Speedy Sarko á miklu vinsældaflugi í Frakklandi

Nicolas Sarkozy Nicolas Sarkozy hefur verið forseti Frakklands í tæpan mánuð. Hann hlaut völdin í Elysée-höll með sannfærandi hætti og er vinsælasti forseti Frakklands í upphafi valdaferilsins í áratugi. Nú stefnir allt í að samherjar hans vinni stórsigur í frönsku þingkosningunum á morgun og eftir viku, þann 17. júní nk. Flest stefnir í að sósíalistar séu að stefna í afhroð af svipuðum skala eða jafnvel enn verra en sumarið 2002, eftir að Jacques Chirac var endurkjörinn forseti.

Stuðningur landsmanna við Sarkozy og forsætisráðherrann Francois Fillon er mjög mikill og þeim er treyst til verka. Sarkozy hefur í upphafi valdaferilsins slegið öll vopn úr höndum sósíalista og miðjumanna undir forystu Francois Bayrou og þeir munu væntanlega taka hressilega dýfu í kosningunum. Það vakti mikla athygli þegar að Sarkozy valdi sósíalistann og friðarverðlaunahafa Nóbels dr. Bernard Kouchner sem utanríkisráðherra stjórnar sinnar. Sósíalistar vita varla í hvorn fótinn hefur átt að stíga og þeir beindu gremjunni að Kouchner með lítt glæsilegum hætti.

Fyrir nokkrum mánuðum var Segolene Royal vonarstjarna franskra vinstrimanna og talin nokkuð líkleg um að geta hlotið forsetaembættið. Svo fór að hún tapaði nokkuð illa fyrir Sarkozy. Kannanir á lokaspretti kosningabaráttunnar gerðu aldrei ráð fyrir sigri hennar og munurinn á henni og Sarkozy varð að lokum nokkuð áberandi mikill, sá mesti milli sósíalista og hægrimanns til þessa. Sarkozy vann með öflugum hætti og Royal varð fyrir áberandi niðurlægingu.

Pólitísk framtíð hennar er mjög óviss og verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu Sósíalistaflokkurinn, sem leiddur er af eiginmanni Royal, Francois Hollande, tekur gangi spár um vont gengi í þingkosningunum eftir. Þá er hætt við að sósíalistar verði að ganga í gegnum allsherjar naflaskoðun og uppstokkun á kjarna sínum og mannskap, enn meiri en varð eftir afhroð Lionel Jospin í forsetakosningunum 2002 og flokksins í þingkosningunum sama ár.

Á meðan brosir Sarkozy út í eitt. Það stefnir allt í að hann fái fullnaðarumboð landsmanna til verka, til að setja stefnu sína í framkvæmd. Á meðan muni sósíalistar sleikja sár sín. Sarkozy stefnir á breytingar, hann kynnti breytingar og nýja tíma í kosningabaráttunni fyrir nokkrum vikum. Nú reynir á þessa nýju tíma eftir að hann fær umboð til verka. Nú er spurningin aðeins um hversu öflugt það umboð verður.

Nicolas Sarkozy hefur sannað sig á fyrsta mánuði sínum sem húsbóndi í Elysée-höll sem maður breytinga, maður sem horfir í aðrar áttir. Það sýnist og sannar af frjálslegri framkomu hans, t.d. skokktúrana um götur miðborgarinnar í kringum forsetahöllina. Það verður fróðlegt að fylgjast með verkum hans. Það stefnir allt í að hann fái full völd til að setja framtíðarsýn sína í framkvæmd.

mbl.is Fyrstu atkvæðin greidd í frönsku þingkosningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikburða heilsufar á bandarískri varaforsetavakt

Cheney & BushAllt frá því að George W. Bush tilkynnti um valið á Dick Cheney sem varaforsetaefni sínu í júlí 2000 hefur verið mikil umræða um það í bandarísku samfélagi hvort hann gæti vegna hjartveiki sinnar og fjölda hjartaáfalla gegnt embættinu til fulls. Umræður um það urðu heitar í báðum forsetakosningunum sem Bush sigraði í og sérstaklega vöknuðu efasemdir um heilsufar varaforsetans í nóvember 2000 er hann fékk hjartaáfall í fjórða skiptið nokkrum sólarhringum eftir lok kosningabaráttu.

Cheney hefur því verið þjakaður af heilsuleysi allan valdaferilinn. Það leikur að mínu mati enginn vafi á því að Dick Cheney var einn helsti lykilmaðurinn í sigri Bush forseta fyrir sjö árum. Hann hefur alla tíð verið límið í hersveit hans og leitt starf þar. Af því leiðir að Cheney er án nokkurs vafa valdamesti varaforseti Bandaríkjanna til þessa. Aðeins Al Gore hefur komist nærri Cheney í áhrifum á valdaferli forsetans sem leiðir þjóðina á varaforsetavakt þess sem með honum starfar. Jafnan hefur varaforsetinn verið litlaus hliðarmaður án valda og áhrifa. Það á svo sannarlega ekki við um Cheney.

Cheney er auðvitað mjög öflugur maður valdsins og hefur mikinn kraft og einbeitingu til verka. Hann hefur þó ekki verið mikið í fjölmiðlum og hefur nær alveg unnið sitt verk í kyrrþey og á bakvið tjöld fjölmiðlaathyglinnar. Hann hefur fjarri því verið mest áberandi varaforseti bandarískrar stjórnmálasögu í fjölmiðlum og mjög ólíkur Al Gore að því leyti. En hann hefur haft völd með mun áberandi hætti en aðrir forverar hans og gætt varaforsetaembættið öðrum blæ í ljósi þess. Cheney hefur verið lykilmaður í bandarískum stjórnmálum í áraraðir. Hann var áberandi í starfsliði Nixons og var starfsmannastjóri Hvíta hússins í forsetatíð Gerald Ford.

Cheney var einn valdamesti maður Bush-stjórnarinnar 1989-1993 og sat sem varnarmálaráðherra á mikilvægum tímum Persaflóa-stríðsins sem var fyrsta sjónvarpsstyrjöldin ef svo má segja. Þegar að Bush eldri tapaði fyrir Bill Clinton hvarf Cheney af pólitíska sjónarsviðinu með honum og fór til annarra verka. Þegar að George W. Bush sóttist eftir forsetaembættinu við lok valdaferils Clintons leitaði hann til Dick Cheney, lykilmanns í pólitískum samráðshópi föður síns, til að stýra vali á varaforsetaefni sínu. Eftir langa leit og samráð við Cheney ákvað hann að leita ekki langt yfir skammt. Svo fór að Cheney var talinn maðurinn sem Bush þurfti á að halda og það vakti mikla athygli þegar að formaður valnefndarinnar varð sjálfur varaforsetaefnið.

Ég man mjög vel eftir því að fyrsta hugsun mín þegar að ég heyrði af vali Bush á Cheney væri hvort að hann hefði heilsufar í að vera varaforseti Bandaríkjanna eftir allt sem á undan var gengið hjá honum. Það var líka fyrsta fréttin sem fylgdi valinu í heimspressunni. Það var ekki undrunarefni. Þó að varaforseti sé allajafna litlaus hliðarmaður og ekki maður lykilvaldsins er hann þó á varaforsetavakt, er því sá sem tekur við embættinu komi eitthvað fyrir þann sem leiðir þjóðina. Það verður því að vanda til valsins. Bush vissi að faðir hans hafði alla tíð séð mjög eftir valinu á hinum misheppnaða Dan Quayle árið 1988 og vildi traustan mann sér við hlið. Hann sá þann mann í Cheney.

Mikil umræða varð einhversstaðar í pressunni og utan hennar árið 2004 um það hvort að Cheney yrði áfram við hlið Bush og færi fram með honum þá. Það voru mjög undarlegar vangaveltur og algjörlega út í hött. Það kom enda aldrei til greina að skipta um og Cheney var áfram við hlið forsetans. Það hefði verið algjört stórpólitískt klúður hjá Bush að skipta um varaforseta á þeim tímapunkti. Hinsvegar voru stór mistök hans eftir kosningarnar að hafa Donald Rumsfeld á sínum pósti. Hann var mun umdeildari en Cheney og það var mjög skaðlegt fyrir forsetann að hafa hann með. Ég tel að skellur repúblikana í þingkosningunum í nóvember 2006 hefði orðið minni hefði Rumsfeld verið settur af fyrr.

Dick Cheney er maður sem hefur unnið af skyldurækni fyrir forseta sinn og þjóðina meðfram erfiðum veikindum. Allur hans lykiltími við völd hefur einkennst af vangaveltum um veikburða heilsufar. Þrátt fyrir allt það hefur Cheney byggt upp embætti sitt sem valdamikinn póst í bandarísku stjórnskipulagi, mun valdameira en áður hefur jafnan þekkst. Þrátt fyrir það hefur hann verið varaforseti sem allir vita að aldrei yrði forseti Bandaríkjanna nema á hreinni örlagastund þar sem eitthvað kæmi fyrir George W. Bush. Hann hefur aldrei alið forsetadrauma, hann vildi aldrei verða varaforseti heldur, tók þeirri áskorun aðeins vegna áskorana.

Cheney fer frá völdum samhliða Bush eftir rúmlega eitt og hálft ár. Það leikur enginn vafi á því að þrátt fyrir heilsufarið verður Cheney ekki síðri lykilmaður þessa valdaskeiðs en forsetinn sjálfur. Slík eru áhrif hins hálfsjötuga varaforseta. Hann er og verður alla tíð metinn mikill lykilmaður bandarískra stjórnmála á fyrsta áratug 21. aldarinnar.


mbl.is Skipta þarf um rafhlöður í Cheney
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

George W. Bush sýpur bjór í Heiligendamm

George W. Bush Það vakti talsverða athygli heimspressunnar þegar að George W. Bush sást drekka bjór á G8-leiðtogafundinum í Heiligendamm fyrir nokkrum dögum. Það er varla óeðlilegt enda hefur mikið verið úr því gert út í frá alla forsetatíð hans að Bush hafi ekki smakkað áfengi árum saman.

Allt frá því að talað var um fortíð hans í forsetakosningunum 2000 og dregið var fram í dagsljósið á elleftu stund kosningabaráttunnar uppljóstranir um að hann hefði verið tekinn við stýrið undir áhrifum hefur það verið leiðarstef að hann væri þurr og hefði verið allt frá 1976 er fyrrnefnt atvik átti sér stað. Margir hafa talið að einlæg framkoma hans við uppljóstranirnar árið 2000 hafi tryggt honum fjölda atkvæða og skipt máli á sigurstundinni.

Það vakti mikla athygli daginn eftir bjórdrykkjuna að Bush var sagður hafa magaverki og gat ekki komið fram fyrir hádegi þann dag vegna þessa. Til að fyrirbyggja misskilning og kveikja upp sögusagnir var fullyrt að bjórdrykkja hefði ekki verið ástæða þess og að forsetinn hefði drukkið óáfengan bjór á meðan að aðrir borðfélagar í frjálslegu garðspjalli leiðtoganna við hótelið hafi drukkið ekta bjór.

Þrátt fyrir það var þetta kostulegt fjölmiðlamóment og vakti sögusagnir sem erfitt var að þagga niður og grassera eflaust meir í Evrópuferð forsetans þessa dagana, þar sem hann á erfitt með að liggja slappur í magakveisu, af hvaða völdum sem það annars er.

Súrsætt fjölmiðladrama í Hollywood

Paris Hilton Það er ekki beint að sjá að hið súrsæta fjölmiðladrama um Paris Hilton sé að fara að linna. Það var kostulegt að sjá vísir.is sýna beint frá öllu dramanu þegar að hún var sótt í dómhúsið. Ég verð að viðurkenna að þá fannst mér þetta fara algjörlega út í móa. Leit þó aðeins á þetta í eina örskotsstund og sá bara lögreglubíl á fullri ferð keyrandi um eitthvað breiðstrætið og einhvern óskiljanlegan þul að kyrja í bakgrunni.

Það er kostulegt að fylgjast með of-umfjölluninni um þetta mál. Þetta að sýna þennan farsa í beinni var svona aðeins over the top. Það er reyndar stundum svolítið spes að fylgjast með umræðunni um líf stjarnanna í glysheimum. Áhugi pressunnar á lífi þeirra virðist æði oft ótakmarkaður. Gott dæmi um fórnarlömb glamúrsins sem verða margtuggnar er Paris Hilton einmitt, aðrir nefna eflaust þær Britney Spears og Anna Nicole Smith. Sú síðarnefnda dó í kastljósi fjölmiðlanna og fylgst var með örlögum líkamsleifa hennar meira að segja í fjölmiðlum.

Ég ætla að vona að við fáum öll hinn vænsta frið af Paris meðan að hún afplánar dóminn sinn, segi ekki annað. Efast þó stórlega um að sú verði raunin.

mbl.is Hilton send aftur í fangelsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfi og þróunaraðstoð í brennidepli hjá G8

Angela Merkel og George W. BushLeiðtogafundur átta helstu iðnríkjanna fór fram í Heiligendamm í Þýskalandi í vikunni og var þetta sá 33. í röðinni. Hópur leiðtoga valdamestu iðnríkja heims var stofnaður árið 1975. Fyrst í stað voru sex lönd í samstarfinu: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan og V-Þýskaland. Það var í nóvember 1975 sem þáverandi leiðtogar landanna hittust í fyrsta skipti saman í Rambouillet í Frakklandi í boði Valéry Giscard d'Estaing, þáv. forseta Frakklands, og ákveðið var að funda framvegis árlega að sumarlagi.

Alla tíð síðan hafa þjóðirnar skipst á að halda fundinn og leiða starfið á fundinum. Ári eftir fyrsta fundinn, árið 1976, bættist Kanada í hóp þjóðanna sex. Hópurinn var óbreyttur í rúma tvo áratugi eftir það. Allt frá árinu 1991, við lok kalda stríðsins, hefur Rússland þó verið hluti fundarins en varð ekki fullgildur aðili í hópnum fyrr en árið 1998, er Boris Jeltsin, þáverandi forseti Rússlands, varð fyrsti leiðtoginn frá þessu forna fjandveldi vesturríkjanna til að vera tekinn í þeirra hóp. Rússland var gestgjafi G8-fundanna fyrst fyrir ári, en þá var fundað í St. Pétursborg.

Fundað var í Heiligendamm vegna þess hversu staðurinn er fjarlægur og auðvelt að loka leiðtogana af án truflunar. 12 kílómetrum frá fundarstaðnum á Kempinski Grand Hotel var lokað á alla aðkomu og því voru leiðtogarnir vel fjarlægir öllum mögulegum mótmælum. Fundinn sátu Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, Vladimir Putin, forseti Rússlands, George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, og Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. Þetta er aðeins í annað skiptið í sögu félagsskapar þjóðanna sem kona er gestgjafi fundar þeirra, en Margaret Thatcher var gestgjafi leiðtogafundarins í London í júlí 1984.

Fyrirsjáanlegt er að Blair og Putin sitji nú sinn síðasta leiðtogafund. Blair mun láta af embætti eftir átján daga. Ljóst hefur verið frá 10. maí sl. að Blair myndi láta af embætti 27. júní, þrátt fyrir að Gordon Brown hefði enga samkeppni hlotið um leiðtogastöðu Verkamannaflokksins og hann hefur verið í biðleik eftir völdunum í um mánuð. Kjörtímabili Putins lýkur í mars á næsta ári og skv. stjórnarskrá getur hann ekki boðið sig fram að nýju. Ægivald hans er mikið í Rússlandi og hann náði að sigra kosningarnar 2004 strax í fyrri umferð. Hann hefur ekki lokað á það að gefa kost á sér í kosningunum 2012. Af þeim leiðtogum sem sitja fundinn hefur Blair setið flesta, enda hefur hann verið forsætisráðherra Bretlands allt frá því í maímánuði 1997.

Það er ekki undarlegt að umhverfismál og þróunaraðstoð hafi verið aðalmál fundarins að þessu sinni. Þetta eru lykilmál á veraldarvísu og munu verða um nokkuð skeið. Það blasir við. Þau þáttaskil urðu í Heiligendamm að leiðtogarnir náðu samkomulagi í loftslagsmálum. Samkomulagið var mikill persónulegur sigur fyrir gestgjafann, Angelu Merkel, þó að vissulega hefðu tillögur fundarins ekki náð því sem hún sóttist fyllilega eftir, en hún vildi að útblástur yrði minnkaður um helming fyrir árið 2050. Andstaða Bandaríkjanna, sem er alkunn og sást t.d. í því verklagi Bandaríkjastjórnar að staðfesta ekki Kyoto-samkomulagið, varð til þess að stoppa alhliða tímamótasamkomulag.

Stórt mál fundarins voru augljós kólnunarmerki í samskiptum vesturveldanna og Rússlands vegna fyrirhugaðs eldflaugavarnarkerfis Bandaríkjanna í Póllandi og Tékklandi. Pútín hótaði því í aðdraganda fundarins að beina kjarnorkuvopnum lands síns að Evrópuríkjum ef af áformunum yrði. Lýstu Tony Blair og Angela Merkel sérstaklega yfir áhyggjum sínum og töldu hótunartal Putins afleitt. Það var merkilegt að sjá á fundinum stemmninguna milli Bush og Putins. Þar voru fögur bros en mjög kalt á bakvið. Það styttist í pólitísk endalok Putins og verður fróðlegt að sjá hvað taki við í Rússlandi þegar að pólitísku ægivaldi hans sleppir, en allt frá afsögn Jeltsins hefur Putin verið sem risi þar.

Á leiðtogafundi G8 í Gleneagles í Skotlandi sumarið 2005 voru þróunarmálin lykilmál og beitti Tony Blair sér sérstaklega fyrir fundarsamþykktum í þeim efnum. Samkomulag milli þjóðanna um stóraukið fé til þróunarmála í Afríku var þar kynnt. Ekki hefur verið staðið við það að fullu að mati Bob Geldof og Bono. Voru þeir sem skuggi á eftir leiðtogunum allan fundinn í Þýskalandi. Var á lokadegi fundarins samþykkt að setja jafnvirði 60 milljarða Bandaríkjadala, um 3600 milljarða íslenskra króna, í baráttuna gegn alnæmi í Afríku. Geldof og Bono voru ekki sáttir og kölluðu eftir efndum þess sem kynnt var í Gleneagles. Kallaði Geldof fundinn í Heiligendamm farsa.

Að ári verður leiðtogafundur átta helstu iðnríkja heims haldinn í Toyoko í Hokkaido í Japan. Gestgjafi fundarins þá verður forsætisráðherra Japans. Alls óvíst er hver hann verði á þessari stundu. Pólitísk staða Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, er mjög ótrygg vegna hneykslismála þar í landi. Fjarri því er öruggt að honum takist að halda völdum í þingkosningum í sumar. Fyrir þá sem vilja kynna sér dagskrá fundarins og meginatriði um hann er eindregið bent á að líta á heimasíðu hans.


mbl.is G8-ríkin samþykkja að veita 60 milljarða dala í baráttunni gegn alnæmi í Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hasar í Hnífsdal - mikilvægi sérsveitarinnar

Hasar í Hnífsdal

Það er napurt að heyra af því að sérsveit lögreglunnar hafi þurft að yfirbuga byssumann sem skaut að konu sinni í Hnífsdal. Þetta er sláandi hasar fyrir lítið byggðarlag. Þarna sannaðist þó vel mikilvægi sérsveitarinnar. Lögreglan brást vel og skipulega við þessari ógn að mínu mati - sérsveitin hefur þjálfun og getu til að bregðast við svona slæmu ástandi.

Þetta atvik minnir mjög vel á það, hversu brýnt er að lögreglan sé undir það búin að takast á við hættuleg verkefni, í takt við þetta. Fyrir nokkrum árum þótti ekki öllum sem sitja á Alþingi mikilvægt að breyta skipulagi á yfirstjórn sérsveitar lögreglunnar til að sveitin væri ávallt til taks og sveigjanlegri en áður hefði verið. Því síður virtist skilningur á því hjá fjölda fólks þá að nauðsynlegt væri að efla sérsveitina og fjölga í henni.

Þessi staða sýnir vel hversu rétta stefnu sérsveitin hefur tekið og að hún sé vel búin fyrir ástand sem getur komið úr óvæntustu átt, rétt eins og þetta heimilisofbeldi vestur á fjörðum.


mbl.is Byssumaður yfirbugaður í Hnífsdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátíðisdagur í Fjarðabyggð - álverið opnar

Álver AlcoaÞað er mikil hátíð á Austurlandi í dag, þegar hið nýja álver Alcoa verður formlega opnað. Baráttan fyrir því að tryggja þessar framkvæmdir á Austurlandi hefur verið í senn löng og tekið á. Í mörg ár biðu Austfirðingar eftir því að þessi framkvæmd yrði að veruleika og það hefur sannast að Austfirðingar hafa stutt framkvæmdina með mjög áberandi hætti.

Átökin um framkvæmdirnar fyrir austan hafa þó mun frekar snúist að byggingu Kárahnjúkavirkjunar en því að reisa álverið sjálft í Reyðarfirði. Virkjunin var þó algjör forsenda þess að álver yrði að veruleika. Ég held að allir sem fari til Fjarðabyggðar og hafi kynnt sér aðstæður þar hafi sannfærst um það að þar hefur uppbyggingin, sem er á öllum sviðum og blasir við öllum sem líta yfir svæðið, verið markviss og hún hefur byggt svæðið upp sem lykilkjarna á Austfjörðum. Það leikur enginn vafi á því.

Ég held að allir sem fari í gegnum Reyðarfjörð á ferð sinni hafi séð hversu mjög framkvæmdir við byggingu þessa álvers og aðra þætti sem þeirri uppbyggingu hafi fylgt hafi gjörbreytt Austurlandi, og það til góðs. Áður var Reyðarfjörður hnignandi staður sem var vonum snauður, átti fá almenn tækifæri á vegferðinni og virtist að fjara út mjög markvisst. Síðan að ákvarðanir voru teknar um þessa uppbyggingu hefur Reyðarfjörður risið úr öskustónni. Þar hefur risið alþjóðlegur stórbær þar sem öll tækifæri eru til staðar. Það mun ekki líða á löngu þar til að Reyðarfjörður verður lykilstaður á Austfjörðum, ef hann er ekki hreinlega þegar orðinn það. Uppbygging þar á innan við fjórum árum er gríðarleg og fer ekki framhjá neinum sem þangað kemur.

Þessari uppbyggingu hafa fylgt markviss tækifæri. Þau hafa verið nýtt vel. Það var sérstaklega ánægjulegt að fara austur á síðustu dögum og kynna sér stöðuna. Ég er ættaður úr Fjarðabyggð að stórum hluta og hef unnað þeirri byggð allt mitt líf. Allt frá sumrinu 2004 hefur verið einstaklega gaman að leggja þangað leið sína og sjá markvissa uppbyggingu stig af stigi. Sérstaklega gleymist mér ekki ferðin þangað í janúar 2005, en þá var álverið sjálft tekið að rísa. Það var ógleymanleg sjón og þá fyrst varð umfang framkvæmdanna og upprisa Reyðarfjarðar sem lykilstaðar á Austfjörðum endanlega ljós í augsýn manns. Það var gleðistund.

Það er leitt að geta ekki verið fyrir austan á þessum gleðidegi. En ég vil senda góðar kveðjur til fólksins þar, fyrst og fremst óska þeim til hamingju með að hafa náð sínum markmiðum. Það er mikið gleðiefni, sem við öll sem unnum austfirskum byggðum hugsum stolt til að hafa tryggt með einum hætti eða öðrum. Sigur fólksins þar og krafturinn sem hefur einkennt þann mikla sigur á langri vegferð mun lengi verða í minnum hafður.


mbl.is Álverið á Reyðarfirði opnað í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband