Er Björgvin trúverðugur sem viðskiptaráðherra?

Björgvin G. Sigurðsson
Ég á mjög erfitt með að trúa því að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafi ekki vitað um að KPMG hafi verið fengið til verkefna fyrir skilanefndina í Glitni. Eigum við að trúa hverju sem er? Annað hvort er maðurinn ekki starfi sínu vaxinn eða er vísvitandi að fara með rangt mál. Er ekki lágmarkskrafa til ráðherra sem fer með bankamál að hann sé upplýstur um lykilmál sín eða hafi allavega vit á að fylgja þeim eftir. Þetta er ekki trúverðugt og alveg lágmark að fram komi hvers vegna þessi ráðherra virðist hafa verið steinsofandi svo mánuðum skiptir eða segist vera það.

Þegar hefur komið fram að Björgvin var ekki upplýstur um gang mála af Ingibjörgu Sólrúnu og Össuri Skarphéðinssyni, sem var æðstráðandi ráðherra Samfylkingarinnar meðan Ingibjörg Sólrún var fjarverandi vegna veikinda sinna, í mjög mikilvægum málum. Ofan á allt annað upplýsti hann svo um daginn að engin samskipti hafi verið milli hans og Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra. Með því gróf hann stórlega undan trúverðugleika sínum, enda var ekkert síður upp á hann komið með að halda samskiptum við Seðlabankann. Ekki getur það allt skrifast á bankastjórana.

Björgvin virkar ekki lengur trúverðugur, fjarri því. Því miður. Þau eru orðin of mörg málin þar sem hann er ekki með á hlutina eða veit ekki hvernig skal tækla þá. Þetta nýjasta mál með KPMG er svo stórt í sniðum að spurningar vakna um hvort hann sé í raun starfi sínu vaxinn. Að ráðherra bankamála hafi ekki vit á því sem gerist eftir tveggja mánaða vinnu er stórlega ámælisvert.

mbl.is Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fara Bjarni og Guðlaugur fram gegn Þorgerði?

Þorgerður Katrín og Geir
Kjaftasögurnar segja að staða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, sé ótrygg um þessar mundir enda talað um að bæði Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson hugleiði varaformannsframboð gegn henni á landsfundi eftir fimmtíu daga. Fari þeir báðir fram verður mikil barátta á landsfundinum, ekki síður um forystuna en Evrópumálin, en stefnt hefur í það um skeið að þar verði mikil átök milli fylkinga um stefnu flokksins í málaflokknum.

Staða Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, sem formanns Sjálfstæðisflokksins, þykir mjög trygg þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið, þó búist sé við að hann fái veikari kosningu nú en á landsfundi í aðdraganda kosninganna 2007. Mótframboð gegn honum er mjög ólíklegt. Annað er talið gilda um Þorgerði sem er mjög umdeild í flokknum, sérstaklega vegna yfirlýsinga um Evrópumálin.

Talið er ósennilegt að aðrir en þingmennirnir tveir geti ógnað stöðu hennar. Mun líklegra sé að átök verði um varaformennskuna nú en á landsfundi í aðdraganda næstu kosninga, hvenær svo sem þær verða, þó telja megi öruggt að þær verði mun fyrr en áður var áætlað.

Spillingin í Illinois - Blago fellur á eigin bragði

Blago og Obama
Þó pólitísk spilling hafi löngum loðað við í Illinois, heimaríki Obama, verðandi Bandaríkjaforseta, vonuðust flestir eftir því að forsetakjörið myndi marka nýtt upphaf. Spilltu demókratarefirnir í Illinois halda þó uppteknum hætti og valda þeim vonbrigðum sem töldu nýja tíma framundan í bandarískum stjórnmálum með flutningi Obama í Hvíta húsið og reyna nú að selja þingsætið hans fyrir pólitísk áhrif og bitlinga fyrir sjálfa sig.

Þetta vekur auðvitað spurningar um hversu tengdur Barack Obama hefur verið þessu litrófi og hverjir hagnast í raun og veru mest á forsetakjöri hans. Flagð er undir fögru skinni. Kannski er þó ekki rétt að líkja Obama við hinn spillta ríkisstjóra Illinois, Rod Blagojevich, sem mælist varla með neinn pólitískan stuðning nú vegna vinnubragða sinna og spilltra stjórnunarhátta. En hann er ekki einn um það.

Blago fellur á sínu bragði og mun vonandi ekki geta valið eftirmann Obama í öldungadeildina og er rakleitt á leið í fangelsi. Blago er ekki hótinu skárri en Ted Stevens, hinn dæmdi repúblikanaþingmaður sem missti sætið sitt. Vonandi er að Blago fái sömu útreið og komið verði upp um spilltu pólitíkina sem hefur viðgengist í heimaríki hins verðandi forseta.

mbl.is Reyndi að selja þingsæti Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll gögn upp á borðið sem allra fyrst

Ekki kemur annað til greina en öll gögn sem tengjast bankahruninu verði lögð fram og farið yfir allt málið í samhengi. Auðvitað á það ekki að vera valkostur að einhver gögn verði undanskilin og ekki tekin með í rannsókninni. Almenningur mun ekki taka rannsóknina gilda eða viðurkenna niðurstöðuna nema kafað verði ofan í allt í þessu máli. Ef skilanefndirnar geta ekki virt að skattrannsóknarstjóri fái aðgang að þeim eiga þær skilyrðislaust að víkja.

Nóg er komið af leyndarhjúp í þessu máli og forgangskrafa að allt verði gert upp og enginn vottur af leynd sé til staðar. Fólk hefur fengið nóg af þessu laumuspili.

mbl.is Fær ekki gögn um dótturfélög bankanna í Lúxemborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringekjan heldur áfram að snúast áreynslulaust

Ég finn mjög vel að landsmenn óttast það mest af öllu að hringekja fáránleikans haldi áfram að snúast í íslensku viðskiptalífi áreynslulaust - þeir sem áttu rekstur og fóru á hausinn fái hann upp í hendurnar átakalaust. Þeir sem óttast það fá allavega góðan málstað í hendurnar með fréttirnar af Noa Noa og Next, þar sem eigendurnir kaupa reksturinn úr þrotabúinu.

Mikið er talað um að þetta geti ekki gerst og allt verði gert til að koma í veg fyrir það. Vel má vera. Veit ekki hvort allt það sem sagt er telst heiðarlegt. En svona fréttir auka ekki tiltrú almennings á þeim sem eiga að halda á málum. Þvert á móti. Traustið aðeins minnkar.

Nýtt Ísland verður ekki reist með trúverðugum hætti ef þetta verður ásýnd þess - að við vöknum upp í sama samfélaginu eftir tæpt ár þar sem stóreignamenn sem fóru á hausinn verða komnir með sömu hlutverk og sömu stælana og hafa ekki lært neitt.

mbl.is Next og Noa Noa aftur í eigu sömu hjóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öryggi ráðamanna - engin friðsöm mótmæli

Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að mótmæli stjórnleysingja undanfarna daga hafi eyðilagt friðsöm mótmæli þeirra sem hafa mætt á Austurvöll og hér á Akureyri undanfarna laugardaga kl. 15:00 og tjáð skoðanir sínar fordómalaust. Ef þeir sem mótmæla við þinghúsið og ráðherrabústaðinn telja þetta réttu leiðina eru þeir á mjög miklum villigötum. En kannski var ekki við öðru að búast. Þegar þeir hafa eyðilagt friðsömu mótmælin kemur innra eðli þeirra sem geta ekki mótmælt friðsamlega í ljós. Eftir standa einhverjir leifar af Kárahnjúkamótmælum.

Eina sem næst fram með þessum mótmælum er að öryggi ráðamanna verður hert og aðgangur að alþingishúsinu verður skertur og öryggisgæslan aukin til mikilla muna. Sennilega eru þeir tímar bráðum liðnir að hægt sé að fara á þingpalla án þess að fylgst sé með komu þeirra sérstaklega. Ég veit að ekki vildi ég vera alþingismaður eftir lætin í gær án þess að tekið væri á málum þar. Varnarleysi þeirra sem fara með völd og sitja fundi í þingsal hér er allt í einu orðið mál sem þarf að taka á. Þetta má nefnilega ekki gerast.

Ég sá að fjöldi þingmanna var skelkaður yfir látunum í gær. Held að margir þeir sem starfa þar séu hugsi. Öryggi þeirra hefur eiginlega varla verið tryggt að neinu leyti hingað til og sama gildir um þá sem gegna valdamiklum embættum. Fyrst á þessu hausti og framan af vetri eru ráðamenn með einhverja öryggisverði á eftir sér og passað upp á öryggi þeirra. Þetta er sennilega það sem koma skal núna.

mbl.is Átök við Ráðherrabústaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verkalýðshreyfingin rúin trausti almennings?

Greinilegt er að mesta pressan færðist frá ráðherrum yfir á verkalýðsforingjana á borgarafundi í kvöld, sem var nokkuð fámennari en fundurinn sem var í beinni sjónvarpsútsendingu fyrir hálfum mánuði og var mjög eftirminnilegur að öllu leyti. Nú var fundinum hvorki útvarpað né sjónvarpað og er sennilega til marks um að fjölmiðlar telja mótmælin vera að lognast út af og skipta minna máli, enda fókusinn orðinn annar. Ég skynja ólgu meðal almennings í garð þeirra sem eiga að gæta réttinda almennings.

Sennilega er ekki óvarlegt að tala um að hún sé rúin trausti miðað við fjölda ummæla um hana. Mér fannst reyndar stórmerkilegt að þingfulltrúar á þingi ASÍ valdi frekar að kjósa hagfræðing á kontórnum sem forseta sinn og verkalýðsleiðtoga heldur en margreynda konu úr bransanum í áraraðir, sem hafði verið varaforseti og þekkti verkalýðsbaráttuna af eigin raun úr starfi sínu og félagsþátttöku. Kjaftasagan segir að vinstrimenn hafi ekki treyst henni því hún var til hægri og horfðu framhjár reynslunni.

Sama fólkið, eða altént félagsmenn í verkalýðshreyfingunni, virðast nú vera komnir í allt að því stríð og baráttu gegn forseta sínum. Kannski er þetta fylgifiskur þess að velja ekki reynslujaxla úr verkalýðsbaráttunni til forystu en taka þess í stað kontórista í djobbið. En kannski eru tímarnir aðrir. Þeir tímar eru sennilega liðnir þegar menn eins og Gvendur jaki var í fylkingarbrjósti. Ætli að það hafi ekki orðið þáttaskil þegar hann hvarf af sviðinu. Síðan hefur líka mjög róast yfir þeim sem leiða starfið.

Kannski svíður almenningi meira að verkalýðshreyfingin sé bitlaus frekar en stjórnmálamennirnir. Sé fyrrnefndi hópurinn ekki að standa sig er barátta fjöldans bitlaus. Kannski hefur hún verið það um áraraðir en fólkið sé fyrst að vakna upp við það núna.

mbl.is Hiti í fólki í Háskólabíói
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband