Þörf áminning - mikilvæg skilaboð

Mér finnst það þarft og gott hjá Femínistafélaginu að vekja athygli á kynferðislegu ofbeldi. Slíkt er aldrei of oft gert og mikilvægt að tjá sig hreint út um þau. Ég sé að þar er skilaboðunum að þessu sinni sérstaklega beint að dómurum við Hæstarétt Íslands. Finnst það hið besta mál. Mikið hefur verið talað um að dómar í kynferðisafbrotamálum hér séu alltof vægir og ágætt að beina sjónum að því.

Því miður er það orðin alkunn staðreynd að dómar fyrir kynferðisafbrotamál hér heima eru til skammar, bæði eru þeir alltof vægir og með þeim er ekki staðfest hversu alvarlegur glæpur felst í verknaðinum. Kynferðisafbrot eru auðvita stóralvarlegur glæpur. Sálrænt áfall þeirra sem fyrir því verður gróa aldrei að fullu, sérstaklega þegar í hlut eiga börn.

Þetta eru því góð skilaboð og fínt innlegg í þá umræðu.

mbl.is „Ég vona að þér verði aldrei nauðgað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dönsk reiði verður vinarhug yfirsterkari

Mér finnst eiginlega alveg ömurlegt að finna þá reiði og illhug gegn Íslendingum sem kemur fram í greinaskrifunum í Ekstra Bladet. Hugsa Danir almennt svona til Íslendinga, eða er þetta bara aumt hljóð úr horni? Ég trúi því innst inni að norræna samstaðan sé enn til staðar og við hugsum um Skandinavíu sem heild en ekki fimm ólíkar þjóðir sem berjast allar á eigin vegum. Sorgir og sigrar einnar þjóðar verði sameiginleg og þær hjálpist að þegar á reynir. Kannski er barnalegt að telja að allir Danir hugsi hlýlega til Íslendinga, en við verðum að vona það samt innst inni.

Mikið er talað um það núna hversu varanlegur skaði Íslands á alþjóðavettvangi sé. Ég ætla að vona að það taki okkur ekki röskan áratug að ná okkur á strik af þessu bankahruni og niðurlægingunni sem henni hefur fylgt fyrir Íslendinga um víða veröld. Þegar ég tala við erlenda vini á facebook eða msn berst talið alltaf að Íslandi og hvernig staðan sé. Sumir hafa minni skilning en aðrir og tala helst um Ísland sem gjaldþrota sker þar sem allir séu í raun á köldum klaka í allri merkingu þess orðs. Þetta er svolítið sérstakt að upplifa vissulega.

En ég segi það hreint út að ef Norðurlöndin og frændur okkar að fornu og nýju vilja ekki tala vel um okkur eða allavega hugsa vel til okkar í hljóði þá er illa komið. En ég er viss um að þetta lagast, öll él birtir upp um síðir. Vonum það á aðventunni allavega, þó skammdegið sé yfir okkur í svo mörgum skilningi orðsins.


mbl.is Frekja og hroki aðgangsorð íslenska helvítisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Séra Gunnar sýknaður - á hann afturkvæmt?

Enginn vafi leikur á því að sýknudómurinn yfir séra Gunnari Björnssyni er mikill áfangasigur fyrir hann og í raun ótrúlega sterk niðurstaða fyrir hann í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið um hann og þessi málaferli síðustu mánuðina. Séra Gunnar fékk þungan dóm í umræðunni í samfélaginu löngu áður en það fór fyrir rétt - í raun verið grafið algjörlega undan mannorði hans.

Þessi dómur er algjör fullnaðarsigur hjá Gunnari og eiginlega ótrúlega eindreginn í hans átt miðað við umræðuna í samfélaginu og lýsingum á aðstæðum frá þeim sem þekktu til málsins. Ég veit ekki hvort séra Gunnar getur snúið aftur til starfa sinna, þó hann myndi vinna málið í Hæstarétti. Þetta er erfitt mál og mjög skaðlegt, bæði fyrir hann og þjóðkirkjuna.

Ég skynja að sumir voru virkilega undrandi á dómnum. Sjálfur átti ég alls ekki von á svo afgerandi sigri Gunnars í héraði, þar sem meira að segja bótakröfum var með öllu vísað frá. Þetta hefur verið áberandi mál í umræðunni og því lýkur ekki með þessum dómi.

mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband