Samúðarkveðjur

Það er enn hálfgerð ónot og tómleiki í huga mér eftir þetta banaslys í gær. Þetta er allt svo sorglegt að maður á varla til nein almennileg orð yfir það. Það er í einu orði sagt sorglegt þegar að kona í blóma lífsins kveður þennan heim við þessar aðstæður. Þetta er harmleikur. Það er mikill tómleiki fyrir ættingja og vini - líka held ég bara fyrir alla sem upplifðu fréttirnar af þessu og sáu myndirnar. Þetta var eins sorglegt og það getur mest verið.

Síðasta ár var rosalegt í umferðinni. Það var mikil blóðtaka fyrir samfélagið allt, enda dó svo mikið af ungu fólki. Það var því miður það sem einkenndi árið út í gegn; fjöldi ungs fólks sem dó, fólk í blóma lífsins. Dauði eins snertir okkur öll við svona aðstæður. Því miður eru umferðarslys hérna alltof mörg. Það eru of margir sem kveðja heiminn við þessar aðstæður. Þungi vegakerfisins er því miður ein ástæðan í alltof mörgum tilfellum, t.d. á Suðurlandsvegi.

Orð megna sín frekar lítils við svona atburði. Ég vona að við séum ekki á leiðinni í annað sorglegt umferðarár. Því miður óttast maður orðið hið versta í þessum málum. Það er erfitt að finna eina töfralausn betri en fara varlega í umferðinni. Annars ætla ég ekki að predika hve sorgleg umferðarslys eru. Við vitum það öll, hvort sem við höfum upplifað naprasta hluta þeirra eður ei.

Ég vil votta aðstandendum mína innilegustu samúð.

mbl.is Lést í bílslysi á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Íslandshreyfingin taka fylgi úr öllum áttum?

Forysta Íslandshreyfingarinnar Landsframboðunum við þingkosningarnar eftir 50 daga fjölgaði um eitt í dag. Stóra spurningin er; mun Íslandshreyfingin taka fylgi úr öllum áttum? Framboðið er markaðssett sem hægri grænt og leiðtogi flokksins er ein helsta goðsögn íslenskrar sjónvarpssögu. Hvernig mælingu fær framboð af þessu tagi og nýtur málflutningur Ómars Ragnarssonar stuðnings fólks úr öllum flokkum?

Þetta eru í raun stóru spurningarnar - þeim verður svarað eftir 50 daga. Ef þessi flokkur tekur fylgi úr öllum áttum verður hann eflaust örlagavaldur í þessum kosningum. Borgaraflokknum tókst það fyrir tveim áratugum að koma fram innan við 50 dögum fyrir kosningar, sópa upp fylgi víða að og hljóta sjö þingsæti. Það var þá, en hvað gerist nú? Þetta framboð er eitt stærsta spurningamerki baráttunnar sem framundan er. Flestir vilja enda ólmir fara að greina stöðu þess.

Nýleg skoðanakönnun sýndi að framboðið myndi helst taka fylgi frá vinstri, fólki sem er umhverfissinnað fyrst og fremst. Samfylkingin fór verst út úr tilkomu nýja framboðsins í þeirri könnun. Munu hægrikratar, sem eru andvígir stóriðju, og mildasti armur VG telja framboðið hið eina rétta? Eða munu hægri grænir sjálfstæðismenn horfa á þennan flokk sem valkost fyrir sig, nú eða einhverjir framsóknarmenn? En hvað með frjálslynda, þeir hafa tapað miklu fylgi í síðustu skoðanakönnunum og eru komnir undir 5% mörkin í nýjustu könnun Gallups - missa þeir enn meira en orðið er með brotthvarfi Sverrisarmsins fræga úr flokknum?

Allt eru þetta stórar spurningar. Allir alvöru stjórnmálaáhugamenn bíða nú ólmir eftir að greina stöðuna. Sögusagnir hafa verið miklar um hvort af framboðinu yrði og hvernig það yrði kynnt. Það höfum við nú séð. Þetta er hægri grænt framboð með afgerandi umhverfispólitík í forgrunni. Nú er það orðið alvöru afl og tryggt sér sess í alla lykilumfjöllun með landsframboði. Nú fara kannanir brátt að færa okkur stöðu mála eins og hún er. Væntanleg er könnun frá Gallup á morgun. Hún segir einhverja litla sögu af heildarmyndinni eflaust.

Þetta verða spennandi kosningar eftir 50 daga - ekkert er þar gefið fyrirfram. Þetta framboð er allavega komið til leiks og flækir myndina enn - gerir hana þó bara skemmtilegri fyrir okkur sem skrifum um stjórnmál úr fjarlægð mesta þunga baráttunnar.

mbl.is Ómar vill opna eldfjallagarða líkt og á Hawaii
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirring samráðsforstjóra

Mér fannst mjög merkilegt að sjá samráðsolíuforstjórann Kristinn Björnsson tala í Kastljósi í vikunni. Orð hans voru jafnmikil veruleikafirring og þegar að við sjáum þegar að áfengissjúklingur heldur á glasi í hendi með áfengum drykk við barborðið og segist kæruleysislega ekki eiga við neitt vandamál að stríða.

Dómur Hæstaréttar fyrr í þessum mánuði hreinsaði forstjórana ekki að neinu að mínu mati. Gallarnir á málinu hjálpuðu þeim. Ég hef alla tíð verið viss um að samráð átti sér stað. Hverjir báru ábyrgð á því? Veggir fyrirtækisins eða manneskjur? Ég held að hugsandi fólk þurfi ekki að velta því lengi fyrir sér.

Ég skildi ekki ummæli Kristins í þessu viðtali. Hann svona tók undir sumt en sagði hitt vitleysu. Þetta var óttalegur hráskinnaleikur, leikur að orðum. Óttaleg veruleikafirring. Það er allavega mitt mat. Það var afleitt að ekki var hægt að taka á þessu máli. Það hefði sakfelling verið að mínu mati.

Enda er öllum ljóst að samráð fór fram og það vita allir hverjir bera ábyrgð á því.

mbl.is Smjörklípa í Kastljósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómar leiðir Íslandshreyfinguna - framboð kynnt

Ómar Ragnarsson Íslandshreyfingin - lifandi land, hægri grænn stjórnmálaflokkur, var kynntur á blaðamannafundi fyrir stundu. Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður, mun leiða hið nýja framboð, en Margrét Sverrisdóttir, starfandi borgarfulltrúi, mun verða varaformaður þess. Mun það bjóða fram í öllum kjördæmum og er ætlað að berjast fyrir umhverfisvernd, jöfnuði, betri kjörum aldraðra og öryrkja og nýsköpun.

Það eru vissulega stórtíðindi að Ómar leiði framboðið og verði lykilforystumaður þess í kosningabaráttunni. Þetta þýðir um leið að hann verður í öllum lykilviðtalsþáttum baráttunnar með öðrum formönnum stjórnmálaflokka og tekur meginslaginn sem alvöru leiðtogi. Ómar er okkur öllum vel þekktur sem fréttamaður, skemmtikraftur og þúsundþjalasmiður - nú verður hann hinsvegar stjórnmálamaður og kemur fram sem slíkur í kosningabaráttu næstu 50 dagana.

Framboðið er kynnt á þeim degi þegar að nákvæmlega 50 dagar eru til alþingiskosninga. Nú reynir á kraft þess og styrkleika. Ómar verður elsti stjórnmálaleiðtoginn í slagnum. Hann verður 67 ára, það sem flestir kalla löggilt gamalmenni, þann 10. maí, tveim dögum fyrir alþingiskosningar. Nú reynir á hvernig hann sé sem alvöru leiðtogi. Það verður fróðlegt að sjá.

Reyndar hefur framboð hans blasað við lengi, eða allt frá því í haust er hann hætti sem fréttamaður til að tala hreint út og ákveðið um umhverfismál. Þar birtist okkur eldhugi og baráttumaður sem hikaði hvergi. Þar birtist stjórnmálaleiðtogi.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þau leggja upp baráttuna undir forystu Ómars sem flokksformanns og Margrétar sem varaformanns. Margir töldu þetta verða hreyfinguna hennar. Svo virðist ekki eiga að vera að öllu leyti.

Var kannski deilt um einmitt þetta síðustu dagana, átökin sem ég nefndi á mánudag? Hver veit. En nú reynir á þetta. Nú hefst hiti og þungi baráttunnar. Hefur þetta framboð einhvern hljómgrunn. Ætli Gallup svari því ekki brátt fyrir okkur.

Eitt annað; framboðið virðist hafa fengið að bjóða fram með broddstaf. Í verður það, rétt eins og hjá Ísafjarðarlistanum í sveitarstjórnarkosningunum fyrir tæpu ári.

mbl.is Ómar formaður og Margrét varaformaður Íslandshreyfingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöð 2 sendir út hádegisfréttir frá Akureyri

Hádegisfréttir Stöðvar 2 og Bylgjunnar voru sendar út í beinni útsendingu frá Akureyri í dag, svo og hádegisviðtal við Þorstein Gunnarsson, rektor HA. Það er ánægjulegt að sjá þann metnað sem þessum útsendingum fylgir. Það er öllum ljóst að þar er mesta eljan við að flytja fréttir héðan af Eyjafjarðarsvæðinu á landsvísu. Það eru langmestu líkurnar á því að þar sé fjallað um aðalmálin sem hér er í deiglunni.

Vil lýsa yfir ánægju minni með þetta - það eru vissulega stórtíðindi að einkareknir fjölmiðlar geri betur en sá ríkisrekni. Á það verður að benda. Það er enda tímaskekkja að ríkið reki fjölmiðla.

Nýtt framboð kynnt - að geta sagt frá hlutunum

Ómar og MargrétÞá á að kynna hið nýja hægri græna stjórnmálaafl í dag. Allar þær sögusagnir sem ég hef birt um þetta nýja framboð hafa ræst. Ég sagði fyrstur allra frá því að Margrét myndi yfirgefa Frjálslynda flokkinn, hvernig miðaði við stofnun nýs framboðs, tímasetningu framboðsins og fleiri hlutum. Það er mjög gott að geta sagt einhverjar fréttir og hafa eitthvað að segja um hlutina.

Eina sem mögulega rættist ekki var kjaftasagan um að framboðið héti Íslandsflokkurinn, en nafnið var ekki fjarri því. Í byrjun vikunnar skrifaði ég um að ósætti væri milli Margrétar og Ómars. Því neitaði enginn, ekki einu sinni forystufólk framboðsins. Það spurði mig reyndar einn í morgun hvort að ég væri í þessum vinnuhópi, ég virtist vita meira en margir aðrir um þessi mál. Það er langt síðan að ég sagði að ég væri ánægður í mínum flokki og sjálfstæðismenn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mér.

En ég er áhugasamur um stjórnmál. Þetta er nýtt framboð sem fáir vita hvert muni sækja fylgi sitt. Takist þeim vel til munu þau sópa fylgi á breiðum skala. En það er allt undir þeim komið. Ný framboð eru enda mun meiri óvissuþáttur en hin. Óþekkt stærð er meira spennandi en aðrar að skiljanlegum ástæðum. Það er mjög einfalt mál.

Ég sé að Jakob Frímann kynnir framboðið með Ómari og Margréti. Honum eru greinilega ætlaðir einhverjir hlutir þarna. En ekki fleiri kjaftasögur og pælingar; nú sjáum við á tromp þessa fólks og hvað það hefur fram að færa. Það hefur verið beðið lengi eftir framboðinu og flestir spenntir að heyra og sjá meira.


mbl.is Kynna framboð Íslandshreyfingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband