Skandall í X-Factor í kvöld - Siggi sendur heim

Siggi Er eiginlega enn orðlaus eftir að Akureyringurinn Siggi, Sigurður Ingimarsson, var sendur heim í X-Factor á Stöð 2 fyrir stundu. Það er með hreinum ólíkindum að þátttöku hans í þættinum sé lokið. Hvorki var hann lakasti keppandinn í kvöld eða með verstu söngframmistöðuna. Þvert á móti tel ég og hef þótt það alla keppnina að Siggi stæði einna fremst keppenda og ætti góða möguleika á sigri. Það er mjög athyglisvert að sjá hvernig að þjóðin dæmir söngframmistöður þarna. Það voru allavega tveir ef ekki þrír sem frekar verðskulduðu botninn þarna. Það gerðu hvorki sönghópurinn Gís né Siggi.

Elínborg Halldórsdóttir, betur þekkt sem Ellý í Q4U, sendi Sigga heim í kvöld. Hún hafði oddaatkvæðið að þessu sinni, enda stóðu Einar Bárðarson og Páll Óskar með sínu fólki, sem skiljanlegt er. Ég hef aldrei skilið af hverju þessi kona var valin þarna til dómarastarfa. Það er hreinn og klár skandall svo sannarlega. Það hefur sannað sig að hún hefur engan þann bakgrunn til að meta söng og virðist koma með hverja steypuna á fætur annarri í umsögnum og vera mjög mislagðar hendur.

Það er ekki hægt annað en tjá afgerandi þá skoðun að Ellý eigi ekki erindi í þessum þætti og ég tek undir skoðanir Einars Bárðarsonar að það sé þessari konu til skammar að senda einn allra frambærilegasta söngvara keppninnar heim á þessari stundu. Það er ekki ofsögum sagt að valið á Ellý sem dómara hafi sannað sig sem algjört flopp, fyrir Stöð 2 og þá sem standa að keppninni.

Litli maðurinn leggur olíufélögin í Héraðsdómi

OlíufélöginÞað eru svo sannarlega merkileg tíðindi að olíufélagið Ker hafi verið dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til þess að greiða Sigurði Hreinssyni, á Húsavík, 15.000 krónur í skaðabætur fyrir tjón sem hann varð fyrir vegna samráðs olíufélaganna á árunum 1993-2001. Upphæðin er ekki há en tíðindin eru merkileg. Í ofanálag var Ker dæmt til að greiða Sigurði 500.000 krónur í málskostnað.

Verði þessi dómur staðfestur af Hæstarétti má eiga væntanlega von á því að hann verði fordæmisgefandi og í kjölfarið komi fjöldi einstaklinga sem vilji sækja sér rétt sinn með sama hætti og trésmiðurinn frá Húsavík. Segja má að með þessum dómi leggi litli maðurinn olíufélögin með mjög athyglisverðum hætti.

Nú verður fróðlegt að sjá hvað gerist í Hæstarétti í þessum efnum. Ennfremur fer brátt fyrir Hæstarétt áfrýjun saksóknara á frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á persónulegu máli á hendur olíuforstjórunum þremur á tímum olíusamráðsins. Þar voru þeir dregnir til ábyrgðar en ekki olíufélögin.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist fyrir Hæstarétti í báðum þessum málum, en niðurstaðan þar mun skipta sköpum um framhald olíumálsins alls.


mbl.is Ker dæmt til að greiða 15 þúsund krónur í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðjón Arnar í NV - fer Kristinn H. fram í RVK?

Guðjón Arnar Kristjánsson Það er nú ljóst að Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, mun leiða lista flokksins áfram í Norðvesturkjördæmi. Orðrómur hafði verið um hvort að hann færði sig til framboðs í höfuðborginni en skv. fréttum hefur formaðurinn nú slegið á þær pælingar og ætlar að halda fast við framboð á sömu slóðum áfram. Guðjón Arnar hefur verið þingmaður á Norðvestursvæðinu frá árinu 1999; 1999-2003 fyrir Vestfjarðakjördæmi en frá 2003 fyrir hið nýja Norðvesturkjördæmi.

Guðjón Arnar var akkeri Frjálslynda flokksins inn á þing í kosningunum 1999 en kjördæmakjör hans á Vestfjörðum tryggði kjör Sverris Hermannssonar, þáv. formanns Frjálslynda flokksins, sem jöfnunarþingmanns í Reykjavík. Frjálslyndir höfðu aldrei mælst inni alla þá kosningabaráttu og kom örugg kosning Guðjóns Arnars mörgum að óvörum á kosninganótt. Allt frá þeim degi hefur staða Guðjóns Arnars verið sterk innan flokksins og hann varð eftirmaður Sverris á formannsstóli árið 2003 er hann hætti endanlega þátttöku í pólitík. Nú nýlega hefur flokkurinn þó klofnað með úrsögn Margrétar, dóttur Sverris, og stuðningsmanna hennar.

Kristinn H. Gunnarsson Mikið er spáð í hvar Kristinn H. Gunnarsson, nýjasti flokksmaður Frjálslynda flokksins, fari fram nú þegar að hann hefur sagt skilið við Framsóknarflokkinn. Er ljóst að annaðhvort leiðir hann annan lista flokksins í Reykjavík eða fer fram í öðru sætinu í Norðvesturkjördæminu, sætinu sem Sigurjón Þórðarson, nýr leiðtogi flokksins í Norðausturkjördæmi, skipaði í kosningunum 2003. Er ekki ósennilegt að Kristinn H. horfi til þess að fara í borgarframboð í nyrðri Reykjavíkurkjördæminu.

Myndi hann á þeim slóðum mæta Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra og formanni Framsóknarflokksins. Það yrði vægast sagt athyglisverð rimma sem gæti orðið ein hvassari í kosningabaráttunni þetta vorið. Myndu án efa margir tala um hreint einvígi Kristins og eftirmanns hans á formannsstóli Byggðastofnunar sem er líka síðasti flokksformaður Kristins H. Í nýjustu könnunum Gallups eru Frjálslyndir að mælast þar með þingsæti en ekki Framsóknarflokkurinn. Það yrði ein af stærstu tíðindum kosninganna færi Kristinn H. inn þar en Jón Sigurðsson sæti eftir með sárt ennið.

Margir hafa líkt Kristni H. við Hannibal Valdimarsson, föður Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem var þingmaður og forseti ASÍ um árabil og ennfremur um skeið ráðherra. Báðir teljast þeir bragðarefir í langri og sögulegri stjórnmálasögu Vestfjarða. Hannibal og Kristinn H. hafa báðir verið þingmenn þriggja stjórnmálaflokka á stormasömum stjórnmálaferli. Hannibal var formaður þriggja flokka; sem er einsdæmi á Norðurlöndum og víðar væntanlega, Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna.

Hannibal stofnaði síðastnefnda flokkinn eftir að öll sund lokuðust fyrir hann innan Alþýðubandalagsins. Þá ætlaði hann að leiða framboð nýja flokksins í höfuðborginni. Frægt varð að fylgismenn hans í höfuðborginni vildu ekki að hann leiddi listann. Úr varð að hann fór fram fyrir vestan og þar lék hann síðustu snilldarslagi sinna stjórnmálaklækju og braut upp kratafylgið með sögulegum hætti þar svo að aldrei rættist úr fyrir þeim aftur.

Ólíkt Hannibal forðum daga má fullyrða að Kristni yrði ekki hafnað af frjálslyndum í höfuðborginni. Þar gæti orðið líflegasti bardagi baráttunnar þegar að hinn forni bardagamaður Framsóknarflokksins mætir formanni flokksins sem hann yfirgaf í líflegri baráttu. Hún yrði hvöss.... það má fullyrða með algjörri vissu.

Femínistar landsins skjálfa vegna klámþings

X-RATED Um fátt er nú meira rætt en klámþing sem halda á hérlendis eftir nokkrar vikur. Femínistar landsins skjálfa vegna þessara tíðinda og láta í sér heyra á fullum krafti, hneykslaðar á því að slíkt gerist hér. Það er nú víst einu sinni svo að við lifum ekki í vernduðu umhverfi. Það þarf varla að taka það fram að klám er orðið lítið feimnismál - nægir þar að líta á netið og fleiri þætti samfélagsins.

Ég get ekki séð hvað er að því að þetta þing fari fram hér. Tek ég eiginlega undir orð Hrannar Greipsdóttur, hótelstjóra á Hótel Sögu í fréttum í gær er hún var spurð út í þetta. Þar munu þinggestir víst gista. Það er svosem varla við því að búast að allir verði hoppandi sælir með þetta þinghald og fagni því. Ég er þannig gerður að ég skipti mér ekki af fundahaldi annars fólks svo framarlega að þar fari allt vel fram, engin læti og vesen.

Búast má við ef marka má viðbrögð femínista að þau mótmæli með einhverjum hætti þinghaldinu. Femínistar gera að sjálfsögðu það sem þeir vilja og eru auðvitað í fullum rétti að hafa á þessu skoðanir. Ég verð þó að taka af skarið í hina áttina, enda get ég ekki séð að þetta þinghald sé rangt.

mbl.is Klámþing verður haldið hér á landi í næsta mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband