Gorbachev fer aftur í Höfða

Mikhail Gorbachev

Nú á þessu kvöldi eru tveir áratugir frá því að leiðtogafundinum sögufræga í Höfða lauk. Það var merkilegt að sjá Sovétleiðtogann fyrrverandi Mikhail Gorbachev aftur í Höfða á þessum degi, tveim áratugum eftir að leiðir hans og Reagans forseta skildu, og minnast með forystumönnum úr íslensku þjóðlífi þessa fundar. Þetta kvöld árið 1986 þótti vera kvöld vonbrigða, flestir töldu fundinn misheppnaðan og hans yrði minnst fyrir mistök við að ná samkomulagi. Það fór ekki svo. Þar voru stigin skref í áttina að frægu samkomulagi. Þetta var fundur árangurs í að ljúka kalda stríðinu og reka fleininn í kommúnistastjórnir í Austur-Evrópu.

Þetta var fundur árangurs við að ljúka sögulegum átökum sem stóðu í áratugi. Það er við hæfi að þessi friðarverðlaunahafi Nóbels komi hingað og minnist þessa árangurs nú. Það er líka mjög áhugavert að heyra skoðanir hans á þessum fundi og árangrinum sem náðist í þessari Íslandsför hans. Það varpar vissum skugga að enginn forystumaður vestanhafs frá skyldi koma hingað nú. Reagan forseti er látinn fyrir nokkrum árum, en var veikur í áraraðir þar áður, en það hefði verið vel til fundið að fá t.d. George Schultz, fyrrum utanríkisráðherra, hingað líka. Til að gera sögulega séð upp fundinn í Reykjavík, fundinn sem markaði þáttaskil.

mbl.is Mikhaíl Gorbatsjov heimsótti Höfða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugur baráttufundur stúdenta

Háskóli Íslands

Í dag stóð Stúdentaráð Háskóla Íslands fyrir meðmælum undir yfirskriftinni "Vér meðmælum öll". Þar var verið að minna á gildi menntunar og mikilvægi þess að þau mál séu rædd í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar næsta vor. Líst mjög vel á þetta framtak stúdenta og fagna því að þau setji menntamál á dagskrá fyrir þessar þingkosningar. Það er mikilvægt verkefni og rétt af þeim að gera það og standa með því vörð um sína stöðu og þeirra sem fara í Háskólann á næstu árum.

Bendi fólki á að rita nafn sitt í undirskriftasöfnun stúdenta sem er að finna á netinu. Þetta er flott framtak og um að gera fyrir alla landsmenn að taka þátt í þessu með því að styðja það með því að leggja því lið með nafni sínu.

mbl.is Stúdentar meðmæltu á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegar hugleiðingar Þórarins um VG

Þórarinn Hjartarson

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki daglegur gestur á vefnum Múrinn. En ég leit þangað í gær og sá þar merkilega grein Þórarins Hjartarsonar um VG, flokk Steingríms J. Sigfússonar. Það var athyglisverð lesning. Eins og margir vita er Þórarinn sonur Hjartar E. Þórarinssonar, bróður Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta lýðveldisins. Hjörtur, sem var bóndi á Tjörn og þekktur framsóknarmaður var mikill héraðshöfðingi í Svarfaðardal allt til dánardags árið 1996. Afkomendur hans hafa þótt vera mjög til vinstri. Allir sem þekkja til Þórarins vita að pólitík hans er mjög til vinstri. Hann hefur verið stoltur af þeirri stefnu og hann hefur óhikað haft skoðanir á þjóðmálum alla tíð.

Það er mjög merkilegt að sjá skrif Þórarins um VG. Þar er að finna hárbeitta gagnrýni á starfið innan VG og skipulag á ýmsum grunni. Greinilegt er að hann telur VG ekki nógu vinstrisinnað fyrir sinn smekk og finnur að ýmsu þar innbyrðis. Mikið hefur verið rætt og ritað um málefni VG og hvernig flokkurinn starfar. Það er mikið talað um að Steingrímur J. Sigfússon miðstýri flokknum sem eigin veldi að öllu leyti. Mikið hefur heyrst um inngrip hans í framboðsmálum fyrir kosningarnar 2003, t.d. í Norðvestur- og Suðvesturkjördæmi. Flestir muna t.d. eftir darraðardansinum sem varð um leiðtogastólinn í kraganum þar sem SJS beitti sér.

Það vekur mikla athygli að stjórn kjördæmisráðs VG í Suðurkjördæmi sæki leiðtogaframbjóðanda í Atla Gíslasyni, lögmanni. Það er nokkuð merkilegt að þeir vinstrimenn sem gagnrýndu innkomu Árna M. Mathiesen inn í þingframboð í Suðurkjördæmi þar sem hann fer í prófkjör finni ekki að því hvernig rauðum dregli er hent inn fyrir Atla. En þetta er eins og það er. Það stefnir að auki í merkilegt prófkjör hjá VG í þrem kjördæmum, þar sem sameiginleg kosning verður á lista í kraganum og borgarkjördæmunum. Það eru vissulega nokkuð nýir tímar í prófkjörssögu landsins að þar sé kosið í þrem kjördæmum, en borgin er vissulega eitt sveitarfélag.

Hér í Norðausturkjördæmi verður forval skilst manni, þar sem fólk getur gefið kost á sér og flokksmenn geta nefnt ný nöfn. Er á hólminn kemur er það mál kjörnefndar að stilla upp listanum til kjördæmisþings. Ég er svolítið hissa á Steingrími J. að hafa ekki prófkjör með því lagi og þar sé gefið færi á jafnmikilli spennu og einkennir t.d. nú framboðsmálin hjá okkur sjálfstæðismönnum og samfylkingarmönnum. En kannski er það ekkert undarlegt með hliðsjón af skrifum Þórarins. Það var fróðlegt að lesa hana og sjá hvernig að vinstrisinnaður hugsjónamaður lítur á flokkinn sinn.

Jón Gunnarsson í þingframboð

Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi, hefur nú tilkynnt um þingframboð sitt í kraganum og býður sig fram í fjórða sætið. Hann stefnir því á sama sætið og Sigurrós Þorgrímsdóttir, alþingismaður og bæjarfulltrúi í Kópavogi, Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og Bryndís Haraldsdóttir, varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Það stefnir því í hörkuspennandi slag um þetta sæti. Um þriðja sætið munu svo allavega berjast þau Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, og Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi.

Eins og vel hefur komið fram áður stefnir flest í að enginn fari fram gegn Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, og Bjarna Benediktssyni, alþingismanni, sem hafa gefið kost á sér í fyrsta og annað sætið, en þau eru einu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi kjörnir 2003 sem gefa kost á sér til endurkjörs. Sigurrós varð formlega alþingismaður í Suðvesturkjördæmi í maílok þegar að Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði formlega af sér þingmennsku, en hún tók þó oft sæti á þingi á kjörtímabilinu, bæði við ársleyfi Gunnars og í fæðingarorlofi Þorgerðar Katrínar á þingvetrinum 2003.

Þetta verður því greinilega spennandi prófkjör um neðri sætin, þriðja til sjötta, að öllum líkindum. Það er þó mjög merkilegt að formaður fulltrúaráðsins í Kópavogi berjist við bæjarfulltrúa og þingmann úr Kópavogi um sama sætið. En það er fyrir öllu að spennandi prófkjör verði í kraganum og það er ljóst að nokkur spenna verður á kjördag, 11. nóvember nk.


mbl.is Jón Gunnarsson býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Baldvin og hlerunarmálið

Jón Baldvin

Enn skrautlegri verður atburðarásin í hlerunarmálinu svokallaða sem snýr að Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrrum utanríkisráðherra og formanni Alþýðuflokksins. Jón Baldvin hefur nú staðfest sjálfur að hann lét ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995 ekki vita af þessu og væntanlega lét hann ekki heldur samherja sína innan Alþýðuflokksins vita af því heldur. Ef marka má Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þeim tíma, sem var nánasti samstarfsmaður Jóns Baldvins í formannstíð hans vissi hann ekki af þessu á þeim tíma sem þetta á að hafa gerst. Þetta er því að öllu leyti verulega flókið og undarlegt mál.

Skv. upplýsingum Jóns Baldvins í viðtali í dag stendur hann fullyrðingar sínar þess efnis að tæknimenntaður maður eigi að hafa sagt við sig að skrifborðssími hans í utanríkisráðuneytinu hafi verið hleraður. Hann segist í gær hafa fengið staðfestingu þessa eftir að hafa talað við fyrrum yfirmann í tæknideild Landssímans. Þetta er nokkuð kostulegt. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvað gerist núna, heldur hvað gerðist og hvernig á þeim tíma sem upp á að hafa komist. Það er með algjörum ólíkindum að Jón Baldvin hafi ekki gert málið opinbert í utanríkisráðherratíð sinni og ekki heldur gert nánum samstarfsmönnum sínum á stjórnmálavettvangi grein fyrir því.

Jón Baldvin virðist velja morgunþátt Jóhanns Haukssonar sem vettvang uppljóstrana af svo stóru tagi. Í morgun var hann þar aftur að ræða þessi mál af krafti. Ég verð að segja það alveg eins og er fyrir mig að ég undrast framgöngu og talanda Jóns Baldvins. Hví var þetta ekki gert opinbert eða rannsakað fyrir þrettán árum? Við hvað á Jón Baldvin að hafa verið hræddur? Við erum ekki að tala um neinn undirmálsmann í íslenskum stjórnmálum. Jón Baldvin gekk frá tveimur ríkisstjórnum á sínum stjórnmálaferli, bæði ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar árið 1988 og svo hljóp hann á brott frá Steingrími og Ólafi Ragnari árið 1991 er hann gekk til stjórnarsamstarfs með Davíð Oddssyni.

Ef marka má talsmáta Jóns Baldvins segir hann nú frá því að yfirmaðurinn hjá tæknideild Símans eigi að hafa tekið eftir ókunnugum manni í tengigrindarsal Landssímans sem hefði setið þar með hlustunartæki. Yfirmaðurinn eigi að hafa hlustað á þegar að maðurinn skrapp frá og þar hafi hann heyrt samtal Jóns Baldvins við háttsettan mann. Mér finnst þetta svo alvarlegt mál að viðkomandi maður á að koma fram og greina frá því sem hann vissi um og undir nafni auðvitað. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það þarf nú allt að koma fram í þessum efnum. Mér finnst þetta vera svo alvarlegt mál í alla staði að öll atriði verði að koma fram. Það er ekki viðunandi að hafa málið svona.

Eftir stendur að Jón Baldvin sat á þessum upplýsingum með að hafa vitað af síminn eigi að hafa verið hleraður í heil 13 ár. Það er ótrúlega langur tími og með ólíkindum alveg hreint að hann hafi ekkert notað málið sér í hag, t.d. þegar að Alþýðuflokkurinn klofnaði og gekk í gegnum mörg siðferðishneykslismál. Það eru því margar spurningar sem eftir standa. Þeim verður að svara. Undarlegast af öllu er að Jón Baldvin hafi ekki greint neinum samstarfsmanni sínum frá þessu, t.d. ekki forsætisráðherranum og dómsmálaráðherranum. Þetta er svo gríðarlega stórt mál að það er engin heil brú í því að ekki hafi málið verið rætt í valdatíð þessarar ríkisstjórnar fyrir 13 árum.

Í gær gagnrýndi Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, Jón Baldvin og framkomu hans síðustu daga, enda hefði hann ekki rætt málið innan ríkisstjórnarinnar. Það vekur enda athygli t.d. að Jón Baldvin nefndi þetta mál ekki í þrengingunum í kosningabaráttunni 1995 og ekki heldur eftir að Davíð sleit samstarfinu við Alþýðuflokkinn vorið 1995. Það eru því margar spurningar í málinu.

Það er ekki nóg fyrir Jón Baldvin að gefa í skyn að samstarfið hafi verið veikt, enda vita allir að hann íhugaði annað stjórnarmynstur í miðju þessu samstarfi. Það kemur fram í ævisögu Steingríms Hermannssonar. Það verður seint sagt að Jón Baldvin hafi verið neyddur til samstarfs við Davíð. Það var jú Jón Baldvin sjálfur sem tryggði að Davíð varð forsætisráðherra árið 1991.


Ólöf Nordal gefur kost á sér

Ólöf Nordal

Ólöf Nordal, framkvæmdastjóri á Egilsstöðum og formaður sjálfstæðiskvenfélagsins á Fljótsdalshéraði, hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Það er mjög merkilegt að Ólöf gefi kost á sér, að mínu mati. Hún er fyrsti formaður kvenfélags flokksins fyrir austan og hefur verið mjög öflug í starfinu þar eftir að hún fluttist austur fyrir nokkrum árum.

Ólöf er eiginkona Tómasar Más Sigurðarsonar, forstjóra Fjarðaáls (Alcoa) og dóttir Jóhannesar Nordal, fyrrum seðlabankastjóra.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig staða hennar verður í væntanlegu prófkjöri, en það mun væntanlega verða fyrir lok næsta mánaðar og verða samþykkt á kjördæmisþingi um helgina.

mbl.is Ólöf Nordal stefnir á 2. sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnarsamkomulag undirritað í Washington

Geir H. Haarde og dr. Condoleezza Rice

Dr. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hafa nú undirritað samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um framtíðartilhögun varna Íslands. Með því er búið að ganga frá öllum lausum endum í þeim málum og ný framtíð tekur við í kjölfarið. Reyndar er hún þegar orðin staðreynd, enda er auðvitað herinn farinn af Miðnesheiði og langri sögu Bandaríkjahers á Íslandi því liðin undir lok. Ég hef ekkert farið leynt með það að mér fannst framkoma Bandaríkjastjórnar við okkur er einhliða var tilkynnt um endalok herstöðvarinnar í mars fyrir neðan allar hellur og ekki þeim til sóma.

Varnarsamningurinn var endaspil í stöðu sem við gátum ekki snúið okkur í vil. Það er bara eins og það er. Ég var ánægður með að heyra skoðun Davíðs Oddssonar, fyrrum forsætisráðherra, á þessu máli í fréttatímanum hjá Stöð 2 í kvöld. Við erum algjörlega sammála. Við áttum ekki að láta bjóða okkur neinn afgang heldur að berja hnefanum í borðið. Það má vel vera að við hefðum ekki fengið neitt betra með því en með því hefðum við getað sýnt okkar rétta andlit. Íslendingar eiga að vera menn til að geta af hörku verið eigin herrar og verið ófeimnir að láta til sín taka. Mér hefur fundist það vera því miður skilningsleysi fyrir okkar þarfir í forsetatíð George W. Bush og svo mikið er víst að ekki hefur verið hlustað neitt á okkar hlið. Þetta varð allavega erfiðara eftir að Davíð hætti.

Það er enginn vafi á því að sá sem ber ábyrgð á framkomunni við okkur er Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Mér finnst hann eiga lítið skilið af virðingu úr okkar herbúðum og frekar dapurlegt er nú að sá maður sé enn á ráðherrastóli í Pentagon. Það færi vel á því að Bush léti hann gossa fyrir þingkosningarnar til að reyna að bjarga því sem bjargað verður hjá repúblikönum í erfiðri stöðu núna. Rumsfeld átti reyndar að gossa fannst mér sumarið 2004 þegar að fram komu upplýsingar og síðar sannanir um pyntingar stríðsfanga í Írak. Það var óverjandi mál og þá átti að láta ráðherrann fara. Ég ætla að vona að hann hrökklist frá fyrir lok forsetaferils Bush.

Valgerður Sverrisdóttir og dr. Condoleezza Rice

Mér skilst að Condi Rice ætli að koma til Íslands bráðlega í opinbera heimsókn. Það eru svo sannarlega gleðitíðindi, enda kominn tími til að hún komi hingað og kynni sér stöðu mála. Það hefði betur gerst meðan að viðræðurnar stóðu um varnarmálin. Vissulega eru málefni Íslands lítill dropi í úthafi alþjóðastjórnmála. En það hafa lengi verið vinatengsl með þjóðunum og þau eiga stjórnarherrar vestra að virða meira en gert hefur verið á síðustu þrem árunum. Mér fannst t.d. mjög vandræðalegt fyrir ráðherrana okkar þegar að Condi talaði um Írland en ekki Ísland á viðkvæmum punkti blaðamannafundar hennar og forsætisráðherrans. Allavega mín skoðun.

Ég hef alltaf verið talsmaður vestræns samstarfs, góðs samstarfs Íslands og Bandaríkjanna. Mér finnst það skipta almennt séð miklu máli. En það verður að vera samstarf útfrá gagnkvæmri virðingu, það getur ekki bara verið einhliða úr okkar átt, finnst mér. Það verður aldrei neitt úr neinu sem einhliða telst. Einhliða brot á tvíhliða varnarsamningi sem við urðum vitni að lögðu flein í þetta farsæla samstarf sem tekur tíma að laga. Það verður fróðlegt að fylgjast með samskiptum þjóðanna næstu árin, þann tíma sem George W. Bush á eftir á forsetastóli, en nú styttist óðum í forsetaskipti vestanhafs.

mbl.is Rice þekkist boð Valgerðar um að koma í heimsókn til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reffilegur Árni á prófkjörsskrifstofunum

Árni og Björn

Hef verið að fara yfir vefi prófkjörsframbjóðandanna í Reykjavík. Vel gerðar heimasíður og gaman að sjá hversu vel frambjóðendur standa sig í þessum efnum. Það skiptir verulega miklu máli í dag að vera með góða heimasíðu ætli fólk í prófkjör. Heimasíðu með innihaldi og krafti. Það vill enginn sjá lengur illa uppfærða og lítt hugsaða vefi, þeir eru mun frekar til marks um dugleysi frambjóðandanna en hitt.

Gladdist mjög að skoða myndasíður á vefum Björns Bjarnasonar, Sigurðar Kára og Ástu Möller. Þar eru myndir af frænda mínum, Árna Helgasyni úr Stykkishólmi með frambjóðendunum. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað hann er ern og hress. Árni og móðir mín eru systkinabörn. Hefur mér alla tíð þótt mjög vænt um Árna og metið hann mikils. Hann er landsþekktur fyrir störf sín og flokksstarf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Ennfremur er hann vel þekktur fyrir að vera rómaður bindindismaður.

Árni er 92 ára að aldri – reffilegur og virðulegur heiðursmaður. Hann hefur setið alla landsfundi frá árinu 1944 og vel þekktur innan flokksins. Árni er fæddur og uppalinn á Eskifirði. Flutti hann í Hólminn í upphafi fimmta áratugarins og hefur búið þar síðan. Þangað fluttu ennfremur tveir bræður móður minnar, Kristinn og Guðni Friðrikssynir. Settu þeir ekki síður svip á samfélagið þar en Árni.

Ragnhildur, Ásta og Árni

Voru þeir til fjölda ára allir öflugir í starfi flokksins í bænum og var Ellert Kristinsson, frændi minn, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins um tíma í bæjarstjórn Stykkishólms. Árni var árinu yngri en amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir. Voru þau æskufélagar og hélst vinátta þeirra alla tíð. Það er því gaman að sjá þessar myndir og greinilegt að Árni fylgist vel með stjórnmálunum enn og er vel inn í málum í prófkjörsmálunum.

Birti hérna mynd af Árna með Birni Bjarnasyni og hin sýnir hann með Ástu Möller og Ragnhildi Helgadóttur, fyrrum menntamálaráðherra.

Bloggfærslur 12. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband