Færsluflokkur: Lífstíll
13.1.2007 | 16:17
Tiktúrur stjarnanna
Heimur stjarnanna er oft órafjarri okkar sem lifum hið daglega líf með bros á vör oftast nær. Þó að sú tilvera sé oft frekar litlaus er hún samt að ég tel miklu skemmtilegri en gervitilveran sem stjörnurnar lifa í kastljósi fjölmiðla og með paparazzi-hundana á eftir sér alla daga, eins og hrægamma. Það er ekki beint draumatilvera neinnar vitsmunaveru, hreint út sagt
Það er orðið nokkuð langt síðan að ég hef hlegið eins mikið og yfir þessari frétt um væntanlegt brúðkaup Elizabeth Hurley, sem er alþekkt glamúrdama. Ekki er hún mikið í aukabitunum, enda borðar hún ekkert eftir kl. 16.00 á daginn til að passa nú alveg 110% örugglega í brúðarkjólinn sinn. Engin kaloría umfram eftir síðdegið. Það er því eflaust lítið um popp og kók át þar yfir sjónvarpinu á kvöldin og pizzupantanir.
Það er eitthvað svo kaldhæðnislega margt fyndið við þessa tilveru sem stjörnurnar eiga. Það fylgir sögunni að fröken Hurley borði nú aðeins eggjahvítur, grænmeti og gufusoðinn fisk, og smávegis af franskbrauði og fólínsýru til að auka möguleika sína á að verða barnshafandi. Jamm, það er ekki öll vitleysan eins. Ég vona að bloggvinir mínir lifi ekki svona steríleseruðu lífefni og frökenin sem þarf að passa í brúðarkjólinn sinn.
Sem minnir mig á það að ég má alls ekki gleyma því að panta mér pizzu í kvöld, fá mér kók með og borða Nóa kropp svona með til hátíðabrigða. Svo þarf að poppa líka. Mjög gott, enda er klukkan nú officially orðin 16:00. Þessu má ég alls ekki gleyma. :)
Elísabet Hurley neitar að borða eftir klukkan 16 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2006 | 17:44
Hátíðleg jólastund
Aðfangadagskvöldið var stund hátíðleika og helgi í huga mér og eflaust allra annarra sem vefinn lesa. Kl. 18:00, eftir að hafa óskað hvoru öðru gleðilegra jóla, var borðaður notalegur og góður matur. Svo tóku við hefðbundnar stundir að lesa jólakortin og opna pakka. Það er hefð á mínum slóðum lífsins að lesa kortin á undan og fara svo í pakkana. Ég held að ég hafi aldrei fengið eins mörg kort og var nú á þessum jólum. Yngstu fjölskyldumeðlimum fannst mjög merkilegt að ég skyldi fá jólakort frá sjálfum forsætisráðherranum þessi jólin, en það hefur nú vissulega gerst áður.
Eftir hefðbundnar stundir var kveikt á sjónvarpstækinu og horfðum við saman á aftansöng jóla í Ríkissjónvarpinu. Þar predikaði biskup Íslands, Hr. Karl Sigurbjörnsson, í Áskirkju þar sem bróðir hans, Árni Bergur Sigurbjörnsson heitinn, var prestur í áratugi. Það var hugheil og vel mælt predikun eins og Karls er von og vísa. Sterkast við Karl á biskupsstóli hefur mér alla tíð þótt hversu góður predikari hann er. Þegar að hann talað er mælt af innlifun og sannri meiningu. Tókst honum mjög vel til og tónlistin var stórfengleg. Þetta var notaleg og góð stund á aðfangadagskvöld.
Kl. 23:30 fór ég í Akureyrarkirkju, sóknarkirkjuna mína í miðnæturmessu. Miðnæturmessan bar yfirskriftina englamessa. Þar predikaði sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson. Mæltist honum vel og var predikun hans vönduð og vel flutt. Mér líkar mjög vel áherslur og verk Óskars Hafsteins á prestsstóli hér og tel hann mjög öflugan í sínum verkum Kammerkórinn Hymnodia söng og var Eyþór Ingi Jónsson organisti þessa heilögu kvöldstund í aðdraganda jólanætur, heilögustu næturstundar ársins. Hymnodia fór algjörlega á kostum. Nýlega söng söngflokkurinn með Óskari Péturssyni á geislaplötu hans og brilleraði þar. Frábært að hlusta á þau syngja.
Er heim kom hlustaði ég á upptöku af söngskemmtun Hvítasunnusafnaðarins sem var flutt á sama tíma og ég var á miðnæturmessunni. Það er stórfenglegt að hlusta á jólatónleika Hvítasunnumanna og er á hverju ári. Þvílík tónfegurð og þvílík listagáfa af Guðs náð. Þetta voru stórfenglegir tónleikar og þeir fylltu mann gleði og krafti. Þetta var yndislegt, í einu orði sagt. Sérstaklega var notalegt að hlusta á Björgvin Halldórsson syngja með Gospelkórnum nokkur jólalög. Heims um ból í blálok söngskemmtunarinnar var svo listilega vel flutt. Þeir Hvítasunnumenn eiga heiður skilið fyrir glæsilega tónleika sína og vandað yfirbragð þeirra.
Ég fór að sofa fljótlega eftir tónleikana, enda var maður eiginlega úrvinda eftir síðustu daga. Mikið um að vera og notalegt að hvíla sig vel. Nú í dag hefur maður farið vel yfir jólagjafirnar. Það er svona handan við hornið að byrja að lesa nokkrar eðalbækur sem ég fékk í jólagjöf. Þar eru efstar á lestrarlistanum ævisaga sr. Matthíasar Jochumssonar, sóknarprests og heiðursborgara okkar Akureyringa, en ævisaga hans er listilega rituð af Þórunni Valdimarsdóttur, Óvini ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson, og Skáldalíf eftir Halldór Guðmundsson, þar sem lýst er ævi Gunnars Gunnarssonar og Þórbergs Þórðarsonar. Allar eru tilnefndar til bókmenntaverðlaunanna.
Svo fékk ég mynddiska með stórfenglegum tónleikum Björgvins Halldórssonar og Bubba Morthens. Alveg yndisleg tónlist. Leit aðeins á tónleika Björgvins. Alveg meistaralegur umbúnaður utan um tónleikana og ekki feilnóta slegin. Björgvin kann sitt fag. Bubbi sló í gegn með tónleikunum sínum í sumar sem endanlega sönnuðu kraft hans og snilli. Þetta eru algjörir kóngar í íslenskri tónlist í dag. Engin spurning. Auk þess fékk ég frá Krissa bróður þrjá mynddiska í öskju um sögu 20. aldarinnar. Það myndefni heillaði mig mest og ég horfði á einn diskinn nú eftir hádegið áður en haldið er út í jólaboð. Krissi þekkir mig og veit hvað ég vil. Yndislegir diskar sem ég gleymdi mér yfir. :)
En semsagt, yndisleg og góð jól - hátíð í bæ. Vona að þið hafið það öll sem best á þessum hátíðlega tíma.
Gleðileg jól!
Íhugun og ró á aðfangadag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2006 | 15:34
Yndislegur aðfangadagur
Nú eftir hádegið fór ég upp í kirkjugarð. Þar hvíla vinir og ættingjar sem ég met mikils. Það er við hæfi að minnast þeirra á þessum degi. Það var notalegt og gott veður þegar að ég fór þangað með friðarljós og átti þar notalega stund í góðri ró og sannkallaðri kyrrð.
Það hefur alla tíð verið rík hefð hjá mér og mínum fyrir því að fara upp í garð og að leiðum þeirra sem maður metur mikils. Þetta tel ég grunnatriði á þessum degi að sinna. Ég get ekki haldið gleðileg jól, nema að hafa sinnt þessu. Eftir þessa notalegu stund var gott að fá sér heitt kakó og smákökur. Nú tekur svo heilagasta stund ársins við.
Gleði í sálinni fæst með svo mörgu, mest að ég tel með að gefa af sér, bæði kærleika og góðan hug til annarra. Kærleikur er ekki mældur í peningum, hann er ómetanlegur. Fólk nær aldrei árangri í lífi sínu nema með því að hugsa um aðra á mikilvægum stundum, gefa af sér einhvern hluta af góðu hjartalagi í það minnsta.
Ég hef oft farið eftir þessu og það á best við á jólunum, á heilögustu stund ársins.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2006 | 01:47
Notalegur dagur í aðdraganda jólanna
Þetta var virkilega notalegur og góður afmælisdagur, frekar lágstemmdur og fínn. Engin veisla að ráði, nema þá bara svona í smáskömmtum. Passaði mig á því að reyna að vera sem minnst við tölvu í dag og skrifaði sem allra minnst. Fór á milli staða í bænum og var að hitta gott fólk og slappa vel af, eftir því sem frekast var unnt.
Í morgun hittumst við nokkrir góðir vinir og fengum okkur gott kaffi og bakkelsi á Bakaríinu við brúna. Fínt spjall og skemmtilegt andrúmsloft. Um nóg að tala. Pólitíkina bar þar auðvitað aðeins á góma, þó að hún sé sem betur fer að komast í sem mest jólafrí. Svo vorum við auðvitað að ræða bara bæjarmálin, sem er ekkert undarlegt, núna þegar að aðeins rúmur hálfur mánuður er í bæjarstjóraskipti hér.
Fór í heimsókn til Hönnu ömmu eftir hádegið. Ég fer þangað svo aftur á morgun en það er hefð hjá mér að ég fer alltaf til hennar á Þorláksmessu í skötuveislu með pabba og þar hittumst við í föðurfjölskyldu minni og spjöllum vel saman og förum yfir málin. Síðdegis leit ég í miðbæinn í JMJ til Ragnars Sverrissonar kaupmanns. Það gengur víst ekki að fara í jólaköttinn eins og við segjum og það er best að fara til Ragga og kippa því í liðinn. Við Raggi erum samherjar með bæjarmálavefritið pollurinn.net og við ræddum því auðvitað bæjarmálin fram og til baka. Við erum menn með skoðanir og því gaman að ræða málin.
Eftir það fékk ég mér góðan labbitúr um miðbæinn, hitti góða vini og naut þess í rólegheitum að fara um og spjalla við ýmsa sem maður þekkir. Það koma ekki jól í huga mér fyrr en eftir skemmtilegt miðbæjarrölt síðustu kvöldin fyrir jólin, hitta fólk, fara á kaffihús, fá sér heitt kakó og kynna sér miðbæjarbraginn. Mér finnst hafa dofnað mikið yfir miðbænum okkar, því er nú verr og miður. Það er vonandi að nýtt miðbæjarskipulag sem komið hefur til eftir íbúaþingið fyrir tveim árum marki grunninn að þeim miðbæ sem ég og við flest viljum sjá!
Um kvöldmatarleytið fórum við nokkur saman á Greifann og fengum okkur að borða fínan kvöldmat í tilefni afmælis míns. Ekkert jafnast annars á við að fá sér að borða á Greifanum, frábær veitingastaður sem ég fer oftast á þegar ég fer út að borða hér. Þetta vita að sjálfsögðu allir sem fara á Greifann. :) Síðla kvölds komu nokkrir góðir gestir og fín stemmning auðvitað þar. Notalegt og gott.
Á morgun fer maður svo í þetta hefðbundna; hlustað á jólakveðjurnar á RÚV, fengið sér skötu og rölt um miðbæinn á skemmtilegasta kvöldi ársins. Ég er búinn að öllu nema kaupa upp í matinn, svo að það er ekkert panik á mér. :)
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2006 | 01:49
Courtney Love dömpar endanlega Kurt Cobain
Þau áhrif náðu út fyrir gröf og dauða. Cobain fyrirfór sér árið 1994 og eftir stóðu lögin. Tólf árum eftir endalokin lifir minning hans og tónlistarinnar góðu lífi. Margar kjaftasögur ganga enn um samband Cobain og Courtney Love. Bæði lifðu þau hátt á sínum tíma, fallið varð mikið en Love lifir enn hærra en flestir. Er þekkt fyrir það. Flestir hafa alltaf talið að Cobain væri ást lífsins hennar, þrátt fyrir allt og allt. Sterkt samband en rosalega beitt og afgerandi. Lifandi var allavega lifað, hátt yfir öllum mörkum.
Finnst mjög merkilegt að Love telji leikarann Edward Norton ást ævinnar. Annars er Love ekki alveg normal á því, eins og flestir vita. Merkilegt að Cobain sé talinn besti vinur ævi hennar, þrátt fyrir allt sem gekk á. Ég hélt að þetta væri einmitt alveg hið gagnstæða. Mjög merkilegt bara, finnst mér. Fannst alveg skemmtilega villt að sjá myndina um þau skötuhjú fyrir nokkrum árum og ég hef reyndar lesið mikið um ævi Cobain. Stjörnuheimurinn er oft ansi feik og þar er lifað hátt.
En þetta eru merkilegar persónulegar uppljóstranir sem koma fram. Það má kannski segja að Courtney hafi endanlega dömpað Kurt Cobain. Kaldhæðnislegt alveg, merkilegt alveg.
En Nirvana-fíklar - hvert er uppáhaldslag ykkar með bandinu. Má til með að spyrja ykkur. Endilega kommentið. Mitt er Lithium. Smells Like Teen Spirit er líka eðall.
Courtney Love segir Kurt Cobain ekki stóru ástina í lífi sínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.11.2006 | 02:28
Göngutúr í rökkrinu - prófkjörshugleiðingar
Ég er bjartsýnn á næstu vikur fyrir okkur sjálfstæðismenn í kjördæminu vegna prófkjörsins eftir þrjár vikur. Það er gott fólk í kjöri, vissulega vonbrigði að það væru ekki fleiri, en það stefnir í lífleg en vonandi málefnaleg átök um leiðtogastólinn í kjördæminu. Persónulega gleðst ég yfir því að við öll fáum nú tækifæri til að velja okkur nýjan kjördæmaleiðtoga með þessum hætti, nú þegar að Halldór hættir forystustörfum í stjórnmálum eftir langt og farsælt verk fyrir okkur hér. Það er tækifæri sem á að efla okkur sem liðsheild, ekkert nema gott um það að segja.
Ég fann kraft í okkur flokksmönnum við opnun beggja prófkjörsskrifstofanna í dag og tel öflugan tíma framundan. Hver svo sem úrslit verða tel ég okkur há þennan prófkjörsslag með þeim hætti að þar myndist sigursveit til verka. Það er notalegt að geta skrifað og fjallað um mál næstu vikna með líflegum hætti og það hyggst ég vissulega gera. Það sem skiptir mestu máli er að háð verði barátta sem öllum sé til sóma og ég tel mig þekkja leiðtogaefnin öll það vel að ég tel að þannig verði baráttan unnin. Öll eru þau sómafólk sem geta höndlað forystuna með sóma.
Hver svo sem næstu skref verða tel ég okkur geta haldið öflug í komandi kosningabaráttu eftir prófkjörið. Það tækifæri sem okkur gefst nú hér í Norðausturkjördæmi er að móta öfluga liðsheild til verka í langri kosningabaráttu. Ég tel það verða áhugavert að sjá hvernig hún raðast upp og hver verði hinn nýi leiðtogi sem tekur við keflinu af Halldóri Blöndal.
Þegar að við kveðjum Halldór að lokum við lok þessa kjörtímabils er það hið allra besta sem við getum fært honum við leiðarlok þessa að sigra kosningarnar í vor með glans. Það er markmiðið - að því berjumst við öll sem eitt. Einfalt mál!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 02:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)