Algjörlega til skammar fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það til skammar fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa þegið 30 milljón króna styrk frá FL Group í árslok 2006. Þetta hlýtur að vera erfitt fyrir þá að verja sem stýrðu flokknum á þessu tímabili. Þetta vekur margar spurningar, sem eðlilegt er að fá svör við að mínu mati. Fyrir okkur almenna flokksmenn er þessi styrkveiting með öllu óverjandi og ég vil fá svör frá þeim sem stýrðu flokknum á þessum tíma.

Tvennt vekur þó óneitanlega meiri athygli í mínum augum umfram annað. Í fyrra lagi; þessi styrkveiting kemur skömmu eftir að tilkynnt var að Kjartan Gunnarsson myndi hætta sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og stuttu eftir margumtalað prófkjör í Reykjavík þar sem hart var tekist á og Björn Bjarnason varð undir í harðvítugum leiðtogaslag. Enn ganga kjaftasögur um aðkomu fjársterkra manna að þeim slag.

Í seinna lagi (og það sem er stóra fréttin); þetta er á mörkum þess tíma sem ný lög um opið bókhald og hámarksstyrki tóku gildi. Örfáum dögum áður en nýtt upphaf verður í bókhaldi flokkanna kemur þessi mikla upphæð til Sjálfstæðisflokksins. Þetta er það stórt mál að það verður að tala hreint út um það. Mér sem flokksbundnum sjálfstæðismanni finnst þetta alveg til skammar.

mbl.is 30 milljóna styrkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómerkileg framkoma

Framkoman við Sigrúnu Björk Ólafsdóttur er mjög lágkúruleg, enda henni sagt upp störfum aðeins vegna þess að hún var Íslendingur í Bretlandi þegar það var ekki vinsælt að vera það. Ég hef reyndar heyrt ansi margar sögur í þessa átt, að íslensku fólki hafi verið sýnd hrein lítilsvirðing þegar í ljós hafi komið hvaðan það kom, sérstaklega fyrst eftir hrunið. Þetta er mikið þjóðaráfall vissulega, enda hafa Íslendingar getað borið höfuðið hátt á alþjóðavettvangi og haft mikil tækifæri. Í einu vetfangi virðist það hafa breyst.

Þeir sem ég hef talað við og eru erlendis, einkum í Bretlandi, sögðust í haust í raun hafa misst sjálfsvirðinguna yfir að vera Íslendingar, sérstaklega fyrst eftir bankahrunið. Ég skil það mjög vel ef þetta er framkoman sem landar okkar verða fyrir á erlendri grundu.


mbl.is Var rekin vegna þjóðernis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grjótkast úr glerhúsi - enginn sáttahugur

Mér fannst það koma úr hörðustu átt þegar Íslandsmeistararnir í ræðuhöldum á Alþingi, Steingrímur og Jóhanna, sökuðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins um málþóf í dag. Eins og að kasta grjóti úr glerhúsi. Veit ekki betur en Jóhanna talaði í tíu tíma samfleytt gegn húsnæðismálalögum Páls Péturssonar árið 1998 og enginn hafi toppað það né muni nokkru sinni gera það. Steingrímur J. hefur löngum verið sá sem talar mest á þingi - hann og Jón Bjarnason réðu lögum og lofum í langhundum úr ræðustóli lengst af. Þetta vita allir.

Mér finnst sáttahugur stjórnarflokkanna enginn, eða vægast sagt lítill, þegar kemur að stjórnarskrárfrumvarpinu. Mér finnst það afleitt þegar ekki er lagt upp með það frá upphafi að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu í stað þess að fara einstefnu með fyrirframákveðnar forsendur. Ég geri skýran greinarmun á venjulegum frumvörpum og nöldri um þau og sjálfa stjórnarskrána. Mér finnst ekki eðlilegt að vinna í henni á hundavaði og í tímaþröng - verklag sem flestir sérfræðingar hafa gagnrýnt.

Nú reynir á sáttina. Sjálfstæðismenn hafa komið með góða tillögu til sátta. Nú reynir á hvort hægt sé að ljúka þessu kjörtímabili með sóma fyrir þingræðið, mun frekar en framkvæmdavaldið.

mbl.is Sjálfstæðismenn leggja fram sáttatillögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. orðinn ráðalaus á vaktinni

Ástandið í íslensku samfélagi er grafalvarlegt. Krónan riðar til falls. Fátæklegar tilraunir stjórnvalda til að taka á vandanum hafa engu skilað. Mannabreytingar í Seðlabankanum hafa engu breytt nema því að ríkisstjórnin getur ekki lengur kennt Davíð Oddssyni um hvert stefnir. Nú er Steingrímur J. Sigfússon orðinn ráðalaus á vaktinni og getur engu svarað. Hann getur ekki skýrt veikingu krónunnar og er orðlaus, sennilega í fyrsta skiptið mjög lengi á sínum ferli.

Hvað hefði þessi orðhvati forystumaður sagt væri hann í stjórnarandstöðu núna? Ég efast um að hann væri orðalaus þyrfti hann enga ábyrgð að bera. Hin napra staðreynd málsins er að þessi ríkisstjórn er alveg ráðalaus og virðist ekki geta staðið í lappirnar og tekið erfiðar ákvarðanir.

mbl.is Kann ekki skýringar á veikingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Batakveðjur til Geirs

Ég tel að allir landsmenn hugsi jákvætt til Geirs Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í veikindum hans þó ólíkar skoðanir hafi verið á honum sem stjórnmálamanni, sérstaklega undir lokin. Ég vil færa honum og fjölskyldu hans innilegar baráttukveðjur og vona að hann sigrist á þessu meini.

mbl.is Geir gekkst undir framhaldsmeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manndrápsakstur í umferðinni

Enn og aftur berast fregnir af ökumönnum sem keyra um á manndrápshraða, keyra langt yfir hraðamörk og jafnvel í vímuástandi. Akstur á þessum hraða og við þessar aðstæður flokkast ekki undir neitt annað en hreinan háska, enda eru í senn bæði ökumaðurinn og þeir sem hann mætir í lífshættu vegna þess. Hvað er fólk að hugsa þegar að það keyrir á slíkum hraða eða hvað fer í gegnum huga þess á meðan? Eða sennilega hugsar það auðvitað ekki neitt, þeysir bara áfram hugsunarlaust.

Ætla að vona að við séum ekki komin í biðferli eftir banaslysi, þar sem ökumaður á háskahraða drepur jafnvel fjölda fólks með hugsunarleysi sínu og gerræðislegum ákvörðunum. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni hversu alvarleg staðan er í umferðarmálum. Búið er að tala vel og reyndar mjög lengi um að úrbóta sé þörf - taka verði á þessum augljósa vanda. Fara þarf að gera eitthvað meira en bara tala. Auðvitað er það dapurlegt þegar fólk tekur þá ákvörðun að geisast áfram á kolólöglegum hraða og jafnvel í vímu.

Þeir sem keyra svona bera ekki einu sinni virðingu fyrir sjálfu sér og hvað þá þeim sem það mætir á leið sinni. Í sjálfu sér tel ég þetta orðið eitt mesta vandamálið í umferðinni í dag. Engin trygging er fyrir því þegar fólk sest undir stýri og heldur út í umferðina að það mæti ekki fólki undir áhrifum vímugjafa - út úr heiminum í sínu annarlega ástandi.

mbl.is Stefndi inn í íbúðahverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband