Svartur dagur í sögu Framsóknarflokksins

Guðni og Valgerður Framsóknarflokkurinn mælist með lægsta fylgi sitt í sögu skoðanakannana hérlendis í dag. Þetta er hiklaust svartur dagur í sögu hans. Skv. könnun Fréttablaðsins er tilvera Framsóknarflokksins í raun komin í verulega hættu, það er ekki flóknara en það. Fylgi af þessu tagi og hrun af þessum skala yrði flokknum gríðarlegt áfall og sögulegt afhroð yrði það talið. Þetta er allavega söguleg mæling sem athyglisvert var að vakna upp við í dag.

Framsóknarflokkurinn mælist í þessari könnun með aðeins tvo þingmenn inni. Það er mjög freistandi að gefa sér það að það séu þau Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sem séu að mælast inni og enn uppistandandi í þessu mikla hruni sem blasir við flokknum á þessum degi. Þetta er sláandi staða og hefði einhverntímann þótt forsíðuletursins virði með mjög dökku letri að Framsóknarflokkurinn myndi mælast með innan við 5% fylgi. Þetta er allavega nokkur frétt sé litið yfir 90 ára sögu Framsóknarflokksins, sem hefur verið flokkur valda og mikilla áhrifa í samfélaginu.

Það blasir mikið verkefni við Framsóknarflokknum næstu 90 dagana. Flokkurinn hefur mælst illa um langt skeið. Kjörtímabilið hefur nær allt verið sorgarsaga hin allra mesta fyrir flokkinn. Halldór Ásgrímsson hætti þátttöku í stjórnmálum eftir frekar dramatískan og eiginlega mun frekar sorglegan forsætisráðherraferil sem markaðist af því hvernig þessi reyndi flokksleiðtogi allt að því fjaraði út eins og lokalagið á ballinu. Halldór skilaði flokknum í hendur Jóns Sigurðssonar. Jón virðist vera með tröllvaxið verkefni fyrir framan sig og flokkurinn er í frjálsu falli. Það mun reyna mjög á pólitíska forystu Jóns næstu 90 dagana og hvernig hann siglir skipi til hafnar.

Það væri verðugt verkefni fyrir gárungana að reyna að greina hvernig að þingflokki Guðna og Valgerðar sem mælist í Fréttablaðinu gengi að vinna saman. Það yrði varla þingflokkur sem myndi dansa vangadans á rauðum rósum gleðinnar. En að öllu gamni slepptu; þetta er svartur dagur fyrir Framsókn. Ótrúlegt fylgishrun og mikill lífróður sem blasir við elsta starfandi stjórnmálaflokki þjóðarinnar og leiðtoga hans sem aðeins hefur verið á pólitíska sviðinu í níu mánuði. Nú er að duga eða drepast fyrir samvinnumanninn Jón.

Þetta verða 90 ógleymanlegir dagar í sögu Framsóknarflokksins. Kosningabaráttan er að snúast upp í pólitíska lífsbaráttu. Þvílík staða - þvílík barátta sem við flokknum blasir.


Bendi annars lesendum á skrif um Framsókn eftir nýlega Gallup-könnun sem sýndi Framsókn með sex þingsæti og mikið fall en þó mjúka fylgisdýfu miðað við stöðuna nú.

Mun Framsókn ná að rétta úr kútnum?
pistill SFS - 4. febrúar 2007

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sem þarf að vara sig á við að túlka niðurstöður skoðanakannana svona snemma, er hversu mikið af fólki gefur ekki upp hvað það muni gera.  Þ.e. þeir sem eru óákveðnir annars vegar og svo hins vegar þeir sem svara ekki.  Staðreyndin er sú, að Vinstri grænir (og þar á undan alþýðubandalagið) annars vegar og svo Sjálfstæðis flokkur hins vegar mælast líklega með meira fylgi nú, en þeir fá þegar kosið er.  Þessir flokkar eru einfaldlega með meira "fast" flylgi en hinir.  Róttækir vinstri menn, eru ekki líklegir til að skipta um skoðun fyrir kosningar og ansi líklegir til að viðurkenna að þeir ætli sér að kjósa Vinstri græna.  Þetta var einnig svona með Alþýðubandalagið gamla á sínum tíma.  Það gekk alltaf vel hjá þeim í skoðanakönnunum, en ekki eins vel í kosningum.  Sjálfstæðismenn eru með tiltölulega hátt hlutfall virkra meðlima miðað við önnur stjórnmálaöfl.  Sjálfstæðismenn eru vanir að mælast með þetta 2-3% meira fylgi í könnunum, en þeir fá fyrir kosningar.

Sem sagt, þegar langt er til kosninga,  þrír mánuðir í okkar tilfelli, er ekkert óeðlilegt við það að stór hluti af miðjufylginu hafi ekki gert upp við sig hvað það ætlar að kjósa.  Þetta fylgi dreifist svo á Samfylkingu, Frjálslynda, eitthvað á Framsókn og eitthvað á Sjálfstæðisflokkinn. 

Guðmundur R. Guðmundsson (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 14:03

2 identicon

Ættirðu ekki að hafa meiri áhyggjur af þínum eigin flokk, þ.e. Sjálfstæðisflokknum, en Framsókn??  36,8% fylgi er varla ástættanlegt fyrir flokk sem hefur það að aðalmarkmiði að ná yfir 50% fylgi...!

Hilmar Vilberg Gylfason (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 14:19

3 identicon

Sæll, Stefán Friðrik og aðrir þeir, hverjir á síðu þína skrifa !

Mikilli þjóðarmengun yrði aflétt, þá skoðanakönnun þessi mætti staðfestast, í kosningunum sjálfum. Hygg, að hugsandi Íslendingar tækju því með nokkrum fögnuði, afléttist þessi Framsóknarflokks mara, af þjóð okkar allri.

Jafnframt, Stefán Friðrik;; sýnist mér ekki úr vegi, að nefna, að frjálshygguböl það, hvað plagað hefir Sjálfstæðisflokkinn síðustu áratugi kynni að niður falla, með nauðsynlegri endurnýjun forystu þar, hvar sjálfumglatt og lítt víðsýnt fólk, til landsins og þjóðarinnar þarfa; hefir um völd vélað, að undanförnu.

Hefjum íslenzk gildi til vegs, á ný, förgum alþjóðahyggju glýjunni !

Með beztu kveðjum, úr Suðuramti /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 16:14

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg græt ekki þetta fylgi Framóknar alls ekki,þeir hafa unnið til þessa og þeirra Ráðuneiti,Eg er lika hissa á að við XD menn skulum ekki gjalda þessa lika/Nú verðum við aldeilis að taka á ef ekki illa á að fara,Ofarir annara verða ekki okkur mikið lengur til framdráttar/Kveðjur Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 11.2.2007 kl. 17:11

5 identicon

Það er nú einn stór galli við þetta Stebbi, en hann er sá að þetta er aðeins könnun en ekki kosningaúrslit. Það er hins vegar með Framsókn eins og lúsina, henni verður aldrei eytt, aðeins haldið niðri.

leibbi (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 00:18

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakkir fyrir kommentin. Mér fannst þetta merkustu tíðindi könnunarinnar og viðeigandi að skrifa pælingar af þessari sort. Framsókn á í verulegum vandræðum, því verður ekki neitað.

Guðmundur R: Ekki er ég að oftúlka þetta svosem. Þetta er ein mæling á einum degi og segir ekki neitt nema það að Framsókn stendur ekki vel nú. Þeirra staða ræðst fyrst og fremst í hita kosningabaráttunnar. Það er enn langt til kosninga og baráttan við það að hefjast af fullum þunga.

Hilmar Vilberg: Sjálfstæðisflokkurinn er yfir kjörfylginu og stjórnin fellur þarna á hruni Framsóknar. Þetta er söguleg mæling, hið lægsta sem Framsókn hefur fallið og ekki undarlegt að spá í þau spil. En þetta er bara rétt að byrja. Verður spennandi kosningabarátta.

Óskar Helgi: Já, margir myndu nú gleðjast færi þetta svona fyrir Framsókn :) en væntanlega mun Eyjólfur (les: Jón Sig) eitthvað hressast er vorar.

Haraldur: Þessi könnun er enginn heimsendir fyrir okkur en ekkert hrópandi fögnuður heldur. Flokkurinn mun mæta sterkur til leiks í kosningabaráttu og ná góðri útkomu, er viss um það.

Leibbi: Já, því er nú verr og miður finnst væntanlega allmörgum. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.2.2007 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband