7.2.2009 | 21:37
Kusk á hvítflibba Lúðvíks - dómsmálaraunir SF
Þegar stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks féll var talað um það sem öruggt mál að Lúðvík yrði dómsmálaráðherra en sá orðrómur gufaði upp ansi fljótt. Síðar var talað um Árna Pál Árnason og svo kom röðin að Bryndísi Hlöðversdóttur áður en nafn Bjargar Thorarensen kom upp. Bryndís kom ekki til greina sem utanþingsráðherra vegna tengsla við Samfylkinguna og Björg hafði sennilega ekki áhuga á sætinu.
Að lokum var ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri í dómsmálaráðherratíð Björns Bjarnasonar valinn til starfans. Ekki var undarlegt að flestir litu á þessar dómsmálaraunir nýrrar ríkisstjórnar sem vandræðalegar, ekki hefði neinn fundist innan Samfylkingarinnar sem myndi valda verkefninu. Í staðinn varð Kristján L. Möller yngsti ráðherra Samfylkingarinnar, aðeins 56 ára að aldri.
Fróðlegt verður að sjá hvort þessar uppljóstranir um Lúðvík verða honum fjötur um fót í baráttunni í Suðurkjördæmi, en ljóst er að hann tekur væntanlega slaginn við Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, um fyrsta sætið. Björgvin sagði jú af sér til að halda tandurhreinn í þá baráttu, eins og flestir vita.
![]() |
Fjármál Lúðvíks komu í veg fyrir ráðherrastól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.2.2009 | 20:58
Sturla og Herdís hætta á þingi - uppstokkun í NV
Einar Oddur Kristjánsson lést tveimur mánuðum eftir að hann náði endurkjöri í þingkosningunum í maí 2007 og var mikill sjónarsviptir af honum úr pólitísku starfi. Herdís Þórðardóttir tók við þingsæti hans - hún hefur nú greinilega tekið þá ákvörðun að hún vilji frekar sinna öðrum verkefnum en setu á Alþingi. Hún hefur verið lítið í umræðunni og ekki verið í sviðsljósi fjölmiðlanna, né heldur tekið mikið til máls á þingi.
Sturla Böðvarsson hefur verið einn öflugasti forystumaður Sjálfstæðisflokksins í gamla Vesturlandskjördæmi og síðar Norðvesturkjördæmi síðustu áratugi. Hann varð ungur sveitarstjóri í Stykkishólmi og síðar bæjarstjóri þar í fjöldamörg ár áður en hann tók við leiðtogasæti Friðjóns Þórðarsonar árið 1991.
Sigur hans í eftirminnilegu prófkjöri í hinu nýja Norðvesturkjördæmi árið 2002 var umdeildur og leiddi til þess að skipulagsreglum flokksins var breytt varðandi prófkjör, eins og kunnugt er, en mjög fá atkvæði réðu úrslitum um hvort hann eða Vilhjálmur Egilsson vann prófkjörið og hvor færi þá ella niður í fimmta sætið.
Sturla hefur verið umdeildur í pólitík mjög lengi, en staðið sig vel alla tíð, alveg síðan hann var samgönguráðherra. Sem forseti Alþingis hefur hann verið mjög vinnusamur og komið hlutum í verk. Honum tókst eftir margra ára deilur um breytingar á þingsköpum að koma þeim í gegn og hefur breytt starfi þingsins mjög.
Þetta var honum launað með því að verða bolað af stóli þingforseta með löglegri en ómerkilegri aðferð á þingfundi fyrr í vikunni, ákvörðun sem greinilega hefur verið endanleg ástæða þess að hann víkur af vettvangi stjórnmálanna. Þingmenn sem áður mærðu Sturlu og lofuðu í bak og fyrir sviku hann í kjörinu.
Sturla kveður pólitíkina með tæpitungulausri og mjög öflugri ræðu um aðkomu forseta Íslands að stjórnarskiptum og skilyrðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ég tek undir kjarnyrtar lýsingar hans á því. Forsetinn fór langt út fyrir sitt verksvið með sínu verklagi, sem var honum til skammar.
![]() |
Sturla og Herdís hætta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.2.2009 kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2009 | 18:44
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðaustri 14. mars
Ljóst er að allir þingmenn flokksins í kjördæminu; Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ólöf Nordal, sækjast eftir endurkjöri. Ég tel blasa við að margir muni bætast í hópinn og flest sem bendir til að fleiri taki þátt núna en í prófkjörinu í nóvember 2006. Þá urðu miklar breytingar í forystusveit framboðslistans og kjörinn nýr leiðtogi í stað Halldórs Blöndals.
Borin var fram tillaga á fundinum, eftir að prófkjörstillaga stjórnar kjördæmisráðs var lögð fram, um að stillt yrði upp á listann. Kannski hefði sú tillaga verið ákjósanleg við aðrar aðstæður en nú er uppi. Ekki var nokkur hljómgrunnur fyrir uppstillingu enda er það fráleit aðferð í því pólitíska litrófi sem blasir við.
Þingmenn verða að berjast fyrir endurnýjuðu umboði og flokksmenn verða að ráða örlögum frambjóðenda, þingmanna jafnt sem annarra, að þessu sinni. Valdið er nú í höndum hins almenna flokksmanns og þeirra að taka ákvörðun um hverjir verði í forystusveit í vor.
Ég vona að prófkjörið verði vel heppnað og við fáum út úr því sterka liðsheild í kosningunum 25. apríl og góðan framboðslista.
![]() |
Prófkjör Sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2009 | 11:59
Er kvennabyltingin á Íslandi ekta eða fals?
Kvennabyltingin skiptir eflaust máli, en ég tel mikilvægt að hætta að líta kynjagleraugum á stöðuna. Allir einstaklingar eiga að vera jafnir og við eigum að dæma þá eftir getu og hæfileikum, ekki kynjum. Annars með fullri virðingu fyrir framlagi kvenna og hæfileikum þeirra. Þær eiga það skilið að vera metnar út frá öllu sínu góða.
![]() |
Öld testósterónsins lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.2.2009 | 11:56
Gúrkutíð eða þreytuleg slepja?
Enda getum við svosem verið sæl með þetta þangað til að ástarsögur ríka og fræga fólksins hérna heima fara að dúkka upp. Og þó ég gleymdi því við eigum ekkert ríkt fólk lengur sem vill láta sjá sig hérna heima nema þá örfáa lánlausa menn í felum, en dveljast að mestu leyti erlendis.
Mér fannst tilraunir sumra hérna heima til að gera Ásdísi Rán að einhverri táknmynd ríka og fræga fólksins í fréttaumfjöllun mistakast frekar hrapallega. En ég afþakka samt svona blaðamennsku, hún á helst heima annarsstaðar. Þetta er ekki sagt til að tala einhvern niður.
![]() |
Fjölnir segir Mel B líklega bara með alzheimer |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.2.2009 | 01:37
Ingimundur farinn - Eiríkur og Davíð sitja áfram
Afsögn Ingimundar Friðrikssonar úr Seðlabankanum vekur vissulega athygli, en enn merkilegra er að bankastjórarnir munu greinilega ekki vinna úr stöðunni saman og feta misjafnar leiðir. Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson vita greinilega að þeir fá meira út úr því að segja ekki af sér og halda aðra leið í sinni stöðu. Mér grunar að viðbrögð þeirra veki athygli, en þeir hafa setið lengur í bankanum en Ingimundur - Eiríkur var eftirmaður Jóns Sigurðssonar, fyrrum viðskiptaráðherra Alþýðuflokksins, í bankanum um miðjan tíunda áratuginn og hefur bestu stöðuna af þeim.
Greinilegt var á bréfasendingunum og þögninni um þau í allt kvöld að það væri ekki slétt og fellt yfir þeim. Bankastjórarnir munu ekki vinna saman í takt við ríkisstjórnina og greinilegt að hinir leita leiða til að taka slaginn um næstu skref. Væntanlega verður augljósara á morgun hver næstu skref þeirra verða en mér finnst atburðarásin sýna að hinir tveir muni reyna að sitja lengur og taka slaginn frekar en fara út að óbreyttu.
Svo verður að ráðast hver sá næsti leikur verður. Þeir sem virða forsætisráðherrann að vettugi, hafna beiðni hennar beint eða neita að svara henni, eru greinilega búnir að ákveða að taka slaginn.
![]() |
Ingimundur baðst lausnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |