Hvar og hver eru vandamál Sjálfstæðisflokksins?

Könnun (feb 2007)Skoðanakönnun Gallups í vikunni sýnir Sjálfstæðisflokkinn vel yfir kjörfylgi sínu í alþingiskosningunum 2003 á meðan að Samfylkingin, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, hefur minnkað um tæp tíu prósentustig á kjörtímabilinu. Þessi staða ætti vissulega að teljast ánægjuleg eftir sextán ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur leitt stjórn samtals í 14 ár frá árinu 1991. Þó vekur staða mála meiri athygli á sumum stöðum en öðrum.

Það sem mér finnst mest áberandi þegar litið er á stöðu flokksins í kjördæmunum sex nú og borin saman t.d. skipting þingmanna við það sem gerðist í kosningunum 2003 er að Sjálfstæðisflokkurinn styrkist á landsbyggðinni en veikist á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við þessa könnun er flokkurinn að bæta við sig þingmanni í öllum kjördæmum landsbyggðarinnar, þó t.d. fækki þingmönnum kjördæmaheildanna í Norðvesturkjördæmi og í Norðaustri og Suðri bætist við eitt þingsæti fyrir flokkinn þar. Sjálfstæðisflokkurinn hækkar mest í Norðausturkjördæmi, um 8 prósentustig, en hann fékk þar minnst fylgi síðast á landsvísu.

Það er athyglisvert að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að styrkjast á höfuðborgarsvæðinu. Hann mælist með 8 þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum, 4 í hvoru. Hann fékk samtals 9 í kosningunum 2003. Birgir Ármannsson myndi falla af þingi, skv. könnuninni. Flokkurinn er þó með mest fylgi í báðum kjördæmum og yrðu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, því fyrstu þingmenn kjördæmanna. Skv. þessu eru þau sem talin hafa verið af sjálfstæðismönnum frambjóðendur í baráttusætum; Sigríður Ásthildur Andersen og Birgir ekki inni.

Í Suðvesturkjördæmi eru vissulega vonbrigði að flokkurinn hafi misst fylgi milli mánaða. Lengi vel undir lok síðasta árs var flokkurinn að mælast með sex menn inni í kjördæminu. Það er ekki nú og flokkurinn mælist nú með fimm þingmenn rétt eins og í kosningunum 2003. Í þessum kosningum fær Suðvesturkjördæmi sinn tólfta þingmann, hann færist frá Norðvesturkjördæmi sem hefur níu þingsæti eftir breytinguna. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, skipar baráttusætið í Kraganum og hljóta flokksmenn að leggja þar allt kapp á að Ragnheiður fari inn.

Það vakti mesta athygli mína við útreikninga þessarar könnunar að Herdís Þórðardóttir á Akranesi, fjórða á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi, er inni á þingi í kjördæminu. Það gerist þó þingmönnum kjördæmisins fækki úr tíu í níu. Herdís er inni sem jöfnunarmaður en það sæti getur færst til hvert sem er, líklegast í stöðunni er að það dansi á milli NV og höfuðborgarsvæðisins. Persónulega tel ég mun líklegra að baráttan standi á milli Ragnheiðar og Sigríðar Andersen um sætið við Herdísi. Ef marka má stöðu mála er það nær örugglega svo.

Það eru því góð tíðindi og vond í könnuninni. Þau góðu að fylgið á landsbyggðinni hækkar en hin vondu að fólkið í baráttusætum á höfuðborgarsvæðinu er ekki inni. Ef ég þekki félaga mína fyrir sunnan rétt efast ég um að þeir séu sáttir við fjóra inn í báðum kjördæmum borgarinnar og fimm í Kraganum. Heilt yfir finnst mér gott auðvitað að fylgi flokksins sé yfir fylginu fyrir fjórum árum. Ég gerði mér þó vonir um meira miðað við að ný forysta er tekin við flokknum og breytingar hafa verið yfir.

Það er öllum ljóst að þetta eru neðri mörk þess sem Sjálfstæðisflokkurinn telur viðunandi þrem mánuðum fyrir alþingiskosningar, enda segin saga í kosningum að fylgið sé meira í könnunum en það sem kemur upp úr kjörkössunum. Gott dæmi er staða flokksins í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Þar kom mun minna úr kössunum en kannanir t.d. í febrúar og mars höfðu sagt. Það verður því að vinna vel á þessu svæði til að ná betri árangri en síðast, þetta segir sagan okkur!

En heilt yfir er þessi könnun góð vísbending. Sjálfstæðismenn mega þó vel við una á meðan að Samfylkingin fær slíka dýfu að með ólíkindum er. Þar innanborðs hlýtur allt að vera logandi í vandræðakasti ef marka má landslagið nú. 100 dagar hljóma mikið, en það er áhyggjuefni fyrir andstöðuflokk að vera svo undir á þessum tímapunkti. En fyrst og fremst sýnir þessi könnun sjálfstæðismönnum að mikil vinna er framundan - á höfuðborgarsvæðinu gæti staðan verið betri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Stebbi.

Hvernig ætti Sjálfstæðisflokkurinn að styrkja sig frekar meðan formaðurinn er ósýnilegur eins og Spaugstofan einn aðalstjórnmálarýnandi nútímans dró svo skemmtilega fram nú í kvöld ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.2.2007 kl. 02:31

2 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Þetta er nú eitt það klókasta hjá Geir og Sjálfstæðisflokknum þessa stundina meðan öll athyglin beinist að vandræðagangi hjá stjórnarandstöðunni. Svo er það róast þá verður allt sett á fullt.

Guðmundur H. Bragason, 4.2.2007 kl. 02:37

3 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Umræða um umhverfismál veikir stöðu xD eins og er. Umhverfisumræðan hefur fyrst og femst ennkennst af að höfða til tilfinninga manna. "Kaffihúsakellingar af báður kynjum" í 101 hafa setið með bollann sinn með tárin í augunum yfir Kárahnjúkum en sjá því miður ekki út fyrir bollann sinn.

Ekki man ég eftir neinum spjöldum í fjölmiðlaumfjöllun í göngunni frægu sem Ómar stofnaði til, sem sýndu svifrykið í Reykjavík, bílamengun eða sjónmengunina og umgengni á Hellisheiði. Ekki er enn vitað hvaða áhrif það hefur að bora út Reykjaneskagann.

Heldur hefur látlaust verið hamst á Kárahjúkum og Ómar meira að segja fengið styrk frá Landsvirkjun til að sigla um lónið.

Umrædd umhverfisvernd verður svolítið hjáróma. Finnst eins og verið sé að nota Kárhnjúka til að láta umhverfisvandann hér verða lítilvægan.

Er einlægur umhverfissinni en við hljótum að nota náttúruna okkur til lífsviðurværis en verðum að fara með ábyrgum og varfærnum hætti.

Umhverfisumræðan hefur farið  fara framúr sjálfri sér og markmiðin taka aðra stefnu svo sem til að bjóða sig fram - og klekkja á stjórnameirihlutanum í leiðinni

Tek undir með Vigdísi fyrrv. forseta sem sagði í viðtali að við ættum að fara fram með mikilli gætni þegar við notum auðlindir okkar en þurfum samt á þeim að  halda okkur til viðurværis.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 4.2.2007 kl. 06:17

4 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Held að flokkurinn sé á góðu róli nema þá hérna í kjördæminu okkar, vona það bara eiginlega því flokksmenn voru svo vitlausir að kjósa Kristján Þór í efsta sæti, hann fær í það minnsta ekki mitt atkvæði í mai. Vona bara að kjósendur verði ekki búnir að gleyma öllum axarsköftunum hans síðustu vikurnar sem bæjarstjóri hérna á Akureyri, sundlaugargarðurinn og svo árás á formann íþróttafélagsins Þórs fóru alveg yfir strikið...... og minnist ekki einu sinni á biðlaunin...

Rúnar Haukur Ingimarsson, 4.2.2007 kl. 11:31

5 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Forvitnilegt með NV, því að mál manna er að Einar Oddur geti mögulega fallið, og að Sjálfstæðisflokkurinn fái bara tvo menn í NV.  Einnig á eftir að taka tillit til annarra mögulegra framboða, hvað gera þau, og frá hverjum taka þau fylgið. 

http://margretsverris.blog.is/blog/margretsverris/entry/115031/

Með bestu kveðjum,

Sigríður Jósefsdóttir, 4.2.2007 kl. 14:03

6 identicon

Sæll Stebbi. Mjög stórt hlutfall óákveðina er í könnunum nú um stundir. Það færir VG alltaf upp þegar svo er. Jafnframt hefur það fært Sjálfstæðisflokkinn upp svo um munar einnig. Svo er ekki nú. Þegar sjallar eru að mælast með 37% og 40-45% gefa ekki svar eða eru ókveðnir þá eru það tíðindi. Samfylking mælist allaf verr þegar þetta hlutfall er stórt. Þetta eru ekki merkileg vísindi en viðurkennd af fræðingum hér. En að Sjallar séu svona neðarlega við þessar aðstæður þýða að flokkurinn liggur sennilega á bilinu 31-34% á landsvísu. Frammarafylgið á landsbyggðinni hefur sennilega farið að hluta á Sjálfstæðisflokkinn eins og er en það gæti breyst. Máli er það stefnir í gríðarlega spennandi kosningar og nú hefur Magrét Sverrisdóttir boðað nýtt framboð hægra megin við miðju sem sækir fylgi til Frjálslyndra og ekki síður Sjálfstæðisflokksins....þetta gæti orðið skemmtilega fróðleg niðurstaða þegar upp verður staðið.

Jón Ingi (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband