26.1.2009 | 19:39
Feluleikur vinstriflokkanna um stjórnarmyndun
Ég heyri að skipting ráðuneyta sé komin vel á veg og í raun ekkert eftir nema fá samþykki á ráðahagnum frá Bessastöðum. Miðað við boðskap forsetans verður það ekki erfitt. Stóra spurningin er hvort stjórnlagakreppa fylgi orðum forsetans en hann gengur mun lengra en forverar hans í hlutverki þjóðhöfðingjans og oftúlkar hlutverk sitt.
![]() |
Ný ríkisstjórn í kortunum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 18:25
Forsetinn nýtur sviðsljóssins í pólitísku tómarúmi
Merkilegasta hugtakið og pólitíska nýyrðið sem forsetinn kynnti var mikilvægi þess að koma á samfélagslegum frið. Eðlilega spurði Helgi Seljan, frændi minn, að því hvort samfélagslegur friður ríkti um störf hans sjálfs. Ólafur Ragnar hefur jú skálað í kampavíni við auðmennina og flogið í boði þeirra á heimsenda og verið sameiningartákn hinnar gjaldþrota útrásar, enda verið á öllum myndunum með útrásarvíkingunum á erlendri grundu og verið sérstakur sendiherra hennar og táknmynd öðrum fremur. Hans staða getur varla talist góð til að leika einhvern siðapostula - hann er innantómur í besta falli í því.
Ólafur Ragnar átti vissulega stjörnuleik á Bessastöðum síðdegis. Þetta er stóra tækifærið hans til að stimpla sig í pólitískar sögubækur með framgöngu sinni. Hann var allt í senn gamli háskólaprófessorinn, stjórnmálamaðurinn og fjölmiðlafulltrúinn með framgöngu sinni. Minnti mun frekar á leikara en sameiningartákn þjóðar. Samfélagslegi friðurinn um hann og verkin hans er ekki til staðar og eiginlega hlýtur að vera spurt um hvort hann ætti ekki að líta sér nær.
Hann er einn af örfáum sem græðir á tómarúmi þjóðarinnar - hann spilar það óspart sér í hag. En gallinn er bara sá að hann er ekki sameiningartákn þjóðarinnar heldur mun frekar sameiningartákn hinnar hamfaralegu útrásar sem setti þjóðina á hausinn og kom okkur á kaldan klaka í orðsins fyllstu merkingu.
![]() |
Skapa þarf samfélagslegan frið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 16:28
Geir segir af sér - Ólafur Ragnar í lykilstöðu
Allan sinn forsetaferil hefur Ólafur Ragnar eflaust beðið mjög óþreyjufullur eftir því að veita formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Komið er að þeim tímapunkti. Allt frá því að Ólafur Ragnar tók við forsetaembættinu 1. ágúst 1996 sat ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við völd og var algjört formsatriði að halda því samstarfi áfram þar sem hún hélt þingmeirihluta í kosningunum 1999 og 2003. Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar myndaðist án atbeina hans að mestu.
Nú kemur í fyrsta skipti til hans kasta að veita almennt stjórnarmyndunarumboð þar sem fráfarandi starfsstjórn er til staðar og hefur fallið og staðan við myndun stjórnar er galopin, þó flest bendi til að flokkar hafi talað sig saman að einhverju leyti. Við slit samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknar árið 2007 kallaði Ólafur Ragnar formenn flokkanna ekki til sín heldur veitti Geir Haarde strax umboðið.
Fróðlegt verður að sjá hvort að þetta er upphaf ferlis þar sem Ólafur Ragnar getur leikið þann örlagavald sem hann hefur eflaust alltaf viljað vera í íslenskum stjórnmálum. Gestakoma formannanna á Bessastaði er örugglega tækifærið fyrir Ólaf Ragnar til að vera mikilvægur hlekkur á milli stjórnmálamanna við myndun ríkisstjórnar.
Forsetinn, sem er gamall pólitískur refur og margreyndur stjórnmálamaður fyrir forsetaferilinn, nýtur örugglega sviðsljóssins.
![]() |
Forsætisráðherra á fund forseta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 14:47
Jóhanna verður forsætisráðherra í nýrri stjórn
Við blasir að forsætisráðherravalkostur Samfylkingarinnar, aldursforsetinn Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, muni leiða nýja ríkisstjórn, væntanlega minnihlutastjórn Samfylkingar og vinstri grænna, varða af Framsóknarflokknum, ef Geir H. Haarde nýtir ekki þingrofsrétt sinn á Bessastöðum í dag. Get ekki séð að þjóðstjórnarkosturinn gangi við þær aðstæður sem uppi er. Vinstriflokkarnir hafa augljóslega myndað með sér blokk um helgina með Framsókn, jafnvel fyrr. Leikritið sem hefur staðið um helgina hefur greinilega verið þaulskipulagt og vissulega merkilegt á að horfa.
Mér finnst merkilegt að Jóhanna sé valkostur Samfylkingarinnar. Eflaust er þetta til að létta þrýstingi af Ingibjörgu Sólrúnu og til að tryggja henni framhaldslíf í pólitík nái hún heilsu. Með þessu stígur hún til hliðar meðan mótmælendur róast og ætlar að koma á sviðið aftur og verður væntanlega þá sú eina eftir af ráðamönnum í fremstu víglínu bankahrunsins sem enn er eftir á sviðinu. Þetta er merkilegur leikur en eflaust þaulskipulagður. Jóhanna sem starfsaldursforseti Alþingis er valkostur sem kemur fram sem fulltrúi þingræðis í krísu, svipað og Gunnar Thoroddsen árið 1980.
Fúkyrðin og ávirðingar um ómögulegt samstarf ganga á milli. Greinilegt er þó á öllu að Sjálfstæðisflokkurinn gekk að öllum kröfum Samfylkingarinnar nema því að afsala sér forsætinu, sem um var samið milli flokkanna. Slík afstaða er heiðarleg, enda afleitt að ætla að skipa málum öðruvísi í samstarfinu í hundrað daga, eða fram að kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn fer því af velli með heiðarlegum hætti og stendur við fyrirframákveðið samkomulag.
Óvissan í þjóðfélaginu er fjarri því að baki þó stjórnarfyrirkomulag breytist. Ég tel líklegast að Ólafur Ragnar feli Jóhönnu stjórnarmyndunarumboð fljótlega eftir að Geir fer til Bessastaða ef þingrofsréttur hans er ekki nýttur enda er handritið að þessu leikriti löngu skrifað og tilbúinn til túlkunar af aðalleikurunum. Utanþingsstjórn er ólíklegur valkostur. Hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn fær hann við þær aðstæður næði og góðan tíma til að stokka sig upp og kannski ágætt eftir það sem gengið hefur á að hann fái sitt svigrúm.
Ég er innst inni ánægður með að þessu stjórnarsamstarfi er lokið. Það hafði verið ónýtt mjög lengi og heilindin löngu farin. Heiðarleg samskipti Geirs og Ingibjargar hélt ótrúlega lengi en að öðru leyti var það löngu farið veg allrar veraldar. Ég gaf því fullt tækifæri þegar þessi stefna var tekin eftir kosningarnar 2007 en treysti aldrei á það og hef fyrir löngu hætt alvöru stuðningi við hana, enda óheilindasamstarf.
Mér finnst mikilvægt að við þessar aðstæður verði kjörin alveg ný forysta Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í mars. Ég mun ekki styðja neinn í núverandi forystu áfram og vona að samstaða náist um alveg nýtt fólk þar í forystu, sem ótengt er með öllu ákvörðunum og forystu í aðdraganda og eftirmála bankahrunsins. Tækifærið er til breytinga - það þarf að nýta.
![]() |
Jóhanna næsti forsætisráðherra? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.1.2009 | 13:16
Ríkisstjórnin fallin - vinstristjórn í pípunum?
Þá hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra, slitið stjórnarsamstarfi með Samfylkingunni eftir stormasama tíð. Samfylkingin hefur, eins og kjaftasögurnar sögðu í morgun, gert kröfu um forsætið í samstarfinu. Slík krafa er algjörlega óaðgengileg 100 dögum fyrir alþingiskosningar. Nú tekur væntanlega við vinstristjórn, enda er greinilega búið að leggja drög að henni.
Þjóðstjórn væri besta lausnin en væntanlega mun valdapot vinstriflokkanna verða því yfirsterkara. En nú fá þeir sennilega boltann og geta leikið sér með hann eins og þeir vilja. Nú reynir á leikni þeirra. Kjaftasagan er að pólitískur krónprins ISG, Dagur B. verði forsætisráðherra, Steingrímur J. fjármálaráðherra og Ögmundur heilbrigðisráðherra.
Fróðlegt að heyra hvað verður um IMF í því dæmi. En eflaust bognar VG í því.
![]() |
Stjórnarsamstarfi lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 11:39
Kjaftasaga um vinstristjórn spuni Samfylkingar?
Kannski ráðast örlögin eftir allt saman á fundum stjórnarflokkanna og þeir nái saman um aðgerðir. Mér finnst samt merkilegt að fylgjast með valdaleikriti Samfylkingarinnar þar sem leitað er í smiðju Halldórs Ásgrímssonar í samningum við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningarnar 2003 til að réttlæta að Samfylkingin fái forsætið núna á síðustu hundrað dögum ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar - þeir leiði síðustu metrana og skipt sé um forsætisráðherra bara til að þjóna hagsmunum Samfylkingarinnar.
Mér finnst það líka mjög merkileg krafa að kona sem nýlega er komin úr miklum uppskurði eigi að taka við embætti forsætisráðherra og haldi því opnu að leiða flokk sinn í vor. Nema þá að þetta sé pólitískur svanasöngur Ingibjargar Sólrúnar og hún vilji kveðja pólitíkina sem forsætisráðherra í þrjá mánuði en fara ekki fram í vor.
En kjaftasögurnar eru margar og erfitt að gera sér grein hverjum skal trúa og hverjum ekki. Best að taka hæfilegt mark á þeim öllum og velta þeim fyrir sér. Nú er beðið þess sem gerist á þingflokksfundunum. Vonandi ráðast örlögin þar en hafa ekki ráðist fyrir löngu síðan, á sellufundum um helgina.
![]() |
Rafmögnuð stemmning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 10:38
Vinstristjórn í burðarliðnum - ISG forsætisráðherra
Þetta er merkileg kjaftasaga og fróðlegt að heyra hana áður en þingflokksfundum stjórnarflokkanna lýkur. Ef þetta er rétt er alveg ljóst að samningaviðræður helgarinnar voru hreinn skrípaleikur og partur af valdaleikriti Samfylkingarinnar.
![]() |
Þingflokksfundir hefjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 10:18
Spuni Samfylkingar - átök um forsæti ríkisstjórnar
Frekar aumt er það orðið þegar Samfylkingin reynir að fá stólinn með tilvísan í að Halldór Ásgrímsson hafi verið forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokknum fyrir nokkrum árum. Um slíkt var samið í upphafi kjörtímabils en ekki á hundrað dögum fyrir kosningar. Slíkur samanburður er hlægilegur og ekki Samfylkingunni til sóma.
Atburðarás gærdagsins var ein leikflétta til að breyta skipan mála í Stjórnarráðinu, Samfylkingu í hag. Slíkt gengur ekki upp og Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að taka þátt í því. Frekar á Sjálfstæðisflokkurinn að slíta ríkisstjórn en sætta sig við það. Slíkt ber því vitni að Samfylkingin vilji ekki halda áfram af heilindum.
Ingibjörg Sólrún er nýlega komin úr heilaskurðaðgerð og er greinilega mjög máttfarin og veikburða, eins og vel sást í fréttum í gær. Algjör fjarstæða er að hún taki við forsætinu þegar Geir H. Haarde fer til læknismeðferðar erlendis. Langheiðarlegast er þá að manna forsætisráðherrastólinn öðrum einstakling en þeim báðum.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk stólinn í þessari ríkisstjórn og mun ekki láta hann af hendi meðan stjórnin situr, nema þá að í raun sé mynduð ný ríkisstjórn. Ég er sammála Birni Bjarnasyni um að verk næstu hundrað dagana eiga að snúast um aðgerðir í efnahagsmálum en ekkert annað, enda er þetta í raun bara starfsstjórn.
![]() |
Vilja taka að sér verkstjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 08:08
Skemmdarverkaáráttan og baráttuaðferðirnar
Réttur fólks til að hafa skoðanir og tjá þær af krafti er mikilvægur - hann ber að verja. Mér finnst samt frekar dapurlegt þegar skoðanatjáning endar með skemmdarverkum eða ofbeldi. Slíkt hlýtur að koma niður á þeim skoðunum sem viðkomandi tjáir og skaðar málstaðinn, hver svo sem hann er. Mér finnst ekkert óeðlilegt að einhverjir vilji fara að Seðlabankanum og tjá skoðanir sínar og gera með þeim hætti sem er viðeigandi. Verra er þegar skemmdarverk eru það sem eftir standa, þegar talað er og barið á potta út í myrkrið, fyrir utan hús sem enginn er í.
Síðustu vikuna höfum við séð söguleg mótmæli hérlendis við opinberar byggingar og misjafnlega langt gengið. Árásin á Alþingishúsið og Stjórnarráðið og aðförin að lögreglunni aðfararnótt fimmtudags var þeim til skammar sem að þeim stóðu og voru lágpunkturinn á mótmælaferlinu og áttu í raun ekkert skylt með málefnalegum mótmælum, heldur snerist upp í óeirðir og skrílslæti. Þau hafa vakið athygli fyrir innihaldsleysi sitt í skoðunum en að vera gróft ofbeldi og að sumu leyti hreinlega tilraun til manndráps á lögreglumönnum.
Skemmdarverkin eru réttlætanleg hjá sumum fyrir einhvern málstað en það hlýtur samt að vera vondur eftirmáli á baráttu hver sem hún nefnist. Árás á opinberar byggingar að næturlagi, þegar enginn er þar, er kannski táknræn og tilraun til að vekja athygli þegar ekki er annað að gerast og verður að dæmast á þann máta sem til er stofnað. Sum mótmæli eru betur skipulögð en önnur og betra að gera það heiðarlega og vel frekar en stefna fyrirfram að því að espa lögregluna upp.
Ég ætla að vona að allir læri eitthvað á síðustu viku, mótmælendur ekki síður en lögregla og embættismenn. Fyrst og fremst er mikilvægt að fólk tjái sig án þess að beita skapi sínu á lögreglumenn við skyldustörf og dauðum hlutum.
![]() |
Skemmdarverk við Seðlabankann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |