Einkaviðræður flokksleiðtoga - þreifingar í gangi

Siv, Jón og Geir Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson hafa haldið spilum myndunar ríkisstjórnar mjög þétt að sér á einkafundum í Stjórnarráðshúsinu í dag. Búast má þó við að örlög tólf ára stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ráðist fyrir helgina og hvaða skref verði stigin næst við stjórnarmyndun. Ljóst er að óformlegar þreifingar hafa átt sér stað milli málsmetandi manna í ólíkum flokkum og staða mála könnuð með áberandi hætti.

Greinilegt er að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, kannar vel hug grasrótar flokksins og lykilforystumanna innan hans þessa dagana. Sérstaklega er þar sjónum beint að því hver afstaða miðstjórnarmanna er til þess valkosts að halda áfram samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Það er ljóst að miðstjórn Framsóknarflokksins verður að taka afstöðu til ríkisstjórnarþátttöku og þar verða spilin vel að vera ljós áður en einhver skref eru stigin. Það er greinilegt á bloggpælingum og blaðaskrifum að skoðanir eru skiptar innan Framsóknarflokksins um hvort halda eigi áfram.

Innan Sjálfstæðisflokksins eru ennfremur mjög skiptar skoðanir um það hvert skuli stefna. Þó er uppi á borðinu greinilega afgerandi afstaða þess efnis að látið verði reyna á þetta samstarf. Það situr þó í mörgum greinilega að þetta sé of tæpur þingmeirihluti til að láta á reyna, nema að afgerandi samstaða sé innan Framsóknarflokksins um að halda áfram, enda má þessi ríkisstjórn ekki við neinum skakkaföllum eigi hún að halda áfram eins og ekkert hafi í raun í skorist. Greinilegt er eins og flestir hafa bent á að landsbyggðarhópur Framsóknarflokksins, einkum í Norðausturkjördæmi þar sem varnarsigur vannst, vilji halda áfram.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu dögum. Á morgun er reyndar uppstigningardagur og frídagur þar með. Ólíklegt má teljast að hugleiðingar um myndun ríkisstjórnar fari í frí þar með, enda er ekkert mál rætt meir þar sem tveir stjórnmálaáhugamenn hittast yfir kaffibolla þessa dagana en það hvaða flokkar myndi ríkisstjórn eftir kosningarnar á laugardag. Það er enda svo að allir hafa skoðun á hvaða stjórn verði mynduð, hvort sem það eru fylgismenn stjórnarflokkanna eður ei.

Eins og fram kom í pistli mínum í gær horfist Geir H. Haarde í augu við sömu valkosti nú og Davíð Oddsson fyrir tólf árum; hvort mynda eigi ríkisstjórn með eins manns þingmeirihluta, 32 þingsætum. Það eru skiptar skoðanir um hvað muni gerast. Vel verður fylgst með hvort afstaða Geirs verði sú sama og Davíð tók eða hvort hann meti slíkt samstarf starfhæft.

mbl.is Viðræður stjórnarflokka enn í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gordon Brown krýndur sem forsætisráðherra

Gordon Brown Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, tryggði sér fyrr í kvöld nægilegan stuðning innan þingflokks Verkamannaflokksins til að hljóta embætti forsætisráðherra Bretlands og leiðtogahlutverk í flokknum án formlegrar kosningar. Hann tekur við völdum í Downingstræti 10 miðvikudaginn 27. júní nk. en mun taka við leiðtogahlutverkinu í flokknum af Tony Blair á flokksfundi í Manchester sunnudaginn 24. júní.

Gordon Brown er 56 ára að aldri og hefur verið lykilmaður innan breska Verkamannaflokksins í áraraðir og fjármálaráðherra Bretlands frá valdatöku flokksins, eftir átján ára napra stjórnarandstöðuvist, 2. maí 1997. Aðeins Nicholas Vansittart, sem var fjármálaráðherra 1812-1823, hefur gegnt embættinu lengur. Brown hefur verið arftaki valdanna innan Verkamannaflokksins árum saman. Frægar sögusagnir hafa verið um að Brown hafi stutt Tony Blair sem eftirmann John Smith í leiðtogaslag gegn því að fá að taka við af honum.

308 þingmenn Verkamannaflokksins hafa lýst yfir stuðningi við Gordon Brown sem forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Verkamannaflokksins. Tilnefningar hafa verið opnar í embætti flokksleiðtoga og varaleiðtoga, í stað John Prescott, síðan á mánudag og átti tímafrestur að renna út á hádegi á morgun að breskum tíma. Brown þurfti að tryggja sér 308 tilnefningar þingmanna flokksins til að koma í veg fyrir keppni um hnossið, en til að geta boðið sig fram þurfa að minnsta kosti 45 þingmenn að styðja framboð.

Það hefur legið fyrir árum saman að Gordon Brown yrði eftirmaður Tony Blair. Hinsvegar höfðu blikur á lofti aukist síðustu misserin um að Blair og lykilstuðningsmenn hans myndu tryggja Brown hnossið án keppni. Svo fór að lokum að ekkert varð úr framboði valdamikils ráðherra til leiðtogastöðunnar og meira að segja Tony Blair sjálfur tilnefndi Gordon Brown til leiðtogahlutverks nú um helgina, en hét honum fullum stuðningi í yfirlýsingu þann 11. maí sl. sólarhring eftir að hann tilkynnti um pólitísk endalok sín í Sedgefield.

Það eru enn nokkrar vikur þar til að Blair lætur af leiðtogahlutverkinu og Brown fær umboð til stjórnarmyndunar úr hendi Elísabetar II Englandsdrottningar. Fram að því mun hann eflaust fara um landið og halda þá kynningarfundi sem skipulagðir voru af yfirstjórn Verkamannaflokksins fyrir Brown og mögulega keppinauta hans. Engin verður keppnin um leiðtogahlutverkið og krýning er rétta orðið yfir leiðina framundan fyrir Gordon Brown að Downingstræti 10.

mbl.is Tryggt að Gordon Brown taki við af Tony Blair án leiðtogakjörs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nicolas Sarkozy tekur við völdum í Frakklandi

Nicolas Sarkozy og Jacques Chirac Nicolas Sarkozy tók í dag við völdum sem nýr forseti Frakklands við hátíðlega athöfn í Elysée-höll. Sarkozy verður með þessu einn valdamesti stjórnmálamaður heims, enda er forseti Frakklands mikill áhrifamaður í senn á alþjóðavettvangi og innan Evrópusambandsins og lykilspilari í stjórnmálaheimi dagsins í dag. Sarkozy fékk sterkt umboð til að taka við völdum í Frakklandi í forsetakosningunum 6. maí, er hann fékk tæp 54% greiddra atkvæða.

Með embættistöku Nicolas Sarkozy lýkur hálfrar aldar litríkum stjórnmálaferli Jacques Chirac, sem gegnt hefur forsetaembætti í Frakklandi í tólf ár, frá árinu 1995, og verið ennfremur forsætisráðherra Frakklands tvívegis og borgarstjóri í París í tvo áratugi. Jacques Chirac var alinn upp pólitískt af forsetunum Charles De Gaulle og Georges Pompidou, mun frekar þeim síðarnefnda, sem var lærifaðir Chiracs allt til dauðadags á forsetastóli árið 1974.

Pompidou leit á Chirac sem lærling sinn í stjórnmálum og nefndi hann skriðdrekann sinn vegna hæfileika hans í pólitísku starfi, bæði við að koma hlutum í framkvæmd og vinna grunnvinnuna í kosningabaráttum, en Chirac hefur alla tíð verið rómaður fyrir að vera inspíreruð kosningamaskína og sannur leiðtogi sem kann að leiða baráttuna. Í bók um Chirac sem ég á er enda lýst hvernig hann vinnur undir álagi og í alvöru kosningaslag. Hann sé maður sem keyrir maskínu áfram vafningalaust og kemur beint að efninu. Það verða eflaust mikil viðbrigði fyrir hann að hverfa úr pólitísku sviðsljósi.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, er fyrsti franski þjóðhöfðinginn sem fæddur er eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann fæddist í París þann 28. janúar 1955. Nicolas Sarkozy hefur tekið þátt í stjórnmálum allt frá unglingsárum og unnið sig sig hægt og rólega upp til æðstu metorða á hægriarma franskra stjórnmála. Sarkozy var innanríkisráðherra Frakklands 2002-2004 og 2005-2007 og fjármálaráðherra Frakklands 2004-2005. Hann hefur leitt UMP-blokk hægrimanna frá árinu 2004 en lætur nú af leiðtogahlutverki þar.

Sarkozy forseti fékk sterkt umboð til valda, enda var kjörsókn í forsetakosningunum 6. maí hin mesta frá upphafi franska fimmta lýðveldisins árið 1965 er Charles De Gaulle var kjörinn í síðasta skiptið á litríkum stjórnmálaferli. Nicolas Sarkozy er vissulega mjög umdeildur stjórnmálamaður og hefur ekki hikað við að stuða á löngum ferli. Þingkosningarnar í Frakklandi eftir nokkrar vikur verða fyrsta prófraun Sarkozy á forsetastóli. Búist er við að Sarkozy tilnefni Francois Fillon sem forsætisráðherra á morgun.

Það var táknræn stund þegar að Sarkozy fylgdi Chirac að bifreið utan við Elysée-höll að lokinni embættistökunni. Chirac var að yfirgefa Elysée-höll og valdahlutverk í frönskum stjórnmálum eftir hálfa öld í forystu með einum hætti eða öðrum og Sarkozy var að taka við einu valdamesta pólitíska embætti heims.

Það má búast við að Sarkozy forseti verði mjög áberandi lykilspilari á alþjóðlegum vettvangi næstu fimm árin og muni hiklaust koma fram áberandi breytingum á næstu mánuðum. Eitt veigamesta kosningaloforð Sarkozy var að horfa fram á veginn og móta hlutina upp á nýtt. Það mun hann greinilega gera.

mbl.is Sarkozy hvetur til einingar og umburðarlyndis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Bjarnason færist niður um sæti

Björn Bjarnason

Ljóst er nú að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, mun færast niður um eitt sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður vegna útstrikana. Það er því ljóst að Illugi Gunnarsson, alþingismaður, færist upp í annað sætið á framboðslistanum, fram fyrir Björn Bjarnason.

Björn Bjarnason hefur nú sent frá sér yfirlýsingu og farið yfir skoðanir sínar á þessu máli. Þar lýsir hann áhyggjum sínum yfir þróun stjórnmálastarfs og ekki síður réttarríkisins sjálfs, sé talið sjálfsagt og eðlilegt að beita ofríki í krafti auðs í því skyni, að tryggja sér viðhlæjendur á þingi, í réttarsalnum og hjá ákæruvaldinu.

Ég hef áður farið yfir skoðanir mínar á þessu máli hér og ítreka þær í ljósi þessa. Ég hef fengið talsverð viðbrögð á þau skrif og þakka fyrir það sem þar kemur fram. Það eru ólíkar skoðanir. Eftir stendur afgerandi sú skoðun mín að Björn fái áfram virðingarembætti af hálfu Sjálfstæðisflokksins verði hann í stjórnarsamstarfi eins og allar líkur eru á.


mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Bjarnason verður að halda sinni stöðu

Björn BjarnasonSíðustu daga hefur mikið verið rætt um stöðu Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, vegna útstrikana í Reykjavík suður. Enn er engin niðurstaða fengin í þau mál. Það er þó alveg ljóst í mínum huga að hafi Björn fallið niður um sæti í kjölfar auglýsingar Jóhannesar Jónssonar, auðmanns í Bónus, síðustu daga er mikilvægt að staðinn verði vörður um að Björn haldi stöðu sinni í því ljósi.

Mér fannst auglýsing Jóhannesar lágkúruleg og tók afstöðu gegn henni með sama hætti og níðauglýsingu í garð Ólafs Ragnars Grímssonar árið 1996, sem var jafnlágkúruleg og þessi. Ég lít svo á að þetta mál sé allt mjög sorglegt. Mér finnst það umfram allt sorglegt þegar að auðmenn þessa lands birta auglýsingu degi fyrir kjördag og beina því til almennings hvernig þeir eigi að greiða atkvæði sínu eða komi með tilskipanir um hvað skuli gera með einum hætti eða öðrum.

Persónulega hef ég alla tíð borið mikla virðingu fyrir Birni Bjarnasyni. Þar ræður mjög miklu eljusemi hans og kraftur í stjórnmálastarfi - ennfremur því að hann var fyrsti forystumaður Sjálfstæðisflokksins sem sýndi skrifum mínum og flokksstarfi einhvern áhuga og sýndi í verki að hann mæti það. Í því ljósi vil ég skrifa til stuðnings Birni og lýsa yfir þeirri skoðun minni að það væri Sjálfstæðisflokknum til vansa að útdeila embættum eða áhrifastöðum og horfa ekki til langra starfa Björns í stjórnmálum.

Eftir kosningar verður valið í verkefni sem skipta máli. Það eru allar líkur á því að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn. Landsmenn hafa falið honum lykilhlutverk í þeim efnum. Það verður að koma fram með skýrum hætti að Björn njóti áralangra verka sinna og forystu á vegum flokksins. Hann hefur alla tíð lagt heill og hag Sjálfstæðisflokksins í fyrsta sæti og sinnt kjarna flokksins vel. Það skiptir að mínu mati miklu máli.

Það verður Sjálfstæðisflokknum mjög til vansa verði þetta mál og auglýsing auðmanns úti í bæ þess valdandi að Björn Bjarnason hafi ekki stuðning til að fá embætti af því kalíber sem hann hefur sinnt árum saman. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að hann eigi áfram að gegna embættum á vegum flokksins í því stjórnarsamstarfi sem Sjálfstæðisflokkurinn mun taka þátt í eftir þessar alþingiskosningar.


Bloggfærslur 16. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband