Ný framboð ná engu flugi - fjórflokkur sterkur

Nýjasta skoðanakönnunin gefur til kynna að grasrótarframboðin, Borgarahreyfingin og L-listinn, ná engu flugi. Mér finnst mjög merkilegt hversu fjórflokkurinn hefur sterka stöðu eftir allt sem á undan er gengið í íslenskum stjórnmálum á síðustu mánuðum. Ákallið eftir breytingum virðist ekki ná út fyrir fjórflokkana. Spurt verður þó um það hversu miklar breytingar verða innan þessara fjögurra flokka. Ljóst er að ný forysta verður kjörin í Sjálfstæðisflokknum og bendir flest til þess að nýr formaður hans verði um fertugt.

Engar breytingar hafa orðið í prófkjörum Samfylkingarinnar. Þar hafa sitjandi ráðherrar bankahrunsins verið klappaðir upp, sumir með traustri kosningu þrátt fyrir að hafa sofið á vaktinni. VG hefur engu breytt nema að hafna Kolbrúnu Halldórsdóttur og umhverfisöfgum hennar í Reykjavík og velja Svandísi Svavarsdóttur og Lilju Mósesdóttur í örugg þingsæti. Frjálslyndir virðast heillum horfnir. Framsókn hefur endurnýjað sig nær alveg frá síðustu kosningum, ef Siv Friðleifsdóttir er ein undanskilin.

Þetta verða kosningar þar sem horft verður til breytinga og pólitískra þáttaskila. Ég vona það. Slík eiga skilaboðin að vera. Við eigum að velja nýtt fólk til forystu og stokka hressilega upp. Því vekur athygli að fjórflokkurinn dómínerar algjörlega en nýju framboðin ná ekki flugi. Væntanlega hefði lengri kosningabarátta hjálpað þeim eitthvað, en þetta er erfið barátta við tímann fyrir lítið skipulagða maskínu með litla peninga.

mbl.is Samfylkingin stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægur áfangi - slóðin rakin til Cayman

Samkomulag norrænu þjóðanna við Cayman-eyjar um upplýsingaskipti skiptir lykilmáli í því sem framundan er. Mikilvægt er að allar færslur verði raktar og farið í gegnum hvort og þá hversu mikið af óeðlilegum færslum hafi átt sér stað. Þjóðin mun ekki sætta við neitt minna en slóðin verði rakin og allar staðreyndir augljósar og aðgengilegar.

Auk rannsóknarvinnunnar er þetta þýðingarmikið verkefni, enda má ekki nokkur vafi leika á hversu mikið var flutt af peningum á milli og hversu víðtækt það var.

Alltaf heyrast sífellt meira krassandi kjaftasögur og upplýsingar um verklagið. Þetta verður að upplýsa algjörlega. Engar kjaftasögur eingöngu, takk.


mbl.is Samþykkt að veita upplýsingar um skattaskjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldamorð í Þýskalandi - fyrirmyndin í Columbine

Enn einu sinni er framið fjöldamorð í skóla, að þessu sinni í Þýskalandi og fyrr í vikunni í Alabama í Bandaríkjunum. Málin er eins og flest hin fyrri. Dagfarsprúður nemandi á sér dökka hlið, missir stjórn á sér, hefnir sín á öllum sem hann þolir ekki og slátrar þeim. Í Alabama var fjöldamorðinginn t.d. með skrifaðan lista yfir þá sem hann ætlaði sér að drepa. Sá þýski drap eins flestar stelpur og hann gat, öllum sem hann sá.

Mér finnst þessi mál öll sýna mjög mikið hatur og innbyrgða reiði, sennilega á samfélaginu og öllu í kringum hann. Þetta minnir sérstaklega á fjöldamorðið í Columbine. Öll þekkjum við hin málin: Kauhajoki og Jokela í Finnlandi, Virginia Tech og Dunblane. Að flestu leyti voru þetta skotárásir þar sem vegið var að samfélaginu, óður byssumaður að tala gegn samfélaginu og gildum þess, auk þess að hefna sín á öðrum.

Samt er það svo ólýsanlega sorglegt að námsfólk með framtíðina fyrir sér sé tilbúið til að fórna lífinu og drepa aðra vegna slíks boðskapar. Margir hafa horft til byssueignar. Michael Moore gerði heila heimildarmynd þar sem hann tók fyrir þau mál, Bowling for Columbine, sem var inspíruð af Columbine-fjöldamorðunum sem Harris og Klebold stóðu að. Þetta eru oftast einfarar í skugga félagslífsins og lifðu sínu lífi.

Mjög margt í öllum þessum málum er rakið til áhrifa frá Columbine og Virginia Tech-málunum. Fjöldamorðingarnir Cho Seung-Hui í Virginia Tech og Auvinen í Jokela stúderuðu Harris og Klebold og töluðu báðir um þá sem píslarvætti. Columbine er orðið ógnvekjandi cult-fyrirbæri margra nemenda um víða veröld.

Þessi þýski harmleikur og hinir finnsku áður verða sífellt sterkari myndræn áminning um að klikkaður árásarmaður leynist ekki bara í bandarískum skólum. Hættan er til staðar allsstaðar.

mbl.is Byssumaðurinn: Eruð þið nú öll dáin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farsinn um formannsefnið og stuðningsmanninn

Jóhanna Sigurðardóttir
Fátt hefur orðið hlægilegra í seinni tíma stjórnmálasögu en spuninn um Jóhönnu Sigurðardóttur og formannsstólinn í Samfylkingunni. Þvílík persónudýrkun. Hámarki náði farsinn þegar efnt var til blysgöngu til að þrýsta á hana, enda varla hægt að ætlast til að hún geti tekið svona ákvörðun ein og óstudd. Einn mætti, sá sem efndi til "göngunnar" og svo voru nokkrir fjölmiðlamenn þar á stangli.

Þeir myndu eflaust mættir til að mynda og fanga augnablikið stórfenglega þegar gengið yrði heim til forsætisráðherrans og beðið eftir að hún kæmi út og veifaði í allar áttir sigri hrósandi og myndi svo koma "göngumönnum" algjörlega á "óvart" og tilkynna framboðið. Ekta spuni að hætti Samfylkingarinnar, hlægilegur og pínlega yfirskipulagður.

Aumingjahrollurinn var hinsvegar algjör. Enginn mætti. Ljósið slokknaði og stemmningin steindauð. Ljósmyndablosarnir fáir og myndavélarnar ekki lengi á lofti. Jóhanna gat þess í stað slappað bara af heima og hugleitt málin ein með sjálfri sér.

Þvílíkt mega-klúður. Svona fagmannlega standa menn að verki bara í Samfylkingunni.

mbl.is Enginn mætti í blysförina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir "auðmenn" hrapa niður Forbes-listann

Eftir atburði síðustu mánaða kemur engum að óvörum að íslensku "auðmennirnir" séu að hverfa af Forbes-listanum yfir ríkustu menn heims eftir að útrásin margfræga lognaðist út af. Björgólfur Thor nær þó að halda velli á listanum, sem hefur fækkað um fjögur til fimm hundrað manns frá síðasta ári. Meðal þeirra er auðvitað Björgólfur Guðmundsson. Bill Gates er búinn að ná fyrsta sætinu af Warren Buffet, en hann hefur í áranna rás drottnað yfir Forbes-listanum og verið í sérflokki.

Þegar listinn var opinberaður fyrir tveimur árum voru Björgólfsfeðgarnir báðir á listanum; Björgólfur Thor í 249. sæti og faðirinn í því 799. Eignir Björgólfs Thors voru þá metnar á 3,5 milljarða dollara eða 235 milljarða króna, en Björgólfs eldri á 1,2 milljarða dollara, um 80 milljarða króna. Í fyrra var Björgólfur Thor í 307. sæti en faðirinn í því 1014. Eignir Björgólfs Thors voru þá metnar líka á 3,5 milljarða dollara, Björgólfs eldri á 1,1 milljarða dollara.

Björgólfur Thor varð fyrsti Íslendingurinn sem komst á lista Forbes yfir ríkustu einstaklinga heimsins. Veldi Björgólfsfeðga er eins og flestir vita upprunnið úr gosdrykkja- og bjórverksmiðjum í Rússlandi. Nú hefur margt farið á verri veg. Straumur og Landsbankinn eru komnir í hendur ríkisins, og sá fyrrnefndi eflaust búinn að vera algjörlega. Þáttaskilin eru algjör og fátt ljóst með Forbes-lista að ári.

En svona er nú heimurinn oft kaldhæðinn.

mbl.is Bill Gates aftur ríkastur - Björgólfur í 701. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurjón sigrar Magnús Þór í Norðvestri

Ég vil óska Sigurjóni Þórðarsyni til hamingju með glæsilegan sigur í baráttunni um annað sætið í prófkjöri Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi. Sigurjón sigrar þar varaformanninn Magnús Þór Hafsteinsson, sem var eitt sinn þingmaður Suðurkjördæmis en mistókst að ná kjöri í Reykjavík í kosningunum 2007. Þessi úrslit hljóta að veikja varaformanninn mjög í sessi.

Held að þetta sé fyrsta prófkjörið sem Frjálslyndi flokkurinn hefur haldið. Þar hefur hingað til verið raðað upp á lista og almennum flokksmönnum ekki gefið tækifæri til að kjósa á milli frambjóðenda. Þrátt fyrir að Frjálslyndi flokkurinn hafi oft verið betur á sig kominn en nú er við hæfi að hrósa þeim fyrir að hafa áttað sig á prófkjörsfyrirkomulaginu á tíu ára afmælinu.

Sigurjón yfirgaf Norðvesturkjördæmi í síðustu kosningum, þar sem hann var kjörinn á þing árið 2003. Hann leiddi listann hér í Norðausturkjördæmi en náði ekki kjöri. Sigurjón vann ötullega í þeirri baráttu og tókst að rífa flokkinn upp úr miklum öldudal með mikilli vinnu og gerði gott úr erfiðri aðstöðu.

Honum var lofað framkvæmdastjórastöðu flokksins í kjölfarið en svikinn um það þegar á hólminn kom. Forysta flokksins launaði honum öll verkin fyrir þennan flokk með þeim svikum. Þessi sigur hans vekur því mikla athygli og sýnir styrkleika hans innan flokksins.

mbl.is Sigurjón náði 2. sætinu hjá Frjálslyndum í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband