8.4.2009 | 20:30
Geir tekur skellinn - persónulega hrunið
Ég verð að segja eins og er að álit mitt á Geir H. Haarde er ekki mikið eftir yfirlýsingu kvöldsins. Hafði mikla trú á Geir og kaus hann af góðri trú sem formann Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 2005 og taldi hann mikinn sómamann sem tæki aðeins grandvarar og réttar ákvarðanir. Ég hef oft borið blak af honum. Það álit er í besta falli stórlega skaddað eftir þetta, ella hrunið algjörlega. Mér finnst ekki hægt að verja hann framar eftir þetta.
Þessi vinnubrögð, styrkveitingin og allar hliðar þess, er skólabókardæmi um siðleysi og vilji Geir taka ábyrgð á því tekur hann á sig fallið sem því fylgir af minni hálfu. Svo er það nærtækasta skýringin að Geir sé að taka skellinn mikla fyrir aðra sem unnu í umboði hans og enn eru á sviðinu. Ill örlög eru það.
Ný forysta Sjálfstæðisflokksins klárar málið annars með sóma og er þeim til mikils vegsauka. Þar er tekið fumlaust af skarið og málið klárað, eins og ég vonaðist eftir. En menn verða að marka sér siðferði og taka af skarið í þeim efnum en ekki falla í sukkpyttinn.
![]() |
Geir segist bera ábyrgðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.4.2009 | 17:44
Bjarni verður að taka á FL-málinu
Sé það rétt, sem flest virðist benda til, að Andri Óttarsson hafi haft milligöngu um þennan styrk verður honum ekki sætt lengur sem framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins að mínu mati. Ef forystan getur ekki tekið á því og afhjúpað hver gekk bónleiðar til FL Group er hún í miklum vanda.
Kjartan Gunnarsson hefur nú þegar sagt það, sem allir máttu svosem vita, að hann bar enga ábyrgð á þessu máli, enda öll völd í Valhöll komin annað á þeim tímapunkti sem styrkurinn kom. Því beinast öll bönd að framkvæmdastjóranum Andra.
Heiðarlegast væri að menn viðurkenndu ábyrgð á þessari óheillavænlegu og siðlausu styrkveitingu.
![]() |
Miðstjórn Sjálfstæðisflokks sat á fundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2009 | 13:04
Hver sótti styrkinn til FL og í hvaða tilgangi?
Ég vil fá svör frá yfirstjórn Valhallar um þessi mál sem fyrst og öll spil á borðið með verkferla í þessu styrkjamáli. Hver sótti styrkinn og í hvaða tilgangi. Ég sé reyndar REI-málið og allt það fjandans makk nokkurra manna við auðmenn í öðru ljósi eftir þetta og í raun má segja að það lýsist margar myrkar atburðarásir upp.
En algjörlega ólíðandi er að láta kjaftasögurnar grassera. Klára þarf málið fljótt og vel. Reyndar vekur athygli að Samfylkingin skellir í baklás og vill ekki gefa upp styrktaraðila á árinu 2006 og upphæðir sem vekur aðeins enn fleiri spurningar.
![]() |
Hafði ekki hugmynd um þetta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.4.2009 | 01:54
Týnda kynslóðin
Nokkur umræða hefur orðið í samfélaginu vegna þess hversu algengt er orðið um að auglýst sé eftir ungu fólki, flestu á aldrinum 13-17 ára. Svörin við aðstæðum þeirra sem hverfa með þeim hætti eru mörg og ólík, en stundum þó með svipaða forsögu. Oft er um að ræða ungmenni sem eru í neyslu af einhverju tagi eða sinnast á við foreldra sína. Á okkar tímum er mikill vandi víða og þar geta ungmennin farið út af sporinu og eiga erfitt með að rata á beinu brautina aftur.
Vissulega er hárrétt aðferð að láta lýsa eftir þeim unglingum sem ekki skila sér heim, í þeim efnum er biðin ekki góð. Sé eitthvað óvenjulegt eða þau koma ekki heim á eðlilegum tíma ber að lýsa eftir þeim. En þetta er orðið mjög algengt, allt að því sláandi og eðlilegt að spurningar vakni. Það er mjög algengt að svona tilfelli séu kennd við óreglu ungmenna og sumir gefa sér það alltaf fyrir fram að það tengist slíkum vandamálum. En kannski erum við að dæma þessa kynslóð of harkalega með því.
Sumir tala líka um netnotkun ungmenna, sem víða er farin úr böndunum. Ég skrifaði um þetta fyrir nokkrum mánuðum, ágætar hugleiðingar eftir að ég fékk póst frá fjórtán ára stelpu sem var að velta fyrir sér þessum vanda. Hún benti á netnotkunina, enda hefur gerst að netnotkun ungmenna fari svo úr böndunum að foreldrar ráði ekkert við börnin sín og dæmi um að lögreglan verði að skerast í leikinn til að jafna heimiliserjur, deilur foreldra og unglinga sem vilja nota netið meira en leyft er.
Erfitt er að gefa sér að eitt atriðið sem velt er upp sé meira ráðandi en annað. Full þörf er þó á því að taka þessa umræðu og velta þessu fyrir sér. Kannski er einn vandinn sá augljósi að vandinn sé hjá foreldrum, börnin fái ekki nógu mikla athygli og ástúð að þeir ögra foreldrum sínum.
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |