Björgvin G. fær endurnýjað umboð í Suðrinu

Samfylkingin heldur áfram að klappa upp ráðherra síðustu ríkisstjórnar og hefur nú endurnýjað umboð Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherrans sem svaf á verðinum í aðdraganda bankahrunsins og skrifaði lofgreinar um útrásarvíkingana á heimasíðu sína alveg þangað til í ágúst 2008. Greinilegt er á öllu að Samfylkingin ætlar að hampa öllum sínum ráðherrum í gömlu stjórninni á meðan þeir eru flestir að víkja af hinu pólitíska sviði í Sjálfstæðisflokknum.

Allir ráðherrar Samfylkingarinnar í 20 mánaða stjórninni sækjast eftir endurkjöri og munu greinilega hljóta endurnýjað umboð. Sigur Björgvins G. í þessu prófkjöri vekur vissulega mikla athygli, enda sagði hann ekki af sér sem viðskiptaráðherra fyrr en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var feig og ekki hugað líf og tekin hafði verið ákvörðun um að slíta samstarfinu og horfa til vinstri. Stjórnin féll innan við sólarhring eftir þá afsögn.

Sumir töluðu um að hann hafi axlað ábyrgð, en æ fleiri sjá að hann sagði aðeins af sér til að reyna að heilla kjósendur flokksins og bjarga því sem bjargað varð hjá sér.

mbl.is Afsögnin skipti miklu máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Möllerinn heldur velli - Sigmundur Ernir á þing

Ég er ekki undrandi á því að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, hafi haldið velli í netprófkjöri Samfylkingarinnar. Fáir eru duglegri eða ósvífnari í atkvæðasmölun en hann, enda frægur fyrir að skrá megnið af Siglfirðingum inn í Samfylkinguna í prófkjörum til þessa. Stóru tíðindin í prófkjörinu eru þó að Sigmundur Ernir vinnur annað sætið og er á leiðinni á þing og Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, fékk mikinn skell og náði ekki einu sinni í topp átta!

Einar Már hefur verið mjög ósýnilegur í kjördæminu en verið virkur í nefndastarfi þingsins og fyrirsjáanlegt að hann myndi falla við samkeppni að austan um sætið, en þetta er meira fall en mörgum óraði fyrir. Augljóst var að Kristján Möller tók Einar Má með sér í lest í síðasta prófkjöri Samfylkingarinnar og unnu gegn Láru Stefánsdóttur sem þá sóttist eftir öðru sætinu en tapaði þeim slag.

Miklar kjaftasögur voru um að Kristján hafi tekið Sigmund Erni með sér í lest að þessu sinni og valdi systurdóttur sína, Helenu Þuríði Karlsdóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar hér á Akureyri, í það þriðja. Logi Már Einarsson, arkitekt, var með metnaðarfullt framboð og ætlaði sér stóra hluti - fór gegn þessari lest og náði í þriðja sætið en fellur í það fjórða vegna kynjakvóta.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari og bæjarfulltrúi á Egilsstöðum, sigraði Helenu í baráttunni um hvor þeirra yrði efsta konan á listanum en Helena náði bara í fimmta sætið og verður því ekki einu sinni varaþingmaður miðað við óbreytta stöðu. Jónína Rós fór í forystuframboð og gerði þar með væntanlega út af við Einar Má, sem var veikur í sessi.

Ég sé að mikið var talað um það í netmiðlum virkra Samfylkingarmanna að jafnvel myndi kona komast upp í annað forystusætanna, þingsæti miðað við óbreytta stöðu. Slíkt hafðist ekki frekar en 2003 og 2007. Fróðlegt verður að sjá hvernig Sigmundi Erni gangi í nýju hlutverki, en hann er auðvitað óskrifað blað í pólitískri baráttu.

mbl.is Kristján Möller efstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk áhætta Sigmundar - sterk staða Alfreðs

Mér finnst það bera merki um djörfung hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að taka slaginn í Reykjavík heldur en sækjast eftir öruggu þingsæti í landsbyggðarkjördæmi í kosningunum í næsta mánuði. Framsókn missti þrjú þingsæti í Reykjavík í kosningunum fyrir tveimur árum og hefur ekkert öruggt haldreipi í sjálfu sér. Þeir ætla sér þó greinilega stóra hluti framsóknarmenn í Reykjavík miðað við að sjálfur formaðurinn leiðir þar lista, rétt eins og Ólafur Jóhannesson og Halldór Ásgrímsson áður.

Merkilegast við valið á listunum í Reykjavík er þó hversu sterkur Alfreð Þorsteinsson, fyrrum borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og R-listans, er enn. Hann lagðist gegn valinu á Magnúsi Árna Skúlasyni í annað sætið á eftir Sigmundi í Reykjavík norður. Alfreð fór í ræðustól og talaði eindregið gegn þeim valkosti og náði að snúa það niður með þeim orðum að "ekki þyrfti að sækja spillingu í aðra flokka". Alfreð er greinilega enn sterki maðurinn í Reykjavík þó þrjú ár séu liðin frá því hann vék af leiðtogastóli í borgarmálunum.

Auk þess vekur athygli að Vigdís Hauksdóttir, mágkona Guðna Ágústssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, hafi unnið slaginn um fyrsta sætið í Reykjavík suður við Einar Skúlason, skrifstofustjóra þingflokksins, og Hall Magnússon, moggabloggara. Báðir eru mjög traustir og voru sigurstranglegir valkostir. Einar tekur annað sætið á eftir Vigdísi. Hann var eitt sinn kosningastjóri R-listans (í síðustu borgarstjórnarkosningum ISG 2002) og augljóst að Samfylkingin vildi fá hann í sínar raðir.

En Sigmundur Davíð tekur pólitíska áhættu með því að fara fram í Reykjavík. Ekkert er tryggt þar og því verður þetta mikil pólitísk áskorun fyrir hinn unga formann. Nái hann kjöri og að endurreisa Framsókn á mölinni á hann sér góða pólitíska framtíð. Nái hann hinsvegar ekki kjöri verður staða hans mjög erfið og veik í kjölfarið.

mbl.is Sigmundur í Reykjavík norður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helmingur kjósenda hafnar formennsefnum SF

Ég er ekki undrandi á því að helmingur landsmanna vilji hvorki Jón Baldvin Hannibalsson eða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í forystusæti í íslenskum stjórnmálum. Tel að tími þeirra beggja sé liðinn, reyndar sést það best með Ingibjörgu Sólrúnu sem ætlar að fara í gegnum næstu kosningar í pilsfaldi annarrar konu, reyna að komast inn á þing aftur á vinsældum hennar þrátt fyrir eigin óvinsældir.

Kjósendur vilja nýtt fólk í forystu stjórnmálananna, helst nýja kynslóð með nýjar hugmyndir og nýja sýn á málefnin. Ingibjörg Sólrún hefur enn enga ábyrgð axlað á því að hafa brugðist á vaktinni, í aðdraganda bankahrunsins og er stórlega sködduð pólitískt á eftir.

Mér finnst það merkilegt að grasrótin í flokknum ætli að sætta sig við fyrirskipanir hennar á blaðamannafundi og það að tekin séu frá þrjú efstu sætin í prófkjöri flokksins. Foringjaræðið virðist þar vera algjört.

Svo er sérstaklega athyglisvert að unga fólkið í Samfylkingunni tekur ekki fram fyrir hendurnar á eldra liðinu og kemur með eigin kandidat til forystu, þegar kallað er eftir nýju fólki og alvöru breytingum.

mbl.is Tæp 46% vilja hvorugan frambjóðandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Kaupþing verða hið íslenska Enron?

Bókhaldsbrellurnar í Kaupþingi, sem eru nú að verða opinberar, eru skelfilegar. Manni finnst hið íslenska Enron-mál vera hreinlega í uppsiglingu. Þetta er helsjúkur veruleiki sem afhjúpast með skrifum Morgunblaðsins í dag um Kaupþing. Við erum að sjá inn í innstu kviku geðveikislegrar hringekju spillingar og fjármálalegs sukks. Manni blöskrar vinnubrögðin og er hreinlega flökurt. Veruleikinn er dekkri og tragískari en manni óraði fyrir.

Lánabókin hjá Kaupþingi sýnir okkur vinnubrögðin í hnotskurn. 170 milljarða lán fór til Lýðs og Ágústs Guðmundssona, eigenda Exista, stærsta hluthafans í Kaupþingi. Ólafur Ólafsson í Samskipum og bissnessfélagar hans fengu 79 milljarða lánaða. Róbert Tschenguiz fékk svo fyrirgreiðslu til lánveitinga upp á rúmlega 200 milljarða. Hvernig veruleiki er það sem gúdderar svona sukk og svínarí?

Þetta er með mestu svikamyllum Íslandssögunnar. Manni dettur já Enron í hug. Ætlar RÚV ekki að endursýna þá frábæru mynd? Hana ætti reyndar að sýna reglulega til að við getum meðtekið allt sukkið sem var leyft að gerast hér á Íslandi!


mbl.is 500 milljarðar til eigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband