3.5.2007 | 21:30
Þjóðin kynnist Luciu - tengdadóttirin segir sína sögu

Hún hefur dregist inn í flókið pólitískt mál á lokaspretti kosningabaráttunnar og eflaust fengið stærri sess í huga landsmanna en hún vildi með umsókninni. Það er enginn vafi á því að Lucia er klár og glæsileg kona, hún kom glæsilega fram í kvöld.
Þetta er auðvitað mjög vandræðalegt mál í alla staði, bæði fyrir Luciu og ráðherrann, tengdamóðurina, og eiginlega fjölskyldu hennar alla í raun. Hinsvegar verður fróðlegt að sjá hvort að einhverjir verði eftirmálar þess. Skotin ganga á milli ráðherrans og dægurmálaþáttarins Kastljóss og enginn vill gefa eftir þannig séð, enda eiga báðir aðilar heiður að verja.
En það er svo sannarlega ljóst að fáir nýjir íslenskir ríkisborgarar hafa fengið meiri umfjöllun en einmitt Lucia, ef frá er talinn skáksnillingurinn Bobby Fischer. Hinsvegar er þetta ekki jákvæð umfjöllun. Þetta vinnuferli hefur valdið miklum deilum og pólitískum vangaveltum.
Og allir velta því fyrir sér hver pólitísk staða tengdamóðurinnar verður er á hólminn kemur í lok næstu viku, þegar að kjósendur greiða atkvæði í kjördæmi hennar og ræðst hvort hún heldur pólitískum sess sínum á þingi, burtséð frá ráðherraembættinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.5.2007 | 18:29
Vond staða Framsóknar í Kraganum - fellur Siv?
Skv. kjördæmakönnun Gallups í Suðvesturkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með fimm kjördæmakjörna þingmenn og tæplega 42% fylgi. Framsóknarflokkurinn nær ekki þingmanni, mælist aðeins með 6,5% fylgi og því er Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, utan þings. Samfylkingin stendur nærri kjörfylginu en VG hækkar mjög frá kjörfylginu vorið 2003, en missir nokkuð fylgi hinsvegar frá nýlegum kjördæmakönnunum. Frjálslyndir eru nokkuð langt frá því að ná inn manni og Íslandshreyfingin nær ekki flugi.
Sjálfstæðisflokkur: 41,6% (38,4%)
Samfylkingin: 29,7% (32,8%)
VG: 14,8% (6,2%)
Framsóknarflokkur: 6,5% (14,8%)
Frjálslyndi flokkurinn: 4,9% (6,7%)
Íslandshreyfingin: 2,5%
Þingmenn skv. könnun
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Sjálfstæðisflokki)
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Gunnar Svavarsson (Samfylkingu)
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Árni Páll Árnason
Ögmundur Jónasson (VG)
Fallin skv. könnun
Siv Friðleifsdóttir
Þetta er merkileg mæling svo sannarlega. Þessi könnun er mikið áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Það eru mikil tíðindi að ráðherra af kalíber Sivjar, sem einn af mest áberandi stjórnmálamönnum landsins, mælist utan þings aðeins níu dögum fyrir þingkosningar. Henni vantar talsvert enn til að teljast örugg og hljóta vondar kannanir fyrir Framsókn á höfuðborgarsvæðinu að vera grafalvarlegt áfall fyrir flokksmenn á svæðinu. Framsókn er að missa talsvert fylgi, um tíu prósentustig, frá síðustu kosningum skv. þessu. Það getur varla talist annað en gríðarlegt áfall fyrir Siv, sem greinilega rær pólitískan lífróður í kjördæmi sínu þessa dagana.
Samfylkingin styrkist nokkuð frá fyrri kjördæmakönnunum og er nærri kjörfylginu 2003. Það eru vissulega tíðindi. Það er orðið mjög langt síðan að Árni Páll hefur verið inni í könnunum sem kjördæmakjörinn og þetta því merkileg mæling hvað það varðar. Það er spurning hvort að það komi flokknum til góða að hafa kjördæmaleiðtoga úr Hafnarfirði. Það hafði klárlega áhrif í kosningunum 2003 er Guðmundur Árni Stefánsson leiddi kjördæmalistann, reyndar í eina skiptð á sínum stjórnmálaferli. Þeir hafa líkar öflugar konur á lista og ferska nýliða. Altént er ljóst að staða þeirra er mun betri þarna en hefur stefnt í um skeið.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig kjördæmakjörnum þingmanni skv. þessari mælingu og er yfir 40%, örlitlu yfir kjörfylginu. Staða Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, er mjög ótrygg skv. þessum mælingum og óvíst um hvort henni tækist að ná jöfnunarþingsæti á þessu. Reyndar er mikið fylgi að falla dauð niður skv. þessu svo að staðan er óljós. Hinsvegar er ég viss um að Þorgerður Katrín og hennar fólk vill sækja mun meira fylgi og tryggja stöðu Ragnheiðar betur en þetta, en fylgi upp á 45% myndi fara langt með að tryggja sjötta manninn með einum hætti eða öðrum. Þarna verður klárlega sótt fram.
VG bætir við sig mjög miklu fylgi, en hefur lækkað skv. nýlegum kjördæmakönnunum. Þarna mælist Guðfríður Lilja Grétarsdóttir ekki sem kjördæmakjörin, en það hefur verið staða mála um þónokkuð skeið. Ögmundur er því bara einn inni. Það er ljóst að Samfylkingin er að styrkjast á kostnað VG þarna. Það er spurning hvort að sigur stóriðjuandstæðinga í Hafnarfirði hafi komið niður á VG í kjördæminu, en augljóslega slaknaði mjög á umhverfismálunum í baráttunni eftir að það mál dó sem alvöru kosningamál á svæðinu, en á það ætlaði VG klárlega að herja. Um leið virðist Samfylkingin hafa rétt með því að hafa kosninguna í mars.
Frjálslyndir missa fylgi frá síðustu kosningum. Þeir náðu Gunnari Erni Örlygssyni á þing í þessu kjördæmi fyrir fjórum árum. Hann sagði skilið við flokkinn á miðju kjörtímabili. Nú leiðir Kolbrún Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, listann og vantar talsvert upp á þingsæti. Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, skipar annað sæti á lista frjálslyndra, en hann varð þingmaður á miðju tímabili við afsögn Guðmundar Árna en sagði sig úr Samfylkingunni eftir prófkjörstap. Hann er kolfallinn skv. öllum könnunum. Íslandshreyfingin nær svo ekki neinu flugi og greinilegt að varla verður Jakob Frímann þingmaður eftir níu daga.
En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi sólarhringar sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar. Staðan virðist mjög opin og þarna gætu orðið stórtíðindi, sé litið á þessa könnun sem fyrirboða um stöðu mála.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.5.2007 | 15:14
Skeytasendingar milli Jónínu Bjartmarz og Kastljóss

Þetta mál hefur verið aðalfréttaefni síðustu daga og sett svip sinn á kosningabaráttuna. Umræðan um ríkisborgararétt tengdadóttur umhverfisráðherrans hefur vakið margar spurningar og umfjöllun gærkvöldsins um að hún hafi fengið ríkisborgaréttinn á tíu dögum í mars hefur vakið óskipta athygli víða. Verklagið hefur vakið upp mörg spurningamerki og greinilegt að Kastljós lumaði á mörgum upplýsingum í málinu áður en farið var af stað og áður en hvassyrt rifrildi var á föstudagskvöldið milli þáttastjórnanda og ráðherra.
Kastljós stendur greinilega við alla umfjöllun sína og ráðherrann berst fyrir heiðri sínum. Þetta er vissulega mjög athyglisvert mál. Spurningarnar eru margar og svörin koma ekki við öllu. Það er varla við því að búast að þátturinn bakki með sitt, verandi með öll gögn og þá hlið mála nokkuð örugga. Það er greinilegt að ráðherrann átti ekki von á að gögnin væru í höndum Kastljóssins og við öllum blasir að hún getur ekkert gert nema sótt að þeim sem hófu umfjöllunina. Á netinu er sem fyrr lífleg umræða, fólk spyr sig spurninganna og m.a. að því hver hafi lekið upplýsingunum.
Það er erfitt að segja til um hvaða áhrif þetta hafi. Þetta mál hefur klárlega ekki góð áhrif á pólitíska stöðu Jónínu. Annars verða þingkosningarnar eflaust mælikvarði á það hvort að kjósendur treysta henni til áframhaldandi þingmennsku. Ofan á allt annað verða úrslitin þar vitnisburður um stöðu hennar. Hvað varðar málið sem slíkt væri heiðarlegast að opna það allt og sýna vinnuferla í því. Það verður hinsvegar að stokka upp vinnuferlana alla, enda er svona orðrómur og vandræðagangur engum til sóma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.5.2007 | 13:19
Jón Ásgeir og Tryggvi dæmdir og fá skilorð

Níu af ákæruliðum af átján var vísað frá dómi. Skv. dómsorði er Jón Ásgeir dæmdur fyrir brot í tengslum við kredit reikning upp á 60 m.kr. sem hafði áhrif á stöðu Baugs þegar fyrirtækið var á hlutabréfamarkaði. Jón Ásgeir var dæmdur fyrir brota á almennum hegningarlögum. Tryggvi var dæmdur fyrir brot á almennum hegningarlögum og bókhaldslögum.
Þetta er athyglisverður dómur. Hann markar þó ekki endi málsins og nú verður hæstaréttar að taka málið fyrir. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst í þessu langvinna dómsmáli.
![]() |
Jón Ásgeir og Tryggvi dæmdir í skilorðsbundið fangelsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.5.2007 | 02:56
VG í sókn - Jón ekki inni - margir óákveðnir
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með fjögur kjördæmakjörin þingsæti og bætir við sig sæti. Samfylkingin mælist með þrjú - tapar einum. VG bætir við sig kjördæmakjörnum manni. Frjálslyndi flokkurinn er með meira fylgi en Framsóknarflokkurinn sem missir kjördæmakjörinn mann. Skv. því eru inni; Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Pétur Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson (Sjálfstæðisflokki), Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Helgi Hjörvar (Samfylkingu), Katrín Jakobsdóttir og Árni Þór Sigurðsson (VG). Mikil óvissa er yfir því hvaða flokkar hljóta jöfnunarsætin.
Sjálfstæðisflokkurinn: 34,5% (35,5%)
Samfylkingin 29,8% (35,8%)
VG: 22,3% (9,7%)
Frjálslyndi flokkurinn: 6,1% (5,5%)
Framsóknarflokkurinn: 4,5% (11,6%)
Íslandshreyfingin: 2,8%
Stöð 2 var með góða umfjöllun á stöðu mála í þættinum í kvöld, en þetta er síðasti kjördæmaþáttur stöðvarinnar en þar hefur verið farið um hringinn. Þarna voru góðar umræður og í raun var merkilegast að sjá hversu mjög VG er að bæta við sig og að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki að bæta við sig í þessu kjördæmi þar sem mikil endurnýjun hefur verið í þessu kjördæmi. Þessi staða er reyndar ekki beint í samræmi við kannanir Gallups og er satt best að segja grafalvarleg tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mínu mati tíu dögum fyrir þingkosningar. Framsókn er ekki enn að mælast með Jón inni og varla er þetta uppörvandi staða fyrir þá þegar að lítill tími er eftir.
Samfylkingin er enn undir kjörfylginu sem hljóta að teljast mikil tíðindi fyrir flokk sem hefur verið í stjórnarandstöðu árum saman og með fyrrum formann flokksins í fararbroddi lista. Þetta er þó fyrsta könnunin um nokkuð skeið sem sýnir Helga Hjörvar kjördæmakjörinn. Magnús Þór Hafsteinsson stendur nærri þingsæti í þessari mælingu og gæti komist inn sem jöfnunarmaður fengju frjálslyndir yfir 5% landsfylgi. Íslandshreyfingin mælist lítil í kjördæmi Margrétar Sverrisdóttur, sem mælist ekki inni. Það hlýtur að vera gríðarlegt áfall fyrir þau, enda ekki beint sem að var stefnt við stofnun flokksins. Þau fóru klárlega of seint af stað og gjalda þess nú.
Þessi könnun er án nokkurs vafa mikið pólitískt áfall fyrir Jón Sigurðsson og ekki síður forystumenn Sjálfstæðisflokksins, enda eru vinstriflokkarnir þarna með meirihluta. Færu kosningar með viðlíka hætti væri það mjög dapurlegt gengi þeirra og VG yrði í raun sigurvegarinn í kjördæminu - eini flokkurinn sem bætti einhverju að ráði við sig. Þessi könnun sýnir fylgistap fyrir Sjálfstæðisflokkinn á viðkvæmu svæði og það yrði ekki gott fyrir nýjan kjördæmaleiðtoga að fá svona mælingu, en ég hef þó ekki trú á að þetta fari svona og er viss um að Gulli verður fyrsti þingmaður kjördæmisins. Samfylkingin á greinilega í mikilli varnarbaráttu í þessum kosningum, en það eru ýmis teikn á lofti um að flokkurinn sé eitthvað að hækka sig þó enn vanti mikið upp á.
Áhugavert var að fylgjast með umræðunum. Heilt yfir voru þær áhugaverðar en ekki mikil tíðindi yfir þeim. Þetta var hálfgert dægurblaður, t.d. fannst mér stórundarlegt að ræða um forsetaembættið og stjórnarmyndunartal síðustu daga þarna. Það á varla að þurfa að ræða það, enda er öllum ljós hver staða forsetans er. Fá kjördæmatengd mál voru rædd. Þetta er reyndar sérstakt kjördæmi, það er helmingur eins sveitarfélags. Það kom til sögunnar til að trygga jafnari vægi atkvæða í borginni og er því auðvitað bara strik á blaði. Þetta er í raun ein heild á bakvið þessi tvö borgarkjördæmi og því ekki beint hægt að tala um staðtengda pólitík í öðru kjördæminu frekar en hinu. Hagsmunir þeirra fara svo sannarlega saman.
Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Reykjavík norður að því er virðist. Miklar sveiflur eru milli kannana og erfitt að trúa hvað er rétt og hvað er vafamál. Enda eru kannanir aðeins vísbendingar á langri og tvísýnni leið. Þessi könnun sýnir vel bylgju til VG og vonda stöðu annarra flokka, enda eru þeir allir aðrir að minnka fylgi, ef frjálslyndir eru undanskildir.
Rúm vika er til kosninga. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Lokaspretturinn verður sérstaklega spennandi þarna, enda eiga flestir flokkar mikið undir því að þar mælist þeir vel.