Í minningu Halldóru Eldjárn

Halldóra og Kristján Eldjárn
Við andlát Halldóru Eldjárn minnist þjóðin hinnar hæglátu en glæsilegu konu á forsetavakt hins ópólitíska forseta á pólitískum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar. Halldóra og Kristján Eldjárn voru táknmynd alþýðleika og virðingar þau tólf ár sem þau bjuggu á Bessastöðum. Að mínu mati var Kristján besti forsetinn í lýðveldissögunni. Þau hjónin áunnu sér velvild og virðingu landsmanna með framgöngu sinni og framkomu.

Þau voru forsetahjón fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna, þrátt fyrir að vera forseti á umbrotatímum í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála, þegar hin pólitíska forysta landsins var í raun í lamasessi og hann þurfti stundum að taka erfiðar ákvarðanir. Honum tókst að skapa trúverðugleika um verk sín og halda styrk embættisins á þeim árum.

Halldóra lék lykilhlutverk í forsetatíð Kristjáns; ekki aðeins sem konan við hlið forsetans heldur og mun frekar sem hin glæsilega húsfreyja á Bessastöðum. Þau voru táknmynd alþýðleika. Deilt var um það í kosningabaráttunni 1968 að Kristján væri litlaus og kona hans hefði sést í fatnaði frá Hagkaupsverslunum, svokölluðum Hagkaupssloppi. Lægra þótti háttsettum ekki hægt að komast en að sjást í slíkum alþýðufatnaði.

En Kristjáni og Halldóru auðnaðist að tryggja samstöðu um embættið og eru metin með þeim hætti í sögubókunum, nú löngu eftir að hann lét af embætti.

mbl.is Alþingi minntist Halldóru Eldjárn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn býður mótmælendum upp á kaffi

Ég held að það hafi verið sniðugt hjá Ólafi Ragnari Grímssyni að bjóða þeim tíu sem fóru á Bessastaði til að mótmæla upp á kaffi og spjall. Veit ekki hvað mótmælendurnir græddu samt á kaffispjallinu við forsetann nema þá að hann sé kominn í jólaskap. Ég verð að viðurkenna að ég átti samt von á fjölmennari mótmælum miðað við málefnið, en sennilega eru allir uppteknir upp fyrir haus í jólaverslun.

Í dag var samþykkt að veita forsetaembættinu fjárveitingu í lokalið fjárlagaumræðunnar til að setja upp öryggisbúnað og öryggishlið á Bessastöðum. Væntanlega þýðir þetta að öryggi forseta Íslands verði hert og erfiðara en áður að komast að forsetabústaðnum. Er svosem ekki hissa á því, enda fá dæmi um það að þjóðhöfðingi sé algjörlega óvarinn á heimili sínu.

mbl.is Ólafur og Dorrit buðu mótmælendum upp á kaffi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífleg jólaverslun

Ekki verður maður var við kreppuna þegar farið er í verslunarmiðstöðvar. Jólaverslunin er með líflegasta móti og er meiri en í fyrra ef eitthvað er. Ég sé allavega engan teljandi mun til hins verra, þvert á móti. Kannski verður ekki teljandi munur á lífsmunstri þjóðarinnar fyrr en eftir jólin. Gárungarnir segja að íslenski neytandinn falli með vísakortað í hendinni í stað þeirra sem falla með sverð í hendi.

Ég get ekki séð að kortanotkun sé mikið minni. Þar sem ég hef farið um borga flestir með korti sýnist mér. Þetta eru samt athyglisverðar tölur og um leið er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvort þetta verði síðustu jólin í bili þar sem landsmenn geta leyft sér mikinn munað og peningaaustur. Kannski er ekkert að því að hægist aðeins yfir og við hugleiðum að það er hægt að halda jól án þess að spreða mikið.

Jólin eiga að snúast um svo margt annað en peningaaustur, þó við höfum svolítið gleymt þeim boðskap að undanförnu. En jólaverslunin að þessu sinni er ekki mjög frábrugðin því sem var í fyrra. Stressið er allavega ekki minna í fólksfjöldanum í verslunarmiðstöðvunum.

mbl.is Jólin greidd út í hönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarmennska á Bessastöðum

org2008
Mér finnst það eiginlega algjör sýndarmennska hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að biðja nú um launalækkun. Hann hafði orðað þetta fyrir einhverjum vikum í hálfkæringi en talar fyrst um þetta aftur nú þegar fólk talar um að hann eigi að hafna fjárlagafrumvarpinu. Ég held að það væri miklu betra hjá Ólafi Ragnari að spara hjá forsetaembættinu sem slíku og setja landsmönnum gott fordæmi þannig frekar en fara fram á launalækkun sem er ekkert nema pr-trix hjá manni sem á mjög erfitt við fall útrásarinnar, enda verið sameiningartákn útrásarvíkinganna.

Eins og fram hefur komið er kostnaður við síma forsetaembættisins 5,7 milljónir (19.000 krónur á dag!), myndatökur 1,6 milljón, leigubílaferðir 1,4 milljón, ferðakostnaður 9,6 milljónir, hótelkostnaður 5 milljónir, eldsneytiskostnaður 1 milljón, veisluhöld á Bessastöðum 9 milljónir og hraðflutningur á vörum tæp hálf milljón auk annarra kostnaðarliða. Árslaun forsetans eru að mig minnir svo tæpar 22 milljónir króna ofan á þetta auðvitað. Held að það blasi við öllum að sparnaður hjá embættinu væri mun betri ráðstöfun. Það eitt að tala minna í símann væri hollráð.

Ólafur Ragnar verður að ég tel fyrst og fremst minnst fyrir að vera holdgervingur hinnar eitruðu útrásar, sameiningartákn hennar og sendiherra þeirra sem settu landið á hausinn. Vond örlög það. Ekki má heldur gleyma að hann drekkti forsetaembættinu í græðgi og dómgreindarleysi. Ég yrði ekki hissa á þó margir teldu það hluta af uppstokkun komandi mánaða þar sem fortíðin verður gerð upp að þetta andlit útrásarinnar verði að víkja af Bessastöðum.

Kannski ætti einhver að benda Ólafi Ragnari Grímssyni á níundu grein stjórnarskrár. Þar stendur: "Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja. Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans."


mbl.is Ólafur Ragnar fer fram á launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband