Veruleikafirring Ingibjargar Sólrúnar

Veruleikafirring Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur var algjör í viðtalinu við Elínu Hirst í Fréttaauka Sjónvarpsins fyrir stundu. Hún reynir þar að kenna Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu um það sem aflaga fór en horfist ekki í augu við eigin ábyrgð á vandanum og telur sig hafa axlað ábyrgð með því að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin var á vaktinni þegar hrunið átti sér stað og getur ekki firrt sig þeirri ábyrgð ekki frekar en forysta Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma. Stjórnmálamenn í ríkisstjórn Íslands á síðasta ári brugðust algjörlega.´

Í stað þess að viðurkenna ábyrgð sína og pólitísk afglöp í aðdraganda bankahrunsins, t.d. með því að víkja af hinu pólitíska sviði er reynt að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist og komið fram með orðaleppa um að hinir hafi brugðist. Þetta var ekki Ingibjörgu Sólrúnu til sóma og mér finnst eiginlega sorglegt að sjá viðbrögð hennar. Þetta viðtal var í heildina ein tragedía og sýnishorn á því hvernig stjórnmálamaður neitar að horfast í augu við eigin afglöp.

mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plott ISG afhjúpast - rauður dregill fyrir Dag

Pólitískt plott Ingibjargar Sólrúnar afhjúpast með varaformannsframboði Dags B. Eggertssonar í dag. Hún ætlar sér að ríghalda í formannsstólinn, tryggja kjör Dags í varaformannsstólinn og fara svo af sviðinu þegar hentar henni sjálfri og færa Degi formannsstólinn á silfurfati án kosningar. Ætli að það eigi svo ekki að tryggja Degi fimmta sætið í öðru Reykjavíkurkjördæminu fyrir þingkosningarnar í vor? Ekki vantar frumlegheitin í Samfylkingunni.

Þetta er eins og copy/paste af innkomu Ingibjargar sjálfrar í landsmálin 2003. Forystutvíeykið þá var fíaskó frá upphafi til enda fyrir Samfylkinguna. ISG var þó slegin af sem forsætisráðherraefni í fyrstu tölum vorið 2003 og á einni nóttu varð Halldór Ásgrímsson allt í einu forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Veit ekki hvort Jóhanna fær jafn dapurleg örlög í þessu hlutverki en Ingibjörg Sólrún en þetta er ekki beint jákvætt hlutskipti.

Dagur fær semsagt rauðan dregil fyrir sig í forystusveitina ef heildarplottið hennar ISG fær að standa. Á einum blaðamannafundi sat hún og raðaði bitlingum og tilskipunum í allar áttir. Ekki aðeins ákvað hún ein hver yrði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, hvernig þrjú efstu sætin yrðu skipuð í Reykjavík, þó prófkjör sé, heldur ákvað hún sjálf að ríghalda í formannsstólinn fyrir valinn arftaka.

Þetta er nú lýðræðið í Samfylkingunni og hin margfrægu samræðustjórnmál Ingibjargar Sólrúnar í öllu sínu veldi. Ætli almennir flokksmenn muni sætta sig við þessar tilskipanir?


mbl.is Dagur í varaformanninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin hefur ekkert gert á einum mánuði

Í dag er mánuður liðinn frá því að vinstristjórnin tók við völdum. Á þeim tíma hefur hún engu komið í verk, nema pólitískum hreinsunum og fara undir norskt yfirvald, en státar sig aðeins af verkum síðustu ríkisstjórnar. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fetar í þessi spor á Sprengisandi sme í morgun og talar aðeins um afrek síðustu stjórnar og reynir að upphefja sig á þeim.

Þetta er auvirðilegt og ómerkilegt, í besta falli orðað. Heill mánuður er farinn í súginn hjá þessari umboðslausu ríkisstjórn. Hún hefur aðeins komið einu frumvarpi í gegnum þingið á heilum mánuði, pólitískum hreinsunum í Seðlabanka. Hvar er skjaldborgin um heimilin og úrræðin í efnahagsmálum?

mbl.is Vextir fara að lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðarlegt uppgjör í Valhöll - hvað gerir SF?

Mér finnst skýrsla endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins traust og gott plagg. Þar er talað hreint út um mistökin sem urðu á síðustu árum. Þetta er heiðarlegt uppgjör af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Þar er talað opinskátt og afgerandi um mistökin og hvergi hikað í alvöru uppgjöri. Enginn vafi leikur á því að Sjálfstæðisflokkurinn þarf í prófkjörum eftir hálfan mánuð og á landsfundi síðar í þessum mánuði að tala hreint út og velja forystu sína nýju fólki sem stendur utan lykilákvarðana síðustu ríkisstjórnar.

Á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn fer í gegnum mikla breytingartíma, sannkallaða hreinsunarelda, heiðarlega uppstokkun á forystusveit sinni, eru engar breytingar í hinum ríkisstjórnarflokknum sem var á vaktinni þegar allt hrundi. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins er að hætta í stjórnmálum og auk þess hættir fyrrverandi fjármálaráðherra öllum afskiptum af stjórnmálum. Alls óvíst er vissulega hvað gerist í prófkjörum á landsvísu en flest bendir þó til mikilla breytinga.

Samfylkingin ætlar að bjóða upp á sama flokksformanninn í kosningunum í vor og forsætisráðherraefni hans verður einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar þegar allt hrundi. Þar hefur auk þess verið handvalið í þrjú efstu sætin í Reykjavík á blaðamannafundi forystunnar. Foringjapólitíkin er algjör þar og enginn axlar ábyrgð eða dregur sig í hlé. Enn situr Samfylkingin við völd með sama fólkið.

Skýrsla endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins er uppgjör á liðnum tímum. Slíkt uppgjör verður að fara fram og þeir sem leiddu flokkinn á þessu tímabili verða að víkja af sviðinu, annað hvort fara sjálfir eða verða hafnað í prófkjöri í vor. Þar verður að taka til og þessi skýrsla gefur vísbendingar um hver hugur flokksmanna er. Engin tæpitunga er töluð.

Nýir tímar þýða uppgjör á gamla tímanum og heiðarlegt mat, endurmat á því sem aflaga fór. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt og sannað að hann þorir að fara í þá vinnu ólíkt Samfylkingunni sem klappar allt sitt gamla lið aftur upp á sviðið.

mbl.is Stefna brást ekki, heldur fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögregluofbeldi í Seattle

Myndklippan af lögregluofbeldinu í Seattle hefur eðlilega vakið heimsathygli. Ekki aðeins vegna þess að lögreglumaður missir stjórn á sér heldur að ráðist er á fimmtán ára stelpu. Klippan segir sína sögu. Svona vinnubrögð eru alltaf til skammar fyrir lögregluna í heild sinni. Gott dæmi um þetta hérlendis var þegar lögreglumaður missti stjórn á sér og tók unglingsstrák kverkataki í 10-11 verslun á síðasta ári.

Lögreglan er mikilvæg í hverju samfélagi, enda á hún að gæta að lögum og rétti. Þegar laganna vörðum verður alvarlega á þarf að tala um það og gera það opinbert.

mbl.is Lögreglumenn réðust á 15 ára stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband