Skoðanaskipti um þjóðsöng - fyndin handtaka

Spaugstofan Það var nokkur húmor yfir þessari frétt um handtöku Spaugstofumanna vegna brota þeirra á lögum um þjóðsöng lýðveldisins. En það fer sannarlega ekkert á milli mála að þetta hefur verið ansi heitt mál, miklar tilfinningar og harðar skoðanir í því. Sitt sýnist hverjum. Hef fengið eins og ég benti á í gær mikinn slatta af tölvupósti um málið og svo hafa umræður verið nokkrar hér á vefnum eins og allir sjá sem líta hér í heimsókn.

Í grunninn liggur málið allt mjög ljóst fyrir. Sumum finnst allt í lagi að brjóta þessi lög. Þar ræður gamla góða "af því bara" svarið. Mjög skondið þannig séð. Nokkrir aðilar trompuðust yfir skrifum mínum hér í gærkvöldi þar sem ég talaði fallega um þjóðsönginn og fannst greinilega allt í lagi að senda mér tölvupóst þar sem viðkomandi, sumir nafnlausir, láta að því liggja að ég væri að vega að tjáningar- og málfrelsi með ummælum mínum um lögbrot Spaugstofunnar. Þar sem þeir sem þetta sögðu geta ekki annað en sent nafnlausa pósta eru orð þeirra með öllu marklaus. Geti fólk ekki sett nafn sitt með svona ómerkilegheitum er skoðunin dauð, sama gildir á þessum vef hér!

Mér finnst að ég hafi svosem sagt allt það sem mér finnst um þetta. Hef fengið lífleg viðbrögð. Þetta hefur verið málefnalegt að mestu hér, það er sjálfsagt að fólk hafi skoðanir á þessu máli og segi það sem því finnst. Það gildir það sama um aðra, rétt eins og mig. Á mínum vef segi ég það sem mér finnst. Ef ég ætlaði að vera sammála öllum væri þessi vefur þurr og leiðinlegur. Finnst mjög gott að fá komment, eina skilyrðið sem ég hef sett er að þar skrifi fólk hér á kerfinu, allavega með nafni og vitað sé hver skrifi. Mér finnst það ekki óeðlileg krafa. Hafi menn skoðun hljóta þeir að geta sett nafnið með því. Eðlileg grundvallarregla.

Eftir stendur að lögin voru brotin með mjög áberandi hætti. Það deilir enginn um það. Refsiákvæði eru í þeim tilfellum tekin fram. Lögin eru mjög skýr og þarf ekki lagasérfræðinga til að sjá það allt saman. Í heildina skiptir því litlu hvað ég segi um þetta og eða aðrir þannig séð. Þetta mál er í höndum þeirra sem eiga að framfylgja lögunum. Mér fannst þó mikilvægt að segja mína skoðun, hika ekkert í þeim efnum. Bæði skrifa um lögbrotið sem slíkt og eins segja hvað mér finnst um þjóðsönginn. Það er heiðarlegt og gott, sé svo sannarlega ekki eftir því.

Það verður svo bara að sjá til hvað gerist í þessu máli er á hólminn kemur.

mbl.is Handtaka átti Spaugstofumenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkarnir setja 28 milljóna króna auglýsingaþak

Flokkar Nú hafa stjórnmálaflokkarnir formlega kynnt samkomulag sitt um að setja þak á auglýsingakostnað vegna alþingiskosninganna eftir sjö vikur. Mörkin eru sett við 28 milljónir króna. Þetta er tímamótasamkomulag án nokkurs vafa. Eins og ég benti á í skrifum hér í gær hefur verið reynt nokkrum sinnum að landa slíku samkomulagi, en án árangurs.

Þetta samkomulag ætti að tryggja hófsamari kosningabaráttu og rólegri keyrslu en verið hefur í peningaeyðslu, þó auðvitað fái flokkarnir rúman ramma til að kynna sig þannig séð. Best hefði verið ef menn hefðu getað sett rammann við að loka á sjónvarpsauglýsingar og hafa rammann í 20-25 milljónum. Það kemur varla að óvörum að Framsóknarflokkur og Samfylking hafi viljað setja markið hærra meðan að hinir flokkarnir vildi lækka þakið. Báðir flokkar eru í mikilli varnarbaráttu, fengu þingmeirihluta saman í kosningunum 2003 en mælast nú með vel innan við 20 þingsæti.

Eflaust eru skiptar skoðanir um þetta þak, einkum innan sumra flokka og meðal fólksins á götunni. Mér finnst þetta gleðiefni vissulega, enda á að vera hægt að keyra í þessar kosningar samhent hvað þetta varðar, að hafa kosningabaráttuna markaða og menn keyri ekki í einhverja vitleysu með draumórakenndri eyðslu. Eins og vel sást á lokasprettinum í kosningabaráttunni 2003 getur eyðslan orðið gríðarleg er á síðustu tíu dagana er komið og einn flokkur er undir. Öll munum við t.d. eftir gríðarlegri auglýsingakeyrslu Framsóknarflokksins síðustu sólarhringa baráttunnar 2003.

Í reynd finnst mér þetta samkomulag einmitt vera um að stilla þessu í hóf, einkum síðustu dagana. Það sé siðlegur rammi á baráttunni, menn drekki ekki öllu í auglýsingakeyrslu. Óháður aðili mun svo fylgjast með framkvæmd þessa, svo að þetta samkomulag ætti að vera gegnheilt og gott. En það er nú reyndar svo að einn flokkur er fyrir löngu byrjaður að auglýsa og verið áberandi, meðan að t.d. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki farinn af stað þannig séð og gerir varla fyrr en eftir landsfund að loknum páskum, sléttum mánuði fyrir kosningar.

Þrátt fyrir fagurt tal um samkomulag verður fróðlegt að sjá hvernig þetta verður er á hólminn kemur og hvernig menn keyri þessar 28 milljónir í auglýsingamiðlana. Það er allavega misjafnt hvernig menn halda í þennan lokasprett baráttunnar og ljóst að margir ætla að bíða framyfir páska. En þetta verður allavega líflegur mánuður eftir páska. Þetta samkomulag tryggir okkur vonandi hófstillta kosningabaráttu á góðum grunni.

mbl.is 28 milljóna króna mark sett á auglýsingakostnað flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða umhverfismálin ekki kosningamál í vor?

Kárahnjúkar Það vekur mikla athygli að umhverfismál, sem margir hafa talið mál málanna að undanförnu, er í fjórða sæti yfir mikilvægustu kosningamálin í vor í könnun Fréttablaðsins í dag. Ofar á listanum eru velferðarmál, efnahagsmál og skattamál. Allt eru þetta málaflokkar sem snerta kjósandann beint. Samt sem áður eru þetta í senn áberandi og athyglisverðar niðurstöður, einkum í ljósi þess að til sögunnar er komið nú nýtt grænt framboð auk þess sem margir telja sterka stöðu VG vera vegna stefnu í umhverfismálum.

Greinilegt er á þessari könnun að sjávarútvegs- og Evrópumál eru ekki ofarlega í huga landsmanna og harla ólíklegt að það verði mál sem verði í forgrunni kosningabaráttunnar. Sjávarútvegsmálin voru aðalmálin fyrir fjórum árum og það sem mest var um talað á lokasprettinum, en greinilegt að það mál trekkir ekki mikið nú. Sveifla í þeim málum og mikil umræða þá kom Frjálslynda flokknum til góða og flokkurinn keyrði á því máli og hlaut fjögur þingsæti. Nú virðast forystumenn þar ætla að keyra á innflytjendamálin, ef marka má tal kjördæmaleiðtoga þeirra í Reykjavík.

En þessi mæling á umhverfismálunum vekur athygli innan við sjö vikum fyrir kosningar. Ný framboð eru komin sem ætla sér að keyra nær eingöngu á þessum áherslum á þessum tæpu 50 dögum sem eftir eru. Fróðlegt verður að sjá hvort einhver bylgja myndast utan um það eða áherslur þess. Nýtt hægri grænt framboð fékk svosem ekki fljúgandi start í könnun Fréttablaðsins um helgina, en fróðlegt verður að sjá næstu mælingar.

Heilt yfir virðast mjúku málin ætla að verða í forgrunni. Þetta verður þó varla mjúk kosningabarátta. Það er erfitt að spá í spilin nú og við stefnum í eina af mest spennandi kosningabaráttum í áratugi ef marka má kannanir og þær sviptingar sem þær boða í raun. En það verður fróðlegt að sjá hvort staðan sé svona - hvort að umhverfismálin verði hliðarmál í kosningabaráttunni. Það segir þessi könnun okkur allavega.

Brown leggur af stað - Blair talar máli Miliband

Tony Blair Það verða þáttaskil í breskum stjórnmálum í sumar þegar að Tony Blair yfirgefur Downingstræti 10. Litríkum stjórnmálaferli er að ljúka. Baráttan um það hver erfir völd hans er nú að hefjast af fullum krafti. Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, er nú að starta maskínu sinni vegna væntanlegra leiðtogaskipta. Hann er að byggja upp leiðtogaframboð - framboð sem hefur blasað við að færi af stað fyrr en síðar eftir síðustu þingkosningar, sem allir vissu að væru síðustu kosningar Tony Blair.

Á laugardag tilkynnti Jack Straw, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, að hann myndi stýra leiðtogaframboði Browns, rétt eins og hann stýrði leiðtogaframboði Blairs fyrir þrettán árum, er hann var kjörinn eftirmaður John Smith, sem lést langt fyrir aldur fram árið 1994, eftir aðeins tvö ár á leiðtogastóli flokksins. Blair hafði Straw í stjórn sinni í níu ár. Hann var innanríkisráðherra í fjögur ár, 1997-2001, og utanríkisráðherra í fimm ár, 2001-2006. Það vakti mikla athygli þegar að Blair vék honum úr stjórninni í kjölfar vondra úrslita í byggðakosningum í fyrravor og gerði hann að áhrifalitlum þingleiðtoga neðri deildarinnar, rétt eins og forvera hans í utanríkisráðuneytinu, Robin Cook, fimm árum áður.

Það stefnir í spennandi tíma innan Verkamannaflokksins. Flestir búast við því að Blair muni tilkynna um afsögn sína fyrir 10. maí, eða strax að loknum byggðakosningum. Verkamannaflokkurinn hefur verið við völd í áratug þann 2. maí undir forsæti Blairs. Það er sú dagsetning sem talið er að hann vilji ná áður en formleg afsögn verður opinberlega kynnt. Flestir stjórnmálaskýrendur í Bretlandi telja að afsagnartilkynningin komi innan tíu daga frá valdaafmælinu. Þá fer af stað formlegt leiðtogakjör. Það fer eftir því hvort alvöru kosning verður um leiðtogastöðuna hvenær að Blair mun yfirgefa Downingstræti 10. Talið er nær öruggt að hann muni fyrst hætta sem flokksleiðtogi en muni ekki láta af völdum fyrr en í júlí, áður en áætlað sumarfrí forsætisráðherrans hefst jafnan.

Flestir sérfræðingar spá leiðtogaslag í Verkamannaflokknum þrátt fyrir að Gordon Brown hafi verið erfðaprins valdanna innan Verkamannaflokksins alla leiðtogatíð Tony Blair, allt frá árinu 1994. Hann hefur lengst allra í seinni tíð verið fjármálaráðherra Bretlands og þótt intellectual-týpa í breskum stjórnmálum, mun meiri maður pólitísks innihalds og hugsjóna en Tony Blair. Hann hefur verið farsæll forystumaður og haft mikið persónufylgi, langt út fyrir flokk sinn. Hann dró að segja má vagninn fyrir Blair í þingkosningunum 2005 þegar að hann var mun vinsælli en Blair. Það vakti mikla athygli í aðdraganda þeirra kosninga að hvert sem Blair fór hélt hann með Brown með sér. Flestir töldu það til merkis um að hann fengi leiðtogastöðu eftir Blair án baráttu og með stuðningi hans.

Sögusagnir ganga nú um að Blair og hans nánasti stuðningsmannakjarni vilji að David Miliband, umhverfisráðherra, fari í leiðtogaslaginn gegn Brown. Fréttir af því láku út fyrir helgina að Blair hafi sagt í þröngum hópi að Miliband væri sá eini sem gæti úr þessu stöðvað Brown, hann væri ungur og ferskur - sá eini sem hefði eitthvað nýtt fram að færa. Miliband er maður nýrra tíma innan Verkamannaflokksins, af mörgum nefndur hinn ungi Tony Blair. Hann hefur verið mjög handgenginn honum og í honum sjá ráðgjafar og stuðningsmenn forsætisráðherrans nýjan málsvara New Labour. Margir þeirra sem mótuðu sigurstefnuna fyrir áratug telja ekki Brown trúverðugan talsmann hennar og hafa ekki farið leynt með óánægju sína með hann.

Bið Browns eftir forsætisráðherrastólnum er orðin löng. Blair sveik loforðið fræga sem gert var vorið 1994, um að Blair færi frá á miðju öðru kjörtímabilinu. Þess í stað sóttist hann eftir að leiða flokkinn þriðju kosningarnar í röð. Með því komst Blair í sögubækur sem sigursælasti og þaulsetnasti leiðtogi kratanna í yfir 100 ára flokkssögu. Blair hefur fjarað hægt og rólega út síðan, hann varð gríðarlega óvinsæll í kjölfar Íraksstríðsins og hefur aldrei endurheimt fyrri vinsældir eftir það. Það er enda fátt nú sem minnir á geislandi leiðtogann sem leiddi Verkamannaflokkinn til sigurs í maí 1997 og leiddi baráttu fólksins fyrir því að konungsfjölskyldan sýndi Díönu prinsessu hina hinstu opinberu virðingu haustið 1997. Það var vinsæll leiðtogi fjöldans, nú er hann orðinn úthrópaður og óvinsæll.

Brown fer af stað nú til að reyna að stöðva alvöru mótframboð. Hann er að sýna fram á sterka stöðu sína. Það er engin tilviljun að hann setur Jack Straw fyrir hóp sinn og nefnir fjöldann allan af undirráðherrum sem hafa verið handgengnir Blair sem lykilhóp í forystu framboðsins. Þetta er gert til að tækla stöðuna og snúa stöðunni sér í hag, koma í veg fyrir að Miliband fari fram. Það eru nokkrar vikur síðan að Miliband sagðist styðja Brown og hefði engan hug á leiðtogastöðunni, hans tími væri ekki kominn. Nú vinna menn eins og Alan Milburn, Charles Clarke og Peter Mandelson hörðum höndum að því að tryggja baráttu um embættið, eru með því að kveikja elda milli fylkinga, auka sífellt ólguna.

Það er alveg ljóst að samskipti Blair og Brown hafa verið við frostmark undanfarin ár. Blair stóð ekki við samninga sína um að hliðra til fyrir Brown og í ofanálag vinnur hann bakvið tjöldin að því að tryggja að annar einstaklingur leggi í Brown. Þeir náðu botninum í samskiptum í fyrrahaust þegr að Brown og stuðningsmenn hans neyddu forsætisráðherrann til að gefa upp tímaplan pólitísku endaloka hans, þ.e.a.s. að hann færi frá fyrir septemberbyrjun 2007.

Staðan er orðin mjög eldfim. Hitinn eykst stig af stigi og ólgan kraumar æ meir undir eftir því sem styttist í að Blair tilkynni um formlega afsögn sína eftir nokkrar vikur. Erfitt er þó um að spá hvað gerist í raun. Líkur hafa þó aukist verulega á harðvítugum leiðtogaslag, menn eru að gíra sig upp í hann altént fyrir opnum tjöldum. Það verður mjög óvæginn slagur, verði af honum.

Sá slagur gæti líka leitt til klofnings innan flokksins og sundrungar, sem um leið tryggir íhaldsmönnum betri sess í þingkosningum innan þriggja ára. Það er altént ljóst að allra augu verða á því sem gerist þegar að Blair yfirgefur hið pólitíska svið og ferlið við valið á eftirmanni hans hefst fyrir alvöru.

Bloggfærslur 27. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband