VG í sókn - Jón ekki inni - margir óákveðnir

Könnun í Reykjavík norður Ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Reykjavík norður var birt í kvöld, 10 dögum fyrir þingkosningar, á kjördæmafundi Stöðvar 2. Þar er VG í mikilli sókn og meira en tvöfaldar fylgið. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin tapa fylgi - Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur flokka í kjördæminu. Framsóknarflokkurinn nær enn ekki manni í kjördæminu og fara góð ráð að verða dýr fyrir Jón Sigurðsson. Frjálslyndir eru örlítið yfir kjörfylginu. Íslandshreyfingin nær ekki flugi.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með fjögur kjördæmakjörin þingsæti og bætir við sig sæti. Samfylkingin mælist með þrjú - tapar einum. VG bætir við sig kjördæmakjörnum manni. Frjálslyndi flokkurinn er með meira fylgi en Framsóknarflokkurinn sem missir kjördæmakjörinn mann. Skv. því eru inni; Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Pétur Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson (Sjálfstæðisflokki), Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Helgi Hjörvar (Samfylkingu), Katrín Jakobsdóttir og Árni Þór Sigurðsson (VG). Mikil óvissa er yfir því hvaða flokkar hljóta jöfnunarsætin.

Sjálfstæðisflokkurinn: 34,5% (35,5%)
Samfylkingin 29,8% (35,8%)
VG: 22,3% (9,7%)
Frjálslyndi flokkurinn: 6,1% (5,5%)
Framsóknarflokkurinn: 4,5% (11,6%)
Íslandshreyfingin: 2,8%

Stöð 2 var með góða umfjöllun á stöðu mála í þættinum í kvöld, en þetta er síðasti kjördæmaþáttur stöðvarinnar en þar hefur verið farið um hringinn. Þarna voru góðar umræður og í raun var merkilegast að sjá hversu mjög VG er að bæta við sig og að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki að bæta við sig í þessu kjördæmi þar sem mikil endurnýjun hefur verið í þessu kjördæmi. Þessi staða er reyndar ekki beint í samræmi við kannanir Gallups og er satt best að segja grafalvarleg tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mínu mati tíu dögum fyrir þingkosningar. Framsókn er ekki enn að mælast með Jón inni og varla er þetta uppörvandi staða fyrir þá þegar að lítill tími er eftir.

Samfylkingin er enn undir kjörfylginu sem hljóta að teljast mikil tíðindi fyrir flokk sem hefur verið í stjórnarandstöðu árum saman og með fyrrum formann flokksins í fararbroddi lista. Þetta er þó fyrsta könnunin um nokkuð skeið sem sýnir Helga Hjörvar kjördæmakjörinn. Magnús Þór Hafsteinsson stendur nærri þingsæti í þessari mælingu og gæti komist inn sem jöfnunarmaður fengju frjálslyndir yfir 5% landsfylgi. Íslandshreyfingin mælist lítil í kjördæmi Margrétar Sverrisdóttur, sem mælist ekki inni. Það hlýtur að vera gríðarlegt áfall fyrir þau, enda ekki beint sem að var stefnt við stofnun flokksins. Þau fóru klárlega of seint af stað og gjalda þess nú.

Þessi könnun er án nokkurs vafa mikið pólitískt áfall fyrir Jón Sigurðsson og ekki síður forystumenn Sjálfstæðisflokksins, enda eru vinstriflokkarnir þarna með meirihluta. Færu kosningar með viðlíka hætti væri það mjög dapurlegt gengi þeirra og VG yrði í raun sigurvegarinn í kjördæminu - eini flokkurinn sem bætti einhverju að ráði við sig. Þessi könnun sýnir fylgistap fyrir Sjálfstæðisflokkinn á viðkvæmu svæði og það yrði ekki gott fyrir nýjan kjördæmaleiðtoga að fá svona mælingu, en ég hef þó ekki trú á að þetta fari svona og er viss um að Gulli verður fyrsti þingmaður kjördæmisins. Samfylkingin á greinilega í mikilli varnarbaráttu í þessum kosningum, en það eru ýmis teikn á lofti um að flokkurinn sé eitthvað að hækka sig þó enn vanti mikið upp á.

Áhugavert var að fylgjast með umræðunum. Heilt yfir voru þær áhugaverðar en ekki mikil tíðindi yfir þeim. Þetta var hálfgert dægurblaður, t.d. fannst mér stórundarlegt að ræða um forsetaembættið og stjórnarmyndunartal síðustu daga þarna. Það á varla að þurfa að ræða það, enda er öllum ljós hver staða forsetans er. Fá kjördæmatengd mál voru rædd. Þetta er reyndar sérstakt kjördæmi, það er helmingur eins sveitarfélags. Það kom til sögunnar til að trygga jafnari vægi atkvæða í borginni og er því auðvitað bara strik á blaði. Þetta er í raun ein heild á bakvið þessi tvö borgarkjördæmi og því ekki beint hægt að tala um staðtengda pólitík í öðru kjördæminu frekar en hinu. Hagsmunir þeirra fara svo sannarlega saman.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Reykjavík norður að því er virðist. Miklar sveiflur eru milli kannana og erfitt að trúa hvað er rétt og hvað er vafamál. Enda eru kannanir aðeins vísbendingar á langri og tvísýnni leið. Þessi könnun sýnir vel bylgju til VG og vonda stöðu annarra flokka, enda eru þeir allir aðrir að minnka fylgi, ef frjálslyndir eru undanskildir.

Rúm vika er til kosninga. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Lokaspretturinn verður sérstaklega spennandi þarna, enda eiga flestir flokkar mikið undir því að þar mælist þeir vel.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ég er ekki hissa á því fylgi sem Katrín Jakobsdóttir fær, hún er eina konan sem leiðir sinn flokk, Þó svo að menn vilji gera lítið úr því, þá finnst konum almennt brautargengi kvenna í pólitík á íslandi vera og lítið.  Við eigum mjög frambærilegar konur sem vilja gefa sig í pólitík en þær ná oft ekki ofarlega á lista.

Ester Sveinbjarnardóttir, 3.5.2007 kl. 07:26

2 Smámynd: Rúnar Þórarinsson

Góð greining að vanda Stebbi.  Smá athugasemd, þó þetta færi svona þá verður Gulli samt sem áður fyrsti þingmaður kjördæmisins því Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur.  Eins og þú segir er þetta ekki góð staða fyrir okkar menn þarna í RVK og því er mikið verk framundan að afla fylgis.   Athyglisverðast er þó að sjá hvað margir eru óákveðnir svona rétt fyrir kosningar og greinilegt að ennþá er eftir miklu að slægjast í óákveðnum.  Spennandi tími framundan og greinilegt að allt getur gerst.  Spurning líka hvaða áhrif "Jónínumálið" muni hafa á fylgið.  Ef það hefur einhver áhrif mun það trúlega best sjást í könnunum, um og eftir helgina.

Rúnar Þórarinsson, 3.5.2007 kl. 08:46

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Þetta er alveg ásættanlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn - bætum við okkur manni. Guðlaugur var traustur og stóð sig mjög vel.
Jón sagði að ef flokkurinn fengi ekki góða kosningu þá myndi hann skoða sína stöðu vel en ef  til hans yrði leytað um stjórnarmyndun þá myndi flokkurinn ekki skorast undan því - ef ég á að ráða í þetta munu þeir fara í stjórn ef þeir geta hvað svo sem kemur upp úr kjörkössunum - skil það reyndar mjög vel enda hundleiðinglet að vera í stjórnarandstöðu.
Ég held reyndar að Jón komist inn - framsóknarmenn munu láta sjá sig 12.mai og nýta sinn atkvæðisrétt.
Það að vg er hugsanlega að bæta við sig manni er áhyggjuefni - ég ætla leyfa mér að spá að svo verði ekki ( kanski meira von )
Það verður einmannalegt hjá Guðjóni í þingflokki FF.

Óðinn Þórisson, 3.5.2007 kl. 08:48

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Í Rvík Norður eru allmargir íbúar, sem hafa fært sig milli flokka, vegna skipulagsmála.  Í þeim efnum erum við afar haltir.  Sturla er sem atkvæðafæla hér í mínu kjördæmi.

Hef verið í Flokknum, lengi og unnið mikið í kosningastarfi á hans vegum.  Ekki í annann tíma hef ég orðið var við jafn sterkan undirtón kjósenda í nokkru máli tengdu búsetu.

Skipulagsmálin hafa verið of lengi í algeru ,,fokki".  Sundabraut, Flugvöllurinn og bruðl í færslu Hringbrautar eru þau mál, sem fæla mikinn fjölda miðaldra kjósenda frá okkur yfir til ------ Samfylkingarinnar.

Nú fæ ég meldingar á við  ,,þarf ekki að grafa fleirri tugmilljarða Héðinsfjarðargöng" ha?  ,,Ætlið þið ekki að bora fjallgarðana í döðlur þarna fyrir Norðan"? 

,,Er ekki rétt að teppa enn frekar umferðaæðarnar að og frá Vestur og Miðbæ með Kremlversku sjúkrahúsi"?

Samfylkingin hefur hjalað við kjósendur og sett Héðinsfjarargöngin á okkar klakk, þó svo að flokksmaður þeirra á Sigló hafi nú ekkert af sér dregið í vitleysunni.

Nei við erum í algerri nauðvörn með þessum framkvæmdum sem koma verulega niður á búsetuskilyrðum kjósenda í Rvík Norður.

Svo einfallt er það nú bara.  Kjósendur eru farnir að huga miklu miklu meir að búsetuskilyrðum og eðlilegar kröfur manna eru nú talda nægar ástæður til, að skipta um flokk í Alþingiskosningum.

 Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 3.5.2007 kl. 09:04

5 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Mjög góð greining að venju Stebbi. Vissulega yrðu slík úrslit áfall fyrir flokksbræður þína, flokkurinn fékk óvenju lítið fylgi í kjördæminu fyrir 4 árum og að tapa fylgi núna yrði hroðalegt. Ég er þér hins vegar ósammála um að slík úrslit yrðu áfall fyrir Samfylkinguna. Þetta er eina kjördæmið sem flokkurinn er nálægt 30% skv. skoðanakönnunum og mætti vel við una að fá slíkt fylgi, enda vann flokkurinn stórsigur í RN í síðustu kosningum þegar Össur varð fyrsti þingmaður kjördæmisins á kostnað Davíðs Oddsonar.

Almennt teldi ég úrslit eins og þessi vera frábær, ríkisstjórnin fallinn, vinstri flokkarnir með yfir 52% fylgi og formaður exbé langt frá því að ná kjöri (nema e.t.v. gæti hann slysast inn sem uppbótarþingmaður). Þetta lofar góðu.

Guðmundur Auðunsson, 3.5.2007 kl. 12:34

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Ester: Reyndar leiðir Kolbrún Halldórsdóttir líka VG, í hinu rvk-kjördæminu, því syðra. En Kata er ný í framboði í forystu lista og virðist vera að standa sig vel. Það er allavega vel ljóst að hún er að fara inn á þing og tekur Árna Þór með sér þar inn.

Rúnar: Takk fyrir góð orð. Já, vissulega er Gulli fyrsti þingmaður kjördæmisins miðað við þessar tölur en það er alveg ljóst að munurinn milli flokka er ekki mikill og þessi könnun hlýtur að vera áfall fyrir flokkinn, enda mun það verða högg ef þetta verður svona tæpt. En það er auðvitað enn langt til kosninga og baráttan verður hörð á lokasprettinum. Tek undir skoðanir þínar varðandi Jónínumálið og það hversu margir eru óákveðnir hefur áhrif á heildarmyndina. Það virðast líka mörg atkvæði þarna vera að falla dauð niður, enda bara þrír flokkar með mann inni.

Óðinn: Nei, þetta er ekki ásættanlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þessi fjórði maður er bara inni hjá okkur fyrir algjöra hundaheppni og á kjördegi væri hann að ég tel ekki inni á þessu fylgi nema þá að hinir flokkarnir þrír falli niður án þess að fá mann. Miðað við nýjan forystumann og nýja konu í öðru sæti er þetta ekki góður árangur, en það verður spurt að leikslokum auðvitað. En þetta er merkileg könnun og vonandi kveikir hún sigurkraft í mínum mönnum í rvk - n.

Bjarni: Takk fyrir hugleiðingarnar. Hvar sem við erum stödd skipta samgöngumálin miklu máli.

Guðmundur: Já, ég segi það hreint út enda er greiningin vel heiðarleg með þetta. En ein könnun segir aldrei alla söguna og ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn fái fjóra kjördæmakjörna. En það verður spennandi a´ð sjá hvað gerist. Ég hallast reyndar að því að Jón nái kjöri, ef það gerist ekki verða það stórpólitísk tíðindi.

mbk.



Stefán Friðrik Stefánsson, 3.5.2007 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband