5.11.2008 | 23:47
McCain fer af velli sem sannur heiðursmaður

John McCain flutti mjög einlæga og trausta ræðu þegar hann viðurkenndi ósigur sinn í forsetakosningunum í nótt. Mér fannst honum takast mjög vel upp í að ljúka baráttu sinni með glæsibrag og sem sannur heiðursmaður. Held að þetta sé besta ræða sem ég hef heyrt hjá McCain. Þar komu vel fram helstu kostir hans sem persónu og stjórnmálamanns, þeir kostir sem mér fannst því miður gleymast í baráttunni eftir að hann náði útnefningunni, eins kostulegt og það reyndar hljómar.
McCain tók tapið algjörlega á sig og viðurkenndi sín mistök í kosningabaráttunni. Vissulega voru mistökin mörg og mjög afdrifarík á langri vegferð en ekki verður um það deilt að örlagapunktur kosningabaráttunnar varð auðvitað efnahagslægðin í september. Eftir það voru úrslit kosninganna í raun ráðin, þó hann héldi áfram af miklum krafti og reyndi að storka örlögum flokksmaskínunnar sem var stórlega sködduð eftir átta ára forsetatíð George W. Bush.
Í raun má segja að McCain hafi tapað kosningunum á lokaspretti baráttunnar, þegar framboðið var endanlega afskrifað, en lykiltímasetning endalokanna varð þegar efnahagskreppan skall á. Eftir það var nær vonlaust að vera í framboði sem fulltrúi þeirra sem fara með völd. Tímasetningin hafði allt að segja og vonlaust að snúa því örlagahjóli við á örfáum vikum. Repúblikanar í fyrrum traustum þingsætum féllu og skellur repúblikana er mjög mikill.
McCain tók talsverða áhættu með valinu á Söru Palin. Með því var hann í raun að segja að Palin hefði verið valin til að styrkja innstu kjarna Repúblikanaflokksins og sækja fólk til verka sem hafði orðið fráhverft flokksstarfinu eftir að McCain sigraði Mitt Romney, fulltrúa hinna ráðandi afla innan flokksins í forsetatíð Bush. Sjálfur stólaði hann á að sækja hina óháðu kjósendur sem færðu honum útnefninguna. Efnahagslægðin gerði út af við þessa strategíu.
Repúblikanaflokkurinn gengur í gegnum mikla uppstokkun þegar Bush fer úr Hvíta húsinu og þarf að byggja upp allt innra verk sitt og umgjörð. Kannski þarf hann á því að halda. Demókrataflokkurinn fékk svipaðan skell eftir að Bill Clinton fór úr Hvíta húsinu og náði að byggja mjög vel upp á þeim rústum. Hann þurfti þá líka virkilega að endurnýja sig. Sama tekur við hjá repúblikunum - leitað verður að svipuðum fulltrúa framtíðar og Obama var fyrir demókrata.
En McCain getur farið hnarreistur af velli þrátt fyrir tapið. Þetta var ekki aðeins tap hans heldur flokksins sem stofnunar. Aðstæður voru einfaldlega þannig að repúblikanar gátu ekki gengið að neinu vísu og voru í baráttu sem var fyrirfram töpuð með mann sem einn hefði getað landað sigri. Tapið verður þeim erfitt en þeir rísa á þeim rústum, rétt eins og demókratar gerðu. Tap verður alltaf lexía fyrir flokk í vanda.
![]() |
McCain lofar Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2008 | 15:36
Hvernig getur verslunarfólk verið svona sofandi?
Ég velti því fyrir mér hvernig starfsfólk í verslunum geti verið svo sofandi að taka við svo augljóslega fölsuðum seðli, og þeim sem prýddi mynd af Davíð Oddssyni, og gefa til baka sjöþúsund krónur fyrir verðlausan tíu þúsund krónur. Ekki nóg með það að enginn seðill í landinu, verðmætur allavega, er með mynd af Davíð heldur er enginn tíu þúsund króna seðill í gangi. Er annríkið orðið svo mikið í verslunum að starfsfólkið hefur ekki fyrir því að skoða seðlana?
![]() |
Notaði seðil með mynd af Davíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2008 | 14:30
Sögulegur sigur Obama - breytingar í Washington

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, flutti sögulega ræðu þegar hann fagnaði sigri sínum í Chicago í nótt, sigri sem opnar nýjan kafla, ekki aðeins í bandarískri stjórnmálasögu heldur líka veraldarsögunni. Vitnaði hann mikið í hina táknrænu kveðjuræðu sem dr. Martin Luther King flutti kvöldið áður en hann var myrtur í Tennessee fyrir fjórum áratugum. Er það ekki óeðlilegt, enda er Obama að ná miklum áfanga, sem í raun öllum blökkumönnum hefur dreymt um síðan þeir urðu að halda áfram réttindabaráttu sinni án dr. Kings - sigur Obama er lokapunkturinn í baráttu hans.
Obama talaði ekki lengur sem forsetaframbjóðandi heldur sem þjóðhöfðingi; hann sló klárlega nýja tóna og talaði um framtíðina nú þegar hann hefur tryggt þær breytingar sem hann hefur barist fyrir síðan í ræðunni í Boston fyrir rúmum fjórum árum sem skaut Obama upp á stjörnuhimin alþjóðastjórnmála. Tónlistin sem var valin við þetta tilefni var líka önnur og dramatískari, þó vissulega hafi Bruce Springsteen fengið að hljóma eftir ræðuna með sitt frábæra lag The Rising, sem hefur fylgt Obama í gegnum kosningabaráttuna.
Sigur Obama er sögulegur að öllu leyti. Hann sigrar í traustum rauðum repúblikanaríkjum í áranna rás; Indiana, Colorado, Virginíu og væntanlega líka Norður-Karólínu (sem enginn demókrati hefur unnið síðan suðurríkjamaðurinn Carter var kjörinn forseti árið 1976) og tekur bæði örlagaríkin fyrir George W. Bush 2000 og 2004; Flórída og Ohio. Sigur hans í Pennsylvaníu var líka traustari en mörgum óraði fyrir. Þetta er því stórsigur á kjörmannamælikvarða og í atkvæðum líka, þó um tíma hafi munurinn verið lítill, eða rétt yfir 300.000 atkvæði.
En nú taka alvöru verkefni við hjá Obama. 76 dagar eru þar til George W. Bush lætur af embætti og Obama sver embættiseið í Washington. Á þeim tíma þarf hann að skipa embættismenn nýrrar ríkisstjórnar sinnar og fyrst og fremst koma með hugmyndir sínar og tillögur til þeirra breytinga sem hann byggði kosningabaráttu sína á. Demókratar hafa traustan þingmeirihluta í báðum deildum og styrktu þá báða frá eftirminnilegum sigri árið 2006 og hafa nú öll tækifæri til að láta verkin tala. George W. Bush er enginn örlagavaldur þeirra lengur.
Eitt sinn var sagt að ekkert mál væri að standa fyrir byltingu og boða breytingar en annað væri að standa við það. Bandarískir kjósendur færðu Obama það trausta umboð sem hann bað um og hann hefur nú tækifærið til að standa við boðskapinn um alvöru breytingar. Væntingarnar eru mjög miklar og erfitt að sjá hvernig Obama getur staðið undir því öllu. Ég er ekki viss um að hann hafi allt kjörtímabilið til að sýna það. Horft verður til næstu 76 daga þegar stefna nýrrar ríkisstjórnar verður í raun mótuð og fyrstu hundrað daga Obama í Hvíta húsinu.
Þetta eru örlagatímar. Þeir kjósendur sem færðu Obama Hvíta húsið í þessum stórsigri vænta þess að breytingarnar verði ekta, en ekki bara nafn á fjölprentuðum auglýsingaspjöldum. Nú fá demókratar sitt tækifæri með Obama í forystunni með Joe Biden, verðandi varaforseta Bandaríkjanna, sér við hlið. Nú reynir á hvort Obama verði sá örlagavaldur breytinganna, ekki aðeins í kosningasigri heldur með verkum sínum í Hvíta húsinu. Öll heimsbyggðin fylgist með.
![]() |
Obama: Þetta er ykkar sigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2008 | 04:35
Barack Obama kjörinn forseti Bandaríkjanna

Þá hefur Barack Obama formlega verið kjörinn 44. forseti Bandaríkjanna og markað pólitísk þáttaskil í bandarískri stjórnmálasögu með því að verða fyrsti þeldökki forsetinn. Þegar blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King lést fyrir fjórum áratugum átti hann sér draum um samfélag þar sem litaraft skipti ekki máli og þeldökkir hefðu sömu tækifæri í lífinu og hvítir. Sú barátta kostaði hann lífið. Á þessum sögulega degi í bandarískum stjórnmálum hefur Barack Obama látið drauma baráttumannsins frá Atlanta rætast. Þetta eru söguleg tímamót.
Fyrir aðeins átta til tíu árum hefði engum órað fyrir því að fyrir lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar myndi þeldökkur forsetaframbjóðandi ná alla leið í forkosningaferli stóru flokkanna, hljóta atkvæði hvítra kjósenda um gervöll Bandaríkin og sverja embættiseið sem valdamesti maður heims. Með sigri Obama á John McCain í þessum forsetakosningum er ritaður nýr kafli í pólitíska sögu Bandaríkjanna.
Ekki einu sinni dr. King hefði látið sér detta í hug þegar að hann talaði um draumsýn sína í Washington á sjöunda áratugnum að það gæti gerst í upphafi nýrrar aldar. Flestir áttu eflaust von á að sú barátta tæki lengri tíma að blökkumaður ætti raunhæfa möguleika á Hvíta húsinu, þó að handritshöfundar hafi gert blökkumanninn Palmer að forseta í hasarþáttunum 24 í upphafi áratugarins. Eðlilegt er að þeldökkir Bandaríkjamenn fagni þessum tímamótasigri í kvöld.
Barack Obama hefur rakað að sér stuðningi síðustu mánuði úr öllum áttum. Hann er fersk pólitísk stjarna. Hann kom, sá og sigraði á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí 2004 með glæsilegri ræðu. Gleymi þeirri ræðu aldrei, enda var hún að mínu mati stærstu tíðindi þess þings, þvílík stjörnuframmistaða. Allir fundu fyrir því að þar fór sannkölluð vonarstjarna. Hann er ekki bara stjórnmálamaður, hann er einstakur pólitískur predikari sem nær til fólks og hefur áhrif á það.
Eðlilega finnst mörgum demókrötum Barack Obama vera ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði mikil þáttaskil í bandarískum stjórnmálum.
Frá fyrsta degi hafa söguleg skref verið mörkuð í þessari kosningabaráttu. Þeirra stærst er að draumur dr. Martins Luthers Kings í hinni sögulegu baráttu fyrir sjálfsögðum mannréttindum þeldökkra á umbrotatímum á sjöunda áratugnum hefur ræst.
Sannað er að litaraft skiptir ekki lengur máli, allir hafa jöfn tækifæri til að láta að sér kveða og það sem meira er að með því er staðfest að blökkumaður getur orðið valdamesti maður heims.
![]() |
Obama kjörinn forseti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2008 | 04:01
Obama sigrar í Virginíu - rauðu ríkin verða blá
Nú er bara spurt hvort Obama fullkomnar niðurlægingu McCains og tekur Indiana og Flórída. Johnson var líka síðasti demókratinn sem vann í Indiana, 1964, og þar áður hafði enginn demókrati unnið þar síðan Franklin Roosevelt var endurkjörinn forseti árið 1936.
![]() |
Obama krýndur á netinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2008 | 03:21
Obama öruggur um sigur - beðið eftir McCain
Obama mun fá vel á fjórða hundrað kjörmanna og vinna mjög traustan sigur í kjörmönnum en sennilega fá litlu fleiri atkvæði á landsvísu en McCain. Merkileg úrslit. Bíð spenntur eftir að heyra hvernig McCain lokar þessu með ræðu sinni, hvernig orðalagið verði þegar hann óskar Obama til hamingju með forsetaembættið.
Væntanlega bíður McCain aðeins eftir að Obama nái 270 kjörmanna markinu. Hvaða ríki ætli færi Obama forsetaembættið? Flórída?
En þvílíkt afhroð sem repúblikanar verða fyrir. Þeir missa klárlega átta sæti núna og alls fjórtán frá árinu 2006.
Þvílík uppbyggingarstarf sem tekur þar við þegar Bush er farinn úr Hvíta húsinu, heim til Texas.
![]() |
Obama með 207 kjörmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.11.2008 | 02:44
Obama sigrar í Ohio - þarf bara að sigra Kerry-ríkin
Svo sannarlega stórmerkilegur sigur og hann mun fara vel yfir 300 kjörmenn, eins og ég spáði í gær. Þetta verður traustur sigur. McCain hefur aðeins misst fylgi síðustu dagana og virðist eftir laugardaginn hafa spilað vonlausa kosningabaráttu og misst lykilríkin endanlega.
Eitt er reyndar stórmerkilegt núna í yfirvofandi sigri Obama. Munurinn á þeim í atkvæðum er aðeins rétt rúmlega 300.000 atkvæði as we speak. Stórmerkilegt ef Obama myndi vinna kosningarnar í kjörmönnum en fá færri atkvæði.
Ekki það að ég spái því, en merkileg umhugsun í því sem er að fara að gerast næsta klukkutímann.
![]() |
Bilið minnkar aftur í Ohio |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2008 | 02:16
Stórsigur Obama í sjónmáli - vantar 96 kjörmenn
Ég tel að úrslitin séu endanlega ljós í sjálfu sér. Obama mun væntanlega ná þessu endanlega um eða upp úr þrjú og McCain væntanlega viðurkenna ósigurinn á fjórða tímanum komi ekkert stórlega óvænt upp sem snýr þessu trendi við. Stóra spurningin núna er hvað ríki færir Obama endanlega Hvíta húsið. Kaldhæðnislegt ef það verður Flórída sem kom Bush í Hvíta húsið fyrir átta árum.
Afhroð repúblikana er staðreynd. Liddy Dole fallin í Norður-Karólínu og gamla sætið hans Jesse Helms orðið demókratasæti - pólitísk þáttaskil í suðrinu, ekki flókið. Þetta verður mjög sæt nótt fyrir demókrata enda er allt að tryllast í Chicago
![]() |
Obama með 200 kjörmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2008 | 00:30
Barack Obama á sigurbraut - stórsigur demókrata

Útgönguspárnar í Bandaríkjunum gefa sterklega til kynna að Barack Obama hafi verið kjörinn 44. forseti Bandaríkjanna og demókratar séu á mörkum þess að hljóta 60 sæti í öldungadeildinni og muni vinna hið minnsta sjö þingsæti af repúblikunum. Obama getur þó ekki enn hrósað sigri, minnugur þess að John Kerry var spáð Hvíta húsinu í útgönguspánum fyrir fjórum árum en tapaði kosningunum að lokum með því að tapa fyrir Bush forseta í Ohio. Allra augu eru nú á Flórída, Ohio og fleiri ríkjum á Austurströndinni sem munu ráða úrslitunum með einum eða öðrum hætti fyrir þrjú í nótt.
Allra augu verða á baráttunni um öldungadeildarsætin í Minnesota, N-Karólínu og Georgíu. Í öllum eru sitjandi þingmenn repúblikana að berjast fyrir endurkjöri. Tapi Norm Coleman, Liddy Dole og Saxby Chambliss eru demókratar á mörkum þess að ná sextíu sæta markinu sem myndi færa þeim algjör völd í Washington. Með því geta þeir ráðið algjörlega hæstaréttarsætum og geta stýrt þinginu algjörlega án tillits til repúblikana. Slíkt tap ofan á tapið á Hvíta húsinu myndi færa repúblikana aftur um áratugi.
En enn er of snemmt að spá um þetta. Um eittleytið förum við fyrst að sjá hvert þetta stefnir af alvöru.
![]() |
Obama vann í Vermont-McCain í Kentucky |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2008 | 00:13
Kemur tími einkaþotanna aftur á Íslandi?
Því miður er orðið ljóst að útrásin var ein svikamylla og sjónhyllingar. Þjóðin gleymdi sér í neyslufylleríinu og hefur farið langt fram yfir allt. Kannski er það mesta sjokkið hversu veruleikamatið var brenglað. En vonandi lærir þjóðin öll af lexíunni.
![]() |
Græna lúxusþyrlan til sölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |