7.2.2007 | 02:09
Samfylking í vanda - ISG skerpir stóriðjulínur
Það verður seint sagt að bjart sé yfir Samfylkingunni og formanni flokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þessa dagana. Frjálst fylgisfall birtist flokknum í hverri skoðanakönnuninni á eftir annarri. Nú hefur það gerst að könnun hefur birst sem sýnir flokkinn í nýrri stöðu - hann hefur þar misst ráðandi stöðu sína á vinstrivængnum og orðinn minni en VG. Þetta eru stórtíðindi sé pólitísk saga til vinstri skoðuð síðasta áratuginn.
Þegar að VG var stofnaður sem stjórnmálaflokkur árið 1999 töldu margir það óráð hjá Steingrími J. Sigfússyni og það væri algjört hálmstrá manns sem hafði tapað formannsslag í Alþýðubandalaginu árið 1995 og yfirgefið flokkinn þrem árum síðar. Lengi vel mældist flokkurinn varla og talin mikil bjartsýni að hann næði fótfestu. Í háðstóni var talað um Steingrím og hóp hans til vinstri sem talíbana snemma í kosningabaráttunni. Er á hólminn kom fékk flokkurinn sex þingmenn í kosningunum 1999 en missti svo einn í kosningunum fjórum árum síðar.
Hverjum hefði órað fyrir er VG kom til sögunnar að hann myndi jafnvel eiga möguleika á eða takast að toppa Samfylkinguna? Þrátt fyrir að VG hafi náð vissum yfirburðum á árinu 2001 og mælst þá stærri en Samfylkingin hélst það fylgi ekki í kosningum, er á hólminn kom. Nú eru þrír mánuðir til kosninga og VG er að mælast í gríðarlegri uppsveiflu. Ef könnun Gallups í síðustu viku yrði að veruleika myndi enda VG bæta við sig átta þingsætum og standa á pari við Samfylkinguna. Á sama tímapunkti fyrir kosningarnar 2003 mældist himinn og haf milli VG og Samfylkingarinnar í fylgi og þá var Samfylkingin með tæp 40% í könnun Gallups. Það er því ekki hægt að jafna þetta saman.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vonarstjarna Samfylkingarinnar í síðustu alþingiskosningum, sótt til verka í Reykjavíkurborg til verka fyrir flokkinn. Hún sagði skilið við embætti borgarstjóra í Reykjavík fyrir þingframboðið. Flokkurinn vann fylgi frá fyrri kosningum og hlaut átta þingmenn í Reykjavík. Þrátt fyrir hækkandi fylgi tókst flokknum ekki að ná henni sjálfri á þing. Hún stóð utanveltu í stjórnmálum í nærri tvö ár, eða þar til hún tók loks sæti á þingi við afsögn Bryndísar Hlöðversdóttur í ágúst 2005. Hún varð formaður fyrr sama ár. Síðan hefur flokkurinn aðeins minnkað og pólitísk forysta ISG fengið á sig annan blæ í landsmálum en var í borgarmálum áður.
Ingibjörgu Sólrúnu er mikill vandi á höndum. Það eru tæpir 100 dagar til kosninga og ekkert gengur. Staða hennar hefur veikst mjög og hún er að vakna upp í sorglegri atburðarás, þeirri sorglegustu sem nokkur stjórnmálamaður getur vaknað upp í. Það er aldrei kjörstaða neins sem vinnur í stjórnmálum að vakna í nær tapaðri stöðu, þar sem aðeins pólitískt kraftaverk getur bjargað flokki og formanni. Ingibjörg Sólrún er komin í þennan krappa dans og reynir nú allt, bæði til að koma sér i fréttir og viðtöl - reyna að finna aftur sama gamla taktinn. Eftir standa aðeins sár vonbrigði og vonir um betri tíð með blóm í haga. En það er oft erfitt að snúa sökkvandi skipi við frá skerinu.
Í ljósi alls þess sem blasir við Samfylkingunni og formanni hennar kemur engum að óvörum að Ingibjörg Sólrún grípi eitt hálmstráið enn; nú stóriðjumálin. Það hefur verið rætt lengi um stóriðjumál. Nú fyrst liggur fyrir mat formanns og flokks um að fresta skuli stóriðjuframkvæmdum í Straumsvík og Helguvík - væntanlega halda fast við stóriðju við Húsavík. Eftir fræga kynningu stefnunnar "Fagra Ísland" var komið með svipaðan takt. En þingmenn og sveitarstjórnarmenn flokksins sem sáu tækifæri í stóriðju vakna í heimabyggð hrukku í baklás og sögðu allir sem einn að þar yrði auðvitað engu frestað - allt væri komið vel á dagskrá og ekki aftur snúið.
Þetta er vissulega athyglisverð yfirlýsing konunnar sem studdi Kárahnjúkavirkjun í borgarstjórn fyrir fjórum árum og var mynduð skælbrosandi við Alcoa-skiltið veglega í Reyðarfirði. Það er yfir fáum afrekum að brosa þessa dagana. VG að taka sér stöðu sem ráðandi afl til vinstri og Samfylkingin fellur í fylgi með hverri könnuninni. Fylkingin í frjálsu falli sér að hún þarf að skerpa línur og með því verða Samfylkingarmenn fyrir norðan gladdir en aðrir hryggðir, enda vitum við öll að engin almenn sátt er innan Samfylkingarinnar í stóriðjumálum allsstaðar.
Gallup sagði okkur um daginn að þessi stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar mældist með 14 þingsæti, sex færri en í kosningunum 2003. Ég lét hérmeð flakka með nafnalista þeirra (samantekt um hverjir ná inn ef kosið yrði nú er að finna undir tenglinum neðst) sem myndu ná kjöri á þing fyrir flokkinn í þeirri stöðu sem þá var uppi - í stórri og öflugri könnun. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer í vor, en ekki blæs byrlega í áttina til Ingibjargar Sólrúnar og hjarðarinnar sem hún leiðir nú um stundir.
Samfylkingin (14)
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Reykjavík suður)
Jóhanna Sigurðardóttir
Össur Skarphéðinsson (Reykjavík norður)
Ágúst Ólafur Ágústsson
Gunnar Svavarsson (Suðvesturkjördæmi)
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Árni Páll Árnason
Guðbjartur Hannesson (Norðvesturkjördæmi)
Kristján L. Möller (Norðausturkjördæmi)
Einar Már Sigurðarson
Björgvin G. Sigurðsson (Suðurkjördæmi)
Lúðvík Bergvinsson
Róbert Marshall
Samfylkingin fékk 20 þingsæti í kosningunum 2003. Einn þingmaður flokksins gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn árið 2007. Mörður Árnason, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Helgi Hjörvar og Anna Kristín Gunnarsdóttir myndu skv. þessu öll falla af Alþingi. 5 þingmenn Samfylkingarinnar gefa ekki kost á sér til þingmennsku nú.
Hverjir kæmust á þing nú? - samantekt SFS (3. feb. 2007)
Samfylkingin vill fresta stóriðjuframkvæmdum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.