Ný forysta - fer Illugi í varaformannsframboð?

Mikil tíðindi hafa orðið í Sjálfstæðisflokknum á þessu prófkjörskvöldi. Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson hafa stimplað sig inn sem sterkt tvíeyki í forystu flokksins. Illugi er orðinn afgerandi forystumaður í höfuðborginni, tekur þar við hlutverki Geirs H. Haarde, og Bjarni orðinn forystumaður á Kragasvæðinu, tekur leiðtogastólinn af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Nær öruggt er orðið að Bjarni verði formaður Sjálfstæðisflokksins.

Eftir niðurstöðu prófkjörsins í Reykjavík hefur staða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar veikst gríðarlega. Ekki aðeins beið hann mikinn ósigur í leiðtogaslagnum við Illuga heldur er hann að auki fimmti í heildaratkvæðamagni í borginni, fær þar minna í heildina en Pétur, Ólöf Nordal og Siggi Kári. Guðlaugur Þór afskrifaði reyndar formannsframboð fyrr í dag, áður en tölur tóku að berast.

Mér finnst stórmerkilegt að sjá heildaratkvæðamagn í Reykjavík þegar um 80% atkvæða hafa verið talin. Illugi er með 5273 atkvæði en Guðlaugur Þór hefur 3834 atkvæði. Þetta segir sína sögu. Illugi hefur nú náð stöðu Davíðs og Geirs, eitt sinn, í borginni. Með því verður hann lykilmaður í flokksstarfinu.

Flokksmenn hljóta að velta fyrir sér, eftir þessi ótvíræðu úrslit, hvort Illugi Gunnarsson fari í varaformannsframboð. Einnig hefur Ólöf Nordal stimplað sig inn sem forystukona í flokknum á landsvísu. Hún er framtíðarstjarna í flokknum.

mbl.is Illugi öruggur á toppnum með 3600 atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll sigrar Lúðvík í Kraganum

Mér finnst það mjög merkileg úrslit að Árni Páll Árnason hafi sigrað Lúðvík Geirsson, bæjarstjóra í Hafnarfirði, í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum. Með þessu stimplar Árni Páll sig inn sem einn af framtíðarleiðtogum Samfylkingarinnar. Þetta hlýtur að auka líkur á formannsframboð hans fari Jóhanna Sigurðardóttir ekki fram eða ella styrkja hann mjög í varaformannskjörinu.

Þetta er mjög mikill skellur fyrir Lúðvík, sem flestir töldu afgerandi leiðtoga í prófkjörinu vegna sterkrar stöðu sinnar í Hafnarfirði. Svo er augljóst að Þórunn Sveinbjarnardóttir fær nokkurn skell, ein ráðherra Samfylkingarinnar í síðustu ríkisstjórn.

Stóra spurningin er nú hvað verði um bæjarstjórastólinn í Hafnarfirði þegar Lúðvík verður óbreyttur þingmaður í Kraganum.

mbl.is Árni Páll sigraði í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afgerandi sigur Illuga Gunnarssonar

Illugi Gunnarsson hefur unnið slaginn um fyrsta sætið í Reykjavík mjög afgerandi. Vil óska honum innilega til hamingju með glæsilega kosningu. Slagurinn um annað sætið er greinilega æsispennandi milli Guðlaugs Þórs og Péturs.

Ólöf heldur fjórða sætinu. Þetta er glæsilegt fyrir hana, enda ný í framboði í Reykjavík. Hún stimplar sig heldur betur í forystusveitina hjá flokknum á landsvísu með þessum glæsilega sigri.

Stóru tíðindin í þessu prófkjöri finnst mér hversu traust Illugi er valinn til forystu. Hann er orðinn einn helsti forystumaður flokksins með þessum sigri


mbl.is Illugi heldur efsta sætinu í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Illuga - glæsilegt hjá Ólöfu

Ég er mjög ánægður með fyrstu tölur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Illugi Gunnarsson virðist hafa mjög sterka stöðu í fyrsta sætinu. Guðlaugur Þór er í öðru en litlu virðist muna á honum og Pétri Blöndal í þriðja sætinu. Er sérstaklega ánægður með glæsilega stöðu Ólafar Nordal, vinkonu minnar. Hún er efst kvennanna í Reykjavík, mjög verðskuldaður árangur. Svo eru Siggi Kári og Birgir traustir í næstu sætum, svo og Ásta. Ánægður með að ungliðarnir Þórlindur og Erla eru í topp tíu, svo og Sigga Andersen. Sakna samt sérstaklega Guðrúnar Ingu, sem verðskuldar betri árangur.

En enn á eftir að telja slatta, svo margt getur breyst. Fylgjumst spennt með að sjálfsögðu!

mbl.is Illugi efstur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnúsi Þór hafnað - frjálslyndir að hverfa?

Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi varaformaður Frjálslynda flokksins og alþingismaður, fékk mikinn skell í formannskjöri á landsfundi frjálslyndra í Stykkishólmi í baráttunni við yfirmann sinn Guðjón Arnar. Stjórnmálaferli hans virðist lokið, altént er greinilegt að hann hefur misst öll völd í flokknum og verður varla í framboði fyrir hann í vor.

Með því að hjóla í Guðjón missir hann það sem hann hafði, talsverða bitlinga, enda var hann pólitískur aðstoðarmaður Guðjóns og sem slíkur á þingmannalaunum.

En ekki kjósa margir á þessum landsfundi. Frjálslyndir virðast eiga erfitt á öllum vígstöðvum og þeir eiga mjög erfiðar kosningar fyrir höndum.

Erfiður lífróður blasir við flokknum í kosningabaráttunni næstu 40 dagana.


mbl.is Guðjón Arnar kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerðist í Slippnum?

Mjög ánægjulegt er að ákveðið hafi verið að rannsaka aftur lát tveggja manna við Daníelsslipp fyrir hálfum þriðja áratug. Augljóst er að mikið vantar á hina opinberu sögu um lát þeirra. Fjallað var um málið í Kompási á síðasta ári og þá komst það aftur í umræðuna. Ættingjarnir sættu sig eðlilega ekki við hina opinberu skýringu yfirvalda í málinu að þeir hefðu framið sjálfsvíg og óskuðu eftir gögnum málsins, en þurftu að berjast fyrir þeim.

Mér finnst afleitt að reynt hafi verið að fela gögn málsins og ekki mátt kanna það sem þar stendur. Skil mjög vel baráttu ættingjanna, enda er mikill munur á hvort að fólk taki eigið líf eða sé myrt og ekki hægt að lifa við þá óvissu. Auk þess virðist vera sem málið hafi aldrei verið klárað og þar hefði mátt kanna mun betur og fara yfir málavöxtu.

Eftirmálar nú vegna framleiðslu þessa þáttar og yfirlýsingar sem ganga á milli aðila vekja mjög margar spurningar um þetta mál, sem aldrei hefur verið klárað með sómasamlegum hætti. Grunnkrafa er að mál séu könnuð almennilega og reynt að ganga úr skugga um að allt sé reynt til að upplýsa svo dapurleg mál.

Vonandi mun spurningum fortíðarinnar verða svarað.

mbl.is Andlátið skoðað aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Bragi á þing - Sleggjunni hafnað í NV

Niðurstaðan úr prófkjöri Framsóknar í Norðvestri er mjög skýr. Fulltrúar nýrra tíma eru valdir til forystu í kjördæminu - Gunnar Bragi Sveinsson, vinsæll sveitarstjórnarmaður úr Skagafirðinum, er valinn til að leiða listann og fara á þing og Guðmundur Steingrímsson nær öðru sætinu, fetar í fótspor afa síns og föður, Hermanns og Steingríms, sem fetuðu sín fyrstu pólitísku skref á þessum slóðum, og ætlar örugglega að tryggja sér þingsæti fyrir flokk feðranna.

Kristinn H. Gunnarsson fær mikinn skell - kemst ekki á blað. Honum er algjörlega hafnað af flokksmönnum í kjördæminu sem kaus hann tvisvar á þing eitt sinn. Engin stemmning er fyrir því að fara til fortíðar með honum í fornum átökum sem sliguðu Framsóknarflokkinn. Nýtt fólk fær tækifærið.

Vestfirska sleggjan hefur setið á þingi fyrir þrjá stjórnmálaflokka, eins og Hannibal forðum daga, og tókst að tryggja sér endurkjör á lokaspretti kosninganætur fyrir tveim árum. Er ferlinum lokið með þessum mikla ósigri?

mbl.is Gunnar Bragi sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband