Hélt forsetinn Hillary í gíslingu á Bessastöðum?

Hillary Rodham Clinton
Eitt af því merkilegasta í bókinni um Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, er frásögnin af fundi Hillary Rodham Clinton, verðandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og þáverandi forsetafrúar, með Ólafi í október 1999 þegar hún kom hingað til landsins á kvennaráðstefnuna Konur og lýðræði í Reykjavík. Þar er gefið í skyn að Ólafur Ragnar hafi haldið Hillary á Bessastöðum mun lengur en skipulögð dagskrá gerði ráð fyrir til að skaprauna Davíð Oddssyni.

Ég fékk í dag tölvupóst, eins og eflaust fleiri, þar sem gefið er í skyn að Ólafur Ragnar hafi skipulega reynt að koma í veg fyrir að Hillary kæmist í kvöldverðarboð forsætisráðherra til heiðurs henni í Perlunni á réttum tíma og hún orðið mjög reið vegna málsins, enda hafði hún ekki tíma til að skipta um föt og kom í veisluna í þeim fötum sem hún hafði verið í frá brottför í Washington.

Merkileg lýsing sem vert er að halda til haga.

"Hillary Clinton, forsetafrú Bandaríkjanna, kom hingað til lands í heimsókn í október 1999 til að taka þátt í ráðstefnunni um konur og lýðræði við árþúsundamót. Davíð Oddsson forsætisráðherra bauð til mikillar veislu í Perlunni, forsetafrúnni til heiðurs. Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands var hins vegar ekki boðið í veisluna og hefndi hann sín rækilega vegna þess – strax við komu Hillary Clinton til landsins.
 
Flugvél forsetafrúarinnar lenti seinnipart dags á Keflavíkurflugvelli. Dagskráin var þannig að Hillary ætlaði að koma við á Bessastöðum í tæpan hálftíma, fara þaðan á hótelið til að hafa fataskipti og mæta svo í veislu Davíðs.
 
Allt gekk eins og í sögu á Bessastöðum, en þegar fór að styttast í heimsóknartímanum, þá bauð Ólafur Ragnar Hillary inn á skrifstofu sína, lokaði og tók hana á eintal. Hálftíminn leið og klukkan gekk áfram, en ekkert bólaði á forsetanum eða bandarísku forsetafrúnni. Þegar kortér var liðið til viðbótar bankaði einhver starfsmaðurinn á dyrnar og opnaði, til að minna á að komið væri yfir tímann. Ólafur Ragnar bandaði honum hins vegar út og hélt áfram að tala yfir Hillary.
 
Eftir annað kortér var aftur bankað, enda nú kominn hálftími yfir áætlaðan heimsóknartíma. Aftur bandaði Ólafur Ragnar starfsmanninum í burtu og út um gættina heyrðist hann segja, áður en hurðinni var lokað: “And now, let me tell you this.”
 
Fylgdarlið forsetafrúarinnar var við það að springa af bræði, en áfram var lokað inn á skrifstofu Ólafs Ragnars. Enn og aftur var bankað, og enn og aftur vísaði forsetinn viðkomandi út og aftur heyrðist hann taka til máls og segja: ”And then, let me tell you this.”
 
Það var svo ekki fyrr en komið var klukkutíma framyfir tímann sem dyrnar loks opnuðust á skrifstofu forsetans og hann fylgdi frú Clinton til dyra. Það mátti sjá rjúka úr henni af reiði, en hún beit saman tönnum og passaði að vera diplómatísk.
 
Svo var keyrt af stað í loftköstum, því forsetafrúin var orðin of sein í heiðurskvöldverð forsætisráðherra í Perlunni vegna þessarar tafar. En hún komst auðvitað ekki á hótelið til að skipta um föt, en það var á upprunalegu dagskránni. Fyrir vikið sat hún eins og illa gerður hlutur í veislunni í krumpaðri ferðadragt sem hún hafði farið í við brottförina frá Washington. Hinar konurnar voru hins vegar uppstrílaðar í sínum fínustu kjólum, þannig að næsta víst er að heiðursgesturinn var ekki beint að fíla sig í veislunni miklu."

Var einhver að tala um sandkassaleik á Bessastöðum?

Sterkt útspil hjá Geir að óska eftir launalækkun

Enginn vafi leikur á því að það er mjög sterkt útspil hjá Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að óska eftir launalækkun, ekki aðeins fyrir sig heldur yfir alla línuna. Held að þjóðareining ætti að geta skapast um að taka á þessu máli og lækka laun, í viðbót mætti leggja niður aðstoðarmannastöður þingmanna, enda er árferðið þannig að þetta er algjört bruðl, á kostnað ríkisins. Þingmenn geta að sjálfsögðu ráðið aðstoðarmenn til sín, en þá á þeirra eigin kostnað. Einfalt mál.

Geir tekur það skref sem ég taldi fyrirfram að ekki yrði stigið. Óttaðist það kannski frekar að ráðamenn þjóðarinnar myndu ekki horfa í eigin barm með að lækka laun á þessum tímum. En þetta eru traust og afgerandi skilaboð um að ráðamenn þjóðarinnar taki á sig vonda stöðu í efnahagsmálunum og lækki við sig launin. Landsmenn hljóta allir að fagna þessu útspili.

mbl.is Óska eftir launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun nýtt eftirlaunafrumvarp róa almenning?

isg geir
Augljóst er að stjórnarflokkarnir munu kynna nýtt eftirlaunafrumvarp í Þjóðmenningarhúsinu klukkan fimm. Þetta er samt mjög merkileg tímasetning. Flokksráðsfundur Samfylkingarinnar er á morgun og mótmælafundir síðar um daginn. Augljóst er að nýja frumvarpið er sett fram til að róa almenning og tryggja vinnufrið fyrir stjórnarflokkana. Ekki flókið að lesa þannig í stöðuna. Ég tel að innihald frumvarpsins muni ráða úrslitum um hversu ánægður almenningur í landinu verði með það. Verði gerðar alvöru breytingar og lagaðir helstu gallarnir við hin frægu eftirlaunalög gæti það róað fólk.

Ég hef misst tölu á öllum blaðamannafundunum sem ráðherrarnir hafa haldið, annaðhvort tveir eða Geir einn síðan að bankarnir hrundu. Mér finnst samt tímasetning síðustu tveggja föstudagsfunda verið táknræn og mjög áberandi í samhengi hlutanna. Þarna er verið að reyna að tala við fólk og róa það í mjög erfiðri stöðu. Ef marka má síðustu laugardagsfundi í Reykjavík og Akureyri höfðu þeir lítil áhrif á fólk. Kallað er eftir afsögnum og pólitískri ábyrgð umfram allt.

Nýtt eftirlaunafrumvarp hefur verið baráttumál sumra þingmanna og varaþingmanna Samfylkingarinnar. Forysta flokksins tók það upp fyrir síðustu kosningar og er fyrst núna eftir tæplega sautján mánuði í ríkisstjórn að koma því í framkvæmd með einum eða öðrum hætti. Í vor minnti fréttastofa Stöðvar 2 nær daglega á kosningaloforð Ingibjargar Sólrúnar um eftirlaunamálið, henni til mikillar skapraunar. En nú virðist komið að efndunum.

Eða verður þetta kannski útvatnað frumvarp sem leysir aðeins helstu gallana. Mun þetta frumvarp róa almenning og þá Samfylkingarmenn sem greinilega eru orðnir argir yfir verklagi síns fólks.

mbl.is Ráðherrar boða blaðamannafund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamansemi stjórnarandstöðunnar á engin mörk

Ég gat nú ekki annað en hlegið þegar ég heyrði að veikasta stjórnarandstaða hérlendis í manna minnum hafi lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Hefur þetta lið ekkert annað fram að færa en vantraust á þessum tímum? Hvernig væri nú fyrir þessa stjórnarandstöðu að koma með einhverjar tillögur eða sameiginleg stefnumál sem mótvægi við ríkisstjórnina og sýna samhent vinnubrögð frekar en svona ævintýralegt rugl sem engu skilar nema fjölmiðlauppslætti og spunastílbrögðum.

Ég skil vel að stjórnarandstaðan leiti logandi ljósi að sóknarfærum á þessum tímum, þegar þeir hafa tækifæri til að sækja fram. Þessi tillaga verður þó ekki nema í besta falli frétt dagsins í dag en er ekki beinlínis til þess fallin að hafa örlagarík þáttaskil fyrir þjóðina eða þau sjálf. Hvernig væri að tala í lausnum og sýna ábyrga forystu í stað þess að fara af stað með spuna sem þau vita ekkert hvernig þau eiga að fara með.

mbl.is Vantrauststillaga komin fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrg afstaða Ingibjargar Sólrúnar

Mér finnst ánægjulegt að heyra viðbrögð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur við vangaveltum um kosningar. Afstaða hennar er ábyrg og traust, enda eru næg verkefni framundan og ég tel að umboð ríkisstjórnarinnar til verka á næstu mánuðum sé traust. Hún verður svo að sækja sér umboð þegar þjóðin er komin í var úr mesta ólgusjónum. En í og með tekur Ingibjörg Sólrún pólitíska áhættu með afstöðu, enda hafa margir innan Samfylkingarinnar talað um kosningar fljótlega og vilja greinilega bera sem minnsta ábyrgð í stöðunni og haga sér eins og þeir séu í stjórnarandstöðu.

Mér finnst samt eðlilegt að velta fyrir sér að þeir tveir ráðherrar sem hafa talað opinberlega um kosningar eru þeir sem tæpast standa. Annar hefur verið pólitískt veikur allt kjörtímabilið en þrýst hefur verið á afsögn hins vegna bankahrunsins síðustu vikurnar og aukist sérstaklega síðustu vikuna. Ég velti fyrir mér hvort þessir ráðherrar geti setið áfram, eftir að hafa gengið svo freklega gegn formanni sínum og forsætisráðherranum.

mbl.is Kosningar ekki tímabærar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er hægt að kalla grófa árás á einn slag?

Líkamsárás í Reykjanesbæ
Mér fannst, eins og flestum, skelfilegt að sjá myndbandið af ofbeldinu í Reykjanesbæ þar sem einn strákur var tekinn og beittur grófu líkamlegu ofbeldi. Verst af öllu fannst mér þó að klippan var kölluð slagsmál en ekki fólskuleg árás þar sem margir hópast saman á einn sem þeir þekkja og berja og sparka í hann. Svona gróft einelti og ógeðslegt ofbeldi er sorglegra en tárum taki og er vitnisburður um þá dapurlegu staðreynd að sumir hugsa ekki neitt og telja allt í lagi að berja einhvern.

Þegar svona gerist meðal barna og unglinga er það mjög alvarlegur hlutur og verður að taka á af alvöru. Kannski er borin von að ætla að stöðva ofbeldi en þegar í hlut eiga einstaklingar undir lögaldri sem þó eiga að hafa vit á því hvað þeir eru að gera verðum við að tjá okkur hreint út og tala gegn ofbeldi og einelti.

mbl.is Gerðu myndband af líkamsárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn snúningurinn í viðbót í hringekju Baugs

Ég get nú ekki sagt að ég hafi verið hoppandi hissa yfir því að Hagar hafi fengið bitastæðustu hlutina af brunarústum BT. Velti þó bara fyrir mér hvar Jón Ásgeir hafi fengið peningana til að kaupa þennan rekstur, en kannski er það jafn fáránlega auðvelt svar og við öðru sem er að gerast þessa dagana. Þrátt fyrir skuldahala á annan milljarð gengur þetta í gegn eins og ekkert sé sjálfsagðara. Þetta er allavega enn ein viðbótin í absúrdismann í samfélaginu.

Til að bæta gráu ofan á svart var breytt um nafn á 365 í dag til að reyna að taka okkur í enn einn hringinn í hringekjuna hjá þessu liði. Nafnið Íslensk afþreying er ágætt orð yfir það sem þetta lið er að gera, rétt eins og fyrirtækið. Velti því bara fyrir mér hvaða hringekjusnúningur verður næst í fréttum.


mbl.is BT verslanir undir hatt Haga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband