Orðhákurinn Steingrímur J. koðnar niður í þinginu

Steingrímur J. Það var frekar kostulegt að sjá Steingrím J. Sigfússon koðna niður í þinginu og vilja ekki svara einfaldri spurningu á sama degi og hann trompar bæði Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í tveim skoðanakönnunum. Í dag mældist enda VG stærri en Samfylkingin í fyrsta skipti hjá Gallup í heil fimm ár og hann hefur meira fylgi meðal landsmanna til að verða forsætisráðherra en Ingibjörg Sólrún. Er Steingrímur J. kannski að verða forsætisráðherraefni vinstriaflanna? Ekki hægt annað en að spyrja pent.

Þingmenn Framsóknarflokksins gerðu Steingrími J. greinilega nokkurn grikk á þingi í dag með því að minna hann á að innan við tvö ár eru síðan að fram kom af hans hálfu í þingumræðu að Neðri-Þjórsá væri mjög eðlilegur virkjunarkostur. Sagði hann þá ennfremur að vinstri grænir hefðu í sveitarstjórnum stutt stóriðju á Grundartanga og Húsavík og virkjanir á Hellisheiði vegna stækkunar í Straumsvík. Athygli vakti að Steingrímur vék sér undan því að svara. Hann koðnaði niður undan spurningum og athugasemdum alþingismannanna Guðjóns Ólafs Jónssonar og Hjálmars Árnasonar. Enda er þetta frekar pínlegt fyrir mann sem sveipar sig fagurgrænum heilagleikaljóma í umhverfismálum á tyllidögum.

Ég hef lengi fylgst með stjórnmálum hér á þessu svæði og verið stjórnmálaáhugamaður í mjög mörg ár, eiginlega síðan að ég komst til vits og ára. Heimahéröð mín hér fyrir norðan hafa verið pólitískur vettvangur Steingríms J. og segja má að þessi hluti Norðausturkjördæmis sem ég bý í hafi verið vagga VG í upphafi. Ég verð því fúslega að viðurkenna eftir öll þessi ár sem pólitískur áhorfandi hér að ég hef aldrei séð Steingrím J. svona vandræðalegan eins og í þinginu í dag. Það var mjög tómlegur svipur í andlitinu yfir þessum svörum. Orðin komu aldrei í umræðunni... engin svör. Það var bara horft út í bláinn. Merkilegt móment, svona ekta Kodak moment, eins og bloggvinur Árni blaðaljósmyndari myndi kalla það.

Ég var á fundi með Steingrími J. á þriðjudagskvöldið. Það var gott spjall um ýmis málefni og við sátum heillengi og fórum yfir stöðu mála. Hann drakk kaffi á meðan að ég drakk mjög hollan og góðan epladrykk, mjög hollur og góður drykkur eflaust ef marka má pakkalýsingarnar með prósentum. En hvað með það. Þar var fyrir framan mig og aðra fundarmenn staddur maður, mjög sjóaður pólitískur sjóari sem hefur siglt um allar pólitísku öldur heimsins, sem svaraði öllum spurningum sem að honum var beint. Ekkert hik og svör á reiðum höndum. Þannig man ég alla tíð eftir Steingrími J.

Þannig var hann ekki í þinginu í kvöld. Þar var tómlegt augnaráð og þögnin ansi áberandi. Mjög merkilegt. Það er betra sennilega að þegja en moka dýpri holu en þá sem þegar var ljós í þessu máli.

Fylgst vel með verðlagi eftir skattabreytingar

Matvöruverslun Ég get nú ekki sagt að ég hafi upplifað risastóra hamingjustund yfir lækkandi verði þegar að ég stóð við kassann í Nettó á sjötta tímanum og borgaði fyrir það sem var í körfunni minni... en lækkun er það samt auðvitað. Þessu ber að fagna, þó mörg fleiri skref megi stíga auðvitað. Sumt lækkar meira en annað og heilt yfir var gaman að líta yfir verðmiðann og fara aðeins betur yfir er heim var komið.

Það er greinilegt að ekki eru allir viljugir að fara eftir þessu. Það er skandall verði neytendum öllum ekki færð þessi lækkun og það verður að fylgjast með því að staðið verði við þetta. Einfalt mál það. Það ber því að fagna því að Neytendastofa, Neytendasamtökin og tengdir aðilar hafi vakt á þessu - fylgst verði vel með. Það mun vonandi bera góðan árangur. Það er allavega ljóst að augu hins almenna neytenda eru vel opin. Það er gott mál.... er nauðsynlegt.

Þeir á Egilsstöðum virðast hafa flaskað á því allstórlega eins og sést í þessari frétt. Svona er vel fylgst með. Það er um að gera að vera vel vakandi. Ekki er þetta nú gott PR allavega fyrir söluskáli framsóknarkaupfélagsins fyrir austan allavega.

mbl.is Söluskáli KHB lækkaði ekki verð í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur sigur hjá Bubba í Hæstarétti

Bubbi Morthens

Það er óhætt að segja að Bubbi Morthens vinni góðan sigur í frægu máli sínu gegn DV og Hér og nú og fái sitt fram. Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms í mars 2006. Eins og flestir vita birti tímaritið forsíðumynd í blaði sínu í júní 2005 með flennifyrirsögninni Bubbi fallinn! Á myndinni sást Bubbi með sígarettu í munnvikinu sitjandi í bíl sínum talandi í farsíma. Bubbi krafðist þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og að honum yrðu dæmdar miskabætur.

Ummælin eru dæmd dauð og ómerk og er ritstjóri blaðsins á þeim tíma dæmdur til að greiða Bubba 700.000 krónur í miskabætur. Ennfremur er tekið sérstaklega fram í dómnum að myndataka af manni í bifreið sinni sé með öllu óheimil á sama hátt og um væri að ræða myndatöku að heimili hans. Ráðist sé að friðhelgi einkalífs hans með slíku.

Tek ég undir þetta mat. Man ég vel þegar að ég sá þetta tiltekna blað fyrst. Fyrsta hugsun mín og flestra voru án vafa að nú væri Bubbi aftur kominn í dópið. Allavega er ljóst að fyrirsögnin bauð heim misskilningi og dómurinn er svo sannarlega skiljanlegur. Svona umfjöllun er enda fyrir neðan allar hellur.

Það er gott að það liggi fyrir dómur sem tekur í vonandi eitt skipti fyrir öll á "blaðamennsku" af þessu tagi sem var á ótrúlegu plani á þeim tímapunkti sem þessari forsíðu var slengt fram. Bubba Morthens vil ég óska til hamingju með sigur sinn í málinu. Sá sigur er í senn bæði afgerandi og nokkuð sögulegur.


mbl.is Bubba Morthens dæmdar bætur fyrir meiðyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG stærri en Samfylkingin - ríkisstjórnin fallin

Könnun (mars 2007) VG mælist stærri en Samfylkingin, og því annar stærsti flokkur landsins, í nýjustu skoðanakönnun Gallups sem kynnt var rétt í þessu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Þetta er í fyrsta skipti í fimm ár sem það gerist í könnunum frá Gallup. Ríkisstjórnin mælist fallin í könnuninni rétt eins og var í síðustu mánaðarkönnun. Framsóknarflokkurinn bætir við sig milli mánaða og er nú kominn yfir 10% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn missa fylgi milli mánaða.

Fylgisaukning VG er staðfest í þessari könnun. Síðast munaði litlu á flokkunum en nú eru semsagt vinstri grænir komnir fram úr Samfylkingunni. Það eru nokkur tíðindi svo sannarlega. Skv. þessu er Sjálfstæðisflokkurinn með örlitlu meira en kjörfylgið 2003 og er nú aðeins 12% stærri en VG. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24 þingsæti, VG hefur 15 þingsæti, Samfylkingin hefur 14, Framsókn hefur 6 þingsæti en Frjálslyndir hafa 4 þingsæti. Skv. þessu hefur Sjálfstæðisflokkur bætt við sig tveim frá kosningunum 2003, VG bætt við sig tíu þingsætum, Samfylkingin misst sex, Framsókn líka misst sex og Frjálslyndir hafa jafnmarga og síðast.

Þetta er merkileg staða sem sést þarna, vægast sagt. Fróðlegt verður að sjá skiptingu þingmanna í kjördæmunum í samræmi við þetta. Stóru tíðindin eru þó að VG mælist næststærsti flokkur landsins og með einu þingsæti meira en Samfylkingin. Á sama tímapunkti fyrir fjórum árum var himinn og haf milli flokkanna, Samfylkingu í vil. Þessi könnun birtist sama dag og könnun Fréttablaðsins sýndi að fleiri vildu Steingrím J. Sigfússon sem forsætisráðherra en Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Þessi könnun er mjög stór - vel yfir 4000 manna úrtak og hún er gerð yfir heilan mánuð. Þetta er því öflug könnun sem segir ansi margt um stöðuna eins og hún er núna. Hún dekkar mánuðinn og því erfitt að sjá nýjustu sveiflur. Nú stefnir hinsvegar í vikulegar kannanir hjá Gallup fyrir RÚV og Morgunblaðið og daglegar undir lok baráttunnar svo að þetta verða spennandi tímar framundan. Það eru aðeins 72 dagar til kosninga.

Það hlýtur að fara um Samfylkingarmenn í þessari stöðu. Þetta er ansi frjálst fall frá kosningunum 2003 og það sem meira er að Steingrímur J. er farinn að líta niður á Ingibjörgu Sólrúnu í orðsins fyllstu merkingu.

mbl.is VG með meira fylgi en Samfylking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi til að drekka bjór í 18 ár

Bjór Í dag, 1. mars, eru 18 ár liðin frá því að sala á sterkum bjór, var leyfð á Íslandi. Innflutningur og sala á bjór var bönnuð með lögum árið 1915, bannið var því í gildi í 74 ár. Frumvarp um afnám bjórbannsins var samþykkt á Alþingi að kvöldi 9. maí 1988. Oft hafði fram að því verið lagðar fram tillögur á þingi um afnám bannsins en alltaf tókst andstæðingum þess, að sala á áfengu öli yrði heimiluð að nýju, að stöðva framgang breytinganna.

Loks tókst að ná þingmeirihluta um málið í kjölfar þingkosninganna 1987 og frumvarpið varð að lögum eins og fyrr segir vorið 1988. Ólíkt því sem nú er voru deildir þingsins þá tvær, efri og neðri deild, og tafði það afgreiðslu málsins að ekki var víst um stuðning í annarri deildinni. Atkvæðagreiðsla um bjórinn varð þó ekki eins tvísýn og búist hafði verið við í upphafi.

Ég fer nánar yfir þetta í pistli á vef SUS í dag, sem ber heitið: Frelsi til að drekka bjór í 18 ár

Bendi ennfremur á þennan tengil:
Ýmis ummæli andstæðinga frelsis í umræðum um afnám banns við neyslu og sölu bjórs

Harður árekstur heima í Þórunnarstræti

Árekstur Harður árekstur var heima í Þórunnarstræti í dag. Það er enginn vafi á því að gatnamót Þórunnarstrætis og Glerárgötu eru mjög hættuleg í hálku, enda er brekkan niður Þórunnarstræti að gatnamótunum mjög brött og erfið. Það hefur verið gríðarleg hálka hérna á Akureyri síðustu dagana, en vetrarríki hefur verið alveg frá því um helgi.

Ég hef búið neðarlega í Þórunnarstræti síðustu fimm árin, rétt fyrir ofan lögreglustöðina, og þekki því vel þessi gatnamót enda fer ég um þau á hverjum degi niðrí bæ og svo auðvitað aftur heim. Hún er mjög erfið í svona veðri eins og verið hefur og oft hafa orðið þarna harðir árekstrar á gatnamótunum. Stutt er t.d. síðan að þunglestaður flutningabíll rann svo til stjórnlaust niður vegna lélegs útbúnaðar og mildi þá að varð ekki stórslys.

Ég fer ekki ofan af því að þetta er með svæsnari gatnamótum í bænum við þær aðstæður sem nú eru. Slys af þessu tagi eru allavega umhugsunarverð fyrir okkur sem búum hér og förum um gatnamótin á hverjum einasta degi.

mbl.is Harður árekstur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ísland!

Matvöruverslun Við, neytendur, ættum öll að geta glaðst vel í dag. Frá og með deginum í dag lækkar virðisaukaskattur mjög á fjölda vörutegunda. Vörugjald af innlendri matvöru hefur verið afnumið - virðisaukaskattur af matvælum, sem nú er 14%, verður 7% og sömuleiðis verður það 7% af þeim matvörum sem nú er í 24%. Ennfremur lækkar virðisaukaskattur af veitingaþjónustu sem nú er 24,5% niður í 7%. Almennir innflutningstollar af kjötvöru munu lækka um allt að 40% samhliða þessu.

Þessar tillögur stjórnarflokkanna sem nú verða að veruleika voru fyrst kynntar þann 9. október sl. Þær tillögur komu í kjölfar skýrslu Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra, sem stýrði nefnd sem skipuð var af forsætisráðherra í janúar 2006, er var afgerandi þess efnis að matvælaverð hérlendis væri alltof hátt og aðgerða væri þörf, sem flestir vissu svosem vel fyrir. Tillögurnar voru staðfestar af Alþingi fyrir árslok.

Það er fátt um þetta að segja nema hið allra besta. Þetta er sannkallaður gleðidagur. Öflugt skref í rétta átt svo sannarlega.

mbl.is Virðisaukaskatturinn lækkaður; neytendur segjast vera vakandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sr. Pétur Þórarinsson látinn

Sr. Pétur Þórarinsson, sóknarprestur og prófastur í Laufási, lést í nótt, 55 ára að aldri. Pétur hafði barist hetjulega við erfið veikindi svo árum skipti, veikindi sem sýndu karakterstyrk hans betur en flest annað. Sr. Pétur hefur verið sóknarprestur hér á svæðinu í tæpa þrjá áratugi. Hann var prestur á Hálsi í Fnjóskadal 1976-1982, tók við sem sóknarprestur á Möðruvöllum árið 1982 er sr. Þórhallur Höskuldsson varð prestur í Akureyrarkirkju og varð sóknarprestur í Glerárkirkju hér á Akureyri er frændi minn, sr. Pálmi Matthíasson, varð sóknarprestur í Bústaðakirkju við biskupskjör Hr. Ólafs Skúlasonar.

Sr. Pétur hefur verið sóknarprestur á Laufási frá árinu 1991, frá biskupskjöri sr. Bolla Gústafssonar á Hólum. Hann hefur síðasta áratuginn verið prófastur á sínu svæði, en varð að hætta sem prófastur fyrir nokkrum mánuðum vegna veikinda. Nær allan prestsferil sinn að Laufási hefur Pétur barist við erfið veikindi. Hann missti báða fætur sína vegna sykursýki um miðjan síðasta áratug og barðist við að halda störfum sínum áfram með aðdáunarverðum hætti við mjög erfiðar aðstæður.

Án aðstoðar Ingu, eiginkonu Péturs, hefði honum verið erfitt að halda áfram, en hún var allt til hinstu stundar honum mikil stoð í verkum sínum. Samhugur íbúa hér með Pétri og fjölskyldu hans í veikindastríðinu hefur alla tíð verið mikill. Eftir þann þunga dóm að missa báða fæturna voru haldnir styrktartónleikar fyrir fjölskylduna, fleiri en einir tónleikar, í Glerárkirkju. Voru það ógleymanlegir tónleikar okkur sem þangað fóru.

Ég vil votta Ingu og fjölskyldunni mínar innilegustu samúðarkveðjur við fráfall Péturs.

Fallegasta ljóð Péturs og það sem mun halda nafni hans hæst á lofti er Í bljúgri bæn;


Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð leiddu mig
og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt, sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér,
því veit mér feta veginn þinn,
að verðir þú æ Drottinn minn.

Pétur Þórarinsson
1951-2007


Fjallað er nánar um æviferil Péturs í ítarlegum skrifum á vef Þjóðkirkjunnar í dag.

Pétur veitti síðasta fjölmiðlaviðtal sitt í haust er hann ræddi við Björn Þorláksson - þar sagði hann veikindasöguna í Kompásþætti. Bendi fólki á að horfa á viðtalið við Pétur. Það lætur engan ósnortinn.

Blessuð sé minning höfðingjans Péturs í Laufási.


Sterk staða Geirs - fleiri vilja Steingrím en ISG

Geir H. HaardeTæpur helmingur landsmanna vill að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, verði áfram forsætisráðherra að loknum þingkosningunum í vor skv. könnun Fréttablaðsins. Athygli vekur að mun fleiri vilja að Steingrímur J. Sigfússon verði forsætisráðherra en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og hefur hann um 10% meira fylgi. Stóru tíðindin hvað varðar minnkandi mælingu Ingibjargar Sólrúnar er þó án nokkurs vafa það að aðeins 20,5% kvenna vilja að hún verði forsætisráðherra, en hinsvegar örlitlu færri karlar, eða 16,7%.

Geir hefur meira fylgi nú en í sambærilegri könnun í nóvember. Nú vilja tæp 49% að hann verði áfram forsætisráðherra; 51,4% karla en 45,6% kvenna. Sterk staða Geirs á meðal kvenna vekur sérstaka athygli og hlýtur að boða gott fyrir sjálfstæðismenn að svo miklu fleiri konur í úrtakinu vilji Geir frekar en Ingibjörgu Sólrúnu. Þessi staða hlýtur að teljast góð tíðindi fyrir Geir á þessum tímapunkti, þegar að rétt rúmir 70 dagar eru til þingkosninga, en Geir hefur nú verið forsætisráðherra í tæpa níu mánuði, eða allt frá 15. júní sl. er Halldór Ásgrímsson hætti í stjórnmálum.

Steingrímur J. Sigfússon hefur tæplega tíu prósentum meira í könnuninni en Ingibjörg Sólrún. Rúmur fjórðungur, eða 25,8 prósent, segist vilja að Steingrímur J. verði næsti forsætisráðherra. Lítill munur er á afstöðu eftir kyni, en 26,8% íbúa á höfuðborgarsvæðinu nefna Steingrím og 24,3% íbúa á landsbyggðinni. Í könnun blaðsins í nóvember sögðust 16,6% vilja að Steingrímur verði næsti forsætisráðherra en 22% vildu þá Ingibjörgu Sólrúnu. Staða hennar virðist því halda sífellt áfram að veikjast.

Áhyggjuefni hlýtur að vera fyrir Framsóknarflokkinn að Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður flokksins, mælist ekki í þessari könnun. Það er greinilegt að honum hefur ekki tekist að stimpla sig inn þrátt fyrir að hafa verið formaður Framsóknarflokksins í rúmlega hálft ár og ráðherra í um níu mánuði. Þessi staða hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir Framsókn því að Halldór Ásgrímsson mældist jú alltaf þó hann hafi orðið óvinsæll undir lok stjórnmálaferilsins.


Bloggfærslur 1. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband