Hver á að bera hina pólitísku ábyrgð?

Byrgið Eins og fram kom í skrifum mínum hér í dag tel ég alveg ljóst að stjórnsýsla ríkisins sé í molum eftir Byrgismálið. Ábyrgð málsins liggur í félagsmálaráðuneytinu. Það er ekki furða að spurt sé hver beri hina pólitísku ábyrgð. Ég er þeirrar skoðunar að það verði einhver að axla ábyrgð á þessum meiriháttar mistökum er áttu sér stað. Þetta er of alvarlegt mál til að það sé látið ótalið.

Það þarf að opinbera það hver tók þá ákvörðun að greiða Byrginu ríkisfé án þess að samningur hafi verið undirritaður. Ég sé ekki fyrir mér að það sé hægt að klára þetta mál án þess að rekja vinnuferla og það sé ljóst hvaðan ákvörðunin kom. Þetta er óafsakanlegt klúður og er miðpunktur í máli sem komið er til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra. Þetta mál þarf að opna upp á gátt að mínu mati. Þessi ákvörðun var tekin og þetta stóð í tæp þrjú ár. Þetta er stóralvarlegt mál.

Það leikur þó enginn vafi á því að verkstjórn ráðuneytisins á þessum tíma var í höndum Árna Magnússonar. Hann var félagsmálaráðherra í þrjú ár. Hans ábyrgð á þessu máli blasir við öllum, enda ber ráðherra ábyrgð á ráðuneytinu. En þessu meðferðarheimili var greitt úr ríkissjóði í þrjú ár án gilds samnings og það verður að upplýsa hver heimilaði þær greiðslur.

Það er að heyra á Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor, að allt sem gerist í ráðuneytinu sé á könnu Magnúsar Stefánssonar. Það er vissulega rétt og enginn vafi leikur á því. Hann hefur þó verið mjög stutt á ráðherrastóli eins og allir vita. Þetta er flókið mál. Árni var ráðherra í þrjú ár og horfði á þessi afglöp gerast. Ekki góð arfleifð fyrir hann á ráðherrastóli.

Það má ekki láta svona klúður gerast aftur. Það verður því að taka á þessu máli af því tagi að það verði víti til varnaðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband