Fáránleg krafa um brotthvarf Valtýs

Mér finnst krafan um að Valtýr Sigurðsson víki alfarið sem ríkissaksóknari fjarstæðukennd. Hann hefur sjálfur vikið sæti í öllum málum sem tengjast efnahagshruninu og lýst sig vanhæfan. Sá hluti málsins ætti að vera í góðum farvegi og mikilvægt að skipa þegar ríkissaksóknara varðandi þessi mál.

Eigi Valtýr að víkja alfarið úr embætti sínu þarf að sýna fram á brot hans í starfi eða alvarleg mistök. Engar forsendur eru fyrir því. Ekki hafa komið fram málefnalegar ástæður fyrir brotthvarfi hans. Eðlilegt er samt að hafa skoðanir á veru hans í embættinu. Ekkert að því að taka þá umræðu.

En þegar við bætist að hann hefur þegar vikið sæti er eðlilegt að undrast á hvaða leið umræðan er.

mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán

Þú ert einn af þeim sem virðist geta haft skoðanir á öllum fjandanum og ert greinilega víða vel heima.

Þá getur þú e.t.v. útskýrt fyrir okkur sem erum ekki sammála færslu þinni hér að ofan, hvers vegna ekki leiki vafi um hæfi Valtýs, þar sem sonur hans er forstjóri þess fyrirtækis sem að öllum líkindum verður með því fyrirferðarmesta í dómskerfinu á næstu árum. Þarf ekki maður í hans stöðu að vera yfir allan vafa hafinn? 

Á sama tíma virðist sem ummæli Sigríðar Benediktsdóttur í skólablaði í USA gera hana vanhæfa, tók hún þó ekki dýpra í árinni en svo að svipuð ummæli voru nánast almanarómur.

Ég lýsi mig vanhæfan til að dæma afráttarlaust  í þessum málum, þar sem ég er ekki lögfróður maður, en fyrir mér leikmanninum virðist sem  það séu ekki fagleg rök sem ráða skoðnum manna, heldur miklu fremur í hvaða liði menn eru.

Eg vona að þú getir varpað einhverju ljósi á þí hverju þessu munur liggur og hvenær sé í lagi að vafi sé um hæfi æðstu embættismanna og hvnær ekki.

Birgir Stefánsson.

Birgir Stefánsson (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 23:01

2 identicon

Eru það ekki brot eða alvarleg alvarleg mistök að draga Kaupþingskæruna í þrjá mánuði? Svo ekki sé minns á þá "tilviljun" að kæran sneri beint að syni hans.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 23:06

3 identicon

Finnst þér þetta jafn fáránlegt eftir að hafa horft á Kastljós þáttinn í gær?  Eða ertu sáttur við hina "eðlilegu skýringu" á um "mistök" að ræða?  Eigum við von á fleiri "eðlilegum mistökum" við rannsókn málsins?  Er það ásættanlegt að þínu mati?

ASE (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 23:19

4 Smámynd: Gunnar

Stefán: Krafan um brotthvarf Valtýs byggir á mjög einfaldri staðreynd: Sem ríkissaksóknari er hann yfirmaður allra annara saksóknara og hefur endanlegt vald um hvaða mál eru sótt og hver ekki. Það þýðir að hann hefur endanlegt vald um hvort sótt eru mál þar sem sonur hans er hugsanlega brotlegur. Þetta eitt dugir augljóslega til að hann sé vanhæfur sem ríkissaksóknari.

Gunnar, 12.6.2009 kl. 23:26

5 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Valtýr sagði í útvarpinu fyrir nokkrum dögum að hans aðkoma að bankarannsókn væri ekki nema 1% af hans starfi...  Það er 1% of mikið.  Ef hann hefði sagt sig alveg frá rannsókn í byrjun væri kannski í lagi að hann mundi núna "bara" víkja fyrir málum tengdum bönkunum - en eins og komið er hefur maðurinn bæði viðurkennt sitt vanhæfi en samt komið 1% að bankarannsókn og það sem alvarlegra er hefur mjög lítið traust hjá almenningi og er ekki að hjálpa sjálfur sér með lélegum bröndurum um Evu Joly...

Róbert Viðar Bjarnason, 12.6.2009 kl. 23:54

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hann átti aldrei að hafa verið ráðinn?  Hver gerði það?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.6.2009 kl. 23:54

7 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Finnst þér ekkert athugavert við það að sonur hans sé innvinklaður í hinn spillta fjárfestingamarkað ??? ef ekki, held ég að þú verðir að endurskoða þitt bakland !!

Guðmundur Júlíusson, 13.6.2009 kl. 00:47

8 identicon

Spilltur handónýtur embættismaður , ekki eru kröfurnar miklar !

Stefán.

Valtýr er úr gömlu valdaklíkunni sem sjálfstæðisflokkurinn og framsóknarflokkurinn skiptu með sér .  Þetta er sama liðið og kom okkur í þá stöðu og við erum í dag !  Spilltasta ríki sem til er !

Þú tilheyrir þeim hópi fólks úr þessum helmingaskipta flokkum, að spilling er bara hið besta mál hjá ykkur !  Allir í kringum ykkur vita hvernig þið hafið unnið í gegnum árin .  Þar sem framsókn og sjálfstæðisflokkur koma saman þar er spilling !   Heil þjóð fór á hausinn af ykkar völdum og ekkert er gert, vegna þess að valdaklíka ykkar sjálfstæðismanna vill ekkert gera.

JR (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 01:00

9 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Svona dólgsleg ummæli, eru ekki til þess fallin að afla Valtý stuðnings. Ef rétt er eftir honum haft, er maðurinn veruleikafirrtur. Með þessum ummælum eru dagar hans líklega taldir í embætti og auðvitað að því tilskildu að þau séu rétt eftir honum höfð.

Ef Valtýr er bara hæfur til að fjalla um mál sem ekki tengjast bankahruninu, þá er rétt að útvega honum kontór til að annast þau mál. Alvöru ríkissaknsóknari verður að njóta trausts til að taka á þeim málum sem hæst ber, sem eru bankamálin. Embætti ríkissaksóknara getur ekki verið stikk-frí þegar fengist er við stærstu mál samtímans. Hvernig dettur manninum það í hug ?

Hjá ríkissaksóknara er sjálfsagt margt hæft starfsfólk. Ef ríkissaksóknari sjálfur er vanhæfur til að fjalla um einhver mál, er embættið að miklu leyti óstarfhæft hvað þau mál varðar. Þetta ætti jafnvel ævi-ráðnum embættismönnum að vera ljóst.

Hvað meinar Valtýr, þegar hann segir: "að krafa um að hann víki úr embætti sem ríkissaksóknari verði að vera í lögfræðilegum búningi" ?? Hann er sjálfur búinn að fella dóm um vanhæfi sitt. Ekki þarf að setja á svið neina lögfræðilega leiksýningu. Ekki þarf að dæma hann frá embætti, því að málsatvik eru of augljós.

Loftur Altice Þorsteinsson, 13.6.2009 kl. 01:14

10 identicon

Já finnst þér fáranlegt að maður með fjölskyldutengsl við stjórn kb banka og Exista sé óhæfur í að dæma um efnahagsglæpi á íslandi. Ertu fífl eða ertu skyldur þessum hálfvitum.

Óli (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 04:29

11 identicon

Valtýr á að víkja fyrir það eitt að vera orðinn umdeildur meðal þjóðarinnar. Vanhæfur hér og þar eru brestir sem einfaldlega eru of margir og stórir.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 09:18

12 Smámynd: Guðrún Jónsdóttir

Veistu það ef þetta væri annað land þá væri þessi maður búin að segja af sér og stjórnvöld hefðu gert kröfu strax því það eru ýmis mál sem hann getur tafið. Ef þessu maður væri réttsýnn þá hefði hann farið strax

Guðrún Jónsdóttir, 13.6.2009 kl. 10:23

13 Smámynd: Billi bilaði

Já, það er algerlega fáránlegt að nokkur maður þurfi að sæta ábyrgð fyrir þessum örfáu krónum sem við misstum óvart úr landi.

Billi bilaði, 13.6.2009 kl. 10:41

14 identicon

Hvernig ætlarðu að skipuleggja skrifstofu æðsta yfirmanns saksóknara ríkisins? Ætlarðu að hafa tvöfalda skrifstofu? Má hann ekki koma inní sum herbergin? Hann má væntanlega ekki heyra öll samtöl sem fara fram á skrifstofunni. Ef við værum að tala um eitt einstakt mál, þá gengi þetta upp, en við erum óvart að tala um gífurlega umfangsmikla rannsókn sem mun ná um allt þjóðfélagið. Rannsókn sem mun yfirskyggja allt starf efnahagsbrotadeildar, ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara. Það má ekki lama þetta starf með vanhæfi eins af æðstu yfirmönnum þessa starfs.

Doddi D (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 11:43

15 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Já finnst þér það Stefán. Eva Joly bendir réttilega á það að hinn s.k. "sérstaki" saksóknari eigi að geta leitað til ríkissaksóknara um öll mál enda munur á reynslu og jafnvel þekkingu. Það er ekki hægt því hvort sem Valtý líkar það betur eða ver þá tengist hann rannsókninni óbeint. Sonur hans var forstjóri aðaleiganda Kaupþings. Ekki er erfitt að sjá almenna vanhæfisástæðu við það eitt að vera yfirmaður ákæruvalds í lýðræðisríki og jafnframt faðir manns sem tengist rannsókn á einu stærsta efnahagshruni vestræns ríkis frá upphafi.

Meiri hagsmunir (fullkomin vissa um óháða rannsókn og krafa heillar þjóðar um að styðja við frú Evu Joly) eiga að ráða yfir hinum minni (einn embættismaður víki þótt hann hafi ekkert til saka unnið en er óheppinn með tengsl, helst af sjálfdáðum).

Finnst þér erfitt að sjá þetta svona nafni????

Guðmundur St Ragnarsson, 13.6.2009 kl. 11:48

16 identicon

Maðurinn er 62 ára og því er þetta alls ekkert fáránlegt. Hvað er tímabundin fjarvera mikil eða löng, m.v. vænt umfang þessa máls? Hann yrði ekki mikið í vinnunni þar til ellilífeyrisaldurinn kikkar inn.

En, ef að hann er tímabundið frá, og einhver mál er varða son hans liggja undir grun (t.d. útboð Exista í Skipta) þá er verið að gera starfsmönnum ríkissaksóknara erfitt fyrir... segjum aðili A; sá aðili vinnur í einhverjum 5-10 málum...þar af eru 3 sem eru undir Valtý og restin alls ekki undir honum.

Þetta meikar bara engan sens. Maðurinn á að víkja. Það eru allt of miklir hagsmunir í húfi.

þrándur (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 12:54

17 Smámynd: Einhver Ágúst

En er ekki hollt fyrir okkur að taka af allann vafa? Það er nú þegar komið upp vafasamt mál sem embætti hans hefur klúðrað/tafið þarsem sonur hanns tengist málinu, ég er ekki að fullyrða um sekt sonar né einhvern óheiðarleika Valtýs, reyndar þekki Sigurð svo ég er sjálfur ekkert hlutlaus þannig.

Tel bara hollast að forðast allan vafa í þessum málum, þeir sem tengjast hruninu mega aðstoða við rannsóknir að vild með einhversskonar kerfisbundnum samstarfsvilyrðum um að minnka refsingu eða fella niður gegn upplýsiningum sém geta varpað ljósi á atburði og hendingar.

Ég held við séum enn með alltof langt inngróið vandamál spillingar og hagsmunatengsla viðskipta og stjórnmálalífs, það er gömul saga sem alltaf endurtekur sig, en stunguskóflan hefur ekki farið nógu djúpt hjá okkur til að koma næringu og súrefni í allann jarðveginn, þaraðauki erum við með féagsmálaráðherra sem er fjárfestir í BYR í staðinn fyrr fjármálaráðherra áður, vissulega vitnisburður um að gengið á vona köllum hefiur lækkað en þeir eru þarna enn að verja sína hagsmuni og fjölskyldunnar.

Það er jafnt með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokknum í þeim málum sem stendur, að því leyti er enginn munur á þessum flokkum.

Einhver Ágúst, 13.6.2009 kl. 12:56

18 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Eins og vel má sjá eru skilaboðin einföld. Valtýr eigi ekki að víkja sæti nema sönnuð sé afglöp á hann í starfi og mistök. Hafi hann unnið rangt varðandi töfina á kærumáli hluthafans í Kaupþingi er komin ástæða til að gera eitthvað. Það þarf að vinna þessi mál faglega eins og önnur. Mér finnst það ekki ein haldbær skýring fyrir því að Valtýr fari alveg úr starfi að hann sé faðir þessa manns. Hann hefur þegar vikið sæti í þeim málum. Hitt er svo annað mál að séu afglöp í starfi tengd við hann er honum varla sætt.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.6.2009 kl. 13:20

19 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Stefán ég segi aftur. Minni hagsmunir víki fyrir hinum meiri.

Guðmundur St Ragnarsson, 13.6.2009 kl. 14:15

20 Smámynd: Haraldur Huginn Guðmundsson

Eru virkilega allir embættis menn sjálfstæðis eða framsóknarmenn?Sú skoðun finnst mér allsráðandi í þessum athugasemdum.Er þessi Valtýr sjálfstæðismaður?Hvað gerði þessi sonur hans af sér,og hafði þessi Valtýr eitthvað með það að gera?Er þessi Eva vel að sér í málefnum þeirra feðga.hvernig fær hún vitneskju um þá.Gátu Jóhanna og hennar fólk ekki bara rekið manninn?

Haraldur Huginn Guðmundsson, 13.6.2009 kl. 14:48

21 identicon

Sæll Stefán,

Valtýr er gjörsamlega búinn að lýsa sig vanhæfan í núverandi starfi með tökum sínum á þessu máli.

Þetta snýst um traust og það virðist vera eitthvað sem stjórnmálamenn og embættismenn okkar skilja ekki hvað er.

Það er engin í raun að halda því fram að hann hafi fram lögbrot.  Hann er í raun rangur maður á röngum stað fyrir þau viðfangsefni sem liggja fyrir embætti hans.

Ég held að það sem fólk sé að leita eftir sé sama fyrirkomulag og í öðrum löndum og það veist þú vel.  Saklaust fólk hefur misst embætti og stöðu bara vegna vafans og er það vel.

Hann er líka búinn að sanna fyrir manni þá augljósa þörf á að brjóta upp embættismanna kerfi landsins.

itg (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 15:41

22 identicon

"Valtýr eigi ekki að víkja sæti nema sönnuð sé afglöp á hann í starfi og mistök."

svona eins og þegar hann sendi öll mál áfram til sérstaks saknóknara nema mál sem tengdist syni hanns. Og laug því svo að hann væri búinn að senda það þegar hann var spurður af hverju það væri ekki búið að senda það. Er þetta ekki nóg fyrir þig. Fyrir utan þetta þá eru fjölskyldu tegls hann nóg til að hann sé óhæfur, sérstaklega þar sem þetta er mál sem snerti hag þjóðarinna allrar.

Óli (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 16:02

23 Smámynd: ThoR-E

Í þessu stærsta fjársvika/efnahagsbrotamáli íslandssögunnar hlýtur að vera krafa um að hægt sé að fá 100% stuðning frá embætti ríkissaksóknara án þess að spurningar komi upp um vanhæfi yfirmanns embættissins.

Þetta mál er það stórt og hagsmunir þjóðarinnar það miklir að það er ekki hægt að taka svona áhættu. Maðurinn þarf að víkja.

ThoR-E, 13.6.2009 kl. 16:39

24 identicon

Ef efi er um að hann sé á einhvern hátt vanhæfur vegna skyldleika við einhvern sem verður til athugunnar í rannsókn bankadellurnar, þá ber honum siðferðisleg skylda við ÞJ'OÐINA að víkja sæti og þiggja biðlaun á meðan.

Eða annað embætti sem ekki kemur neitt að málum.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 18:05

25 identicon

RÍKISSKSÓKNARI getur EKKI  lýst sig vanhæfan í einu stærsta máli þjóðarinnar væntanlega í nútíð, þátíð og framtíð um ókomin ár og jafnvel Evrópu líka. Það einfaldlega gegnur ekki upp í slíku embætti og  þeir sem ekki eru gjörsamlega siðblindir sjá það strax, þú veldur mér verulegum vonbrigðum Stefán.

(IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 19:01

26 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Ríkissaksóknari á að vera hafinn yfir allan grun og Það er nátturúlega með öllu ólýðandi að maður í hans stöðu víki ekki þegar verið er að rannsaka son hans ,Stefán við erum að tala um son hans ,sem þýðir að hann getur aldrei orðið hlutlaus um hans málefni ,Það að aðerir saksóknarar geti ekki leitað til æðsta yfirmanns embætisins um son hans gengur ekki. Það er komið nóg af því að menn víki ekki Það er ekki 2007 núna Fólk vill sjá breytingar ,fólk vill sjá trúverðuleika ,fólk vill sjá að réttlætið komi fram hispurlaust og trúi því að um heiðarlega rannsókn sé að ræða ,þetta er ekki spurning hvort hann sjálfur hafi brotið af sér eða ekki ,þetta er spurning um að öll venslatengsl séu rofinn til að sátt náist um niðurstöðu og þau verði trúverðug ,ef menn sjá þetta ekki eru menn blindir .Það er eins og það sé enginn alvara með því að rannsaka málinn ofan í kjölinn. Það er út frá þessu sem farið er fram á að núverandi ríkissaksóknari fari frá .

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 13.6.2009 kl. 20:03

27 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ríkissaksóknari er fyrst og fremst vanhæfur vegna þess að hann nýtur ekki trausts þjóðarinnar. Þegar/ef kemur að Hæstarétti við að fjalla um þessi mál er hann vanhæfur líka. Dómstóll sem skipaður er pólitískt er óhæfur í málum sem eiga sér jafn sterkan pólitískan bakgrunn og bankahrunið.

Það er ótrúlegt að sjá hvernig fjöldi hörðustu hægri manna ærist hér á blogginu vegna aðkomu Evu Joly að rannsókninni.

Árni Gunnarsson, 14.6.2009 kl. 17:11

28 identicon

Það er engin skömm að því að viðurkenna mistök við skrif bloggfærslu. Sérstaklega eftir að manni er bent á staðreyndir sem etv. voru óljósar við skrifin.

Legg til að þú lesir aftur yfir þetta eftir 10 daga eða svo.

Þrándur (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband