20.1.2009 | 22:24
Söguleg átök við þinghúsið minna á ástandið 1949
Við sem höfum aðeins lesið um óeirðirnar á Austurvelli 30. apríl 1949 í sögubókunum og heyrt gamlar frásagnir getum varla ímyndað okkur hitann í fólki og baráttukraftinn. Og þó, nú erum við að sjá einhvers konar útgáfu óeirða á Austurvelli. Krafan virðist vera á kosningar og stjórnarslit. Ég á erfitt með að átta mig á hversu langt mótmælendur eru tilbúnir að ganga í baráttu sinni, hvort þeir eru tilbúnir í beint ofbeldi við kjörna embættismenn og vega persónulega að þeim sem fara með völdin. Grunar þó að hitinn sé aðeins að magnast og allt geti gerst.
Reiðin og beiskjan í fólki er skiljanleg. Ríkisstjórnin hefur allt frá því hún tók við fyrir tveim árum verið mjög veik þrátt fyrir mikinn þingmeirihluta og ekki getað verið öflug í verkum. Eftir bankahrunið hefur hún haft mörg tækifæri til að taka stöðuna traustum tökum en mistekist það æ oftar. Ég er því ekki hissa á að kallað sé eftir traustri forystu og einhverri framtíðarsýn. Vinnubrögðin hafa verið fálmkennd og fjarlæg. Pólitíska forystan í landinu hefur ekki náð að róa almenning eða ná trausti þess. Því er skiljanlegt að reiðin brjótist upp á yfirborðið.
Ég hef aldrei verið talsmaður ofbeldis og grimmdarverka, hvort sem það er gegn mótmælendum eða þeim sem ráða för. Hitt er þó orðið ljóst að það líður að þingkosningum. Þær hafa verið í augsýn mjög lengi og öllum ljóst að þær verða í síðasta lagi þegar rannsóknarferlið er frá. Ég tel að ekkert geti róað almenning úr þessu nema að kosningar fari fram og þær verði tímasettar.
Svo verður að meta hvort stjórnvöld gefa eftir og hugleiða kosningar. Mér sýnist pólitísk samstaða um að sitja við völd óháð ástandinu vera að bresta. Við erum að stefna í pólitíska hitatíma í takt við það sem var í gamla daga. Kannski er ofmælt að líkja því við baráttuna árið 1949 en hitinn er engu minni. Almenningur er að tjá skoðanir sínar með mismunandi beittum hætti.
Pólitíkin hefur verið hreint dútl í ótalmörg ár. Það er að breytast með dramatískum hætti á þessum janúardögum.
Reiðin og beiskjan í fólki er skiljanleg. Ríkisstjórnin hefur allt frá því hún tók við fyrir tveim árum verið mjög veik þrátt fyrir mikinn þingmeirihluta og ekki getað verið öflug í verkum. Eftir bankahrunið hefur hún haft mörg tækifæri til að taka stöðuna traustum tökum en mistekist það æ oftar. Ég er því ekki hissa á að kallað sé eftir traustri forystu og einhverri framtíðarsýn. Vinnubrögðin hafa verið fálmkennd og fjarlæg. Pólitíska forystan í landinu hefur ekki náð að róa almenning eða ná trausti þess. Því er skiljanlegt að reiðin brjótist upp á yfirborðið.
Ég hef aldrei verið talsmaður ofbeldis og grimmdarverka, hvort sem það er gegn mótmælendum eða þeim sem ráða för. Hitt er þó orðið ljóst að það líður að þingkosningum. Þær hafa verið í augsýn mjög lengi og öllum ljóst að þær verða í síðasta lagi þegar rannsóknarferlið er frá. Ég tel að ekkert geti róað almenning úr þessu nema að kosningar fari fram og þær verði tímasettar.
Svo verður að meta hvort stjórnvöld gefa eftir og hugleiða kosningar. Mér sýnist pólitísk samstaða um að sitja við völd óháð ástandinu vera að bresta. Við erum að stefna í pólitíska hitatíma í takt við það sem var í gamla daga. Kannski er ofmælt að líkja því við baráttuna árið 1949 en hitinn er engu minni. Almenningur er að tjá skoðanir sínar með mismunandi beittum hætti.
Pólitíkin hefur verið hreint dútl í ótalmörg ár. Það er að breytast með dramatískum hætti á þessum janúardögum.
![]() |
Mannfjöldi á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 18:22
Óeirðir og óeining - umbrotatímar í stjórnmálunum
Ég skynja óeirðirnar og lætin við þinghúsið í dag sem mótmæli gegn stjórnkerfinu í heild sinni. Gremja fólks og óánægja er skiljanleg. Erfitt er að skilja samt hversu langt eigi að ganga í þeirri ólgu. Ekki virðast nein mörk á því hversu langt eigi að ganga og væntanlega er þetta aðeins forsmekkur þess sem koma skal. Get ekki séð hvernig eigi að sætta ólík sjónarmið nema þá aðeins að boðað verði til alþingiskosninga og stokkað upp í stjórnkerfinu.
Persónulega hef ég viljað að farið verði yfir allt ferlið og dómar felldir í kjölfar þess. Hinsvegar er vandséð hvernig verði komið í veg fyrir þingkosningar á árinu. Ákallið er sterkt og mjög skiljanlegt.
Persónulega hef ég viljað að farið verði yfir allt ferlið og dómar felldir í kjölfar þess. Hinsvegar er vandséð hvernig verði komið í veg fyrir þingkosningar á árinu. Ákallið er sterkt og mjög skiljanlegt.
![]() |
Þjóðin var í Alþingisgarðinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 18:18
Barack Obama tekur við forsetaembættinu

Barack Hussein Obama hefur nú svarið embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna. Nú reynir á ákall hans um breytingar og söguleg þáttaskil í bandarískum stjórnmálum - leiðarstefið sem hann byggði kosningabaráttu sína á, eina öflugustu og tæknivæddustu kosningabaráttu sögunnar. Breytingarnar eru nú í sjónmáli og verður áhugavert að sjá hvernig honum gangi í verkum sínum. Embættistakan var mjög merkileg stund í pólitískri sögu, ekki aðeins Bandaríkjanna heldur í alþjóðastjórnmálum, enda allt við sigurgöngu Obama sögulegt.
Engin stórtíðindi voru í innsetningarræðu Obama forseta. Hann átti mjög erfitt með að setja markið hærra en í fyrri sögulegum ræðum sínum, sigurræðunni í Iowa í janúar 2008, þegar hann tók við útnefningu demókrata í Denver í ágúst 2008 og þegar hann fagnaði sigri í Chicago í nóvember 2008. Hann hefur fyrir löngu sett markið hátt í ræðusnilld og flutt margar af eftirminnilegustu ræðum nútímastjórnmála og erfitt að gera innsetningarræðuna betri en þær. Þar var þó talað á mannlegu nótunum og greinilegt að forsetinn mun gera sitt besta í embætti.
Vandræðaleg mistök í embættiseiðnum vöktu athygli þegar Obama forseti og Roberts forseti Hæstaréttar fóru af sporinu en þeir náðu fljótlega áttum. Svo var alveg yndislegt að hlusta á Arethu Franklin flytja fallegt ættjarðarlag. Fannst Rick Warren stinga mjög í stúf við að flytja predikun, en hatur hans á samkynhneigðum er vel þekkt og mjög umdeilt þegar Obama forseti valdi hann til að tala.
Stóra stundin var þó fyrir nokkrum mínútum þegar George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og Laura Bush, fyrrverandi forsetafrú, yfirgáfu Washington í þyrlu á leið heim til Texas. Þau hafa átt átta söguleg ár í forsetaembættinu. Bush fer af velli sem einn óvinsælasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna en um leið með sterkan sögulegan sess sem þjóðarleiðtogi á miklum umbrotatímum.
Bush virtist glaður við brottförina en Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti, var greinilega mjög fjarlægur og hugsi þar sem hann sat í hjólastólnum vegna bakmeiðsla. Táknræn endalok að öllu leyti á átta árum Bush-stjórnarinnar á þessum merkilega degi. En nú er Bush-stjórnin komin í sögubækurnar - umdeildi tími hinna erfiðu ákvarðana tengdum honum er nú að baki.
Framtíðin blasir nú við Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og stjórn hans. Allra augu verða á verkum hans og forystu næstu árin, þó fyrst og fremst fyrstu 100 dagana, þegar ný framtíðarsýn er mótuð.
![]() |
Obama: Við erum reiðubúin að leiða á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 16:21
Pólitísk þáttaskil í Bandaríkjunum

Söguleg þáttaskil verða í Bandaríkjunum innan klukkustundar þegar Barack Hussein Obama sver embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna. Þetta er mikill hátíðardagur í Bandaríkjunum og mjög skemmtilegt að fylgjast með hátíðarhöldunum í vefsjónvarpi CNN, en mjög er vandað til útsendingarinnar enda embættistakan með þeim sögulegustu í stjórnmálasögu Bandaríkjanna og markar virkileg kaflaskipti og nýtt upphaf, enda fyrsti þeldökki forsetinn að taka við embætti.
Mjög merkilegt að sjá George W. Bush, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, yfirgefa Hvíta húsið í síðasta skipti sem forseti fyrir stundu. Forsetaferill Bush hefur verið mjög sögulegur, hann var forseti þegar Bandaríkin urðu fyrir hryðjuverkaárás, hann stýrði Bandaríkjunum í stríð í Afganistan og Írak og hefur verið einn umdeildasti þjóðhöfðingi Bandaríkjanna á sínum átta árum í Hvíta húsinu. Nú fer þetta umbrotatímabil í sögubækurnar og fróðlegt að sjá hvernig það verði metið.
Ég skrifaði fréttaskýringu um Barack Hussein Obama, 44. forseta Bandaríkjanna, á AMX í dag og fór þar yfir stjórnmálaferil og ævi hans - sigurganga hans er stórmerkileg og sýnir vel að bandaríski draumurinn er vel til staðar.
![]() |
Bush skrifaði miða til Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 15:22
Aðför að þinghúsinu - upphafið á grófari mótmælum
Ég get ekki sagt að ég sé hissa á því sem er að gerast við Alþingishúsið. Við höfum séð fyrirboða þess gerast að undanförnu víða, þar sem mótmælendur hafa gengið æ lengra, t.d. á gamlársdag við Hótel Borg þar sem umræðuþáttur um stjórnmál var stöðvaður. Aðeins var beðið eftir því að syði virkilega upp úr og sú týpa mótmæla sem stunduð hefur verið til hliðar við friðsamlega fundi Harðar Torfasonar yrði enn meira áberandi.
Mér finnst það ekki gott að ætla að vega að starfinu í þinghúsinu og ráðast að þeim sem sinna sinni vinnu. En eftir fréttina í gær sérstaklega um aðferðir sýslumannsins á Selfossi skil ég reiði fólks upp að vissu marki og auðvitað er reiðin mjög almenn í samfélaginu. Held að við séum öll reið yfir því hvernig komið er fyrir þjóðinni og öll höfum við okkar sýn á hvað eigi að gera. En við verðum að passa upp á að fara ekki yfir strikið.
Ég óttast að þetta sé það koma skal á næstunni og yrði ekki hissa þó gengið yrði enn lengra. Við erum að upplifa örlagatíma hér og væntanlega mun reyna mikið á þá sem taka þátt í stjórnmálum hvort þeir geti sinnt sínum störfum eða munu gefast upp í þessu mótstreymi.
Mér finnst það ekki gott að ætla að vega að starfinu í þinghúsinu og ráðast að þeim sem sinna sinni vinnu. En eftir fréttina í gær sérstaklega um aðferðir sýslumannsins á Selfossi skil ég reiði fólks upp að vissu marki og auðvitað er reiðin mjög almenn í samfélaginu. Held að við séum öll reið yfir því hvernig komið er fyrir þjóðinni og öll höfum við okkar sýn á hvað eigi að gera. En við verðum að passa upp á að fara ekki yfir strikið.
Ég óttast að þetta sé það koma skal á næstunni og yrði ekki hissa þó gengið yrði enn lengra. Við erum að upplifa örlagatíma hér og væntanlega mun reyna mikið á þá sem taka þátt í stjórnmálum hvort þeir geti sinnt sínum störfum eða munu gefast upp í þessu mótstreymi.
![]() |
Piparúða beitt við þinghúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 10:16
Burt með sukkið og svínaríið á Nýja Íslandi
Eftir því sem kafað er neðar í sukkfenið í bönkunum kemur æ meira ógeðfellt í ljós. Sagan um glæfraverkin í Kaupþingi þar sem eigendurnir fengu botnlaus lán út á lélegt lánstraust til að rífa upp eigin stöðu og bankans, en þeir gátu auðvitað ekki tapað persónulega á, er örugglega aðeins toppurinn á þessum ósóma. Held að enginn hafi samúð með þessum fjárglæframönnum og verklagi þeirra. Flestir hafa megna skömm á þessu verklagi.
Fiffið með skúffufyrirtækið á Jómfrúareyjum og lygasagan um erlendu fjárfestingarnar, eru alveg kostulegar. Þegar svo við bætist að þessir menn koma í fjölmiðlum og reyna að bera gegn augljósum staðreyndum og því sem blasir við er aumingjalegt í besta falli, en kannski ekki við öðru að búast. Tilgangurinn sá eini að blaðra upp hlutabréfin í bönkunum. Öll almenn skynsemi og siðferði í viðskiptum víkur fyrir þessari glæpamennsku.
Þessi gervimennska er svo augljós að allir sjá í gegnum hana. Ólafur ætti eiginlega að fá tilnefningu til Grímuverðlaunanna fyrir leiktúlkun sína í gær, þó hann hafi ekki einu sinni verið í mynd. Slíkir voru meistarataktarnir í að reyna að blekkja fólk enn eina ferðina. En það dugar ekki til. Hringekjan er hætt að snúast. Laumuspilið og feluleikurinn hefur verið stöðvaður í þeirri mynd sem hann gekk lengst af.
Og svo er fólki boðið upp á vælið í UppsveifluÓlafi um að hann hafi nú ekki grætt neitt á þessu. Give me a break segi ég bara á lélegri íslensku. Var hann ekki að spila með allt og alla til að upphefja sjálfan sig. Hver græddi manna mest á þessari falsmennsku? Þetta er manípúlering eins og þær gerast bestar í villta og spillta gamla Íslandi.
Ég ætla að vona að þessir fjárglæframenn verði ekki mikið í fréttum í Nýja Íslandi. Nema þá til að segja okkur frá því að þeir hafi verið stöðvaðir af.
Fiffið með skúffufyrirtækið á Jómfrúareyjum og lygasagan um erlendu fjárfestingarnar, eru alveg kostulegar. Þegar svo við bætist að þessir menn koma í fjölmiðlum og reyna að bera gegn augljósum staðreyndum og því sem blasir við er aumingjalegt í besta falli, en kannski ekki við öðru að búast. Tilgangurinn sá eini að blaðra upp hlutabréfin í bönkunum. Öll almenn skynsemi og siðferði í viðskiptum víkur fyrir þessari glæpamennsku.
Þessi gervimennska er svo augljós að allir sjá í gegnum hana. Ólafur ætti eiginlega að fá tilnefningu til Grímuverðlaunanna fyrir leiktúlkun sína í gær, þó hann hafi ekki einu sinni verið í mynd. Slíkir voru meistarataktarnir í að reyna að blekkja fólk enn eina ferðina. En það dugar ekki til. Hringekjan er hætt að snúast. Laumuspilið og feluleikurinn hefur verið stöðvaður í þeirri mynd sem hann gekk lengst af.
Og svo er fólki boðið upp á vælið í UppsveifluÓlafi um að hann hafi nú ekki grætt neitt á þessu. Give me a break segi ég bara á lélegri íslensku. Var hann ekki að spila með allt og alla til að upphefja sjálfan sig. Hver græddi manna mest á þessari falsmennsku? Þetta er manípúlering eins og þær gerast bestar í villta og spillta gamla Íslandi.
Ég ætla að vona að þessir fjárglæframenn verði ekki mikið í fréttum í Nýja Íslandi. Nema þá til að segja okkur frá því að þeir hafi verið stöðvaðir af.
![]() |
Milljarðalán án áhættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |