24.2.2007 | 21:03
Ólafur Ragnar og Dorrit fá ekki að gista í höllinni
Athygli hefur vakið að forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, fengu ekki að gista í konungshöllinni í Osló nú er þau eru viðstödd sjötugsafmæli Haraldar Noregskonungs. Konungborið fólk fær aðeins gistingu í höllu konungs og þjóðkjörnir leiðtogar verða að gera sér að góðu að vera á hóteli. Ólafur Ragnar og Tarja Halonen falla því undir önnur viðmið og fá ekki að gista í sama húsi og þeir konungbornu.
Málið hefur verið nokkuð í umræðu í Noregi, enda merkilegt að norrænir þjóðarleiðtogar fái ekki allir inni í höllinni. Hirðin hefur svarað með afgerandi hætti að það sé ekki það sama að vera konungborinn og vera ekki með blátt blóð í æðum. Eru því Ólafur Ragnar og Tarja flokkuð með öðrum hætti. Þau eru einu kjörnu þjóðhöfðingjarnir sem fá boðsmiða í afmælið og sitja því utangarðs í þessu afmæli þegar að kemur að gistingunni.
Þó að Ólafur Ragnar sé flokkaður skör neðar en aðrir er ekki beinlínis eins og honum og Dorrit sé vísað á lélega gistingu í borginni. Kjörnu norrænu þjóðarleiðtogarnir gista nefnilega með mökum sínum á Hotel Continental, sem er sennilega virðulegasta hótelið í borginni og með öllum þeim þægindum sem þjóðhöfðingjar, meira að segja þeir sem ekki hafa blátt blóð í æðum, geta verið stoltir af. Þau leggja því ekki kolli á auvirðilegan kodda, er ekki beinlínis í kot vísað.
Það er samt það merkilegasta við þetta afmæli að norrænir þjóðhöfðingjar sitja ekki við sama borð - þeim er raðað í þá sem hafa blátt blóð í æðum og þeirra sem koma af ósköp venjulegum ættum og hafa þurft að eyða fúlgu fjár til að ná kjöri á valdastól. Við skulum vona að Dorrit og Ólafur Ragnar séu ekki á bömmer yfir þessu, verandi á Hótel Continental. Annars tók Spaugstofan þetta vel fyrir áðan - magnaður húmor vægast sagt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2007 | 17:49
Rússneskt klapp fyrir Steingrími J. og Katrínu

Lengi vel mældist flokkurinn varla og talin mikil bjartsýni að hann næði fótfestu. Í háðstóni var talað um Steingrím og hóp hans til vinstri sem talíbana snemma í kosningabaráttunni. Er á hólminn kom fékk flokkurinn sex þingmenn í kosningunum 1999 en missti svo einn í kosningunum fjórum árum síðar. Nú virðist hann mælast í hæstu hæðum og fróðlegt verður að sjá næstu mælingar, hjá Gallup og Fréttablaðinu á næstu dögum. Síðasta könnun Gallups gaf VG 13 þingsæti. Færi svo yrði það stórsigur Steingríms J. og hann kominn jafnvel í oddastöðu við myndun ríkisstjórnar, enda væri þá núverandi stjórn eflaust fallin.
Steingrímur J. hefur verið allt í öllu innan þessa flokks og byggt hann upp til allra verka. Enginn hefur komist nálægt honum innan flokksins og það myndi engum óra fyrir að fara gegn honum til formennsku. Ég hugsaði reyndar um daginn hvernig hefði farið fyrir VG hefði Steingrímur J. annaðhvort dáið eða slasast svo illa í bílslysinu í Húnavatnssýslu að hann hefði ekki getað snúið aftur á hið pólitíska svið. Þá hefði Katrín Jakobsdóttir staðið eftir sem formaður VG. Það hefði verið athyglisvert í meira lagi. Reyndar finnst mér öflugasti stjórnmálamaður VG vera Svandís Svavarsdóttir, Gestssonar. Þar fer kjarnakona sem mun eflaust halda í landsmálin í næstu þingkosningum.
Sumar kannanir hafa verið að sýna VG stærri en Samfylkinguna að undanförnu. Hverjum hefði órað fyrir er VG kom til sögunnar að hann myndi jafnvel eiga möguleika á eða takast að toppa Samfylkinguna? Þrátt fyrir að VG hafi náð vissum yfirburðum á árinu 2001 og mælst þá stærri en Samfylkingin hélst það fylgi ekki í kosningum, er á hólminn kom. Nú eru tæpir tveir mánuðir til kosninga og VG er að mælast í gríðarlegri uppsveiflu, aldrei minna en verandi á pari við Samfylkinguna. Það yrði sögulegt fengi VG uppsveiflu af því tagi sem Gallup sýndi fyrir um mánuði, sérstaklega ef hann toppar Samfylkinguna í Reykjavík.
Fannst merkilegt að heyra um leiðtogakjör VG... og þó, kannski á maður varla að vera hissa. Engin kosning fór fram um forystuna flokksmönnum var ekki veitt tækifæri á að kjósa um forystuna í leynilegri kosningu. Þetta er merkilegt af flokki sem vill á pappírnum kalla sig nútímalegan - kostulegt allt saman. Hjá okkur sjálfstæðismönnum er kosning um öll forystuembætti, jafnvel þó aðeins einn sé yfirlýst í kjöri - í raun eru allir landsfundarfulltrúar í kjöri. Landsfundarfulltrúar fá afhentan auðan kjörseðil og verða þeir að skrifa nafn á hann og skila svo í atkvæðakassa.
En hjá VG eru allir bara klappaðir upp. Er nokkuð nema furða að fólk brosi yfir þessu fyrirkomulagi? Það á aldrei að vera sjálfgefið að hljóta embætti af þessu tagi. Það virðist þó vera hjá VG. Annars hef ég marga heyrt hlæja að þessu afdankaða rússneska kosningafyrirkomulagi þeirra engin undur með það.
![]() |
Steingrímur endurkjörinn formaður og Katrín varaformaður VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2007 | 17:16
Snjókorn falla
Það var alhvít jörð hér á Akureyri þegar að ég vaknaði í morgun. Meiri snjór og meiri kuldi en á sjálfum jólunum, en það var nærri snjólaust öll jólin. Frekar napurt, miðað við að í gærkvöldi var snjólaust og gott veður. Var að koma af fundi sem var gagnlegur og góður - alltaf gaman að hitta gott fólk og ræða málin.
Þetta hefur verið snjóléttur og góður vetur hérna á Akureyri að mínu mati, það sem af er. Það kom leiðinlegur kuldakafli snemma vetrar en hefur síðan verið gott. Jólin voru yndisleg... en enginn snjór. Ég er nú þannig gerður að einu dagarnir á hverju ári þar sem nauðsynlegt er að hafa smásnjó eru sjálf jólin. Það er allt svo miklu jólalegra með smáögn af snjó.
Það var smá hríðarfjúk núna þegar að ég kom heim. Það falla snjókorn fyrir utan gluggann minn. Mörgum finnst snjókoman vera rómantísk og notaleg, ég er svo sannarlega ekki einn af þeim. Það er hinsvegar oft gaman að fara á skíði og njóta vetraríþróttaaðstöðunnar upp í fjalli. Það hef ég þó alltof lítið gert á seinustu árum. Sennilega er þessi sæla of nálægt manni til að maður meti hana eins vel og rétt sé.
Það er allavega gott að vera kominn heim og inn úr kuldanum. Það er mjög notalegt að fá sér kakóbolla og lesa fréttirnar. Svo ætla ég að fara í það að skrifa Óskarsverðlaunaspána mína. Óskarinn er á morgun - mikilvægt að skrifa niður pælingarnar sínar um það og fara yfir. Þetta er ómissandi partur á hverju ári. Ég hef alltaf verið mikill kvikmyndafíkill og hef gaman af svona pælingum.
Þannig að nú tekur það við. Er búinn að vera viss nokkuð lengi um hvernig helstu flokkarnir muni fara og skrifa betur um það á eftir hvað ég held að muni gerast. Svo er mikill rómans yfir því að horfa á verðlaunaafhendinguna sjálfa, vaka alla nóttina. Það er ómissandi fyrir alla kvikmyndafíkla... enginn vafi á því. Get ekki hugsað mér að missa af þessu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2007 | 13:01
Harðorð ályktun VG gegn klámráðstefnunni

Fræg hefur verið afstaða femínista innan flokksins, t.d. Kolbrúnar Halldórsdóttur, alþingismanns, gegn klámvæðingu en þarna er stigið skrefið enn lengra. Virðist VG fagna því að ferðamenn sem ekkert hafi brotið af sér sé gert erfiðar að koma til landsins og eiginlega gert það ómöulegt. Það er undarleg stefna. Virðist VG hreykja sér af þessu verklagi. Vill VG fara að sortéra ferðamenn til landsins? Það virðist vera. Ekki get ég sagt að sú stefna sé gleðiefni og undrun er yfir því í mínum huga að flokkur hérlendis tali fyrir slíku.
Er samstaða um það í samfélaginu að sortera ferðamenn til landsins? Ég tek undir ályktun Samtaka ferðaþjónustunnar í gær. Þar var talað um málið með heilsteyptum og góðum hætti, mjög eðlileg sýn á ferðaþjónustuna. Það kann ekki góðri lukku að stýra að leggjast gegn komu ferðamanna því þeir geti mögulega gert eitthvað af sér. Þetta er ekki heillavænleg pólisía. Það er alveg rétt að það myndaðist þverpólitísk samstaða gegn ráðstefnunni. Í borgarstjórn leiddu sjálfstæðismenn undir forystu borgarstjóra andstöðuna af krafti - það er ég fjarri því ánægður með.
VG talar af áfergju um klámvæðingu í ályktun sinni. Það er talað þar með mjög hvössum hætti. VG málar sig merkilegum litum með þessari ályktun. Er þetta stefna fleiri flokka? Það væri fróðlegt að vita í raun. Ætli að kosningarnar, sem eru handan við hornið, muni gera það að verkum að fleiri flokkar sendi frá sér svona ályktanir? Það þarf allavega enginn að segja mér að þessi svokallaða pólitíska samstaða sé tilkomin út af öðru en því að kosningar eru að skella á.
Hvað segja annars sjálfstæðismenn í borgarstjórn? Ætla þeir að verða jafnákafir í sinni baráttu og vinstri grænir eru í dag? Það er ekki nema von að spurt sé, enda leiddu þeir andófið gegn þessari ráðstefnu á sviði borgarmálanna.
![]() |
VG fagnar samstöðu gegn klámráðstefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2007 | 11:40
Prodi áfram við völd í veikburða stjórn á Ítalíu
Það kemur ekki að óvörum að vinstrimaðurinn Giorgio Napolitano, forseti Ítalíu, hafi beðið Romano Prodi um að vera áfram forsætisráðherra Ítalíu. Prodi þarf nú að fara fyrir þingið og óska eftir umboði í vantraustskosningu. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu, sem líklega þýðir að Prodi geti setið lengur við völd, er öllum ljóst að ríkisstjórn Ólífubandalagsins er mjög veik, en hún stendur og fellur með einu atkvæði. Það breytist ekki með þessu.
Stjórnin var sett í gíslingu af tveimur öldungadeildarþingmönnum kommúnista sem vildu ekki samþykkja utanríkisstefnu hennar óbreytta. Tapið var vandræðalegt og skaðandi fyrir Prodi. Þó að Napolitano sé vinstrimaður hefði hann aldrei getað réttlætt að Prodi fengi umboð til forsætisins áfram hefði hann ekki hlotið traustsyfirlýsingu allra flokkanna níu sem mynda stjórnina í gær. Eftir standa þó vandræðin sem felldu stjórnina. Einn þingmaður getur sett allt í gíslingu og því öllum ljóst að hún verður á bláþræði eftir sem áður.
Þegar að stjórnin tók við völdum í maí 2006 sagði Romano Prodi að það yrði ekki vandamál hversu naumur meirihluti hennar væri. Það leið ekki ár þar til að Prodi varð að segja af sér embætti vegna falls hennar í þinginu. Það er öllum betur ljóst nú hversu tæpt hún í raun stendur. Því neitar enginn nú. Fall í þingkosningu um utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar er í besta falli vandræðalegt en þó umfram allt lamandi vitnisburður stjórnvalda í krísu. Enn eru fjögur ár til þingkosninga og vandséð hvernig að hún geti setið með málamiðlunum níu flokka (Prodi leiðir engan flokkanna) allan þann tíma.
Giorgio Napolitano var því vandi á höndum þar sem hann hugleiddi stöðuna í forsetahöllinni. Þó að Napolitano hafi orðið forseti Ítalíu með stuðningi Ólífubandalagsins í þinginu fyrir tæpu ári gat hann ekki réttlætt stöðuna án þess að eitthvað fylgdi umboði Prodis. Hann biður hann því að fara fyrir þingið og leita umboðs. Með þessu fylgir greinilega að hann fái ekki önnur tækifæri. Þetta virðist vera annað tækifæri til stjórnarforystu með þeirri afgerandi vísbendingu um að stjórninni sé ekki sætt komi sama krísa upp.
Skoðanakannanir sýna nú að hægriblokk Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra, stendur sterkar að vígi en Ólíubandalagið og myndi sigra í kosningum nú. Eftir átök um Íraksstríðið og fleiri umdeild mál í fyrra eftir fimm ára valdaferil Berlusconis kom á óvart að Prodi og bandalag hans skyldi vinna svo tæpt og eiga svo erfitt með að stjórna af krafti. Berlusconi féll af valdastóli með naumindum og fræg var þrjóska hans við að viðurkenna tapið sem slíkt. Staða Berlusconi virðist altént sterk nú. Það er því ekki skrýtið að hægriblokkin vilji kosningar nú.
Napolitano, sem verður 82 ára í sumar, á enn eftir sex ár á forsetastóli. Það er því ljóst að hann verður forseti að óbreyttu út kjörtímabilið. Hann mun því vaka yfir pólitískum örlögum Prodis og framtíð stjórnarinnar. Staðan virðist þó svo brothætt að ganga megi út frá því sem vísu að þingkosningar verði fyrir 2011. Á þessari stundu veðja held ég fáir í Ítalíu á að stjórnin haldi allan þann tíma.
![]() |
Forseti Ítalíu biður Prodi að halda áfram störfum sem forsætisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2007 | 02:01
Notaleg leikhúsferð - farið að sjá Svartan kött

Leikritið fjallar um atburði sem gerast í kjölfar dauða svarta kattarins. Þrátt fyrir að verkið sé mjög skelfilegt og gengið sé nærri leikhúsgestinum er þetta gert með glæsibrag; ekki vantar drápin, byssuskotin, sundurskorna líkamsparta, blóðið og dökkan hryllinginn. Það er allavega enginn kærleikur og gleði á heimilinu sem er sjónarsvið áhorfandans frá upphafi til enda. Þar er grimmdin og mannvonskan ein ansi ráðandi.... bæði með gamansömum og nöturlegum hætti. Það er eitt það kostulegasta við verkið hvernig að húmor og ógeði er blandað saman í ramman kokteil.
Stjarna sýningarinnar er meistari Þráinn Karlsson. Það er að ég tel á engan hallað þegar að fullyrt er að Þráinn Karlsson sé ein mesta skrautfjöðurin í fjölskrúðugum leikhópi í sögu Leikfélags Akureyrar. Það er enda alveg ljóst að Þráinn er bæði einn eftirminnilegasti og besti leikarinn sem hefur verið á leiksviðinu í leikhúsinu okkar. Hann hefur verið lykilmaður hjá Leikfélaginu síðan að elstu menn muna og hefur verið virtur og dáður fyrir verk sín. Akureyringar eru orðnir vanir því að Þráinn sé í Leikhúsinu og hann hefur eignast sess í huga og hjarta menningarsinnaðra bæjarbúa. Þráinn er að mínu mati hjarta og sál Leikfélags Akureyrar.
Þráinn fer algjörlega á kostum í þessu leikriti. Þar leikur hann óheflaðan (svo vægt sé til orða tekið) mann, kominn af léttasta skeiði, sem annaðhvort virkar ráðalaus og utangátta eða er hreinlega í áfengismóki. Það eru fá lífsviðmið í hávegum höfð hjá honum. Þráinn er á nærklæðunum í verkinu allan tímann, er með tattú og krúnurakaður. Merkilegur karakter. Hann hefur á löngum leikferli túlkað allan skalann og sennilega er þetta óheflaðasta týpan sem Þráinn hefur túlkað á leiksviðinu í Samkomuhúsinu. Guðjón Davíð Karlsson og Ívar Örn Sverrisson eiga svo stjörnuleik þar sem túlkað er upp og niður karakterskalann.
Leikhópurinn stendur sig í heildina mjög vel - sennilega er þó svarti kötturinn eftirminnilegastur allra í sjálfu sér. Umgjörðin er öll hin besta; lýsingin er stórfín (eins og venjulega hjá LA), tæknibrellur virkilega flottar og vel gerðar og leikmyndin er mögnuð, þar er öllu vel komið fyrir og inni- og útiatriði fléttuð saman með vönduðum hætti í leikmyndinni. En þetta er semsagt sýning sem markast bæði af gleði og hryllingi - hárfín blanda. Hvet alla til að skella sér á sýninguna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)