma viku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)