Steingrímur J. í gestgjafahlutverkinu fyrir IMF

Mér fannst ansi skemmtilegt að sjá Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra og eitt sinn einn helsta andstæðing Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, bugta sig og beygja fyrir valdi sjóðsins. Hann er nú kominn í gestgjafahlutverkið fyrir fulltrúa sjóðsins hér á Íslandi. Ekki var annað hægt en hlæja þegar Steingrímur sagði flóttalegur á svip í þingumræðum nýlega að það væri nú bara hægt að tala við þessa menn eftir allt saman, þessa vondu menn sem hann vildi ekkert með hafa fyrir aðeins örfáum vikum og vildi segja hreinlega stríð á hendur og slíta öllu samstarfi við þá á þessum örlagatímum þjóðarinnar.

Ja sei sei, ekki var vindhaninn lengi að snúast marga hringi í kringum sjálfan sig og skipta um áttir á einni nóttu, svo geyst að hann vissi ekki lengur hvað sneri í vinstri og hvað í hægri. Ekki þurfti mikið til að hann skipti um skoðun á einni nóttu og færi að lofsyngja IMF og gleyma hinum margtuggða boðskap um ægivald hins illa sem vinstri grænir nefndu IMF og hlutverk þess við breyttar aðstæður þjóðarinnar.

Nei nú skal spila með og gleyma öllu því sem eitt sinn var sagt. Mikið er nú alltaf gaman að sjá vindhanana snúast marga hringi í logninu. Fyndnast af öllu finnst mér að sjá svipinn á þeim sem fóru í mótmælagöngur undir leiðsögn vinstri grænna fyrir nokkrum vikum og töldu að með því væru þeir að berjast gegn Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Þessu fólki hlýtur að líða virkilega illa núna.

mbl.is Góðir fundir með IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð og Eiríkur kveðja í Seðlabankanum

Vissulega eru það tímamót nú þegar minnihlutastjórn með takmarkað umboð hefur rofið sjálfstæði Seðlabanka Íslands og beitt pólitískum hreinsunum, m.a. á mönnum sem hafa unnið í bankanum áratugum saman. Líka felast tímamót í því að Davíð Oddsson heldur til annarra verka. Hið besta við það er að Davíð Oddsson öðlast nú aftur málfrelsið sem ansi margir vildu svipta hann á meðan hann var seðlabankastjóri. Persónuleg aðför að Davíð hefur gengið of langt og kemur ekki við málefnalegri gagnrýni nema að mjög takmörkuðu leyti.

Nú á Davíð Oddsson að tala hreint út um atburðarás síðustu tólf til átján mánaða í íslensku samfélagi. Eins og vel kom fram í merkilegu Kastljósviðtali á þriðjudag lumar hann á mörgum upplýsingum, upplýsingum sem þurfa að verða opinberar. Tala þarf hreint út. Jákvæðustu tíðindi dagsins eru þau að Davíð hefur fengið málfrelsið sitt.

Lögin um Seðlabankann hafa afhjúpað það versta hjá þessari máttlausu ríkisstjórn. Hún hefur ekki gert neitt að ráði. Tími hennar hefur farið í pólitískar hreinsanir. Með vinnulaginu var afhjúpuð hræsni þingmanna vinstriflokkanna. Þeir ætluðu að beita Alþingi sem afgreiðslustofnun þar sem samviska og sannfæring þingmanna átti að víkja.

Gott dæmi um þetta er lélegasti ráðherra ríkisstjórnarinnar sem talaði niðrandi um þingmann á facebook-síðu sinni því hann vildi vinna vandað og vel að lagasetningu og láta sannfæringuna ráða. Þetta fólk eru hræsnarar í besta falli orðað. Er þetta ekki sama liðið og blaðraði um að Alþingi þyrfti að hefja til vegs og virðingar?

mbl.is Seðlabankastjórar kvöddu starfsfólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni M. Mathiesen hættir í stjórnmálum

Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur nú ákveðið að hætta þátttöku í pólitísku starfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og gefur ekki kost á sér til endurkjörs í þingkosningunum eftir tvo mánuði. Ég virði mjög þessa ákvörðun Árna og tel að hann hafi þar litið til flokkshagsmuna, umfram sína eigin, og hugleitt stöðuna. Það ber að virða og ég tel að Árni sé maður að meiri að víkja af sviðinu við þessar aðstæður og taka þessa ákvörðun eftir allt sem á undan er gengið.

Árni hefur setið á þingi í 18 ár og var ráðherra samfellt í áratug. Pólitísk þátttaka hans í innra starfi Sjálfstæðisflokksins hefur staðið mjög lengi, en hann var lengi virkur innan SUS áður en hann tók sæti á þingi ungur að árum. Ég hef ekki alltaf verið sammála Árna og stundum mjög ósammála. Samt sem áður hef ég virt pólitískt starf hans mikils og tel að hann hafi gert margt gott í störfum sínum.

En komið er að leiðarlokum, sérstaklega við þessar aðstæður, og ég tel það virðingarvert að Árni víki til hliðar eins og komið er málum.

mbl.is „Nú fer ég að líta í kringum mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiðir dagar Steingríms - íslandsmet í klúðri?

Ragnar Reykás, fjármálaráðherra, nei afsakið Steingrímur J. Sigfússon, hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. Gærdagurinn var ekki góður fyrir hann, þegar Gunnar Örn Kristjánsson hrökklaðist við lítinn orðstír úr bankaráðsformennsku í Kaupþingi eftir 48 klukkustundir. Ráðherrann hafði ekki fyrir því að kynna sér feril Gunnars Arnar eða væntingar hans til starfsins. Til að bjarga andlitinu, eða varla það, var sagt að Gunnar Örn hefði nú ekki vitað hvað fólst í verkinu og að það krefðist nærveru hans. Þvílíkur brandari.

Eins og flestir vita hrökklast Gunnar Örn úr stöðunni fyrst og fremst vegna þess að Gamli Landsbankinn afskrifaði milljarð króna vegna skulda félags sem Gunnar rak ásamt félögum sínum. Gunnar keypti Bræðurna Ormsson ásamt viðskiptafélögum sínum árið 2004 - fengu lán til að fjármagna kaupin hjá Landsbankanum og fór bankinn fram á aukin veð. Félagið varð gjaldþrota og allir geta ímyndað sér framhaldið.

Steingrímur J. sagði í tíufréttum Sjónvarps í gærkvöldi að þúsundir Íslendinga hefðu nú fengið afskrifaðar skuldir undanfarið og fannst þetta með milljarðinn ekkert mál í sjálfu sér. Er þetta ekki örugglega maðurinn sem talaði um siðferði í stjórnmálum og að nýjir tímar myndu hefjast með valdaskiptum fyrir nokkrum vikum. Hann stendur varla í lappirnar lengur, enda búinn að kokgleypa allt fyrir ráðherrastólinn.

Hélt einhver að eitthvað myndir breytast með nýrri ríkisstjórn? Vel við hæfi að þessi ráðherra læsi passíusálm á þessum tragíska niðurlægingardegi sínum. Þessi stjórn er að setja íslandsmet í klúðri og fer sennilega að nálgast heimsmetið brátt.


mbl.is Steingrímur las fyrsta sálminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunblaðinu bjargað frá leppnum Cosser

Ég er mjög ánægður með að íslenskum fjárfestum undir forystu Óskars Magnússonar tókst að kaupa Morgunblaðið. Mér leist ekkert á að Ástralinn Steve Cosser keypti blaðið, sérstaklega ekki eftir umræðu um að hann væri leppur einhverra fjárfesta eða útrásarvíkinga sem vildu ekki koma fram undir eigin nafni og auk þess fjölmiðlaframkomu hans í gærkvöldi sem var með því dapurlegra sem lengi hefur sést er hann líkti Moggakaupum við að hann gæti keypt íbúðina sína í London margoft.

Nú verður að ráðast hvaða framtíð Morgunblaðið á við breyttar aðstæður. Nýjir eigendur geta vonandi haldið úti rekstri áskriftardagblaðs, vandaðs dagblaðs við þessar aðstæður. Vissulega hafa allar aðstæður á fjölmiðlamarkaði breyst og sérstaklega staða dagblaða í fjölmiðlun. Ekki er ljóst lengur með útgáfa dagblaðanna. Ekki virðist staða Fréttablaðsins mjög traust, eins og sést af nýlegum brottrekstri á nokkrum af bestu blaðamönnum þess.

mbl.is Þórsmörk kaupir Árvakur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband