Fáránleg krafa um brotthvarf Valtýs

Mér finnst krafan um að Valtýr Sigurðsson víki alfarið sem ríkissaksóknari fjarstæðukennd. Hann hefur sjálfur vikið sæti í öllum málum sem tengjast efnahagshruninu og lýst sig vanhæfan. Sá hluti málsins ætti að vera í góðum farvegi og mikilvægt að skipa þegar ríkissaksóknara varðandi þessi mál.

Eigi Valtýr að víkja alfarið úr embætti sínu þarf að sýna fram á brot hans í starfi eða alvarleg mistök. Engar forsendur eru fyrir því. Ekki hafa komið fram málefnalegar ástæður fyrir brotthvarfi hans. Eðlilegt er samt að hafa skoðanir á veru hans í embættinu. Ekkert að því að taka þá umræðu.

En þegar við bætist að hann hefur þegar vikið sæti er eðlilegt að undrast á hvaða leið umræðan er.

mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónmundur nýr framkvæmdastjóri í Valhöll

Mér líst vel á þá ákvörðun forystu Sjálfstæðisflokksins að ráða Jónmund Guðmarsson, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, sem næsta framkvæmdastjóra flokksins. Jónmundur er traustur valkostur, vinnusamur og duglegur.

Framundan er mikil vinna fyrir flokksheildina og það skiptir öllu máli að yfir skrifstofunni í Valhöll sé einstaklingur sem kunni til verka og er tilbúinn í verkefnið.

mbl.is Jónmundur framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örvænting í svipbrigðum Jóhönnu og Steingríms

Heldur er það nú raunalegt að fylgjast með Steingrími J. og Jóhönnu tala um Icesave-samkomulagið þar sem þau ætla að stóla á stjórnarandstöðuna til að koma því í gegnum þingið. Örvæntingin er algjör - þessi díll er þeim ekki fastur í hendi í eigin liðsheild, enda fjórir eða fimm þingmenn VG sem ætla að greiða atkvæði gegn því.

Nú á að biðla til Sjálfstæðisflokksins að bjarga þessari hrörlegu vinstristjórn frá háðuglegu falli. Sjálfstæðisflokkurinn á að greiða atkvæði gegn þessum samningi, enda er ekki samið um þetta á þeirra vakt. Vinstriflokkarnir verða að sitja uppi með þennan samning og taka afleiðingunum.

Ekki er nú mikið eftir af hugsjónastjórnmálamanninum Steingrími J. frá Gunnarsstöðum. Hann getur ekki litið beint upp og framan í myndavélina þegar hann talar um þennan samning. Fáir menn hafa misst meiri trúverðugleika á skemmri tíma en hann.

Er ekki spurt aðallega um sannfæringu þingmanna? Eða hvað? Voru ekki að berast sögur um að Steingrímur J, sem vildi víst forðum daga að hver og einn kysi eftir sannfæringu hafi hellt sér svo harkalega yfir Lilju Mósesdóttur að hún brast í grát?

mbl.is Sjálfstæðismenn til bjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brotthvarf Gunnars - hver verður nýr bæjarstjóri?

Mér finnst það virðingarvert að Gunnar Birgisson hafi ákveðið að taka hagsmuni Sjálfstæðisflokksins og Kópavogsbæjar fram fyrir sína eigin og fallist á að víkja af bæjarstjórastóli. Gunnar hefur leitt lista Sjálfstæðisflokksins í fimm kosningum í röð og hlotið fimm bæjarfulltrúa í þeim öllum. Hann skilur við gott starf í valdatíð flokkanna tveggja allt frá 1990, enda mikil og öflug uppbygging verið í Kópavogi allan þann tíma.

Ákvörðun Gunnars vekur spurningar um forystumál Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi - eðlilega er spurt hver verði næsti bæjarstjóri og leiði flokkinn í næstu sveitarstjórnarkosningum. Við blasir að Gunnsteinn Sigurðsson og Ármann Kr. Ólafsson eru líklegastir til að taka við embættinu úr bæjarfulltrúahópnum. Gunnsteinn vann Ármann í kosningu um annað sætið á listanum fyrir síðustu kosningar.

Svo er auðvitað ekki óhugsandi að leitað verði út fyrir hópinn. Einn kosturinn er að Framsóknarflokkurinn fái bæjarstjórastólinn. Slík niðurstaða yrði samt nær óhugsandi einkum í ljósi þess að Framsókn galt afhroð í síðustu kosningum og hefur varla umboð til að taka við stjórninni. Eðlilegt sé að sjálfstæðismaður setjist í stólinn og klári kjörtímabilið.

mbl.is Gunnar bauðst til að víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband