Notalegur dagur í aðdraganda jólanna

Kerti og afmæliÞetta var virkilega notalegur og góður afmælisdagur, frekar lágstemmdur og fínn. Engin veisla að ráði, nema þá bara svona í smáskömmtum. Passaði mig á því að reyna að vera sem minnst við tölvu í dag og skrifaði sem allra minnst. Fór á milli staða í bænum og var að hitta gott fólk og slappa vel af, eftir því sem frekast var unnt.

Í morgun hittumst við nokkrir góðir vinir og fengum okkur gott kaffi og bakkelsi á Bakaríinu við brúna. Fínt spjall og skemmtilegt andrúmsloft. Um nóg að tala. Pólitíkina bar þar auðvitað aðeins á góma, þó að hún sé sem betur fer að komast í sem mest jólafrí. Svo vorum við auðvitað að ræða bara bæjarmálin, sem er ekkert undarlegt, núna þegar að aðeins rúmur hálfur mánuður er í bæjarstjóraskipti hér.

Fór í heimsókn til Hönnu ömmu eftir hádegið. Ég fer þangað svo aftur á morgun en það er hefð hjá mér að ég fer alltaf til hennar á Þorláksmessu í skötuveislu með pabba og þar hittumst við í föðurfjölskyldu minni og spjöllum vel saman og förum yfir málin. Síðdegis leit ég í miðbæinn í JMJ til Ragnars Sverrissonar kaupmanns. Það gengur víst ekki að fara í jólaköttinn eins og við segjum og það er best að fara til Ragga og kippa því í liðinn. Við Raggi erum samherjar með bæjarmálavefritið pollurinn.net og við ræddum því auðvitað bæjarmálin fram og til baka. Við erum menn með skoðanir og því gaman að ræða málin.

Eftir það fékk ég mér góðan labbitúr um miðbæinn, hitti góða vini og naut þess í rólegheitum að fara um og spjalla við ýmsa sem maður þekkir. Það koma ekki jól í huga mér fyrr en eftir skemmtilegt miðbæjarrölt síðustu kvöldin fyrir jólin, hitta fólk, fara á kaffihús, fá sér heitt kakó og kynna sér miðbæjarbraginn. Mér finnst hafa dofnað mikið yfir miðbænum okkar, því er nú verr og miður. Það er vonandi að nýtt miðbæjarskipulag sem komið hefur til eftir íbúaþingið fyrir tveim árum marki grunninn að þeim miðbæ sem ég og við flest viljum sjá!

Um kvöldmatarleytið fórum við nokkur saman á Greifann og fengum okkur að borða fínan kvöldmat í tilefni afmælis míns. Ekkert jafnast annars á við að fá sér að borða á Greifanum, frábær veitingastaður sem ég fer oftast á þegar ég fer út að borða hér. Þetta vita að sjálfsögðu allir sem fara á Greifann. :) Síðla kvölds komu nokkrir góðir gestir og fín stemmning auðvitað þar. Notalegt og gott.

Á morgun fer maður svo í þetta hefðbundna; hlustað á jólakveðjurnar á RÚV, fengið sér skötu og rölt um miðbæinn á skemmtilegasta kvöldi ársins. Ég er búinn að öllu nema kaupa upp í matinn, svo að það er ekkert panik á mér. :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband