Guðjón Arnar í NV - fer Kristinn H. fram í RVK?

Guðjón Arnar Kristjánsson Það er nú ljóst að Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, mun leiða lista flokksins áfram í Norðvesturkjördæmi. Orðrómur hafði verið um hvort að hann færði sig til framboðs í höfuðborginni en skv. fréttum hefur formaðurinn nú slegið á þær pælingar og ætlar að halda fast við framboð á sömu slóðum áfram. Guðjón Arnar hefur verið þingmaður á Norðvestursvæðinu frá árinu 1999; 1999-2003 fyrir Vestfjarðakjördæmi en frá 2003 fyrir hið nýja Norðvesturkjördæmi.

Guðjón Arnar var akkeri Frjálslynda flokksins inn á þing í kosningunum 1999 en kjördæmakjör hans á Vestfjörðum tryggði kjör Sverris Hermannssonar, þáv. formanns Frjálslynda flokksins, sem jöfnunarþingmanns í Reykjavík. Frjálslyndir höfðu aldrei mælst inni alla þá kosningabaráttu og kom örugg kosning Guðjóns Arnars mörgum að óvörum á kosninganótt. Allt frá þeim degi hefur staða Guðjóns Arnars verið sterk innan flokksins og hann varð eftirmaður Sverris á formannsstóli árið 2003 er hann hætti endanlega þátttöku í pólitík. Nú nýlega hefur flokkurinn þó klofnað með úrsögn Margrétar, dóttur Sverris, og stuðningsmanna hennar.

Kristinn H. Gunnarsson Mikið er spáð í hvar Kristinn H. Gunnarsson, nýjasti flokksmaður Frjálslynda flokksins, fari fram nú þegar að hann hefur sagt skilið við Framsóknarflokkinn. Er ljóst að annaðhvort leiðir hann annan lista flokksins í Reykjavík eða fer fram í öðru sætinu í Norðvesturkjördæminu, sætinu sem Sigurjón Þórðarson, nýr leiðtogi flokksins í Norðausturkjördæmi, skipaði í kosningunum 2003. Er ekki ósennilegt að Kristinn H. horfi til þess að fara í borgarframboð í nyrðri Reykjavíkurkjördæminu.

Myndi hann á þeim slóðum mæta Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra og formanni Framsóknarflokksins. Það yrði vægast sagt athyglisverð rimma sem gæti orðið ein hvassari í kosningabaráttunni þetta vorið. Myndu án efa margir tala um hreint einvígi Kristins og eftirmanns hans á formannsstóli Byggðastofnunar sem er líka síðasti flokksformaður Kristins H. Í nýjustu könnunum Gallups eru Frjálslyndir að mælast þar með þingsæti en ekki Framsóknarflokkurinn. Það yrði ein af stærstu tíðindum kosninganna færi Kristinn H. inn þar en Jón Sigurðsson sæti eftir með sárt ennið.

Margir hafa líkt Kristni H. við Hannibal Valdimarsson, föður Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem var þingmaður og forseti ASÍ um árabil og ennfremur um skeið ráðherra. Báðir teljast þeir bragðarefir í langri og sögulegri stjórnmálasögu Vestfjarða. Hannibal og Kristinn H. hafa báðir verið þingmenn þriggja stjórnmálaflokka á stormasömum stjórnmálaferli. Hannibal var formaður þriggja flokka; sem er einsdæmi á Norðurlöndum og víðar væntanlega, Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna.

Hannibal stofnaði síðastnefnda flokkinn eftir að öll sund lokuðust fyrir hann innan Alþýðubandalagsins. Þá ætlaði hann að leiða framboð nýja flokksins í höfuðborginni. Frægt varð að fylgismenn hans í höfuðborginni vildu ekki að hann leiddi listann. Úr varð að hann fór fram fyrir vestan og þar lék hann síðustu snilldarslagi sinna stjórnmálaklækju og braut upp kratafylgið með sögulegum hætti þar svo að aldrei rættist úr fyrir þeim aftur.

Ólíkt Hannibal forðum daga má fullyrða að Kristni yrði ekki hafnað af frjálslyndum í höfuðborginni. Þar gæti orðið líflegasti bardagi baráttunnar þegar að hinn forni bardagamaður Framsóknarflokksins mætir formanni flokksins sem hann yfirgaf í líflegri baráttu. Hún yrði hvöss.... það má fullyrða með algjörri vissu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg er kanski ekki að hæla þessum mönnum sem eru svolitið og meir en það sjalfstæðir i orði og hugsun,mer fynnst þetta samt afturför ef menn mega ekki hafa sjálfstæða skoðun lengur heldur bara flokksbönd sem halda þeim i klafa/Mer fynnst þetta afturför,það vantar fleiri svona menn/þá gætum við kanki farið að kjosa menn en ekki alltaf Flokkana bara/Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 16.2.2007 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband