7.2.2007 | 20:36
Skandall á skandal ofan í Byrginu

Ekki aðeins er um að ræða fjárhagslegt hneykslismál heldur hefur þarna þrifist í skjóli ríkisstyrkja skelfilegt kynlífshneyksli. Bæði er mjög alvarlegt mál. Á því verður tekið væntanlega með þeim hætti sem fær er. Það verður fróðlegt að sjá kemur út úr málinu hjá ríkissaksóknara. Heldur verður að teljast líklegt að ákærur verði gefnar út og málið fái á sig þann blæ. Deilt er um hver beri hina pólitísku ábyrgð á klúðrinu þar. Öllum er ljóst að ábyrgðin er félagsmálaráðherra á árunum 2001-2006. Einfalt mál.
Vonandi læra menn eitthvað á þessum skandal. Það verður að taka á öllu verklagi hjá ríkinu, enda er þetta mál allt áfellisdómur þess. Vonandi munu þeir sem héldu á málefnum Byrgisins og þeir sem dældu þar peningum í afvötnunarstöð skandalanna fá að gjalda þess. Á þessu verður að taka með þeim eina hætti sem fær er.
Vonandi fær þetta allt þann endi að það verði lexía fyrir þá sem nærri hafa þessu stórfellda fjármála- og kynlífshneyksli komið með einum eða öðrum hætti.
![]() |
Segir barnsfæðingar af völdum kynferðismisnotkunar í Byrginu orðnar tíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.2.2007 | 19:25
Kristinn H. tilkynnir um vistaskipti á morgun

Með því að Kristinn H. verði þingmaður í nafni Frjálslynda flokksins verður hann þingmaður þriðja flokksins á sextán ára þingmannsferli sínum. Það eru vissulega mjög merk tíðindi. Athyglisverðar umræður fylgdu í kjölfar skrifa minna í morgun. Þar var spurt hvort þetta væri einsdæmi að einn maður sé þingmaður fyrir þrjá stjórnmálaflokka. Það er það ekki. Hannibal Valdimarsson, fyrrum ráðherra, var formaður þriggja stjórnmálaflokka; Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna, og var þingmaður fyrir öll þrjú öflin auðvitað. Þeir Hannibal og Kristinn H. teljast hiklaust báðir þekktir bragðarefir í vestfirskri stjórnmálasögu.
Það verður fróðlegt að sjá hvort að Kristinn H. leiði lista Frjálslynda flokksins í höfuðborginni eða í Norðvesturkjördæmi. Það ganga sögur um að Guðjón Arnar og Kristinn H. fari í framboð í Reykjavík. Mörgum þætti eflaust eðlilegra að hann leiddi listann í Norðvesturkjördæmi, en það er þó flestum ljóst að vart verði þeir saman á lista. Fari formaðurinn suður í framboð fari Kristinn H. fram fyrir vestan og fer fyrir flokknum þar. Svo verður fróðlegt að sjá hver muni leiða Frjálslynda í Reykjavík suður, kjördæminu sem Margrét Sverrisdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri flokksins, leiddi í alþingiskosningunum 2003. Þar er laust pláss sem fylgst verður með hver fyllir upp í.
Það yrði fróðlegt ef að Kristinn H. og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, myndu takast á í Reykjavík norður. Ekki yrði það líflaus kosningabarátta. Það er greinilegt að Kristinn H. mun hvernig sem fer takast á við annaðhvort Jón eða Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra. Það verður eflaust ansi öflug barátta og hann telur sig greinilega eiga harma að hefna gegn forystu flokksins sem hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir í níu ár.
Kristinn H. Gunnarsson hefur að margra mati verið stjórnarandstæðingur í fjögur ár. Um það má eflaust deila. Um það verður þó ekki deilt að á morgun verður hann stjórnarandstæðingur í orðsins fyllstu merkingu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2007 | 17:19
Hvers vegna vildi Samfylkingin ekki auglýsa?
Eins og kom fram hér í gær voru átök milli meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar um það hvort auglýsa ætti starf framkvæmdastjóra Akureyrarstofu. Lagðist bæjarfulltrúi Samfylkingar, sem situr í stjórn Akureyrarstofu, gegn því mati formannsins í nefndinni að auglýsa stöðuna. Voru átök uppi milli fulltrúa flokkanna þar til þeir náðu loks samkomulagi eftir sérstakan sáttafund leiðtoga meirihlutaflokkanna með nefndarmönnunum.
Það er gleðiefni að staðan verði auglýst. Það er hið eina rétta í stöðunni að gera það. Það er enginn vafi á því í huga minum. Í raun má segja að það sé alveg stórundarlegt að takast þurfi á um það hvort auglýsa eigi þessa stöðu. Það á að vera algjört grunnmál að svona stöður séu auglýstar lausar til umsóknar, sérstaklega við þessar aðstæður, enda er með því landslagið skannað og athugað hverjir hafi áhuga á stöðunni, sem er ný, enda ætti verkefnið bæði að teljast spennandi og heillandi fyrir þá sem hafa metnað fyrir sveitarfélaginu og tækifærunum í stöðunni.
Það á alls ekki að vera sjálfgefið að þeir sem fyrir eru í verkefnum í bæjarkerfinu eigi að fá stöðu af þessu tagi án auglýsingar. Nú séu þeir hæfustu umsækjendurnir hljóta þeir að komast sterkast til greina. Ég get því ekki betur séð en að nauðsynlegt og eðlilegt sé að verklagið sé með þessum hætti. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að stöður af þessu tagi við svona aðstæður eigi að auglýsa. Það er því ekki annað hægt en að undrast upphaflega afstöðu fulltrúa Samfylkingarinnar. Af hverju mátti ekki auglýsa? Var búið að eyrnamerkja kannski einhverjum stöðunni fyrirfram?
Þetta mál sýnir kannski að meirihlutinn sé brothættur. Það verður bara að ráðast. Það er gott að farsæl niðurstaða fékkst í málið. Það er fyrir öllu að svona verði gert, enda er ekkert annað viðeigandi við þessar aðstæður. Það hefði verið hneisa fyrir þessa flokka og bæjarfulltrúa þeirra hefði annað verklag orðið ofan á.
7.2.2007 | 15:56
Notalegt ferðalag á framandi slóðir

Mér fannst notalegt að fara í þetta skemmtilega ferðalag og fara um slóðir með þessum hætti. Ég man ekki til þess að hafa séð akkúrat þessa þætti fyrr. Ég hef þó einsett mér að ég ætla mér að fara á báða staðina í sumar. Þeir eru mjög fjarlægir þó nálægir séu. Það þarf mjög góðan fjallabíl til að halda á þessar slóðir en þar ríkir mikil náttúrufegurð, kyrrð og notalegheit. Þetta er ferðalag sem ég hef lengi viljað halda í og nú verður það gert í sumar.
Ég hef reyndar komið í sjálfa Flatey á Skjálfanda. Það var í skemmtilegri ferð okkar sjálfstæðismanna í júlí 2004 með Geir og Ingu Jónu sem heiðursgesti. Það var yndisleg bátsferð sem við áttum á leið út í eyju og mikil skemmtun í eyjunni. Þar á Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, sumarbústað með fjölskyldu sinni, sem bjó í eyjunni fyrir nokkrum áratugum. Þar var slegið upp góðri grillveislu og eyjan skartaði sínu fegursta. Það sem mér kom mest á óvart við Flatey var hversu mörg hús eru þar, en hún fór í eyði sem heilsársbyggð á sjöunda áratugnum en margir sumarbústaðir eru þar. Flatey er paradís í huga ferðamannsins.
Ég hef lengi metið mikils þessa ferðaþætti Ómars, einkum Stiklur. Það er engu líkt að halda í stutt og gott ferðalag með þessum hætti. Þar er miðlað mikilli þekkingu á staðarháttum og náttúrunni. Um daginn sá ég einmitt Stikluþátt Ómars þar sem Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrum menntamálaráðherra, er heimsóttur í Mjóafjörð og hann kynnir áhorfandanum sögu Mjóafjarðar og farið er í Dalatanga. Það er virkilega fínn þáttur og svo gleymist ekki þátturinn þar sem farið er um byggðir Vestfjarða og Gísli á Uppsölum heimsóttur - það var eftirminnilegasta viðtal íslenskrar sjónvarpssögu.
Það er oft sagt að mesta fegurðin sé í sem mestri nálægð við hversdagstilveru manns. Það er svo sannarlega ekki erfitt að samþykkja þá afstöðu þegar litið er á fegurð í Fjörðum og Flateyjardal.... staði sem eru svo fjarri en þó svo nærri manni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2007 | 13:54
Þingmaðurinn sem Samfylkingin hafnaði

Það haustar nú að hinsvegar á stjórnmálaferli Guðrúnar Ögmundsdóttur. Þessi kjarnakona í Samfylkingunni mun láta af þingmennsku eftir þrjá mánuði og halda til annarra verka. Stjórnmálaferli Guðrúnar lauk með falli hennar í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík í nóvember; hún fékk vondan skell, féll niður í ellefta sætið, og ákvað í kjölfar þess dóms að taka ekki sæti á framboðslista flokksins í komandi alþingiskosningum. Guðrún hefur verið nokkuð lengi í stjórnmálum; hún hefur setið á Alþingi frá árinu 1999 en var áður borgarfulltrúi árin 1992-1998; fyrir Kvennalistann 1992-1994 og síðar fulltrúi Kvennalistans innan R-listans eitt kjörtímabil 1994-1998.
Guðrún hefur á Alþingi verið talsmaður margra málaflokka og vakið athygli á sér fyrir að þora að fara gegn straumnum í fjölda málaflokka. Það var að mínu mati nokkuð óverðskuldað hvaða útreið hún fékk meðal eigin flokksmanna og hafi ekki fengið brautargengi þar áfram. Hafði mig vissulega lengi grunað fyrir prófkjörið að hún gæti orðið sá þingmaður flokksins sem færi verst úr prófkjörinu, en taldi þó að hún hlyti að sleppa frá falli, enda verið lengi með sterkan stuðningsmannahóp, hóp ólíks fólks. Frægt varð þegar að allt var reynt til að koma henni af þingi til að losa um þingsæti fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir, þegar að hún stóð eftir án hlutverks í stjórnmálum.
Mér fannst áhugavert að heyra hádegisviðtalið við hana á Stöð 2 í dag. Hún talaði þar fumlaust og af ábyrgð og tilfinningu um þetta umdeilda mál, sem hiklaust er mál málanna þessa dagana. Var mjög sammála því sem hún sagði þar. Þó að ég hafi stundum verið ósammála Guðrúnu í stjórnmálum verð ég að viðurkenna að mér finnst Samfylkingin verða litlausari á þingi þegar að Guðrún Ögmundsdóttir stígur af hinu pólitíska sviði eftir að flokksmenn ákváðu að skipta henni út úr þingflokknum með þessum hætti í kosningu um hverjir skipi forystusveit Samfylkingarinnar að vori.
7.2.2007 | 10:48
Kristinn H. gengur til liðs við frjálslynda

Með úrsögn Kristins H. Gunnarssonar úr Framsóknarflokknum minnkar þingflokkur þeirra eins og gefur að skilja. Eftir þessar breytingar sitja 11 framsóknarmenn á þingi og eru fimm af þessum ellefu ráðherrar (Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, er vissulega ekki alþingismaður en hann situr sem ráðherra alla þingfundi). Frá og með þessu sitja fimm þingmenn, fleiri en nokkru sinni áður, í nafni Frjálslynda flokksins á Alþingi. Kristinn H. Gunnarsson hefur setið á Alþingi frá þingkosningunum 1991. Fyrstu sjö árin sat hann á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Hann gekk til liðs við Framsóknarflokkinn árið 1998 og hefur því gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og verið áberandi í starfi hans í níu ár, nú þegar að hann heldur til starfa fyrir Frjálslynda flokkinn.
Kristinn H. leiddi lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi í kosningunum árið 1999 en varð í öðru sæti í prófkjöri flokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi í aðdraganda kosninganna 2003 og skipaði það sæti á lista flokksins. Hann tapaði slag um leiðtogasætið á lista flokksins í nóvember og varð þriðji. Kristinn H. var þingflokksformaður Framsóknarflokksins árin 1999-2003 og formaður stjórnar Byggðastofnunar í nokkur ár. Allt frá því að Kristinn H. missti þingflokksformennsku sína að kosningunum loknum hefur hann verið sólóleikari innan flokksins og andmælti t.d. mjög kröftuglega afstöðu flokksins í fjölmiðlamálinu og jafnvel enn frekar í Íraksmálinu.
Á fundi þingflokksins þann 28. september 2004 var ákveðið að Kristinn myndi ekki sitja í þingnefndum fyrir hönd flokksins. Hafði mikill ágreiningur verið milli Kristins og forystu flokksins og trúnaðarbrestur orðinn innan hópsins í garð Kristins. Áður en þingflokkurinn tók þessa ákvörðun hafði hann setið í fjórum nefndum fyrir flokkinn. Hann var tekinn aftur í sátt í febrúar 2005 og hann tók sæti þá í tveim nefndum, en öllum varð ljóst að þær sættir voru aðeins til málamynda í aðdraganda flokksþings framsóknarmanna í sama mánuði. Það hefur lengi verið ljóst að leiðir Kristins H. og Framsóknarflokksins hafa skilið og þessi lokapunktur nú engin stórtíðindi í raun.
Kristinn H. hefur þó jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fór í Framsóknarflokknum, sem og í Alþýðubandalaginu. Fræg voru ummæli Svavars Gestssonar er hann fregnaði um ákvörðun Kristins H. um vistaskiptin árið 1998. Hann sagði: "Jæja, þá er nú Ólafs Ragnars fullhefnt". Þóttu þetta skondin ummæli í ljósi þess að Ólafur Ragnar Grímsson , sem var eftirmaður Svavars á formannsstóli, hafði upphaflega komið úr Framsóknarflokknum. Svavari og hans stuðningsmönnum stóð alla tíð stuggur af Ólafi Ragnari og sárnaði stórsigur hans í formannskjöri árið 1987. Því fannst alltaf sem að Ólafur Ragnar væri boðflenna í Alþýðubandalaginu. Hann væri ekki sannur kommi.
Það hefur verið ljóst um nokkurra vikna skeið að Kristinn H. horfði nú til Frjálslynda flokksins í von um áframhaldandi þingmennsku, nú þegar að útséð var orðið um meiri frama innan Framsóknarflokksins. Það verður fróðlegt að fylgjast með honum tala fyrir innflytjendastefnu flokks og formanns í vor, það er ekki hægt að segja annað.
![]() |
Kristinn til frjálslyndra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.2.2007 | 02:09
Samfylking í vanda - ISG skerpir stóriðjulínur
Það verður seint sagt að bjart sé yfir Samfylkingunni og formanni flokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þessa dagana. Frjálst fylgisfall birtist flokknum í hverri skoðanakönnuninni á eftir annarri. Nú hefur það gerst að könnun hefur birst sem sýnir flokkinn í nýrri stöðu - hann hefur þar misst ráðandi stöðu sína á vinstrivængnum og orðinn minni en VG. Þetta eru stórtíðindi sé pólitísk saga til vinstri skoðuð síðasta áratuginn.
Þegar að VG var stofnaður sem stjórnmálaflokkur árið 1999 töldu margir það óráð hjá Steingrími J. Sigfússyni og það væri algjört hálmstrá manns sem hafði tapað formannsslag í Alþýðubandalaginu árið 1995 og yfirgefið flokkinn þrem árum síðar. Lengi vel mældist flokkurinn varla og talin mikil bjartsýni að hann næði fótfestu. Í háðstóni var talað um Steingrím og hóp hans til vinstri sem talíbana snemma í kosningabaráttunni. Er á hólminn kom fékk flokkurinn sex þingmenn í kosningunum 1999 en missti svo einn í kosningunum fjórum árum síðar.
Hverjum hefði órað fyrir er VG kom til sögunnar að hann myndi jafnvel eiga möguleika á eða takast að toppa Samfylkinguna? Þrátt fyrir að VG hafi náð vissum yfirburðum á árinu 2001 og mælst þá stærri en Samfylkingin hélst það fylgi ekki í kosningum, er á hólminn kom. Nú eru þrír mánuðir til kosninga og VG er að mælast í gríðarlegri uppsveiflu. Ef könnun Gallups í síðustu viku yrði að veruleika myndi enda VG bæta við sig átta þingsætum og standa á pari við Samfylkinguna. Á sama tímapunkti fyrir kosningarnar 2003 mældist himinn og haf milli VG og Samfylkingarinnar í fylgi og þá var Samfylkingin með tæp 40% í könnun Gallups. Það er því ekki hægt að jafna þetta saman.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vonarstjarna Samfylkingarinnar í síðustu alþingiskosningum, sótt til verka í Reykjavíkurborg til verka fyrir flokkinn. Hún sagði skilið við embætti borgarstjóra í Reykjavík fyrir þingframboðið. Flokkurinn vann fylgi frá fyrri kosningum og hlaut átta þingmenn í Reykjavík. Þrátt fyrir hækkandi fylgi tókst flokknum ekki að ná henni sjálfri á þing. Hún stóð utanveltu í stjórnmálum í nærri tvö ár, eða þar til hún tók loks sæti á þingi við afsögn Bryndísar Hlöðversdóttur í ágúst 2005. Hún varð formaður fyrr sama ár. Síðan hefur flokkurinn aðeins minnkað og pólitísk forysta ISG fengið á sig annan blæ í landsmálum en var í borgarmálum áður.
Ingibjörgu Sólrúnu er mikill vandi á höndum. Það eru tæpir 100 dagar til kosninga og ekkert gengur. Staða hennar hefur veikst mjög og hún er að vakna upp í sorglegri atburðarás, þeirri sorglegustu sem nokkur stjórnmálamaður getur vaknað upp í. Það er aldrei kjörstaða neins sem vinnur í stjórnmálum að vakna í nær tapaðri stöðu, þar sem aðeins pólitískt kraftaverk getur bjargað flokki og formanni. Ingibjörg Sólrún er komin í þennan krappa dans og reynir nú allt, bæði til að koma sér i fréttir og viðtöl - reyna að finna aftur sama gamla taktinn. Eftir standa aðeins sár vonbrigði og vonir um betri tíð með blóm í haga. En það er oft erfitt að snúa sökkvandi skipi við frá skerinu.
Í ljósi alls þess sem blasir við Samfylkingunni og formanni hennar kemur engum að óvörum að Ingibjörg Sólrún grípi eitt hálmstráið enn; nú stóriðjumálin. Það hefur verið rætt lengi um stóriðjumál. Nú fyrst liggur fyrir mat formanns og flokks um að fresta skuli stóriðjuframkvæmdum í Straumsvík og Helguvík - væntanlega halda fast við stóriðju við Húsavík. Eftir fræga kynningu stefnunnar "Fagra Ísland" var komið með svipaðan takt. En þingmenn og sveitarstjórnarmenn flokksins sem sáu tækifæri í stóriðju vakna í heimabyggð hrukku í baklás og sögðu allir sem einn að þar yrði auðvitað engu frestað - allt væri komið vel á dagskrá og ekki aftur snúið.
Þetta er vissulega athyglisverð yfirlýsing konunnar sem studdi Kárahnjúkavirkjun í borgarstjórn fyrir fjórum árum og var mynduð skælbrosandi við Alcoa-skiltið veglega í Reyðarfirði. Það er yfir fáum afrekum að brosa þessa dagana. VG að taka sér stöðu sem ráðandi afl til vinstri og Samfylkingin fellur í fylgi með hverri könnuninni. Fylkingin í frjálsu falli sér að hún þarf að skerpa línur og með því verða Samfylkingarmenn fyrir norðan gladdir en aðrir hryggðir, enda vitum við öll að engin almenn sátt er innan Samfylkingarinnar í stóriðjumálum allsstaðar.
Gallup sagði okkur um daginn að þessi stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar mældist með 14 þingsæti, sex færri en í kosningunum 2003. Ég lét hérmeð flakka með nafnalista þeirra (samantekt um hverjir ná inn ef kosið yrði nú er að finna undir tenglinum neðst) sem myndu ná kjöri á þing fyrir flokkinn í þeirri stöðu sem þá var uppi - í stórri og öflugri könnun. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer í vor, en ekki blæs byrlega í áttina til Ingibjargar Sólrúnar og hjarðarinnar sem hún leiðir nú um stundir.
Samfylkingin (14)
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Reykjavík suður)
Jóhanna Sigurðardóttir
Össur Skarphéðinsson (Reykjavík norður)
Ágúst Ólafur Ágústsson
Gunnar Svavarsson (Suðvesturkjördæmi)
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Árni Páll Árnason
Guðbjartur Hannesson (Norðvesturkjördæmi)
Kristján L. Möller (Norðausturkjördæmi)
Einar Már Sigurðarson
Björgvin G. Sigurðsson (Suðurkjördæmi)
Lúðvík Bergvinsson
Róbert Marshall
Samfylkingin fékk 20 þingsæti í kosningunum 2003. Einn þingmaður flokksins gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn árið 2007. Mörður Árnason, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Helgi Hjörvar og Anna Kristín Gunnarsdóttir myndu skv. þessu öll falla af Alþingi. 5 þingmenn Samfylkingarinnar gefa ekki kost á sér til þingmennsku nú.
Hverjir kæmust á þing nú? - samantekt SFS (3. feb. 2007)
![]() |
Samfylkingin vill fresta stóriðjuframkvæmdum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |