Færsluflokkur: Dægurmál

Ringo Starr kemur aftur til Íslands

Ringo Starr kemur til landsins 23 árum eftir að Bítillinn Ringo Starr sló í gegn með Stuðmönnum á útihátíðinni í Atlavík er hann kominn aftur til landsins, nú til að verða viðstaddur er kveikt verður á friðarsúlu til minningar um félaga hans, John Lennon. Það vekur athygli að eiginkona Starrs, Barbara Bach, sem þekktust er fyrir túlkun sína á Anyu í Bond-myndinni The Spy Who Loved Me er ekki með í för.

Ég var staddur í Atlavík á hátíðinni 1984 og man nokkuð vel eftir atriðinu með Stuðmönnum og Starr. Þetta var mikið fjölmiðlashow frá a-ö, enda vissulega stórviðburður að fá Bítil til landsins, en ég held að það sé alveg örugglega rétt að hann er eini Bítillinn sem hefur komið fram á sviði hérlendis. Það getur varla annað verið. Allavega er þetta í minningunni sem mjög eftirminnileg stund. Það var eins og þjóðhöfðingi væri eiginlega kominn til landsins, svei mér þá.

Enn er talað um hvort að Sir Paul McCartney komi til landsins. Það yrði óneitanlega mjög skemmtilegt ef bítlarnir tveir sem enn eru á lífi kæmu báðir til landsins. Það eru 27 ár liðin frá dauða Lennons og George Harrison lést í upphafi aldarinnar. Þó að gullaldardagar Bítlanna séu löngu liðnir er enn mikill ljómi yfir Bítlunum í huga allra sem meta tónlist. Það er stórviðburður að mati allra sem meta þessa miklu tónlist að einhverjir úr hópnum komi hingað.

Það er reyndar mjög dapurt að Bítlarnir komu aldrei til Íslands á ferli sínum sem heild til að halda tónleika. En það er samt mikil bítlastemmning yfir landinu á þessum afmælisdegi Lennons. Minningu hans verður sýndur mikill sómi með því að kveikt verður á friðarljósinu. Hann hefði orðið 67 ára í dag og ánægjulegt að frá þessum degi verði friðarljómi Lennons sýnilegur frá Reykjavík til bæði austurs og vesturs.

mbl.is Ringo kominn til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt raunveruleikashowið í sjónvarpinu

Bubbi Einmitt þegar að ég hélt að raunveraleikaþættirnir væru að detta úr tísku, enda hefur Stöð 2 slegið af bæði Idolið og X-factor, heldur Bubbi Morthens upp í túr um landið til að leita að næstu poppstjörnu Íslands, poppstjörnunni sinni. Hann verður ekki með amalegan félagsskap, en með honum verður sjálf Unnur Birna fyrrum alheimsfegurðardrottning sem kynnir á öllu dæminu. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þennan þátt og þemað á bakvið hann.

Af hverju var ekki haldið áfram með X-factor? Var ekki mikið áhorf á þáttinn, ekki vantaði auglýsingarnar í hann og ekki var hægt að sjá annað en að þjóðin hefði gaman af að horfa á. Talað var um keppendur og allt dæmið fram og til baka á bloggi, spjallvefum og almennt í samfélaginu. Gekk sá pakki ekki upp eða hvað gerðist? Bubbi hætti í Idolinu þegar að farið var í X-factor pakkann og var umdeildasti dómari Idolsins, en hann hefur annars alla tíð verið þannig að annaðhvort dýrkar fólk hann eða gjörsamlega þolir hann ekki. 

En þessi módel gáfust upp eftir mislangan tíma og því var freistandi að halda að þetta raunveruleikaþáttadæmi væri búið að vera. Man eiginlega ekki eftir raunveruleikaþætti hérna heima sem hefur gengið upp til lengdar. Það var algjört disaster þegar að Skjár einn íslenskaði Bachelor-dæmið og hver man ekki eftir þáttum eins og Ástarfleyinu og hvað þetta heitir nú allt saman. Þetta er flest allt dautt. Reyndar er Skjár einn enn með Allt í drasli eða hvað sá þáttur annars heitir, sem byggist upp á að fara heim til fólks og redda því út úr ruslahaugnum.

En kannski er eini maðurinn sem getur keyrt upp áhuga á svona dæmi sjálfur Bubbi. Hann verður aðalpersónan í þættinum. Það var hann reyndar líka í Idolinu, en það var greinilegt að hann var ekki alltaf sáttur við að deila sviðsljósinu. En þetta verður þátturinn hans Bubba og snýst um hann, nema þá að Fríða fegurðardís muni skyggja á dýrið sjálft.

mbl.is Unnur Birna kynnir Bubba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andi Díönu lifir enn í fjölmiðlaumræðunni

DíanaÁratug eftir andlát Díönu, prinsessu af Wales, og Dodi Al Fayed er enn rætt um alla þætti málsins og reynt að varpa ljósi á síðustu tólf klukkustundirnar áður en bílslysið örlagaríka átti sér stað í miðborg Parísar. Myndirnar úr öryggismyndavélum Ritz-hótelsins gefa mun fyllri heildarmynd af síðustu klukkustundunum. Nú fyrst hafa þessar myndir verið opinberaðar, en sumar þeirra voru þó birtar í september 1997, í vikunni eftir andlát prinsessunnar.

Eftir áratug er vandséð hvað geti talist nýtt í þessu sorglega máli. Myndirnar eru athyglisverðar en þær eru umfram allt viðbót, sem gefa ekkert meira upp en vitað var. Díana hefur hvílt á eyjunni í Althorp í áratug og fjölskylda hennar hefur náð þeim áfanga að halda áfram eftir langa sorg sína. Ég hélt satt best að segja að búið væri að kanna alla hluti þessa máls. Tími væri kominn til þess að prinsessan fengi að hvíla í friði.

Vissulega eru myndirnar af henni í lyftunni mjög fallegar og vekja athygli, en þær minna okkur bara á það hversu falleg Díana var og hversu mikill harmdauði hún var. Ég hef alla tíð talið að ástæða þessa skelfilega slyss sé einföld. Bílstjórinn hafði fengið sér í glas og hann lenti í aðstæðum sem enginn átti von á. Allt fór úr böndunum og afleiðingarnar urðu sorglegar.

Ég trúi því ekki að stórt samsæri hafi verið framið um að myrða Díönu, prinsessu af Wales. Finnst það of fjarstæðukennt að MI6 hafi unnið að skipan konungsfjölskyldunnar að drepa hana. Algjörlega út í hött. Þó að kalt hafi verið milli aðila vildi enginn neinn feigan. Díana lenti bara í aðstæðum sem leiddu til bílslyss og hún slasaðist það illa að henni var ekki ætlað líf.

Þessi endir verður enn sorglegri þegar að litið er á myndirnar. Þessar myndbirtingar og endalaus málarekstur til að upplýsa hið augljósa hlýtur að vera sem fleinn í syni prinsessunnar og fjölskyldu hennar. En kannski verður að fara yfir allt málið enn einu sinni til að ljúka því. En það er kominn tími til að fjölmiðlaprinsessan fái að hvíla í friði.


mbl.is Áður óbirtar myndir af Díönu prinsessu vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helga bannað að vera með þátt á RVKFM

Helgi Seljan Það vekur athygli að frænda mínum, Helga Seljan, skuli vera bannað að vera með laufléttan sunnudagsspjallþátt á útvarpsstöð úti í bæ, þó að hann sé auðvitað vissulega sjónvarpsmaður hjá ríkinu. Virðist þetta vera ákvörðun að ofan, frá sjálfum Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, en Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss og dagskrárstjóri, hafði gefið grænt ljós á þáttinn. Slegið er því á puttana á Þórhalli ekkert síður en Helga.

Eftir því sem kjaftasagan segir mun Óli Palli á Rás 2 hafa orðið fúll, en honum var víst boðið að vera í einhverjum sjónvarpsþætti, veit ekki alveg hvaða þáttur það er en sennilega var það dómarahlutverk í þættinum þar sem söngvari bandsins hans Bubba er valinn. Ýmisleg dæmi eru um að starfsmönnum sé ekki leyft að vinna í kross, en þetta virkar spes í ljósi þess að þetta er þáttur á útvarpsstöð og mun minna áberandi, en hefði þetta verið t.d. þáttur á Bylgjunni.

Það er skrýtið að útvarpsstjóri grípi fram fyrir hendurnar á dagskrárstjóranum með þessum hætti. En hann er sennilega að reyna að hafa alla góða, enda dæmi vissulega um að ólga hafi verið vegna þess að starfsmenn sinni verkum utan Efstaleitis. Það verða semsagt engin Helgispjöll hjá Helga á RVKFM og fróðlegt hvað komi í staðinn á sunnudögum.

Útvöldum boðið að sjá friðarglampann í Viðey

Friðarljós í Viðey Á þriðjudag verður friðarljós í minningu um tónlistarmanninn John Lennon tendrað í Viðey, á afmælisdegi hans. Þar mun verða mikil athöfn. Það kemur varla að óvörum að þar er lokuð athöfn fyrir útvalda gesti. Finnst það flott hjá tónlistarmanninum dr. Gunna að benda á að ekkert boðskort rataði heim til hans og hann þurfi því að sitja heima og horfa á ljósið kvikna þaðan. 

Það er að verða ansi áberandi að svona menningarsamkomur eða viðburðir eru að verða boðsviðburður þeirra sem sumir vilja kalla ríka og fræga fólkið, en ég vil kalla þverskurð samfélagsins og menningarelítunnar. Veit ekki hvaða mælistika er fengin út hinsvegar til að finna þennan þverskurð, það er kannski enn eitt spurningamerkið sem kviknar á rétt eins og friðarljósinu. Varla er bara verið að bjóða friðarsinnum í eyjuna.

Það er alveg ljóst að það er mjög vel til fundið að minningu meistara Lennons sé sómi sýndur. Friðarsúlan mikla er að ég held undir merkjum Imagine, sem ber ennfremur heiti eins þekktasta lags Lennons á sólóferli hans. Um er að ræða ljóssúlu sem stendur upp í mikla hæð. Það er viðeigandi að heiðra minningu Lennons og gott mál að þetta gerist hér á Íslandi. Lega landsins gerir það að verkum að það er mitt á milli austurs og vesturs og greinilega er Ísland valið til að birtunni stafi héðan um allan heiminn, enda miðja vegu milli risaveldanna.

Greinilegt er að þessi friðarsúla er hjartans mál Yoko Ono nú, enda liggur hún mikla áherslu á verkið. Hef ég lengi verið mikill unnandi tónlistar Lennons, sérstaklega áranna með Bítlunum og seinni hluta sólóferilsins. Framlag Bítlanna og Lennon varð til þess að breyta gangi sögu tónlistarinnar. Eitt þekktasta lag Lennons er fyrrnefnt Imagine. Er það ekki annars uppáhaldslag okkar flestra? Tær snilld.

Vonandi verður bein útsending á einhverri stöðinni frá þessu svo að friðarglampinn lýsist ekki bara yfir boðsgestina útvöldu og þá Reykvíkinga, án boðskorts, sem sjá ljósið heiman úr stofu.

mbl.is Dr. Gunni fékk ekki boðskort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stálheppinn milljónamæringur á Akureyri

Akureyri Það er ekki hægt að segja annað en að Akureyringurinn sem varð milljónamæringur í gær sé stálheppinn. Óska honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með auðinn og vona að þau ávaxti hann vel og njóti hans að sjálfsögðu líka. Það hlýtur að breyta lífinu og tilverunni að talsverðu leyti að auðgast um rúmlega 100 milljónir á einum degi, en vonandi heldur fólk sínum karakter í gegnum það.

Þó að viðkomandi maður vilji ekki láta nafns síns getið held ég að fullyrða megi að nú fari kjaftasögurnar strax af stað um það í þessum kyrrláta bæ við fjörðinn fagra um hver nýjasti milljónamæringurinn í samfélaginu okkar sé. Það er kannski eðlilegt að fólk vilji vita það, en ég skil manninn enn betur að vilja verða nafnlaus milljónamæringur í fjölmiðlum.

Það er fullt af fólki sem vill verða millar á einni nóttu. Það getur kannski verið erfiðara að höndla er á hólminn kemur. Skilst að þetta sé Akureyringur á sjötugsaldri. Er því sennilega veraldarvanur í lífinu og hefur upplifað sínar hæðir og lægðir, öll upplifum við þannig daga með einum hætti eða öðrum.

Það hljóta að vakna spurningar um hvað fólk geri við svona fregnir, jafnvel fólk sem stundar sinn hversdag í brauðstriti. Eflaust tekur tíma að ná áttum eftir svona mikinn lífsins gróða, en vonandi verður lífið samt eftir, þó eflaust sé hægt að gera margt sem hugurinn hefur girnst árum saman.

mbl.is Vinningshafinn gaf sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyringur dettur í lukkupottinn

Akureyri Það er mjög ánægjulegt að heyra að stærsti lottóvinningur Íslandssögunnar sé á leiðinni til Akureyrar, yfir 100 milljónir. Var að vona að ég hefði unnið þessa fúlgu, enda keypti ég mér lottómiða í Hagkaup fyrr í vikunni. Svo var þó því miður ekki. En ég get ekki sagt annað en að ég hafi um leið og ég hafi heyrt þessa frétt litið allsnarlega á miðann minn.

Það eru tveir áratugir liðnir frá því að fyrsti lottóvinningur Íslandssögunnar kom til Akureyrar, en þá vann Ólöf Ananíasdóttir nokkrar milljónir. Ólöf hafði skömmu áður misst mann sinn og var mikið fjallað um þennan fyrsta lottóvinningshafa landsins. Um áratugur er liðinn frá því að hjón hér í bæ unnu stóran vinning í Víkingalottóinu. Minnir að það hafi verið 42 milljónir og það þótti mikið hér þá.

Vil óska vinningshafanum til hamingju. Það hlýtur að hafa gríðarleg áhrif á lífsstandardinn að taka svona stóran pott og vonandi mun verða vel haldið utan um það. Vona að viðkomandi fylgi ekki algjörlega eftir lífsstandard Lýðs Oddssonar, lottóvinningshafa í túlkun Jóns Gnarr, í auglýsingunum.

Það hlýtur að þurfa sterk bein að lifa með svo stórum vinningi í sjálfu sér, enda sannarlega dæmi um að fólk hafi illa getað höndlað svo mikla gæfu.

mbl.is Íslendingur vann 105 milljónir í Víkingalottói
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir Haarde syngur I Walk the Line inn á plötu

Geir H. Haarde Geir H. Haarde, forsætisráðherra, mun syngja lagið I Walk the Line, sem country-goðið Johnny Cash gerði ódauðlegt á sínum tíma, bráðlega inn á plötu með hljómsveitinni South River Band. Mun lagið verða flutt í íslenskaðri útgáfu Hjálmar Jónssonar, dómkirkjuprests. Geir söng lagið í þeirri útgáfu fyrst í kvöldverðarhófi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á Broadway í aprílmánuði.

Geir söng það reyndar tvisvar það kvöld, fyrst við undirleik Óskars Einarssonar yfir borðhaldi og síðla kvölds með Baggalút. Og sló sannarlega í gegn. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Geir syngur inn á plötu, en eins og vel er kunnugt söng hann á hljómplötu Árna Johnsen, nokkur lög einn og ennfremur eitt með Árna sjálfum. Vakti það mikla athygli, en Geir hefur þó alla tíð verið mikill söngmaður og flestir muna er hann söng Volare í skemmtiþætti Steinunnar Ólínu á sínum tíma í Sjónvarpinu.

Það er mjög góður kostur að góður formaður geti glatt með því að syngja og hann sló svo sannarlega í gegn á landsfundarhófinu með þessu lagi, sem átti vel við þá, enda ljóð sr. Hjálmars mjög gott. Það verður áhugavert að heyra Geir syngja þennan fræga Johnny Cash-slagara með South River Band.

Gillzenegger sprellast í Kringlunni

Gillzenegger Það kemur sér oft vel að hafa hemil á orðum sínum í hita leiksins, enda gæti svo farið að standa þyrfti við stóru orðin. Þetta hefur Gillzenegger sannarlega reynt nú, en hann þarf nú að standa við stóru orðin um að hlaupa nakinn um Kringluna. Hann hefur verið þekktur fyrir stór orð og ekki beint hikað mikið við að tjá skoðanir sínar í gegnum tíðina. En nú þarf hann heldur betur að gleypa stoltið.

Það er reyndar spurning hvort að Garðar Örn Hinriksson, dómari, hafi í og með gert þetta að gamni sínu til að ná höggi á Gillzenegger. Erfitt um að segja svosem, en varla hefur honum þótt þetta leiðinlegt í ljósi hinna stóru orða Gillzenegger. En nú virðist kappinn þurfa að skella sér í Kringluna.

Tippa á að hann sprellist þar þó í skjóli nætur eða eitthvað svoleiðis. Varla fer kappinn að gera þetta síðdegis á föstudegi eða um hádegið á laugardegi.

mbl.is Gillzenegger hleypur nakinn í Kringlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Britney missir börnin - gleðivímunni lýkur

Britney SpearsÞað er ekki beint hægt að segja að það komi að óvörum að glamúrgellan Britney Spears missi forræðið yfir börnunum sínum, eftir þær sögur sem borist hafa af henni síðustu árin. Fregnir um gleðivímuna sem hún hefur verið í um langt skeið hafa ekki farið framhjá neinum og var eiginlega orðið tímaspursmál hvenær að hún myndi brotlenda og fá sannan skell. Þetta hefur verið hálfgerð sorgarsaga og greinilegt að hún hefur verið í afneitun yfir stöðunni.

Það fór ekki framhjá neinum sem sá endurkomu Britney Spears á sviði á MTV-hátíðinni fyrir nokkrum vikum að hún er búin að vera sem alvöru tónlistarmaður og er hreinasta hryggðarmynd orðin. Ekki nóg með að hún mæmaði lagið sem spilað var heldur var hún eins og silakeppur á sviðinu, engar snöggar hreyfingar og taktfastur hraði, heldur bara ígildi uppstoppaðs hvítabjörns, svo silaleg var hún. Það þarf varla gáfaða showbiz-menn til að sjá að ferli þessarar glamúrgellu er lokið að óbreyttu.

Það er mjög vægt til orða tekið að fræg ímynd Britney Spears sem saklausrar blondínu með englablæ sé endanlega fokin út í veður og vind eftir fjölmiðlaáföll hennar undanfarið árið og fátt þar eftir sem minnir á forna frægð, ef marka má misheppnaða endurkomuna sem beðið hefur verið eftir í yfir þrjú ár. Nokkrir mánuðir eru síðan að stjarnan flippaði yfir um og rakaði af sér hárið og lét í ofanálag tattúvera sig. Það var stílbreyting sem fáum þótti líklegt að stílisti ráðleggði.

Nú hefur hún misst börnin. Þetta er enn eitt merkið hvert stefnir hjá þessari fornu stjörnu. Ég man þegar að Britney var að byrja að ótrúleg ímynd saklausrar stelpu, allt að því hreinnar meyjar með tæra englaásýnd, var búin til fyrir hana. Sú ímynd var kostulega hjúpuð. Hún var undir þeim merkjum mjög lengi. Á tveim til þrem árum er ferill hennar fokinn út í veður og vind og hún er orðin eins og útlifuð tuskudúkka sem heldur aðeins áfram að steypast í glötun.

Britney virðist ekki lifa neinu skemmtilífi lengur, þó það sé reynt. Það er ekki fjarstæðukennt að telja að henni vanti stórlega hjálp frá glötun. Hún er nefnilega á hraðri niðurleið og aðeins spurning hvenær að hún steypist endanlega í duftið. Þetta eru í senn skelfileg og nöpur örlög. Það að hún missi börnin sín er kuldalegt endatafl í hnignun hennar.

mbl.is Ástæður þess að Britney missti forræðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband