Skorað á Jóhönnu til að koma í veg fyrir átök

Samfylkingarmenn um allt land eru nú byrjaðir að skora á Jóhönnu Sigurðardóttur um að gefa kost á sér til formennsku í stað Ingibjargar Sólrúnar til að koma í veg fyrir fylkingamyndanir og harkaleg átök um forystuna á landsfundi í lok mánaðarins. Augljóst er að engin samstaða er um eftirmann Ingibjargar Sólrúnar nema þá Jóhanna taki hlutverkið að sér. Greinilegt er að það hefur verið mikið áfall fyrir fjölda fólks að Jóhanna skyldi skjóta formannshugleiðingarnar niður allt að því á sama augnabliki og Ingibjörg Sólrún kvaddi, hálfpartinn með tárin í augunum.

Greinilegt var að þessi pólitíska kveðjustund var mjög erfið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, enda verið í pólitík mjög lengi og kveður við erfiðar aðstæður, enda gengur hún ekki heil til skógar og er ekki lengur óumdeild. Á átta dögum komu veikleikar hennar í ljós á öllum sviðum. Hún naut ekki lengur ótvíræðs stuðnings og hefur auk þess ekki lengur líkamlegan þrótt til að vera í forystusveit fyrir stjórnmálaflokk í kosningabaráttu. Plott hennar um að halda völdum og sjá til, en um leið búa til eftirmann, gekk einfaldlega ekki upp.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur á þessu kjörtímabili öðlast mjög sterkan sess í forystusveit Samfylkingarinnar. Á meðan bæði Ingibjörg og Össur veiktust vegna bankahrunsins styrktist hún. Upphaflega átti að láta hana fara í þingforsetaembættið á þessu ári og klára kjörtímabilið og ferilinn þar. Nú er hún orðin ótvíræður leiðtogi Samfylkingarinnar án þess þó að hafa þann titil að nafninu til. En Jóhanna er að verða 67 ára gömul, orðin greinilega svolítið þreytt og hugsar til pólitískra endaloka.

Annað hvort er henni alvara um að klára verkefnið sem hún hefur, þá til bráðabirgða, eða að búa til eftirspurn eftir sér. Jóhanna hefur sem forsætisráðherra þá stöðu að leiða í raun pólitíska baráttu flokksins síns. En hún er hinsvegar gamalt andlit í pólitískri baráttu - hefur setið á þingi frá vinstrisveiflunni árið 1978, fór á þing með Vilmundi Gylfasyni, arkitekt þeirrar sveiflu, og hefur mikla reynslu að baki. Slíkt er bæði kostur og galli á breytingaári í stjórnmálum.

Dagur bíður greinilega á hliðarlínunni. Hann átti að verða varaformaðurinn hennar Sollu og valinn arftaki - staðgengill hennar og eftirmaður mjög fljótlega sennilega. Brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar markar þá framtíð mikilli óvissu. Hann kemst ekki í borgarprófkjörið nema kjörnefnd skvísi honum inn með valdi að ofan á allra síðustu stundu, sem yrði mjög vandræðalegt, tel ég. Auk þessu eru aðrir á hliðarlínunni, t.d. Lúðvík Geirsson, Árni Páll og Björgvin Sigurðsson.

Svo er það Jón Baldvin. Hann býður greinilega Jóhönnu að fá stólinn og hætti þá við endurkomuna margfrægu, sem er frekar vandræðaleg og pínleg en nokkru sinni tignarleg heimkoma postulans margreynda. Hann er fjarri því vinsæll og virðist á einni nóttu orðinn hataður meðal vissra hópa í flokknum. Glæpur hans var að ráðast að hinum fallandi leiðtoga, sem féll á átta örlagaríkum dögum vegna þess að heilsa hennar og pólitískur styrkleiki var farin.

Þetta stefnir í mikið skuespil, skemmtilegt það. Annað hvort hættir Jóhanna við að hætta eða við fáum skemmtilegan vinstrifarsa um völdin, þar getur margt gerst og ýmis öfl verið leyst úr læðingi - öfl sem Ingibjörg Sólrún gat ekki ráðið við undir lokin. Gleymum því ekki að margir ólíkir hópar eru saman undir merkjum Samfylkingar og ISG var límið sem hélt þeim öllum saman sem hinn sterki leiðtogi.

mbl.is Jón Baldvin skorar á Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg Sólrún hættir í stjórnmálum

Ég held að ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að hætta þátttöku í stjórnmálum komi engum að óvörum. Hún er mjög veikburða og þarf að ná áttum, auk þess sem hún er orðin dragbítur fyrir Samfylkinguna eftir bankahrunið. Kannanir síðustu daga hafa sýnt svo ekki verður um villst að styrkleiki hennar í pólitískri baráttu er ekki lengur til staðar, hún er ekki lengur sá leiðtogi sem höfðar mest til kjósenda og staða hennar hefur veikst umtalsvert innan eigin raða.

Enginn vafi leikur á því að Ingibjörg Sólrún var þar til fyrir nokkrum mánuðum ótvíræður leiðtogi Samfylkingarinnar og hefði engum órað fyrir því fyrir ári að hún myndi þurfa að yfirgefa pólitíska forystu, ekki frekar en Geir H. Haarde. Styrkleiki þeirra beggja hrundi á sama tíma, enda ábyrgð þeirra beggja í aðdraganda bankahrunsins ótvíræð. 

Ingibjörg Sólrún reyndi að snúa vörn í sókn með því að halda ótrauð áfram, en hún fékk óblíðar móttökur, enda var uppsetning kosningabaráttunnar sem kynnt var á blaðamannafundi um síðustu helgi klaufaleg og vandræðaleg, sérstaklega að ákveðið væri fyrirfram hverjir yrðu í þremur efstu sætunum í Reykjavík.

Þar sem framboðsfrestur er liðinn er eflaust velt fyrir sér hvað muni gerast innan Samfylkingarinnar. Mikið er talað um Dag B. Eggertsson sem nýjan formann, en hann getur ekki farið í prófkjörið í Reykjavík, en bæði Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa gefið formannsstólinn frá sér.

Væntanlega verður líflegur slagur um formennskuna í Samfylkingunni nú. Jón Baldvin sagðist fara fram til að stöðva Ingibjörgu Sólrúnu. Mun hann halda fast við framboð sitt eða mun unga kynslóðin í flokknum taka forystuna yfir við þessar breyttu aðstæður?

mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolbrúnu hafnað af vinstri grænum í Reykjavík

Skilaboð vinstri grænna í Reykjavík til Kolbrúnar Halldórsdóttur, umhverfisráðherra, eru mjög skýr. Þeir vilja hana ekki lengur í forystu framboðslista í Reykjavík og ekki heldur að hún verði áfram þingmaður þeirra. Sem sitjandi leiðtogi á öðrum framboðslistanum í kosningunum 2007 og sitjandi ráðherra fær hún skell. Þetta vekur mikla athygli, einkum í kjölfar nýjustu fjölmiðlaframkomu hennar. Mér finnst ekki óvarlegt að álykta að verið sé að hafna túlkun hennar í þeim efnum, allavega forystu hennar þar.

Ég skynja að Kolbrún er mjög reið. Slíkt má lesa milli línanna í orðum hennar. Eðlilegt svosem. Það gerist ekki á hverjum degi að sitjandi ráðherra fái slíka niðurlægingu. Maður hefði frekar skilið það í Samfylkingunni, þar sem fólki varð á og brást á vaktinni á örlagatímum. Þar eru leiðtogarnir hinsvegar kallaðir upp, meira að segja viðskiptaráðherrann sem steinsvaf á vaktinni í stað þess að standa sig.

Þessi úrslit þýða væntanlega að Kolbrún þarf að víkja til hliðar, væntanlega fyrir Ara Matthíassyni þegar listanum verður raðað upp. Er ekki kynjakvótinn annars í fullu gildi?

mbl.is Keik og stolt í sjötta sætinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín og Svandís í forystu - Kolbrún fær skell

Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir styrkjast í sessi sem framtíðarleiðtogar VG með sigrinum í prófkjöri flokksins í Reykjavík í dag. Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, fær mikinn skell í prófkjörinu og fellur niður í sjötta sæti, sem er ekki þingsæti miðað við stöðuna í dag. Hefur ekki gerst lengi að sitjandi ráðherra fái annan eins skell. Kemur svosem varla að óvörum, enda hefur hún verið að veikjast í sessi og mældist nýlega óvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Þetta kemur í kjölfarið á varnarstöðu hennar gegn álverum og tali gegn atvinnusköpun tengdri stóriðju síðustu dagana þar sem hún reyndi að beita sér gegn stjórnarfrumvarpi. Langt síðan ráðherra hefur beitt sér jafn mikið gegn augljósum meirihlutavilja í þinginu. Þar talaði hún gegn uppbyggingu á Austurlandi og því að horfa til vilja íbúanna í Húsavík og nærsveitum.

Auk þess fær Álfheiður Ingadóttir sinn skell, en hún fellur úr þingsæti miðað við stöðuna í dag. Í staðinn koma Svandís og Lilja Mósesdóttir, sem í raun hlýtur að teljast sigurvegari prófkjörsins, enda ný í pólitísku starfi en hún hefur verið mikið í fréttum eftir efnahagshrunið.

Með þessari niðurstöðu stimplar Svandís sig inn í landsmálin og heldur til verka þar og lætur forystusætið í borgarstjórn eftir á næstu vikum. Væntanlega mun hún ætla sér að ná formannssætinu rétt eins og Katrín, þegar Steingrímur fer af velli.

mbl.is Katrín og Svandís efstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siv heldur velli í SV - sögulegur kvennasigur

Ég vil óska Siv Friðleifsdóttur innilega til hamingju með glæsilegan sigur í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Sótt var að henni í þessum slag af sitjandi þingmanni úr Suðurkjördæmi en hún hafði sigur, heldur velli og verður áfram ein af forystumönnum Framsóknarflokksins. Hún er eini kjördæmaleiðtogi flokksins úr kosningunum 2007 sem verður í kjöri í þessum alþingiskosningum og hefur lifað af pólitískt hina miklu uppstokkun innan flokksins frá afhroðinu mikla þegar Halldórsarmurinn missti tökin á flokknum. Mikið afrek hjá Siv.

Þetta er reyndar sögulegt prófkjör kynjalega séð, enda í fyrsta skipti svo ég viti til á Íslandi sem konur eru í fimm efstu sætum í slíkri kosningu. Slíkt er eflaust mjög sjaldgæft þó víðar væri leitað. Þarna verða konur fyrir hinum margfræga kynjakvóta og verða tvær þeirra færðar niður fyrir karlmenn. Ég hef aldrei skilið þessa kynjakvóta, enda geta þeir verið tvíeggjað sverð. Mér finnst það eiginlega sorglegt þegar setja þarf slíkar girðingar til að tryggja stöðu kvenna og það á árinu 2009.

mbl.is Siv efst í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband