Sjálfstæðisflokkurinn og VG í sókn í Kraganum

Könnun í SuðvesturkjördæmiNý skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Suðvesturkjördæmi var birt í kvöld, 24 dögum fyrir þingkosningar, á kjördæmafundi Stöðvar 2 í Hafnarfirði. Þar eru Sjálfstæðisflokkurinn og VG í mikilli sókn og mælast mun öflugri en í kosningunum 2003, sérstaklega VG sem eykur fylgi sitt umtalsvert og Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig kjördæmakjörnum manni. Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, mælist utan þings og Samfylkingin tapar talsverðu fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með fimm þingsæti og stendur nærri því sjötta. Samfylkingin mælist með þrjú þingsæti og VG með tvö. Aðrir eru úti; Framsókn og Frjálslyndir missa þingsæti og Íslandshreyfingin og Baráttusamtökin ná ekki flugi. Skv. því eru inni á þingi; Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Bjarni Benediktsson, Ármann Kr. Ólafsson, Jón Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir (Sjálfstæðisflokki), Gunnar Svavarsson, Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir (Samfylkingu), Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (VG). Nokkuð líklegt er að Sjálfstæðisflokkur fengi jöfnunarmann en óvissa er með hinn.

Sjálfstæðisflokkurinn: 43% - (38,4%)
Samfylkingin: 24,5% - (32,8%)
VG: 17,4% - (6,2%)
Framsóknarflokkurinn: 5,9% - (14,9%)
Frjálslyndi flokkurinn: 5,6% - (6,7%)
Íslandshreyfingin: 3,3%
Baráttusamtökin: 0,3%

Stöð 2 var með góða umfjöllun á málum kjördæmisins á fundinum í Hafnarfirði. Þar voru athyglisverðar umræður og greining á stöðu mála. Egill Helgason fór yfir merkilega kjördæmasögu Kragans, sem umlykur höfuðborgarsvæðið og Inga Lind kom með áhugaverðar tölur tengdar kjördæminu. Þessi könnun er vissulega merkileg. Aðeins þrír flokkar eru að ná einhverju alvöru flugi þarna. Fall Sivjar eru stórtíðindi, en koma ekki að óvörum, enda hefur sést vel á könnunum undanfarinna mánaða að staða hennar er ótrygg. VG bætir miklu við sig á kostnað Framsóknar og Samfylkingar og Sjálfstæðisflokkur stefnir í öruggan kosningasigur.

Þessi könnun er auðvitað nokkuð pólitískt áfall fyrir Siv Friðleifsdóttur og hennar fólk. Staða Framsóknar er mjög döpur þarna og ekki eru þetta hughreystandi tölur fyrir þá þarna, 24 dögum fyrir kosningar. Kópavogur, eitt sterkasta vígi Framsóknar í gegnum sögu þeirra, er þarna en það er svosem ekki nema svipur hjá sjón eftir afhroðið í byggðakosningum í fyrra. Þessi mæling er svipað áfall fyrir Siv og er Valgerður fékk svipað skelfilega könnun hér í Norðausturkjördæmi nýlega. Valgerður var þó inni, en það má þó ljóst vera að meira að segja traustari vígi Framsóknar eru að bogna til. Ekki virðist Siv líkleg til stórsigra þarna nú.

Samfylkingin er að tapa ansi miklu fylgi. Í þessu kjördæmi er helsta vígi flokksins, sjálfur Hafnarfjörður. Það er eina sveitarfélagið á landinu þar sem að Samfylkingin hefur hreinan meirihluta. Miðað við það að leiðtogi framboðslista Samfylkingarinnar, Gunnar Svavarsson, er forseti bæjarstjórnar þar og einn helsti arkitekt kosningasigurs þar 2002 og 2006 er þessi könnun ekki traustvekjandi fyrir stöðu hans. Samfylkingin virðist ekki vera að sækja á um landið, hún er í pjúravörn og mælist illa á flestum stöðum, meðan að VG eflist til muna. Útkoma á borð við þetta yrði áfall fyrir Samfylkinguna í Kraganum og nýjan leiðtoga þeirra.

Staða Sjálfstæðisflokksins er mjög sterk þarna. Það kemur ekki að óvörum, enda hefur flokkurinn sterka stöðu á sveitarstjórnarstiginu þar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir virðist vera örugg í sessi sem væntanlegur fyrsti þingmaður kjördæmisins og þessi könnun sýnir flokkinn með fimm kjördæmakjörna þingmenn, einum fleiri en síðast, og nokkuð líklegt að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, fari inn sem jöfnunarmaður miðað við slæma útkomu minni aflanna. Listi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu er mjög sterkur. Þar eru öflugir þingmenn í forystu og efnilegir nýliðar. Mikil endurnýjun hefur orðið þar frá síðustu kosningum.

Staða Frjálslynda flokksins er ekki beysin skv. þessu. Kolbrún Stefánsdóttir, leiðtogi flokksins, er nýliði í pólitík og fáir vissu hver hún var er hún var kjörin ritari flokksins á eftirminnilegu kaos-landsþingi þeirra í janúar. Heldur ólíklegt virðist vera að Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, haldi þingsæti sínu, en hann skipar annað sætið á lista frjálslyndra. Hann sagði skilið við Samfylkinguna eftir prófkjör í nóvember, þar sem hann hrapaði niður listann. Valdimar Leó varð þingmaður er Guðmundur Árni Stefánsson, forn kratahöfðingi úr Hafnarfirði, varð sendiherra í Svíaríki. Fá orð þarf að hafa um minni framboðin, þau hafa ekki meðbyr.

Áhugavert var að fylgjast með umræðunum. Mikla athygli vöktu skoðanaskipti um stóriðju og atvinnumálin. Ekki voru allir sammála um þau mál og lausnirnar voru misjafnar. Athygli vakti að Gunnar Svavarsson hafði ekkert að segja um álversmálin. Þar ræður þögnin enn hjá fulltrúum Samfylkingarinnar. Heldur er þetta nú ótrúverðugt hjá kjörnum sveitarstjórnarfulltrúa og leiðtoga kjördæmalista flokks sem vill láta taka sig alvarlega. Þetta virðast heilt yfir vera vandræði Samfylkingarinnar í hnotskurn. Hún veit ekki hvaðan hún er að koma og varla hvert hún vill fara - svona eins og vankaður maður sem vaknar eftir að hafa verið sleginn kaldur.

Bjarni Benediktsson var mjög traustur í umræðunum. Þetta er frumraun hans í leiðtogadebatt og mjög áhugavert að sjá hann í þeim sporum. Mér fannst hann eiga þáttinn gjörsamlega. Bjarni var algjör pólitískur nýliði þegar að hann skipaði fimmta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2003 og mörgum kom innkoma hans á lista þá að óvörum og hann komst inn sem jöfnunarmaður mjög naumlega í baráttu við Arnbjörgu Sveinsdóttur hér í NA. Bjarni er mjög öflugur að mínu mati. Hann er sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur vaxið mest á þessu kjörtímabili. Þetta er að mínu mati ein skærasta stjarna íslenskra stjórnmála nú um stundir.

Siv var augljóslega slegin yfir niðurstöðu þessarar könnunar. Það eru alltaf tíðindi að sjá ráðherra stórs málaflokks kolfallinn af þingi í könnunum. Hún talaði mikið um stöðu kvenna, sem varla er undrunarefni. Lág útkoma Framsóknarflokksins í Kraganum meðal kvenna eru tíðindi, sé litið á þá staðreynd að Siv er einn valdamesti stjórnmálamaður kvenna í dag. Ögmundur var traustur, enda margreyndur. Kolbrún virkaði frekar vandræðaleg fyrst í stað en kom svo aðeins til. Frekar var það nú vandræðalegt að Íslandshreyfingin hafi þurft að leita til þriðja manns um að koma fram, 24 dögum fyrir kosningar og með flokkinn í algjöru vandræðavolli.

Heilt yfir voru þetta hinar fínustu umræður, einkum fyrir okkur sem fylgjumst með kjördæminu úr fjarlægð, og farið vel yfir stutta sögu kjördæmisins og pólitíska fortíð svæðisins, þeirra svæða sem það mynda. Sem fyrr stendur Stöð 2 sig vel með þennan pakka. Finnst þetta reynda svolítið hraðsoðnar umræður, en ég held að það sé þó það form sem dugi mest á meðaljóninn sem vill koma sér beint að efninu, heyra grunnspurningar og grunnstaðreyndir um kjördæmið sitt og tengd mál. Að því leyti þjónar hann vel sínu hlutverki og það er auðvitað áhugavert að fá alltaf ferska könnun.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Suðvesturkjördæmi sýnist mér eins og annarsstaðar. Reyndar er þó minni spenna þarna sýnist mér. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir þar í afgerandi sigur og VG er að bæta verulega við sig. Stórar spurningar eru þó uppi um stöðu Framsóknarflokks og Samfylkingar þar, eins og allsstaðar annarsstaðar sýnist mér. Þessir flokkar báðir eru að tapa miklu fylgi um allt land, það sýnir staðan heilt yfir landið vel.

24 dagar eru til kosninga. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Staðan í Suðvesturkjördæmi er sérlega athyglisverð og gaman að sjá svona smásýnishorn á hvernig landið liggur þar. Fátt nýtt er að birtast þar, sýnist heildarmynd kosninganna eins og hún er heilt yfir núna blasa þarna vel við. En það verður tekist vel á í gegnum lokasprettinn. Margir eru óákveðnir og þar liggja örlög margra frambjóðenda að þessu sinni.

Líður að lokum hjá Blair - afsögn 10. maí?

Tony BlairEftir hálfan mánuð hefur Verkamannaflokkurinn ríkt í Bretlandi í áratug. Það líður að lokum á stjórnmálaferli leiðtogans sem leiddi flokkinn til sögulega sigursins í maí 1997. Sögusagnir herma að Tony Blair muni segja af sér 10. maí nk. sem leiðtogi Verkamannaflokksins. Þá fer af stað kosningaferli við val á nýjum leiðtoga og mun eftirmaðurinn verða kjörinn eigi síðar en í byrjun júlí. Flest bendir til þess að Skotinn Gordon Brown verði orðinn forsætisráðherra og húsbóndi í Downingstræti 10 fyrir júlílok.

Það verða pólitísk þáttaskil með brotthvarfi Tony Blair af hinu pólitíska sjónarsviði. Það leikur enginn vafi á því. Hann hefur verið þungavigtarmaður á þessum vettvangi og markað merkileg skref. Hann hefur verið umdeildur og hann hefur bæði verið vinsæll og óvinsæll. Ég mun aldrei gleyma þeirri bylgju stuðnings og krafts sem hann fetaði á til valda vorið 1997. Sigur hans var fyrirsjáanlegur. Blair tókst að leggja Íhaldsflokkinn þetta vor með ótrúlega afgerandi hætti.... og hann var þá vinsælasti forsætisráðherrann í breskri stjórnmálasögu.

Það er ekki óvarlegt að fullyrða að Blair sé nú aðeins svipur hjá sjón þess stjórnmálaleiðtoga sem klappað var fyrir er hann kom sem forsætisráðherra fyrsta sinni þann 2. maí 1997 í Downingstræti 10.  Það var ótrúleg sigurstund. Verkamannaflokkurinn hafði verið í eyðimörk í tvo áratugi. Flokkurinn átti að baki ótrúlega ólánssögu og brostnar vonir flokksmanna eftir fjóra skaðlega ósigra fóru ekki framhjá neinum. Ég var um daginn að horfa á nokkrar ræður Blairs sem ég átti á spólu. Það voru ræðurnar sem hann flutti 1. maí 1997, vígreifur eftir kosningasigurinn mikla, og 31. ágúst 1997, sem forsætisráðherra fólksins við dauða Díönu, ræða sem hafði mikil áhrif.

Það hefði fáum órað fyrir þessa daga á miðhluta ársins 1997 að hann ætti eftir að enda sem óvinsæll og einangraður flokksleiðtogi, maður sem væri að fjara út. En það fór svo. Það eru engin tíðindi lengur að hann sé að fara. Innri ólga gerði það að verkum innan Verkamannaflokksins í september að hann gat ekki beðið með yfirlýsinguna miklu og hann var allt að því neyddur til að leggja niður skottið. Hann varð að gefa upp árstímaramma fyrir leiðarlokin. Það var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir hann að missa stjórn á þeirri atburðarás. Hann hefur veslast upp sífellt alla tíð síðan. En hann varð að gera þetta til að afstýra því að enda eins og Thatcher.

Mesti veikleiki öflugs leiðtoga er oft á tíðum að missa yfirsjón á því hvenær hann er orðin byrði. Thatcher klúðraði sínum pólitísku endalokum með eftirminnilegum hætti. Það hvernig valdaferli hennar lauk var áminning þess að hætta ber leik þá er hann hæst stendur. Blair festist í sama vandræðagangi að mínu mati. Sá var þó munurinn að hann gaf alltof snemma út þá yfirlýsingu að hann færi ekki í fjórðu kosningarnar. Það hvernig hann sveik margfrægt samkomulag við Gordon Brown um skiptingu valda eftir dauða John Smith hafði líka áhrif. Hann hefur veslast upp og fer skaddaður af stóli.

Tony Blair fór líka illa á Íraksmálinu. Það eyðilagði hann sem sterkan leiðtoga jafnaðarmanna í Evrópu. Hann var umdeildur og hann bognaði, varð ekki lengur afgerandi leiðarljós þeirra. Samt segist Blair ekki sjá eftir neinu. Ég sá um daginn viðtal með honum á Sky, þetta var svona eitt þeirra viðtala þar sem hann fetar skref fyrir skref út af sviðinu. Þessi spinnmennska hans er orðin yfirborðskennd og klén. Kannski fór spinnmennskan mikla með hann. Festist þessi sterki jafnaðarmannaleiðtogi ekki bara í eigin vef? Það er freistandi að telja svo vera.

En leiðarlokin eru framundan á næstu vikum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig eftirmaður hans verður valinn. Mun Skotinn Gordon Brown fá alvöru samkeppni um hnossið mikla, sem hann hefur beðið eftir árum saman eða mun hann þurfa að heyja blóðuga baráttu um að taka við af Blair? Það er stóra spurning vorsins í breskum stjórnmálum. Það skiptir enda máli fyrir Verkamannaflokkinn tel ég, sem nógu skaddaður er orðinn fyrir, hvort að nýr leiðtogi verði klappaður upp eða verði að berjast á hæl og hnakka fyrir því að komast til valda.

Mun Blair leggja í að bakka upp Brown? Munu óvinsældir beggja í könnunum hafa áhrif? Munu kratarnir hræðast að nýji leiðtoginn verði biðleikur eftir David Cameron? Stórar spurningar. Bráðum fæst svar við þeim öllum. Það sem mest vekur þó athygli núna eru héraðskosningarnar á Englandi. Það stefnir allt í mikinn ósigur Verkamannaflokksins í Skotlandi. Það verður mikið áfall fyrir Blair að fara frá með það á bakinu og Brown yrði sneyptur tæki hann við eftir þau ósköp.

Barist við brunann í miðbæ Reykjavíkur

Eldur í Austurstræti Það hefur verið áhugavert að geta fylgst í tölvunni með beinni netútsendingu frá baráttunni við brunann í miðbæ Reykjavíkur. Svo virðist vera sem tekist hafi að ráða stöðva útbreiðslu brunans, en um gríðarlega erfitt slökkvistarf hefur þó verið að ræða af skiljanlegum ástæðum. Hef aðallega haft vefútsendingu RÚV frá miðbænum og þar hefur verið sagt vel frá og verið áhugaverð viðtöl.

Þar hefur verið rætt m.a. við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóra, en það er öllum ljóst að þessi bruni er mikið áfall, enda um að ræða sögufræg hús og áberandi í borgarmyndinni í miðbænum. Magnús Skúlason fór t.d. vel yfir sögu þeirra og má öllum ljóst vera að þau hafa sett svip á borgina og því auðvitað táknrænt að sjá þau í ljósum logum og reykinn leggja yfir miðbæjarsvæðið.

Það er auðvitað hið rétta að borgarstjóri taki þátt í slíku starfi með áberandi sýnilegum hætti og sé aðgengilegur fjölmiðlum, en það gerði t.d. Þórólfur Árnason, þáverandi borgarstjóri, á sínum síðustu embættisdögum árið 2004 er Hringrásarbruninn mikli geisaði, en hann er sennilega eftirminnilegasti bruni í sögu borgarinnar á seinustu árum.

Talið er nú að eldurinn hafi kviknað í ferðamannamiðstöð þar sem söluturninn Fröken Reykjavík var áður til húsa.Það verður fróðlegt að sjá umfjöllun um þetta í kvöld í fréttatímum og það hversu mikið tjón verði þarna er á hólminn kemur.

Það er þó alveg ljóst að betur hefur farið en á horfðist, þó auðvitað sé alltaf mikill skaði af bruna á svona viðkvæmu svæði er ljóst að mun verr hefði getað farið þarna í dag.

Stórbruni í miðbæ Reykjavíkur

Stórbruni í miðbæ ReykjavíkurStórbruni geisar nú í miðborg Reykjavíkur. Ég sá myndir af vettvangi á netinu rétt áðan. Það er merkileg sjón, enda virðist vera sem að gömlu húsin á þessum stað í hjarta borgarinnar séu stórskemmd. Skaðinn virðist skeður og vonandi að hægt verði að koma í veg fyrir enn meira tjón en orðið er og auðvitað koma í veg fyrir að eldurinn breiðist meir.

Þetta eru sögufræg hús sem brenna nú og því augljóslega um mikið tjón að ræða í ljósi þess. Ég var í Reykjavík fyrir nokkrum dögum og fékk mér göngutúr með nokkrum vinum í gegnum bæinn niður Austurstrætið og farið var eins og venjulega í borgarferð í Bæjarins besta til að fá sér pylsu og kók, það er hefðbundinn rúntur í borgarferð minni, eins og svo margra fleiri eflaust í skemmtun helgarinnar. Það er auðvitað ljóst að þessi hús skipa stóran sess á sínu svæði og mikið verkefni framundan fari allt á hinn versta veg.

Það er reyndar kaldhæðnislegt að mér var hugsað til þessa nótt í miðbænum um síðustu helgi hvað myndi gerast ef kæmi stóreldur við erfiðar aðstæður þarna upp. Hugurinn reikaði aðeins í þá átt, enda eru þetta allt timburhús, komin til ára sinna og erfiðar aðstæður geta orðið til þess að öll götumyndin gæti skíðlogað. Ekki hefði mér órað fyrir þá að innan viku reyndi á þessar pælingar. Þetta er því súrrealísk og dapurleg sýn sem blasir við. Vonandi mun slökkvistarfið ganga vel.


mbl.is Þök rifin af brennandi húsum - gaskútageymslur í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konan í gjótunni

Litlu fréttirnar geta oftast verið kostulegastar þegar að litið er yfir fréttir dagsins. Þessi frétt um konuna sem var kippt upp úr gjótunni telst svo sannarlega athyglisverðari en margar aðrar. Frásögn frá þessu með svona hætti sæist varla annarsstaðar en hér heima á Íslandi, eða ég held það. Merkilegast af öllu finnst mér reyndar að svona geti yfir höfuð gerst. En það vekur þess þá meiri athygli.

mbl.is Konu kippt upp úr gjótu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandarísk þjóðarsorg - púslin raðast saman

Cho Seung-huiÞað er þjóðarsorg í Bandaríkjunum. Harmleikurinn í Virginia Tech hefur hreyft við öllum sem fylgst hafa með fréttum - þetta er harmleikur sem erfitt er að lýsa með orðum í sannleika sagt. Minningarathöfn var haldin á skólasvæðinu í dag. Horfði áðan á fréttamyndir þaðan. Það var sérstök upplifun að sjá það. Þar flutti George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, ávarp. Sorg hvílir yfir friðsælu skólasamfélagi. Það er mikilvægt að sýna þessu fólki samúð.

Púslin á bakvið þennan harmleik raðast nú saman hægt og hljótt. Fjölmiðlar og lögreglan fara yfir það sem vitað er. Að mörgu leyti er persóna fjöldamorðingjans hulin þoku, enda var hann einfari og greinilega verið mjög bilaður. Það bendir nú flest til þess að ástæða fjöldamorðsins hafi verið hatur á ríkum ungmennum sem þar hafi verið í námi. Skrif hans munu hafa sýnt ástand andlega vanheils manns og haft er eftir lögreglu að þau hafi verið skuggaleg, en það sem mögulegt er að ráða af persónunni finnst nú helst í því sem hann lét eftir sig í herbergi sínu.

Lýsingar á persónunni á bakvið þennan fjöldamorðingja koma reyndar auðvitað fram af þeim sem voru með honum í námi í Virginia Tech. Framan af var talið að þetta hefði verið ástríðumorð sem hafi farið úr böndunum. Lögregla dregur nú í efa að sú sem talin var hafa verið kærasta hans og var myrt í þessu fjöldamorði hafi verið tengd honum, heldur hafi þau aðeins þekkst vel og hún því ekkert sérstaklega frekar verið valin en aðrir. Heilt yfir virðist ekki hafa verið spurt að neinu um hver hafi verið hvað og gert eitthvað svosem, allir sem á staðnum voru hlutu sömu grimmilegu örlögin. Nokkrum tókst þó að sleppa lifandi frá þessu voðaverki.

Það er mjög sorglegt að lesa umfjöllun um þá sem féllu í valinn í þessu fjöldamorði. Það var fólk á öllum aldri, allt frá reyndum kennurum með mikla fræðimannsþekkingu að baki og merk störf á sínum vettvangi allt til nýnema og nema á lokaári sem átti mörg tækifæri framundan. Veit ekki hvaða orð hæfa. Ég er þess fullviss að þessi harmleikur muni öðlast sess í bandarískri sögu, enda er þetta stingandi hörmung sem leggst á heilt samfélag og merkir heila þjóð mjög lengi. Öll þekkjum við áhrif Columbine-fjöldamorðsins og þetta er á mun verri skala.

Heilt yfir er ljóst af fréttamyndum að samfélagið í þessum skóla er í rúst og það mun taka langan tíma að yfirvinna svona skelfilega örlagastungu á viðkvæman blett.


mbl.is Bush segir þjóðarsorg ríkja í Bandaríkjunum vegna atburðanna í Blacksburg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband