9.10.2006 | 23:14
Kristján Þór Júlíusson í leiðtogaframboð
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, tilkynnti á fjölmennum aðalfundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna hér á Akureyri í kvöld að hann sæktist eftir fyrsta sætinu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Orðrómur hafði verið mikill síðustu mánuði að hann stefndi á þingframboð og varla vafi í huga flokksmanna hér á Akureyri að hann myndi fara fram, eftir að Halldór Blöndal, alþingismaður, tilkynnti formlega um að hann myndi draga sig í hlé að vori. Fyrr í dag gaf Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, út yfirlýsingu um leiðtogaframboð sitt og í september tilkynnti Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, um framboð sitt í fyrsta sætið.
Kristján Þór Júlíusson var bæjarstjóri á Dalvík 1986-1994, á Ísafirði 1994-1997 og hefur verið bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri allt frá árinu 1998 og leitt flokkinn hér í bænum í þrennum kosningum. Kristján Þór hefur verið lengi virkur í stjórnmálum og unnið ötullega fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það kemur því engum að óvörum hér á þessum slóðum og væntanlega víðar, sem kynnst hafa Kristjáni Þór í flokksstarfinu að hann hafi áhuga á að sækja fram til forystu í Norðausturkjördæmi. Nú stefnir í spennandi prófkjör þar sem flokksmenn hafa góða valkosti til forystu. Kjördæmisþing mun formlega taka ákvörðun væntanlega um prófkjör um helgina.
Kristján Þór gaf kost á sér til varaformennsku á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir ári. Hann hlaut tæplega 40% atkvæða og beið því lægri hlut í snörpum varaformannsslag við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra. Þá þegar varð orðrómurinn um þingframboðið sterkur og talið víst að landsmálin væru innan seilingar. Þetta er því rökrétt framhald þess sem nú hefur gerst. Í bæjarstjórnarkosningunum í vor gengu fjölmiðlamenn mjög nærri Kristjáni Þór með að fá svör um þingframboð og var um fátt meira talað í kosningabaráttunni en mögulegt landsmálaframboð bæjarstjórans.
Aðalfundur fulltrúaráðsins tókst mjög vel í alla staði. Þetta var góður og öflugur fundur, þar sem farið var yfir málin í aðdraganda kjördæmisþingsins um helgina og rædd staða mála á kjördæmavísu. Viðstödd fundinn voru allir leiðtogaframbjóðendurnir þrír og ávörpuðu Arnbjörg og Þorvaldur fundinn auk Kristjáns Þórs. Björn Magnússon var endurkjörinn formaður fulltrúaráðsins og engin breyting varð á skipan aðalmanna er kjörnir eru á aðalfundi. Ný lög fulltrúaráðsins voru samþykkt á fundinum, en þau hafa verið óbreytt frá árinu 1999.
![]() |
Kristján Þór Júlíusson sækist eftir fyrsta sæti í Norðausturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2006 | 16:52
Stöð 2 20 ára
Í dag eru 20 ár frá því að Stöð 2 hóf útsendingar. Stöð 2 hefur fyrir löngu markað sér sess í sjónvarpssögu landsins. Hún var fyrsta einkarekna sjónvarpsstöðin sem hóf útsendingar hérlendis. Stöð 2 hóf útsendingar að kvöldi fimmtudagsins 9. október 1986 með ávarpi sjónvarpsstjórans, Jóns Óttars Ragnarssonar. Ávarpið fór út hljóðlaust og tæknibilanir hrjáðu stöðina í fyrstu og t.d. varð fyrstu tvær vikurnar að taka upp fréttatímann fyrirfram til að sýna á stöðinni. Á fyrsta útsendingardeginum kom Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, til landsins á leiðtogafund sinn með Mikhail Gorbachev, leiðtoga Sovétríkjanna, sem stóð í Reykjavík dagana 11. og 12. október 1986.
Þó að tæknibilanir og erfiðleikar hafi gert það að verkum að stöðin gat ekki fjallað um leiðtogafundinn með viðunandi hætti varð það fall í raun fararheill. Stöðin var stofnuð í upphafi af Jóni Óttari, Ólafi Jónssyni og Hans Kristjáni Árnasyni. Djörfung þeirra og ákveðni reif stöðina upp fyrsta og í raun erfiðasta hjallann. Þeir lögðu út í mikla innlenda dagskrárgerð og voru menn framkvæmda og krafts í forystu Stöðvar 2. Miklir fjárhagserfiðleikar á fyrstu árunum leiddu að lokum til þess að þeir misstu yfirstjórnina úr sínum höndum árið 1990 og nýjir fjárfestar tóku yfir stjórn Stöðvar 2. Þó er það öllum ljóst að án krafts Jóns Óttars og Hans Kristjáns hefði stöðin aldrei orðið eitt né neitt.
Í 55 ár var einkaaðilum bannað að reka ljósvakamiðla. Í verkfalli opinberra starfsmanna árið 1984 lamaðist starfsemi Ríkisútvarpsins. Leiddi það til endurskoðunar á útvarpslögum undir forystu Ragnhildar Helgadóttur, menntamálaráðherra, í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ný útvarpslög sem heimiluðu einkaaðilum að reka ljósvakamiðla var samþykkt í júní 1985. Bylgjan hóf fyrst einkarekinna útvarpsstöðva útsendingar hérlendis í ágúst 1986. Hugmyndin á bakvið Stöð 2 var vissulega metin djörf á sínum tíma. Vissulega voru rekstrarerfiðleikar lengi meginstef í sögu Stöðvar 2, en víst er að enginn hefði viljað vera án þeirra þáttaskila sem stöðin markaði.
Á 20 árum hefur Stöð 2 sannað fyrir okkur öllum mikilvægi tilveru sinnar svo um munar. Stofnun hennar markaði mikil þáttaskil í fjölmiðlasögu landsins. Það er því svo sannarlega rétt að óska starfsmönnum og eigendum Stöðvar 2 til hamingju með daginn. Stöð 2 gegnir enn gríðarlega mikilvægu hlutverki í frjálsri fjölmiðlum. Hún varð fyrst sjónvarpsstöðvanna sem til urðu eftir að ríkiseinokunin var afnumin og vegna þess er hún okkur frelsisunnendum og hægrimönnum svo kær. Megi hún lengi lifa.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2006 | 12:03
Þorvaldur Ingvarsson í leiðtogaframboð

Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, sendi út fréttatilkynningu fyrir stundu þar sem hann tilkynnir að hann gefi kost á sér í fyrsta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þorvaldur nam læknisfræði við Háskóla Íslands en hélt til framhaldsnáms í bæklunarlækningum í Svíþjóð og lauk doktorsprófi við Háskólann í Lundi. Hann hefur öðlast víðtæka reynslu innan heilbrigðisgeirans, starfað sem læknir og stundað jafnhliða því sérfræðistörf, kennslu og stjórnun. Hann hefur verið framkvæmdastjóri lækninga við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri frá árinu 1998.
Þorvaldur Ingvarsson skipaði sjötta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 2003. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar allt frá haustinu 2003 og setið í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri frá þeim tíma. Þorvaldur hefur lengi talað um þingframboð sitt og hefur nú ákveðið sig í þeim efnum. Þegar í sumar sagði hann í viðtali við blaðið Vikudag hér á Akureyri að hann myndi gefa kost á sér í efstu sæti og tiltók þá þegar 1. - 3. sætið.
Þessi framboðsyfirlýsing Þorvaldar Ingvarssonar hleypir lífi í framboðsmál okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu. Búast má við að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, muni síðar í dag tilkynna ennfremur um leiðtogaframboð sitt. Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi verður haldið um næstu helgi og verður þá ákveðið hvernig skipan efstu sæta framboðslistans verður ákveðin. Tillaga stjórnar kjördæmisráðsins er að fram muni fara prófkjör.
Ég spáði því í færslu minni á vefnum á laugardag að bæði Þorvaldur og Kristján tilkynntu leiðtogaframboð í dag, mánudag, og það mun ganga eftir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2006 | 11:19
Matarverð lækkar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, kynntu á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum nú kl. 11:00 tillögur ríkisstjórnarinnar til lækkunar matarverðs. Þar eru mikil tíðindi að gerast svo sannarlega. Stefnt er að því að vörugjald af innlendri matvöru verði að fullu afnumið frá 1. mars nk. Sama dag mun virðisaukaskattur af matvælum, sem nú er 14%, verða 7% og sömuleiðis verður það 7% af þeim mat sem nú er í 24%. Ennfremur mun virðisaukaskattur af veitingaþjónustu sem nú er 24,5% lækka niður í 7%. Almennir innflutningstollar af kjötvöru mun lækka um allt að 40% samhliða þessu.
Um er að ræða mikil þáttaskil. Þetta er sannkallað gleðiefni fyrir alla neytendur. Þessar aðgerðir munu miðast við að færa almennt matarverð til jafns við meðalverð á matvörum sem gengur og gerist almennt hér á Norðurlöndunum. Þetta eru mjög góðar tillögur, sem eru öflugar og afgerandi. Á þeim var svo sannarlega þörf. Það var orðið vel ljóst að matarverð hér var alltof hátt og róttækra aðgerða var þörf. Við því var brugðist með vinnu stjórnarflokkanna sem lýkur með þessari farsælu niðurstöðu.
Skýrsla Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra, í sumar markaði þáttaskil. Um var að ræða niðurstöður hans sem formanns matarverðsnefndarinnar, sem skipuð var af Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins. Skýrslan var afgerandi og tók af skarið svo um munaði. Eftir það var ekki spurning um hvort heldur hvenær gripið yrði til róttækra aðgerða í þessum efnum.
![]() |
Virðisaukaskattur og tollar af matvælum lækka 1. mars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2006 | 10:16
The Departed beint á toppinn í USA

Það kemur ekki okkur kvikmyndaaðdáendum á óvart að nýjasta kvikmynd meistara Martin Scorsese, The Departed, fari beint á toppinn í Bandaríkjunum á opnunarhelgi. Mér skilst að þetta sé algjör dúndurmynd. Hún fær góða dóma og mikið lof kvikmyndaspekúlantanna vestanhafs. Þetta er stjörnum prýdd eðalmynd og gæti orðið öflug þegar að kemur að Óskarsverðlaununum í febrúarlok. Í aðalhlutverkum eru leikararnir Jack Nicholson, Leonardo DiCaprio, Matt Damon, Martin Sheen og Alec Baldwin. Þetta er víst topplöggumynd með rétta plottinu og er víst algjör gullmoli.
Ég hef allavega heyrt virkilega góðar sögur um þessa mynd og hlakka mjög til að sjá hana. Sumir spekingar vestanhafs eru þegar farnir að spá því að hún fái óskarinn sem besta mynd ársins 2006. Martin Scorsese er einn meistaranna í kvikmyndagerð síðustu áratuga í Hollywood. Ég skrifaði ítarlegan leikstjórapistil um Scorsese árið 2003 á vefinn kvikmyndir.com og fór þar yfir flottan leikstjóraferil hans með mínum hætti. Það er svona mín úttekt á þessum merka ferli fram til þess tíma.
Að baki eru meistaraverk á borð við Taxi Driver, Raging Bull, Goodfellas, Gangs of New York, The Aviator og Mean Streets. Það er þó svo að Martin Scorsese hefur aldrei fengið viðurkenningu frá bandarísku kvikmyndaakademíunni. Hann hefur t.d. aldrei hlotið leikstjóraóskarinn. Hann hefur fimm sinnum verið tilnefndur. Töldu flestir hans stund komna hið minnsta árið 2005 en þá hlaut The Aviator flest óskarsverðlaun, en ekki í stærstu flokkunum. Clint Eastwood náði þá leikstjóraóskarnum.
Það verður spennandi að sjá þessa nýju mynd og kannski verður hún sú mynd sem loksins færir honum Óskar frænda eftir allt saman. Allavega, þessi mynd lofar góðu.
![]() |
Ný mynd Martin Scorsese beint á toppinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)