Bleikar áherslur í bæjarmálunum á Akureyri

Sigrún Björk og Kristján Þór Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, tekur til starfa í Ráðhúsinu hér á Akureyri sem tákn nýrra tíma í bæjarstjóraembættinu. Hún er fyrsta konan sem stýrir Akureyrarbæ og ennfremur með mýkri áherslur og bakgrunn í ljósi þess. Spyrja má sig hvort að bleikar áherslur verði meira áberandi við stjórn bæjarins í ljósi þess að hún verður nú eina konan sem stýrir einu af fimm stærstu sveitarfélögum landsins.

Fáum hefði væntanlega órað fyrir því er Sigrún Björk tók sæti í bæjarstjórn fyrir fimm árum að hún yrði eftirmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar á bæjarstjórastóli, er hann hættir eftir tæpan áratug, nokkuð litríkt tímabil vissulega. Það er gott mál að mínu mati að kona stýri nú bænum. Það er ánægjulegt að upplifa aðra tíma, sem því munu eflaust fylgja, í forystu bæjarins. Ég er þess fullviss að Sigrún Björk muni verða öflugur og góður bæjarstjóri sem þorir að gera hlutina með afgerandi hætti. Hún er týpan sem við þurfum á að halda.

Ég er mjög ánægður með þessar breytingar og tel þær styrkja Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri á komandi árum. Flokkurinn fær ferskari og aðra ásýnd með Sigrúnu Björk sem bæjarstjóra. Það er enda fyrir löngu kominn tími til að kona taki við embættinu. Níu forverar Sigrúnar Bjarkar eru mjög ólíkir karakterar og misterkir á bæjarstjórastóli. Lengst af var bæjarstjóraembættið hér embættismannastaða. Frá árinu 1994 hefur bæjarstjórinn verið um leið stjórnmálamaður með sæti í bæjarstjórn Akureyrar. Fagna ég því, enda hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að einstaklingur með umboð bæjarbúa eigi að gegna embættinu. Jakob, Kristján Þór og Sigrún Björk hafa öll þann bakgrunn.

Allra augu hljóta nú að beinast að því hvernig að meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar muni ganga næstu þrjú árin, fram til næstu kosninga. Sumt hefur gengið vel hjá þessum meirihluta, annað verið gloppótt og vandræðalegt. Helgast það sumpart af því að Sigrún Björk bæjarstjóri og forveri hennar eru einu bæjarfulltrúar meirihlutans sem áttu sæti í bæjarstjórn fyrir síðustu kosningar. Staða mála mun velta nú á leiðtogum meirihlutans, Sigrúnu Björk bæjarstjóra og Hermanni Jóni formanni bæjarráðs, sem áætlað er að verði bæjarstjóri í júní 2009.

Þrír bæjarstjórar verða á Akureyri út kjörtímabilið starfi meirihlutinn þann tíma og ef marka má málefnasamning flokkanna. Það verða því aðrir tímar hér á næstunni en var á níu ára öflugum bæjarstjóraferli Kristjáns Þórs Júlíussonar. Nú þegar að hann yfirgefur forystuhlutverkið í Ráðhúsinu beinast því allra augu að þeim sem taka við og sérstaklega konu bleiku áherslnanna sem tekur nú við keflinu af Kristjáni Þór.

Ég vona að hún setji mark á embættið og verði sá sterki og öflugi leiðtogi sem markar grunn að góðum sigri Sjálfstæðisflokksins hér árið 2010. Með nýjum tímum koma alltaf ný og öflug tækifæri. Þau þarf að nýta. Söguleg innkoma fyrsta kvenkyns bæjarstjórans hlýtur því að verða Sjálfstæðisflokknum heilladrjúg.

(áður birt á akureyri.net 9. janúar 2007)

mbl.is Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri Akureyrar fyrst kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föðurtún

Kaldur dagur. Dauðsfall í fjölskyldunni. Enn fækkar þeim sem eftir standa. Ekki mörg orð hægt að segja. Leita til Davíðs frá Fagraskógi til að segja það sem er í huga mér.

En er ég kom sem barn til byggða heim,
þá barst mér það til eyrna fyrr en varði,
að horfinn væri úr hópnum einn af þeim,
sem hjartað þráði mest í föðurgarði.
Og alltaf falla fleiri mér kærir í þann val,
og fram hjá streyma ár, og dagar hverfa,
og gömlum bæjum fækkar fram í dal,
en fremstu nafir holskeflunnar sverfa.

Ef finn ég anga föðurtúnin græn,
þá fagnar vori hjartans dýpsti strengur.
En það skal vera þökk mín öll og bæn,
og þó ég deyi, skal hann óma lengur.
Þá birtist mér í heiðri himinlind
öll horfin fegurð, er ég man og sakna.
Er geisladýrðin gyllir fjöll og tind,
skal gleði mín í fólksins hjörtum vakna.

Því get ég kvatt mín gömlu föðurtún
án geigs og trega, þegar yfir lýkur,
að hugur leitar hærra fjallsins brún,
og heitur blærinn vanga mína strýkur.
Í lofti blika ljóssins helgu vé
og lýsa mér og vinum mínum öllum.
Um himindjúpin horfi ég og sé,
að hillir uppi land með hvítum fjöllum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Föðurtún)

Carlo hennar Sophiu Loren deyr

Sophia Loren og Carlo PontiCarlo Ponti er látinn. Í hálfa öld var þessi heimsþekkti kvikmyndagerðarmaður mun frekar þekktur fyrir að vera Carlo hennar Sophiu Loren en annað. Sophia Loren er ein eftirminnilegasta leikkona kvikmyndasögunnar og án nokkurs vafa þekktasta kvikmyndaleikkona Evrópu síðustu áratugina. Líf hennar og Carlo Ponti hefur verið í miðpunkti slúðurblaða og umtals almennings allt frá fyrsta degi. Þau voru gift í fimm áratugi, giftust þegar að Sophia var 23 ára gömul og hann var 22 árum eldri en hún.

Svo sannarlega umdeild sambúð og hjónaband og það var í kastljósi fjölmiðla nær alla tíð vegna aldursmunar og að því er flestum fannst ólíks bakgrunns þeirra. Það hefur alla tíð vakið athygli að Sophia valdi frekar að giftast Ponti en taka saman við leikarann heimsþekkta Cary Grant, en öllum hefur verið ljóst að hún var stóra ást ævi hans. Ástaratlot þeirra og umdeilt samband var lengi eitt óljósasta ástarsamband kvikmyndasögunnar. Sjálf talaði hún opinskátt um þessa hluti í viðtali fyrir nokkrum árum og sagði þá að mjög litlu hefði munað að þau hefðu tekið saman.

Allir sem sjá kvikmyndina Houseboat nokkru sinni sjá þar chemistry-ið á milli Sophiu og Cary. Ekki aðeins er það ein besta mynd beggja heldur leikur enginn vafi á því að sambandið var meira en bara sýndarmennska tveggja leikara í kvikmynd. Persónulega hef ég alla tíð metið Sophiu Loren mjög mikils. Stórfengleg óskarsverðlaunaframmistaða hennar í kvikmyndinni La Ciociara (Two Women) færði henni endanlega frægð og stöðu í kvikmyndabransanum og telst hennar besta stund í kvikmyndum. Ein sterkasta túlkun leikkonu í kvikmyndasögunni og hún varð fyrsta (enn sú eina) leikkonan sem hlaut óskarinn fyrir að tjá sig á öðru máli en ensku.

Fyrir reyndar aðeins nokkrum dögum sá ég enn og aftur eina litríkustu mynd hennar. Ieri, Oggi, Domani (Yesterday, Today, and Tomorrow) er ein sterkasta ítalska mynd sem ég hef séð utan Cinema Paradiso, Fellini-myndanna og El Ciociara. Þar leikur Sophia þrjú hlutverk og á gríðarlega flottan samleik með Marcello Mastroianni, sem í áratugi var einn besti leikari Ítala og mikill persónulegur vinur Sophiu og þau léku oft saman á löngum ferli. Þrjár flottar sögur um þrjú pör sem þau túlka öll. Alltaf hægt að hlæja að henni og hún er eilífur gleðigjafi.

Sophia Loren hefur alla tíð verið áberandi í kvikmyndaheiminum og í dægurtali almennt, enda verið áberandi á mörgum vettvöngum, utan leiklistar var hún þekkt fyrir matseld og ilmvötnin sín svo fátt eitt sé nefnt. Litrík ævi er sennilega rétta orðið yfir ævi hennar og Carlo Ponti. Ponti var áberandi kvikmyndaframleiðandi á löngum starfsferli. Sennilega er La Strada (mynd Fellinis) eftirminnilegust þeirra mynda sem hann kom að, en sú mynd hlýtur að teljast ein besta mynd Ítala í áratugi.


mbl.is Carlo Ponti látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oddur Helgi styður Sigrúnu Björk

Sigrún Björk Jakobsdóttir Það kom mér, og eflaust mörgum fleirum, skemmtilega á óvart að Oddur Helgi Halldórsson skyldi styðja Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, bæjarstjóra, í kjörinu á bæjarstjórnarfundi í gær þegar að hún var kjörin eftirmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar. Kannski kemur það ekki að óvörum í ljósi þess að þau hafa lengi unnið saman í nefndum og ráðum bæjarins og voru t.d. saman í menningarhússverkefninu umfangsmikla og hafa átt þægilegt og gott samstarf. Oddur Helgi er að mínu mati maður að meiri fyrir að hafa tekið þessa afstöðu.

Það hefur verið gaman fyrir okkur stjórnmálaáhugamenn að spá og spekúlera í pólitík og starfsháttum Odds Helga sem bæjarfulltrúa allt frá því að hann bauð fram Lista fólksins árið 1998 og klauf Framsóknarflokkinn, sem aldrei hefur borið sitt barr síðan og er nú t.d. hornreka flokkur í bæjarmálunum, sem er söguleg staða. Oddur Helgi hefur tryggt að hver bæjarstjórnarfundur er jafnan skemmtun og hefur þorað að vera öðruvísi en allir aðrir og segja hlutina með allt öðrum hætti. Þó að ég sé oft ósammála honum finnst mér gaman af Oddi Helga, heilt yfir.

Oddur Helgi varð fyrir áfalli í fyrra er Listi fólksins varð minnst flokka í bæjarstjórn Akureyrar. Með því missti Oddur Helgi vægi sitt sem bæjarráðsmaður og nefndavægi sitt umtalsvert. Hann er nú bara áheyrnarfulltrúi í bæjarráði og er mun minna áberandi í ljósi þess í nefndakerfi bæjarins. Hann er þó ekki minna áberandi á bæjarstjórnarfundum og passar ávallt upp á að halda meirihlutanum við efnið. Þó að hann sé stundum spes og þorir að vera á móti er hann þó trúr sínu og getur verið með góð komment og pælingar. Það er alltaf þörf á nýjum vinklum í umræðuna og það er alltaf þarft að minnihlutinn sé beittur og afgerandi. Þó Oddur Helgi sé minnstur afla í minnihlutanum finnst mér hann samt beittastur allra fulltrúa þeirra.

Í ljósi alls er því merkilegt að Oddur Helgi hafi greitt bæjarstjóranum á Akureyri atkvæði sitt og það sýnir bara heilindi hans að þora að vera sammála verkum og forystu meirihlutans. Það er merkileg staða og mjög góð, heilt yfir séð.

Umræðan um Magna og Barnaland

Magni Eitthvað fór umræðan hér hjá mér um það sem rætt er á Barnalandi um einkalíf Magna Ásgeirssonar illa í þær konur sem skrifa þar og var einhver umræða um það. Mér fannst þessi spjallvettvangur af því tagi að mér fannst rétt að skrifa um það. Eflaust mátti maður segja sér að það myndi kalla á viðbrögð. Það er annars alltaf hollt að ræða málefni spjallvefanna, þar sem nafnleysingjar eru meira og minna allsráðandi.

Það er heilt yfir mjög spes menning á þessum vefum og lögmálið oft ansi villimannslegt þar. Það er svona spes stemmning. Þetta upplifði ég þegar að ég skrifaði á málefnin á sínum tíma og var þar sem virkastur. Þar sem að ég notaði mitt nafn var ég ekki í skjóli nafnleyndar og var því viðkvæmari staða en ella enda gátu þá nafnleysingjar ráðist að mér með hvassari hætti vegna þess að allir vissu hver ég var. Kippti mér svosem ekkert upp við það, enda fannst mér betra að skrifa undir nafni.

Það er alltaf tvennt ólíkt að skrifa undir nafni og svo sem nafnleysingi. Þegar að engin slóð er til baka, nema frá vefstjóra sem hefur gögn um slíkt undir höndum, er skotleyfið oft mun víðara en ella. Það er list að geta skrifað með þeim hætti og ganga ekki of langt. Sumum tekst það aðdáunarlega vel og ekki eru það allir sem skrifa með bitrum hætti. En þetta er víst bara svona. Menning spjallvefanna er og verður alltaf spes. Barnaland er ekkert eitt um þessa menningu, en sennilega gengur hún þó lengst þar. Mórallinn í skrifunum þar er ansi bitur og gengur frekar langt.

En svona er þetta bara. Það er mikilvægt að hafa skoðun á þeim málum sem mest skipta og spjallvefirnir eru engin undantekning á því.

Dr. Hannibal Lecter snýr aftur

Dr. Hannibal Lecter Það leikur ekki nokkur vafi á því að ein eftirminnilegasta sögupersóna kvikmynda og bókmennta á síðari hluta 20. aldarinnar er mannætan og geðlæknirinn Dr. Hannibal Lecter, sögupersóna Thomasar Harris. Hann varð ódauðlegur í túlkun Anthony Hopkins í kvikmyndinni The Silence of the Lambs árið 1991 og hlaut Hopkins óskarinn fyrir þann meistaralega leik.

Hannibal er einhver óhugnanlegasta en um leið áhugaverðasta persóna spennubókmenntanna, þrátt fyrir sturlunina er hann enda fágaður fagurkeri. Nú er væntanleg ný kvikmynd byggð á skáldsögu eftir Harris vestanhafs, Hannibal Rising, sem á að gerast frá því að Hannibal er sex ára og enda er hann er um tvítugt. Í raun lýsir bókin þeim sálrænu breytingum sem urðu á honum sem mörkuðu ævi hans og örlög.

Ég á fyrri myndirnar um Hannibal; The Silence of the Lambs, Hannibal og Red Dragon. Allar þrjár hafa verið kvikmyndaðar. Fá orð þarf að hafa um fyrstnefndu myndina. Hún sló eftirminnilega í gegn árið 1991 og hlaut óskarinn sem besta mynd ársins, fyrir leik Hopkins og Jodie Foster í hlutverki alríkiskonunnar Clarice Starling, leikstjórn og handrit. Hún er aðeins þriðja myndin í sögu Óskarsverðlaunanna sem hlaut öll fimm aðalverðlaunin. Stórfengleg kvikmynd sem fangar áhorfandann algjörlega. Samleikur Hopkins og Foster var dýnamískur og myndin er fyrir margt löngu orðin klassík í kvikmyndasögunni.

Sálrænn þriller af bestu gerð og hann yfirtekur huga og hjarta áhorfandans alveg gjörsamlega. Stærsta afrek Hopkins sem leikara á löngum leikferli er að hafa tekist að færa okkur svo yngri Hannibal í myndinni Red Dragon árið 2002 (á að gerast mun fyrr) en þann sem hann túlkaði í Lömbunum með svo eftirminnilegum hætti. Auk þessara tveggja mynda er kvikmyndin Hannibal, sem var gerð ári á undan Red Dragon. Þar er sagan sögð eftir Lömbin. Sterk mynd að mörgu leyti en stendur hinum að mörgu leyti að baki. Hún er samt gríðarlega fáguð og færir okkur aðra sýn á karakterinn.

Hannibal er margflókinn karakter í lýsingu Thomas Harris, allt að því skelfilega brenglaður einstaklingur sem hefur á sér blæ fágaðs veraldarmanns. Fyndin blanda. Hopkins gerði honum alveg frábær skil í þessum myndum. Þetta er hlutverk leikferils Hopkins. Það voru merkileg örlög þessa gamalgróna Shakespeare-leikara að enda í hlutverki víðsjárverðrar mannætu. Ótrúlega sterkur karakter-leikari. Hlakkar til að sjá myndina og sjá meira af ævi Hannibals. Einn veigamesti þátturinn sem hefur vantað í þessa margflóknu sögu er kaflinn um uppvaxtarár Hannibals. Allir sem lesið hafa bækurnar hafa séð hversu miklu meira brútal Hannibal er í bókunum en í myndunum.

Ég eins og svo margir aðrir sá fyrst karakterinn í kvikmyndinni árið 1991 en las svo bókina. Það er gengið mun lengra þar og þær eru óvægnar lýsingar á sálarástandi Hannibals og hversu vægðarlaus hann var. Þessi mynd mun sýna okkur betur úr hverju hann er gerður sálarlega, hverjar voru aðstæður hans í æsku og hvernig hann varð þessi sálarháski sem hann að lokum varð. Þetta er enda svona svipað og að reka það hvernig að Svarthöfði varð að skepnu.

En þetta minnir mig á það að ég verð að fara að horfa aftur á The Silence of the Lambs. Mér finnst sú mynd alltaf stingandi skemmtileg.

mbl.is Ný mynd um Hannibal Lecter væntanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband