Pólitísk áhætta Sigmundar - sterk staða Alfreðs

Mér finnst það bera merki um djörfung hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að taka slaginn í Reykjavík heldur en sækjast eftir öruggu þingsæti í landsbyggðarkjördæmi í kosningunum í næsta mánuði. Framsókn missti þrjú þingsæti í Reykjavík í kosningunum fyrir tveimur árum og hefur ekkert öruggt haldreipi í sjálfu sér. Þeir ætla sér þó greinilega stóra hluti framsóknarmenn í Reykjavík miðað við að sjálfur formaðurinn leiðir þar lista, rétt eins og Ólafur Jóhannesson og Halldór Ásgrímsson áður.

Merkilegast við valið á listunum í Reykjavík er þó hversu sterkur Alfreð Þorsteinsson, fyrrum borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og R-listans, er enn. Hann lagðist gegn valinu á Magnúsi Árna Skúlasyni í annað sætið á eftir Sigmundi í Reykjavík norður. Alfreð fór í ræðustól og talaði eindregið gegn þeim valkosti og náði að snúa það niður með þeim orðum að "ekki þyrfti að sækja spillingu í aðra flokka". Alfreð er greinilega enn sterki maðurinn í Reykjavík þó þrjú ár séu liðin frá því hann vék af leiðtogastóli í borgarmálunum.

Auk þess vekur athygli að Vigdís Hauksdóttir, mágkona Guðna Ágústssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, hafi unnið slaginn um fyrsta sætið í Reykjavík suður við Einar Skúlason, skrifstofustjóra þingflokksins, og Hall Magnússon, moggabloggara. Báðir eru mjög traustir og voru sigurstranglegir valkostir. Einar tekur annað sætið á eftir Vigdísi. Hann var eitt sinn kosningastjóri R-listans (í síðustu borgarstjórnarkosningum ISG 2002) og augljóst að Samfylkingin vildi fá hann í sínar raðir.

En Sigmundur Davíð tekur pólitíska áhættu með því að fara fram í Reykjavík. Ekkert er tryggt þar og því verður þetta mikil pólitísk áskorun fyrir hinn unga formann. Nái hann kjöri og að endurreisa Framsókn á mölinni á hann sér góða pólitíska framtíð. Nái hann hinsvegar ekki kjöri verður staða hans mjög erfið og veik í kjölfarið.

mbl.is Sigmundur í Reykjavík norður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jóhannsson

Sammála þér Kaldi...

Halldór Jóhannsson, 7.3.2009 kl. 19:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband