VG færist nær SF - vond staða Sjálfstæðisflokks

Könnun Gallups ber merki þess að vera gerð í hita og þunga styrkjamálsins í Sjálfstæðisflokknum. Stóru tíðindin að mínu mati eru að VG er hársbreidd frá því að verða stærsti flokkur landsins og gæti hæglega stækkað um meira en helming haldi þessi bylgja fram að kjördegi eftir níu daga. Eðlilegt er að spyrja sig hvort Steingrímur J. Sigfússon verði ekki forsætisráðherra í vinstristjórn fari kosningar í þessa átt. Þeir hljóta að gera tilkall til að fá forsætið hluta af næsta kjörtímabili í það minnsta verði þetta úrslit kosninga.

Þessi staða er vægast sagt mikið áhyggjuefni fyrir sjálfstæðismenn um allt land. Forysta flokksins tók mikla áhættu með því hvernig styrkjamálið var klárað án þess að ganga hreint til verks og virðist ætla að taka þeim dómi hvernig sem hann fer. Þessi staða gefur til kynna að flokkurinn sé í frjálsu falli og nái ekki vopnum sínum undir nýrri forystu. Hún tekur erfið mál í arf frá þeim sem stjórnuðu flokknum á síðustu árum. Gamla forystan fær líka þau eftirmæli að hafa klúðrað málum, vægast sagt.

Greinilegt er að mikið flökt er á fylgi flokkanna. Fjarri því ljóst enn hvernig fer. Margir taka ekki afstöðu og sumir munu bíða alveg þar til í kjörklefanum með að taka afstöðu. Eitt er þó að verða augljóst; mestu umbreytingar í íslenskum stjórnmálum í lýðveldissögunni virðast í sjónmáli. Sjálfstæðisflokkurinn fer stórlega skaddaður til kosninga og talsverðar líkur á að hann missi sögufræga stöðu sína sem forystuafl.

mbl.is VG í sókn - Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgið á fleygiferð í NA - margir óákveðnir

Stærstu tíðindin í könnun Gallups hér í Norðausturkjördæmi er hversu margir taka ekki afstöðu, tæp 40%. Kosningabaráttan hefst ekki fyrir alvöru hér fyrr en með borgarafundinum í kvöld, hefðin er sú að mesti hitinn í baráttunni hér eru tíu dagar. Framsókn tókst að vinna kosningarnar í Norðaustri á innan við tíu dögum árið 2003 og bætti við sig á lokasprettinum síðast á kostnað vinstri grænna og náði þriðja manni inn, þvert á allar spár. Fylgið hefur jafnan verið á fleygiferð síðustu dagana og ég tel núna að margir muni hreinlega ekki ákveða sig fyrr en á kjördegi.

Staða Sjálfstæðisflokksins styrkist frá síðustu kjördæmakönnunum, þar sem fylgið var nánast í frjálsu falli og staðan grafalvarleg. Staða Tryggva Þórs virðist orðin mjög trygg, ef marka má þetta. Stærsta áhyggjuefni Sjálfstæðisflokksins er þó án nokkurs vafa hversu lágt fylgið er hér á Akureyri. Staðan hér er ekki gæfuleg þegar litið er til næstu sveitarstjórnarkosninga sé þetta áreiðanleg mæling. Kosningabaráttan næstu dagana verður mælikvarði á styrk Kristjáns Þórs. Útkoman ræður miklu um pólitíska framtíð hans og styrk á þingi næstu árin.

Ég átti von á að Samfylkingin væri með meira, sérstaklega miðað við stöðuna á landsvísu. Ég yrði ekki hissa þó Kristján Möller væri dragbítur á þá að þessu sinni. Síðast tapaði Samfylkingin nokkru fylgi hérna og varð minni en Framsóknarflokkurinn. Slíkt virðist ætla að gerast aftur núna þrátt fyrir nokkra endurnýjun, en Sigmundur Ernir kemur nýr inn og Jónína Rós hefur færst upp í þriðja sætið. Samfylkingunni hefur tvisvar mistekist að gera það að þingsæti, þegar Lára komst ekki í kjördæmasæti 2003 og jöfnunarsæti 2007, missti það í báðum tilfellum til Framsóknar.

Mér finnst merkilegt hvað Framsókn er að styrkjast og ansi margt sem bendir til að þeir fái mest fylgi hérna í vor, rétt eins og 2003. Framsókn hefur oftast verið vanmetin í könnunum hér, þetta sást í síðustu tveimur kosningum. Ég held að þeir hafi misst mikið með brotthvarfi Völlu Sverris. Hún er pólitísk kjarnakona, enginn fetar í fótspor hennar. Þó bæði Birkir og Höskuldur séu traustir ungir menn eiga þeir enn nokkuð í land að ná pólitískum styrkleika Völlu. Ekki hefur mikið borið á nýju konunni í vonarsæti, Huld, en mér sýnist samt stefna í að hún komist inn.

VG hefur áður mælst með mikið fylgi í aðdraganda kosninga en tekist að glutra því niður. Stóra spurningin næstu dagana er hvort Steingrími haldist á þessu mikla fylgi. Síðast varð VG minnstur fjórflokkanna þrátt fyrir að leiða í mörgum kjördæmakönnunum, missti dampinn á mikilvægum tímapunkti. Ekki er lengur eins öruggt að þeir nái inn þremur kjördæmakjörnum mönnum og þá getur margt farið að gerast með jöfnunarsætið.

En ómögulegt er að spá í hvernig fer. Þetta er ágætis vísbending um styrkleika Framsóknar, möguleika VG, veikleika Samfylkingar og brothætta stöðu Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega á Akureyri, sem þó hefur styrkt sig frá síðustu könnun. Litlu framboðin virðast lítinn styrk hafa.

Baráttan hér hefst nú fyrir alvöru. Fjölmargir hafa ekki tekið afstöðu og nú ræðst hvernig framboðunum muni ganga að höfða til þeirra sem hafa ekki ákveðið sig.

mbl.is VG stærst í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Absúrd-skriffinnska hjá Umhverfisstofnun

Sagan af hreindýrskálfinum Líf er að mínu mati stórmerkileg. Auðvitað er ótrúlegt að þessi umhyggja fyrir særðu dýri mæti engum skilningi í absúrd skriffinnsku hjá Umhverfisstofnun. Mér finnst það hrein lágkúra að hóta þeim sem hafa annast dýrið og fóstrað það að aflífa það.

Dagbjört hefur staðið sig vel í fjölmiðlum að vekja athygli á málinu og ég vona að kærleik sé einhversstaðar að finna í þessari stofnun. Ég vona að hún hafi sitt fram, enda er ekkert sem mælir með svo groddalegri framkomu Umhverfisstofnunar.


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samsæriskenningar í veruleikafirringu Ástþórs

Ástþór Magnússon, þingframbjóðandi og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, átti stórleik í samsæriskenningasmíðum í viðtali á Rás 2 í dag. Þetta hlýtur að teljast eitt kostulegasta viðtal á þeirri stöð í áraraðir. Vorkenni Frey Eyjólfs að sitja yfir þessu rugli. Eins og venjulega tekst Ástþóri alltaf að koma fólki á óvart í þessari kosningabaráttu, þó hann hafi verið í sviðsljósinu hér heima á Fróni fyrir sama leikaraskapinn í þrettán ár sem frambjóðandi og baráttumaður fyrir sínum málstað, sem fáir virðast styðja. Veit ekki hvort hann sé misskilinn eða stórundarlegur, kannski undarleg blanda af báðu.

Oftast nær minnir Ástþór mig á samsæriskenningasmiðinn í Spaugstofunni sem sér eitt stórt samsæri í hverju horni og virðist einn í sínu trúboði og sannfæringu. Mér finnst það samt einum of að ætlast til þess að fólk trúi því að fjölmiðlar séu að eyðileggja fyrir honum markvisst, þegar hann fær fulla aðkomu að kosningaþáttum og hefur fullt tækifæri til að vekja athygli á sér. Auk þess að auðmenn séu að eyðileggja fyrir honum þingframboðið sitt. Þetta er algjört rugl.

Ástþór verður auðvitað að átta sig á því að það eru kosningalög í landinu. Þegar einhver skilar inn nafnalistum í stafrófsröð, ekki niðurskipt á kjördæmi og hefur ekki tilskilinn fjölda meðmælenda og vantar undirskriftir sjálfra frambjóðendanna þarf að laga það ella að ógilda listana. Geti Ástþór ekki sinnt skilmálum fyrir öll framboð á landsvísu er það hans eigin hausverkur, ekki annarra.

En endilega hlustið á viðtalið. Þetta er merkilegt show, svo ekki sé nú meira sagt.


Bloggfærslur 16. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband