Sjálfstæðisflokkurinn og VG í sókn í Kraganum

Könnun í SuðvesturkjördæmiNý skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Suðvesturkjördæmi var birt í kvöld, 24 dögum fyrir þingkosningar, á kjördæmafundi Stöðvar 2 í Hafnarfirði. Þar eru Sjálfstæðisflokkurinn og VG í mikilli sókn og mælast mun öflugri en í kosningunum 2003, sérstaklega VG sem eykur fylgi sitt umtalsvert og Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig kjördæmakjörnum manni. Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, mælist utan þings og Samfylkingin tapar talsverðu fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með fimm þingsæti og stendur nærri því sjötta. Samfylkingin mælist með þrjú þingsæti og VG með tvö. Aðrir eru úti; Framsókn og Frjálslyndir missa þingsæti og Íslandshreyfingin og Baráttusamtökin ná ekki flugi. Skv. því eru inni á þingi; Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Bjarni Benediktsson, Ármann Kr. Ólafsson, Jón Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir (Sjálfstæðisflokki), Gunnar Svavarsson, Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir (Samfylkingu), Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (VG). Nokkuð líklegt er að Sjálfstæðisflokkur fengi jöfnunarmann en óvissa er með hinn.

Sjálfstæðisflokkurinn: 43% - (38,4%)
Samfylkingin: 24,5% - (32,8%)
VG: 17,4% - (6,2%)
Framsóknarflokkurinn: 5,9% - (14,9%)
Frjálslyndi flokkurinn: 5,6% - (6,7%)
Íslandshreyfingin: 3,3%
Baráttusamtökin: 0,3%

Stöð 2 var með góða umfjöllun á málum kjördæmisins á fundinum í Hafnarfirði. Þar voru athyglisverðar umræður og greining á stöðu mála. Egill Helgason fór yfir merkilega kjördæmasögu Kragans, sem umlykur höfuðborgarsvæðið og Inga Lind kom með áhugaverðar tölur tengdar kjördæminu. Þessi könnun er vissulega merkileg. Aðeins þrír flokkar eru að ná einhverju alvöru flugi þarna. Fall Sivjar eru stórtíðindi, en koma ekki að óvörum, enda hefur sést vel á könnunum undanfarinna mánaða að staða hennar er ótrygg. VG bætir miklu við sig á kostnað Framsóknar og Samfylkingar og Sjálfstæðisflokkur stefnir í öruggan kosningasigur.

Þessi könnun er auðvitað nokkuð pólitískt áfall fyrir Siv Friðleifsdóttur og hennar fólk. Staða Framsóknar er mjög döpur þarna og ekki eru þetta hughreystandi tölur fyrir þá þarna, 24 dögum fyrir kosningar. Kópavogur, eitt sterkasta vígi Framsóknar í gegnum sögu þeirra, er þarna en það er svosem ekki nema svipur hjá sjón eftir afhroðið í byggðakosningum í fyrra. Þessi mæling er svipað áfall fyrir Siv og er Valgerður fékk svipað skelfilega könnun hér í Norðausturkjördæmi nýlega. Valgerður var þó inni, en það má þó ljóst vera að meira að segja traustari vígi Framsóknar eru að bogna til. Ekki virðist Siv líkleg til stórsigra þarna nú.

Samfylkingin er að tapa ansi miklu fylgi. Í þessu kjördæmi er helsta vígi flokksins, sjálfur Hafnarfjörður. Það er eina sveitarfélagið á landinu þar sem að Samfylkingin hefur hreinan meirihluta. Miðað við það að leiðtogi framboðslista Samfylkingarinnar, Gunnar Svavarsson, er forseti bæjarstjórnar þar og einn helsti arkitekt kosningasigurs þar 2002 og 2006 er þessi könnun ekki traustvekjandi fyrir stöðu hans. Samfylkingin virðist ekki vera að sækja á um landið, hún er í pjúravörn og mælist illa á flestum stöðum, meðan að VG eflist til muna. Útkoma á borð við þetta yrði áfall fyrir Samfylkinguna í Kraganum og nýjan leiðtoga þeirra.

Staða Sjálfstæðisflokksins er mjög sterk þarna. Það kemur ekki að óvörum, enda hefur flokkurinn sterka stöðu á sveitarstjórnarstiginu þar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir virðist vera örugg í sessi sem væntanlegur fyrsti þingmaður kjördæmisins og þessi könnun sýnir flokkinn með fimm kjördæmakjörna þingmenn, einum fleiri en síðast, og nokkuð líklegt að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, fari inn sem jöfnunarmaður miðað við slæma útkomu minni aflanna. Listi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu er mjög sterkur. Þar eru öflugir þingmenn í forystu og efnilegir nýliðar. Mikil endurnýjun hefur orðið þar frá síðustu kosningum.

Staða Frjálslynda flokksins er ekki beysin skv. þessu. Kolbrún Stefánsdóttir, leiðtogi flokksins, er nýliði í pólitík og fáir vissu hver hún var er hún var kjörin ritari flokksins á eftirminnilegu kaos-landsþingi þeirra í janúar. Heldur ólíklegt virðist vera að Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, haldi þingsæti sínu, en hann skipar annað sætið á lista frjálslyndra. Hann sagði skilið við Samfylkinguna eftir prófkjör í nóvember, þar sem hann hrapaði niður listann. Valdimar Leó varð þingmaður er Guðmundur Árni Stefánsson, forn kratahöfðingi úr Hafnarfirði, varð sendiherra í Svíaríki. Fá orð þarf að hafa um minni framboðin, þau hafa ekki meðbyr.

Áhugavert var að fylgjast með umræðunum. Mikla athygli vöktu skoðanaskipti um stóriðju og atvinnumálin. Ekki voru allir sammála um þau mál og lausnirnar voru misjafnar. Athygli vakti að Gunnar Svavarsson hafði ekkert að segja um álversmálin. Þar ræður þögnin enn hjá fulltrúum Samfylkingarinnar. Heldur er þetta nú ótrúverðugt hjá kjörnum sveitarstjórnarfulltrúa og leiðtoga kjördæmalista flokks sem vill láta taka sig alvarlega. Þetta virðast heilt yfir vera vandræði Samfylkingarinnar í hnotskurn. Hún veit ekki hvaðan hún er að koma og varla hvert hún vill fara - svona eins og vankaður maður sem vaknar eftir að hafa verið sleginn kaldur.

Bjarni Benediktsson var mjög traustur í umræðunum. Þetta er frumraun hans í leiðtogadebatt og mjög áhugavert að sjá hann í þeim sporum. Mér fannst hann eiga þáttinn gjörsamlega. Bjarni var algjör pólitískur nýliði þegar að hann skipaði fimmta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2003 og mörgum kom innkoma hans á lista þá að óvörum og hann komst inn sem jöfnunarmaður mjög naumlega í baráttu við Arnbjörgu Sveinsdóttur hér í NA. Bjarni er mjög öflugur að mínu mati. Hann er sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur vaxið mest á þessu kjörtímabili. Þetta er að mínu mati ein skærasta stjarna íslenskra stjórnmála nú um stundir.

Siv var augljóslega slegin yfir niðurstöðu þessarar könnunar. Það eru alltaf tíðindi að sjá ráðherra stórs málaflokks kolfallinn af þingi í könnunum. Hún talaði mikið um stöðu kvenna, sem varla er undrunarefni. Lág útkoma Framsóknarflokksins í Kraganum meðal kvenna eru tíðindi, sé litið á þá staðreynd að Siv er einn valdamesti stjórnmálamaður kvenna í dag. Ögmundur var traustur, enda margreyndur. Kolbrún virkaði frekar vandræðaleg fyrst í stað en kom svo aðeins til. Frekar var það nú vandræðalegt að Íslandshreyfingin hafi þurft að leita til þriðja manns um að koma fram, 24 dögum fyrir kosningar og með flokkinn í algjöru vandræðavolli.

Heilt yfir voru þetta hinar fínustu umræður, einkum fyrir okkur sem fylgjumst með kjördæminu úr fjarlægð, og farið vel yfir stutta sögu kjördæmisins og pólitíska fortíð svæðisins, þeirra svæða sem það mynda. Sem fyrr stendur Stöð 2 sig vel með þennan pakka. Finnst þetta reynda svolítið hraðsoðnar umræður, en ég held að það sé þó það form sem dugi mest á meðaljóninn sem vill koma sér beint að efninu, heyra grunnspurningar og grunnstaðreyndir um kjördæmið sitt og tengd mál. Að því leyti þjónar hann vel sínu hlutverki og það er auðvitað áhugavert að fá alltaf ferska könnun.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Suðvesturkjördæmi sýnist mér eins og annarsstaðar. Reyndar er þó minni spenna þarna sýnist mér. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir þar í afgerandi sigur og VG er að bæta verulega við sig. Stórar spurningar eru þó uppi um stöðu Framsóknarflokks og Samfylkingar þar, eins og allsstaðar annarsstaðar sýnist mér. Þessir flokkar báðir eru að tapa miklu fylgi um allt land, það sýnir staðan heilt yfir landið vel.

24 dagar eru til kosninga. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Staðan í Suðvesturkjördæmi er sérlega athyglisverð og gaman að sjá svona smásýnishorn á hvernig landið liggur þar. Fátt nýtt er að birtast þar, sýnist heildarmynd kosninganna eins og hún er heilt yfir núna blasa þarna vel við. En það verður tekist vel á í gegnum lokasprettinn. Margir eru óákveðnir og þar liggja örlög margra frambjóðenda að þessu sinni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Stjórnmálaskýrendum á blogginu ber ekki saman. Þegar þú segir V G í mikilli sókn en Ármann Straumsvíkurson segir þá vera í frjálsu falli? Nú bíð ég bara eftir að einhver lýsi þessari könnun sem stórsigri framsóknarmanna.

Árni Gunnarsson, 18.4.2007 kl. 22:57

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

VG mælist þarna með 17,4% en fékk 6,2% í kosningunum 2003. Eru þarna að mælast með tvo kjördæmakjörna en fengu engan þarna síðast. Þeir eru í mjög afgerandi sókn þarna.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.4.2007 kl. 23:23

3 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Þú gerir mikið af því Stefán að skoða hvert kjördæmi fyrir sig og þakkar eða kennir um eftir atvikum forystumönnum flokkana í hverju kjördæmi.

Vissulega í gegnum tíðina hefur verið hægt að skoða fylgi einstaklinga með þeim hætti en ég velti fyrir mér hvort annað sé uppi á teningnum nú. Mér virðist að kjósendur í dag hugsi um flokkana á landsvísu en ekki hverjir eru í framboði fyrir flokkana í hverju kjördæmi fyrir sig. Því til skýringar mætti nefna Árna Johnsen á Suðurlandi, sterka framsóknarmenn eins og Jón formann, Siv og Guðna. Gunnar Svavarsson í Kraganum og svo mætti áfram telja. Ég tel að fylgi flokka þessa fólks í skoðanakönnunum beri ekki vitni um vinsældir þeirra heldur vinsældir flokka þeirra og hvernig þeir hafa staðið sig á landsvísu.

Hvað heldur þú með það og þið öll?

Ágúst Dalkvist, 18.4.2007 kl. 23:26

4 identicon

Ágúst, ég las einhversstaðar að fylgi Sjálfstæðisflokksins væri 48 % í Vestmannaeyjum.

Spurning hvort það er vegna þess að flokkurinn sé svo vinsæll í Eyjum, eða hvort Eyjamenn séu bara svona ánægðir með Árna Mathiesen.

Svo gæti þriðja skýringin verið í kortunum.

Hvað heldur þú Ágúst ?

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 00:01

5 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ef það verður niðurstaða kosninganna að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 6 þingmenn í mínu kjördæmi þá yrði ég mjög glaður maður.
Flokkur sem vill stoppa framfarir að hann mælist með 2 þingmenn - ég vona að það komi ekki upp úr kössunum.
Framsókn mælist ekki inni með manni - ég á ekki von á því að Siv komist inn.
Framsókn tapaði 2 bæjarfulltrúum og fékk engan í Hafnarfirði - þannig að það yrði eitthvað sérstak ef Siv kæmist inn.
Gunnar Svavarsson fékk tækifæri til að segja hvernig hann kaus í álversmálinu, hann treysti sér ekki til þess frekar en Lúðvík að segja fólki hvernig hann kaus - hann var fallisti kvöldsins að mínu mati.
Stjórnmálamenn eru í pólitík til að hafa áhrif og kjósendur eiga rétt á að vita þeirra skoðanir.
Sf vill fresta framförum, vilja helst fara með vg í stjórn sem vill stoppa framfarir þannig að ég held að ef fólk vill að ekkert gerist hér á næstu árum þá eiga menn að kjósa vg eða sf.

Miðað við skoðanakannanir virðist allt stefna í að Frjálslyndir eru á leið út af  þingi og Íslandshreyfingin er að skila auðu og Ómar fer eflaust í það 13.mai að eyða 8 milljónunum sem Landsvirkjun lét hann fá.

Óðinn Þórisson, 19.4.2007 kl. 10:13

6 Smámynd: Óðinn Þórisson

Framsókn mælist ekki inni með manni - ég á ekki von á því að Siv komist inn.
Framsókn tapaði 2 bæjarfulltrúum í Kópavogi og fékk engan í Hafnarfirði.

Vantaði inn KÓPAVOG.

Óðinn Þórisson, 19.4.2007 kl. 10:17

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ágúst: Pólitíkin í dag er orðin mikil persónupólitík. Frammistaða leiðtoga flokka og framboðslista skiptir sköpum. Enginn vafi á því í nútímanum sem við lifum á. Annars tel ég þetta eðlilega þróun. Ég er ekkert einn um að greina stöðuna eftir svona grunni.

Óðinn: Takk fyrir góðar pælingar. Það þarf að tryggja Röggu Ríkharðs inn, einfalt mál. Ef það tekst eruð þið í ansi góðum málum. Tel að það náist með fjölda dauðra atkvæða í mörgum áttum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.4.2007 kl. 16:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband