Yndislegar jólamyndir

Um jólin er svo sannarlega viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna og eða bara létta og kæta hugarþelið. Nokkrar þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.


It´s a Wonderful LifeKvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Sextug eðalmynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð.

Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða. Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, að mínu mati er þetta ein af bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum.

Myndin var tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2006 og 1946, fyrir sex áratugum er hún var frumsýnd. Sígildur boðskapurinn á alltaf við. Fastur partur á jólunum - ómissandi þáttur heilagra jóla að mínu mati.


Miracle on 34th StreetEin besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood, Maureen O'Hara og Thelmu Ritter í aðalhlutverkum.

Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök.


Love ActuallyEin af bestu jólamyndum seinni tíma er hin óviðjafnanlega breska gamanmynd Love Actually. Hún hefur verið mér mjög kær allt frá því að ég sá hana fyrst í bíói fyrir þrem árum. Þetta er í senn bæði ljúf og sykursæt mynd. Í aðalhlutverki eru Hugh Grant, Liam Neeson, Emma Thompson, Alan Rickman, Keira Knightley og Rowan Atkinson. Semsagt topplið breskra leikara. Þessi góða ástarsaga fjallar um átta mjög ólík pör í London rétt fyrir jól, sem glíma við ýmis vandamál í ástarlífinu.

Ástin er þemað í myndinni. Saga þessa ólíka fólks spinnst mjög skemmtilega saman í lok hennar. Mögnuð mynd sem ég mæli eindregið með. Er algjörlega fullkomin. Punkurinn yfir i-ið er flottur flutningur Billy Mack (í glæsilegri túlkun Bill Nighy) á laginu Christmas is all around (áður Love is all around með Wet, Wet, Wet). Þessi er alveg ómissandi yfir jólin seinni árin - verður svo væntanlega um ókomin ár!


Home AloneJólin verða ekki fullkomnuð fyrr en horft hefur verið á hinar ómótstæðilegu Home Alone I og II. Frábærar jólamyndir. Kevin McAllister er fyrir hin mestu mistök skilinn eftir einn heima á meðan að fjölskyldan er á leið í jólaleyfi til Parísar. Á meðan reyna tveir misheppnaðir þjófar sig að gera sig heimakomna heima hjá Kevin og stela þar öllu steini léttara. Kevin grípur til varna og reynir allt sem hann getur til að bjarga heimili sínu frá þjófunum. Sprenghlægileg og flott. Myndin sem gerði Macaulay Culkin að stjörnu. Joe Pesci og Daniel Stern eiga stórleik sem þjófarnir.

Í Home Alone gerist hið sama að fjölskyldan gleymir Kevin, en í þetta skiptið verður hún viðskila við hann í flugstöðinni þar sem þau eru á leið til Hawaii í jólaleyfi. Kevin tekur vitlausa vél og endar í New York, borg háhýsanna. Hann tékkar sig þar inn á Plaza, með öllum þeim mögnuðu tækifærum sem því fylgir. Á leið um borgina hittir hann þjófana sem reyndu allt sem þeir gátu til að ræna heimilið hans, en þeir eru þá sloppnir úr fangelsi. Þeir eiga harma að hefna gegn Kevin, sem ver sig með kjafti og klóm. Frábær kvikmynd. Culkin, Pesci og Stern í toppformi en senuþjófurinn er óskarsverðlaunaleikkonan Brenda Fricker í hlutverki hinnar kærleiksríku dúfnakonu. Báðar ómissandi um jólin.


National Lampoon´s Christmas VacationFastur hluti jólanna er svo auðvitað að sjá National Lampoon´s Christmas Vacation. Chevy Chase leikur fullkomnunarsinnann Clark Griswold enn eina ferðina. Að þessu sinni ætlar hann að gera fullkomnustu jól fjölskyldunnar fyrr og síðar að veruleika. Hann telur sig eiga von á hnausþykkum jólabónus sem kengur er í og leggur allt sitt í að skreyta húsið og gera allt sem best er nokkur möguleiki er að tryggja. Allt fer hinsvegar úrskeiðis sem getur mögulega gert það. Hápunkti nær það þegar að bróðir Clarks mætir með fjölskylduna og þá fyrst fer sælan að fara í vaskinn.

Þessi mynd er pottþétt. Gott dæmi um að plana ekki of mikið jólin að hætti fullkomnunar, heldur njóta þess sem maður á og gera gott úr lífinu. En þessi verður aldrei léleg. Sérstaklega fannst mér hún frábær þegar að ég dró hana fram nú skömmu eftir helgina. Fór endanlega í ekta gott jólaskap. Það ættu allir að geta hlegið frá sér allt vit og forpokaða skammdegisfýlu yfir þessari mögnuðu mynd.


Fleiri myndir mætti nefna t.d. Elf, Meet me in St. Louis (þar sem Judy Garland söng allra fyrst hið ódauðlega Have Yourself a Merry Little Christmas),  Die Hard I og II (sem báðar gerast á jólahátíð), Scrooge, A Christmas Story, How the Grinch Stole Christmas (1966-útgáfan), A Charlie Brown Christmas, A Christmas Carol, The Santa Clause, Frosty the Snowman, Surviving Christmas, The Shop Around the Corner (jamm vissulega ekki jólamynd en jólaandinn í lok myndarinnar er óviðjafnanlegur), The Ref, White Christmas, The Nightmare Before Christmas og Family Man.

Ef þið eigið uppáhaldsjólamynd, endilega kommenta þá hér með þær.

Vonandi eigið þið annars góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum. Það er nóg af góðum myndum um jólin í bíó. Meðal þess sem verður sýnt er auðvitað íslenska kvikmyndin Köld slóð. Hana ætla ég svo sannarlega að sjá. Nóg af úrvalsefni er allavega í boði í kvikmyndahúsunum. Gott úrval kvikmynda og þátta verður svo í sjónvarpi yfir jólin.


Sigurstranglegir framboðslistar í Reykjavík

Geir H. Haarde Framboðslistar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveim fyrir komandi þingkosningar voru samþykktur á fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Valhöll síðdegis í dag. Ekki er hægt að segja annað en að listarnir séu mjög sigurstranglegir og vel saman settir af kjörnefnd eftir prófkjörið í október. Efstu sex sæti beggja listanna eru í samræmi við prófkjörsúrslitin.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, leiða listana. Geir, sem er fyrsti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, mun leiða listann áfram í suðurhlutanum og Guðlaugur Þór leiðir listann í norðurhlutanum en þar leiddi Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, framboðslistann í alþingiskosningunum 2003.

Sjöunda sætið í Reykjavík suður skipar Erla Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Heimdallar, og sjöunda sætið í Reykjavík norður skipar Auður Guðmundsdóttir, markaðsstjóri og MBA. Heiðurssæti framboðslistanna skipa Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, og Guðmundur Hallvarðsson, alþingismaður, sem setið hafa bæði á Alþingi frá árinu 1991 en gefa ekki kost á sér endurkjörs á Alþingi nú. Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, skipar svo 21. sætið í Reykjavík suður.

Framboðslistar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

mbl.is Framboðslistar Sjálfstæðisflokks í Reykjavík samþykktir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný hlið á umræðunni um Guðmund og Byrgið

Byrgið Umræða um málefni Byrgisins virðist vera að taka nýja stefnu. Í kvöldfréttum Stöðvar fyrir stundu var viðtal við 24 ára gamla konu sem segist hafa átt í tveggja ára kynferðislegu ástarsambandi við Guðmund Jónsson, forstöðumann Byrgisins, á meðan að hún var þar í meðferð. Segist hún ætla að höfða mál gegn Guðmundi.

Kemur þetta viðtal í kjölfar umfjöllunar Stöðvar 2 í Kompási um Guðmund og starfshætti hans í Byrginu. Sá þáttur var vægast sagt umdeildur. Eftir þáttinn hafa gengið ávirðingar milli Guðmundar og fréttastofu Stöðvar 2 og er þetta mál orðið ótrúlega flókið og undarlegt.

Mun verða ítarlegt viðtal við þessa konu í Íslandi í dag á næstu mínútum.

Engin hlerun á símum Jóns Baldvins

Jón Baldvin Hannibalsson Ríkissaksóknari hefur ákveðið að rannsókn verði ekki fram haldið í hlerunarmálinu sem kennt er við Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra og sendiherra. Að mati hans þykja fyrirliggjandi rannsóknargögn að svo stöddu ekki gefa tilefni til þess að haldið verði áfram þeirri rannsókn sem til var stofnað þann 16. október sl. er umræða hófst um hleranir á skrifborðssímum Jóns Baldvins og Árna Páls Árnasonar, þingframbjóðanda Samfylkingarinnar, sem vann í utanríkisráðuneytinu í ráðherratíð Jóns Baldvins.

Með öðrum orðum; það er mat ríkissaksóknara byggt á gögnunum að símarnir hafi ekki verið hleraðir og það segir á einum stað að ekkert hafi fundist sem styðji þau ummæli. Þetta eru vissulega merkileg tíðindi og virðast boða endalok rúmlega tveggja mánaða gamals máls sem hófst með yfirlýsingum Jóns Baldvins sjálfs í viðtali í morgunþætti Jóhanns Haukssonar á Útvarpi Sögu þann 10. október sl. Það voru vissulega mikil tíðindi og settu mark á þjóðmálaumræðuna um nokkuð skeið. Jón Baldvin var utanríkisráðherra á árunum 1988-1995 og sagðist hafa komist að því á árinu 1992 eða 1993 að sími sinn hefði verið hleraður með ábendingum þar um - maður sem hann fékk til að kanna símana hefði sagt þá hleraða.

Í kjölfar ummæla Jóns Baldvins og Árna Páls, sem kom fram með sína sögu í þættinum Silfri Egils þann 15. október sl. ákvað ríkissaksóknari formlega rannsókn á málinu og skipaði Ólaf Hauksson, sýslumann á Akranesi, til verksins. Jón Baldvin fór á þessum tíma í mörg viðtöl og fór yfir sína hlið málsins og sama gerði Árni Páll. Er leið að lokum nóvembermánaðar þótti merkja á blaðaskrifum Jóns Baldvins að hann væri að draga í land í málinu og hopa af velli hægt og rólega. Niðurstaða ríkissaksóknara er þrátt fyrir það merkileg og segir margt um stöðu mála. Greinilega hefur ekkert handbært eða öruggt fundist um málið eða málatilbúnað tvímenninganna.

Í kjölfar allrar þessarar hlerunarumræðu á árinu verður væntanlega kærkomið að leggjast yfir bókina Óvinir ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing. Þá bók hlakkar mér svo sannarlega til að lesa og það mun ég gera um jólahátíðina.

mbl.is Rannsókn á meintum hlerunum ekki haldið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboðslistar í Reykjavík brátt tilkynntir

Sjálfstæðisflokkurinn Tillaga kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að framboðslistum flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur verður borin undir atkvæði flokksmanna í kjördæmisráðinu á fundi í Valhöll innan stundar. Það verður vissulega mjög athyglisvert að sjá framboðslistana í borginni og skipan listanna utan efstu sex sætanna á báðum framboðslistum, sem ákveðin var í prófkjöri þann 27. og 28. október sl.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og fyrrum borgarfulltrúi, munu leiða listana og næstu sætin munu þau Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Guðfinna S. Bjarnadóttir, fráfarandi rektor Háskólans í Reykjavík, skipa. Helst verður væntanlega horft til hverjir skipi sjöunda sætið á báðum listum, en nokkuð víst má telja að Dögg Pálsdóttir og Grazyna M. Okuniewska skipi sjötta sæti listanna, en þær urðu í ellefta og tólfta sætinu í prófkjöri.

Eftir formlega ákvörðun um framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum munu liggja formlega fyrir framboðslistar í fjórum af sex kjördæmum af hálfu flokksins. Framboðslistar í Suður- og Norðausturkjördæmi verða ákveðnir væntanlega á kjördæmisþingum í janúarmánuði.

Jólaafmæli

Jólakúla Ég er einn þeirra fjöldamörgu Íslendinga (við erum mörg, er viss um það :) sem á afmæli í aðdraganda jólahátíðarinnar. Lengst af hefur mér mislíkað þetta mjög, enda verður þetta seint talinn hinn fullkomni tími afmælishalds. Það hefur enda verið svo að ég hef lítið sem ekkert haldið upp á afmælið nú í seinni tíð, ef frá er talið öflugt og gott tvítugsafmæli fyrir tæplega áratug og 25 ára afmælið fyrir nokkrum árum.

Hinsvegar hef ég oft verið með rólegheitaafmælishald heima nær alltaf fyrir vini og nánustu ættingja, en það er svosem ekkert stórt afmælishald. Ég hef ákveðið að halda vel upp á þetta að ári, en þá verður um merkisafmæli að ræða. Ein af vinsælustu spurningunum sem ég hef fengið í áranna rás er hvort ég hafi fengið afmælis- og jólagjöf saman. Góð spurning. Svarið er oft ansi augljóst, en það hefur allavega ekki gert mig ríkan, nema þá kannski andlega, að eiga afmæli á þessum tíma.

Að sumu leyti er afmæli á þessum tíma notalegt. Ég hef lært að sleppa jólastressinu á þessum tíma og klára jólaundirbúninginn tiltölulega snemma og njóta þessa tíma eins mikið og mögulega hægt er. Þetta á að vera notalegur og góður tími. Við eigum enda að meta boðskap jólanna og hugsa vel um hann; ekki að drekkja okkur sjálfum í stressi og ergju þess sem fylgir því að vera fastur í búðum fram til hádegis á aðfangadaginn.

Björn Bjarnason vildi leika á móti Penelope Cruz

Björn Bjarnason Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, er mikill kvikmyndaunnandi eins og vel hefur sést t.d. á vef hans, þar sem hann hefur skrifað nokkuð um kvikmyndir og fjallaði þar t.d. nýlega yfir nýjustu James Bond-kvikmyndina, Casino Royale, og The Departed, nýjustu kvikmynd Martin Scorsese, sem mikið er orðuð við Óskarinn, sem afhentur verður í febrúar. Í Fréttablaðinu í dag er Björn mikið spurður út í kvikmyndir og aðdáun sína á þeim í spurningadálknum um kvikmyndir þar sem fjöldi kvikmyndaáhugamanna hefur verið spurður áður.

Þar segist Björn aðspurður helst myndu vilja leika á móti spænsku leikkonunni Penelope Cruz ef hann mætti velja sér kvikmynd til að leika í, söguþráðinn, leikstjórann og leikara með sér. Nefnir hann Cruz og Baltasar Kormák og myndin yrði spennumynd með sagnfræðilegu ívafi. Við Björn erum mjög sammála um kvikmyndir þykir mér heilt yfir. Hann nefnir Marlon Brando, sem mestu kvikmyndastjörnuna í kvikmyndasögunni og telur dr. Hannibal Lecter mesta skúrkinn. Hefur þetta lengi verið mitt mat líka.

Björn segir að þýska úrvalsmyndin Der Untergang hafi haft mest áhrif á hann í bíó og hann telur Pál í Englum alheimsins uppáhalds íslensku kvikmyndapersónuna. Hann telur Marge Gunderson (í túlkun Frances McDormand) mestu hetjuna á hvíta tjaldinu og minnist á að versta mynd sem hann hafi séð hafi verið mynd með Steven Seagal. Þar er ég svo sannarlega sammála honum. Mér finnst þetta skemmtilegur spurningaflokkur hjá Fréttablaðinu.

Kvikmyndaáhugamenn eru margir og mjög ólíkir og fínt að skyggnast svona inn í kvikmyndapælingar þeirra. Ég verð þó að viðurkenna að ég taldi að John McClane í ógleymanlegri túlkun Bruce Willis í Die Hard-seríunni væri mesta hetja hvíta tjaldsins að hans mati og kom valið því á Marge skemmtilega á óvart. En gaman af þessu.

Túrkmenabashi bráðkvaddur

Saparmurat Niyazov Í yfir tvo áratugi stjórnaði Saparamurat Niyazov, forseti Túrkmenistans, ríki sínu með harðri hendi og var að fyrirskipan stjórnar sinnar ígildi Guðs þar. Einu gat þó einræðisherrann, sem nefndur var Túrkmenabashi hinn mikli, ekki ráðið frekar en aðrir; dauðanum. Hann varð bráðkvaddur í nótt, 66 ára að aldri, er hann lést úr hjartaáfalli. Skv. tilkynningu nú í morgun verður hann jarðsunginn á aðfangadag. 

Niyazov hefur ríkt í Túrkmenistan frá árinu 1985, á meðan það tilheyrði enn gömlu Sovétríkjunum. Hann hefur ríkt þar sem einræðisherra frá falli kommúnismans í upphafi tíunda áratugarins. Persónudýrkun hans í nafni kommúnismans varð svo yfirþyrmandi að hann var nefndur faðir allra Turkmena og var landið allt veggfóðrað af myndum af honum og hann var dýrkaður sem trúarleg fígúra væri.

Segja má að persónuleg dýrkun á einum dauðlegum manni hafi sjaldan verið meiri en einmitt í Túrkmenistan valdatíðar Túrkmenabasha. Það verður fróðlegt að sjá hver tekur við völdunum í svona kúguðu einræðisríki kommúnisma við þessar aðstæður sem nú eru.

mbl.is Forseti Túrkmenistans látinn 66 ára að aldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arnaldur og Ragna með vinsælustu bækurnar

Konungsbók Það stefnir flest í að Konungsbók, eftir Arnald Indriðason, verði metsölubókin í flokki skáldsagna þessi jólin. Kemur það svo sannarlega ekki að óvörum, enda hefur Arnaldur slegið öll met síðustu árin og á söluhæstu bækurnar síðustu ár; Kleifarvatn og Vetrarborgina. Var Konungsbók prentuð í 15.000 eintökum, en það er mesta upplag einnar íslenskrar skáldsögu til þessa í sögu íslenskra bókmennta í fyrsta holli prentunar. Þarna eru þó Erlendur, Elínborg og Sigurður Óli víðsfjarri, heldur er farið á önnur mið í spennunni.

Þetta er tíunda skáldsaga Arnaldar. Sagan gerist að mestu í Kaupmannahöfn árið 1955 og tengist leyndarmáli sem snertir helsta dýrgrip Íslands, Konungsbók Eddukvæða. Aðalsöguhetjan er ungur íslenskufræðingur, Valdemar að nafni. Valdemar heldur til náms í Danmörku, kynnist þar gömlum prófessor og um leið skelfilegu leyndarmáli sem leiðir þá félaga í mikla háskaför um Evrópu, inn í skjalasöfn, grafhýsi, fornbókasölur og á fleiri hættustaði. Þetta er mögnuð og spennandi saga, en með nýjum undirtón af hálfu Arnaldar. Ég las Konungsbók fyrir nokkrum vikum og varð mjög hrifinn af henni. Þetta er góð bók, ný hlið á Arnaldi, ef svo má segja og spennandi saga sem ég hafði gaman af.

Það er alveg ljóst svo að vinsælasta ævisagan þessi jólin verði Ljósið í djúpinu, ævisaga Rögnu Aðalsteinsdóttur frá Laugabóli. Ragna hefur merka sögu að segja, en hún hefur misst mikið gegnum árin og gengið í gegnum mörg lífsins áföll. Það er alveg ljóst að ég stefni að því að lesa ævisögu hennar og ég tel að allir sjái lífið öðrum augum eftir að hafa kynnt sér lífsreynslusögu Rögnu.

mbl.is Bóksölulistinn: Arnaldur og Hagkaup á toppnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband