Snillingurinn Arshavin - staða Man Utd styrkist

Rússneski knattspyrnumaðurinn Andrei Arshavin fór aldeilis á kostum á Anfield í kvöld og tók fernu með snilldartöktum og tryggði stöðu Manchester United í forystu deildarinnar með því að taka stig af Liverpool. Þvílíkur snillingur sem þessi strákur er, enginn vafi að þessi rússneski snillingur er einn öflugasti knattspyrnumaður samtímans og eitt mesta efnið í dag.

Þeir sem styðja Manchester United gleðjast í kvöld, segi ekki annað. Meistarataktar Arshavin gleður fleiri en Arsenal-stuðningsmenn. :)

mbl.is Liverpool í toppsætið - Arshavin með fernu fyrir Arsenal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeðlileg íhlutun í íslenska kosningabaráttu

Ég er alveg sammála Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að íhlutun sendiherrans hjá ESB er óeðlileg íhlutun í íslenska kosningabaráttu. Við látum auðvitað ekki skriffinnskumenn hjá bákninu mikla stjórna okkar pólitík og hvernig við túlkum þau lykilatriði sem okkur mestu skipta eða stefnumótun flokkanna hér, hvort sem þeir eru hlynntir eða andvígir aðild. Við berum okkur sjálf eftir því að meta okkar stöðu og hvaða valkosti við höfum.

Er mjög ánægður með að formaður flokksins ætlar Tryggva Þór Herbertssyni stóran sess innan flokksins í efnahagsmálaumræðu komandi mánaða og ára. Sú ákvörðun að hafa hann með formanni og varaformanni flokksins á þessum blaðamannafundi sýnir styrkleika Tryggva og að hann muni hafa lykilhlutverk í þingflokknum á komandi árum. Er ég ekki undrandi á því enda Tryggvi í sérflokki.

mbl.is ESB blandar sér í kosningabaráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. skensar "höfðingjana" í Samfó

Steingrímur J. Sigfússon sendi hörð skot til Samfylkingarinnar eftir hádegið í dag þegar hann skensaði Árna Pál Árnason og Björgvin G. Sigurðsson fyrir áherslur sínar í Evrópumálunum. Orðalagið vekur athygli, en hann segist senda "þessum höfðingjum" kveðju og segir mjög óskynsamlegt hjá þeim að loka sig af með yfirlýsingum. Eftir augljósar sprungur á vinstristjórnarvalkosti vegna skoðunaágreinings um Evrópumálin á pólitískum fundum í sjónvarpi í gærkvöldi verður yfirlýsing Steingríms enn áhugaverðari.

Augljóst er að VG ætlar að taka þessa umræðu á eigin hraða en ekki sætta sig við að Samfylkingin drottni yfir hana og stjórni þeim til verka. Steingrímur J. minnir í þessum efnum á oddastöðu sína eftir kosningar og að hann muni ráða för en ekki aðrir. Skilaboðin eru afgerandi og þeir hljóta að skjálfa í Samfylkingunni sem hafa lokað sig af með þessu máli og sent út yfirlýsingar um að þeir setji afstöðu sína sem kröfu og muni ekki semja um annað.

Steingrímur J. mun verða mjög erfiður í samningum eftir kosningar nái vinstriflokkarnir meirihluta og í raun má segja að hann gefi út vísbendingar í þá átt að hann muni ekki láta Samfylkinguna valta yfir sig. Óbeint bendir hann þeim líka vinsamlega á að þeir séu innilokaðir með VG í samstarfi, enda muni Sjálfstæðisflokkurinn ekki vinna með þeim aftur. Þetta er skarplega metið hjá Steingrími. Hann er kænn og einbeittur.


mbl.is Til Evrópu með VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þáttaskil í íslenskum stjórnmálum um helgina?

Enginn vafi leikur á því að það yrði pólitískur jarðskjálfti á Íslandi ef úrslit þingkosninganna verða í líkingu við það sem Gallup mælir í dag. Sterk staða vinstriflokkanna gerir að verkum að vinstristjórn verður fyrsti valkostur að loknum kosningum. Nú ræðst hvort kjósendur vilja færa flokkunum tveimur það afgerandi umboð og um leið refsa Sjálfstæðisflokknum, veita honum mesta skell í sögu sinni. Velgengni Borgarahreyfingarinnar, fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu, hefur komið þeim á kortið og þeir virðast líklegir til að taka stöðu Frjálslynda flokksins sem fimmta aflið til hliðar við fjórflokkinn margfræga.

Mér fannst stórpólitísk tíðindi, í raun þáttaskil í kosningabaráttunni, eiga sér stað í gærkvöldi þegar Katrín Jakobsdóttir og Atli Gíslason sögðu afdráttarlaust að ESB-aðildarviðræður yrðu ekki á dagskrá í sumar ef VG fengi að ráða á meðan Árni Páll Árnason og Björgvin G. Sigurðsson fóru í þveröfuga átt og sögðu ESB verða aðalmál þeirra í stjórnarmyndunarviðræðum, bæði fyrsta mál og forgangsmál til að hefja viðræður. Þetta tvennt fer ekki saman og þegar við bætist að Steingrímur J. vill verða forsætisráðherra getur allt gerst.

Ég velti fyrir mér hvort niðurstaðan verði kannski að Samfylkingin gefi eftir forsætisráðuneytið fyrir einhverja útvatnaða Evrópukeyrslu undir leiðsögn vinstri grænna. Mun Samfylkingin fórna Jóhönnu fyrir samstarf með Steingrími? Ef það gerist ekki er ekki ósennilegt að Steingrímur J. heimti utanríkisráðuneytið og taki þá yfir leiðsögn einhverra viðræðna við ESB eða keyri á þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um aðild, líkt og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa samþykkt sem stefnumörkun.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur illa, eins og ég hef oft farið yfir í skrifum undanfarnar vikur, bæði hér á bloggvefnum og síðast í grein á amx á föstudagskvöldið. Ég tel að þeir eigi í höggi við svipaðan djöful og breski Íhaldsflokkurinn árið 1997 og bandaríski repúblikanaflokkurinn árið 2008 að margir kjósendur vilja kjósa hann frá og refsa honum þrátt fyrir marga góða frambjóðendur. Enn er líka spurt um hvaða áhrif á flokkinn styrkjamálið hafði.

Þetta verða spennandi dagar fram að kosningum. Gærdagurinn var tíðindamikill og opnaði í raun nýja kosningabaráttu, enda kom þar í ljós að í ríkisstjórninni eru töluð tvö gjörólík tungumál um Evrópumálin.


mbl.is O-listi fengi fjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólabókardæmi um Brusselvaldið alræmda

Björn Bjarnason, alþingismaður og fyrrum dómsmálaráðherra, hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að sendiherra ESB sé að ganga hagsmuna Brusselvaldsins alræmda með viðbrögðum við evruútspili Sjálfstæðisflokksins. Þessi vinnubrögð skriffinnskumanns með óljóst umboð nema til að þjóna valdinu á heimaslóðum koma engum að óvörum og eiginlega undarlegt að þetta sé frétt að mati sumra hérna heima. Átti einhver von á öðrum yfirlýsingum úr þessari átt?

Ég hef aldrei átt von á því að við fáum einhverja sérsamninga eða alvöru undanþágur frá valdboði ESB og skipunum þaðan og þetta dæmi segir svosem sína sögu. Gárungarnir segja reyndar að ESB-viðræður okkar væru eins og viðræður Akureyrarbæjar og Grímseyjarhrepps um sameiningu. Fáir trúa því að Grímsey muni stjórna Akureyri ef af sameiningu verður.

mbl.is Dólgsleg árás, segir Björn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin ESB-samstaða í vinstristjórninni

Mjög mikilvægt að það sé orðið opinbert og kristaltært að engin samstaða verður um Evrópusambandsaðild og viðræður við ESB í vinstristjórn nema að vinstri grænir leggist flatir undir Samfylkinguna og gefi áherslur sínar eftir. Reyndar hefur verið talað svo skýrt á framboðsfundinum á Selfossi að augljóst að himinn og haf er á milli vinstriflokkanna í þessum efnum. Reyndar átti að fela ágreininginn eða reyna að fela að annar flokkurinn mundi beygja sig undir hinn bara fyrir völdin.

Ég hef reyndar velt því fyrir mér í nokkrar vikur um hvað vinstristjórn ætti að verða mynduð nema þá fyrir sameiginlega þrá vinstrimanna um að sitja saman að völdum og njóta þeirra á meðan allt brennur í kringum þá, samfélagið fuðri upp. Augljóst er að vandinn hefur aðeins aukist síðustu mánuði og reyndar verið aðeins lengt í snörunni, en ekki tekið á vandanum af neinni alvöru. Aðeins smáskammtalækningar hafa komið frá vinstristjórninni.

Og nú er blekkingarleikurinn um Evrópusambandsaðild hjá vinstristjórn endanlega úr sögunni. Ekki náðist saman um það í þessari skammlífu stjórn og nú er ljóst að samstaðan er engin eftir kosningar. Um hvað verður vinstristjórn mynduð þegar ljóst er að VG ætlar ekki að beygja sig fyrir Samfylkinguna og aðaldekurmál þeirra í krísutíðinni?

mbl.is Evrópustefnan verði á hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband