Sverrir í heiðurssæti í Norðausturkjördæmi

Sverrir Hermannsson Íslandshreyfingin skilaði á elleftu stundu öllum framboðslistum sínum, en framboðsfrestur rann út í morgun. Það er athyglisvert að sjá listann í Norðausturkjördæmi. Athygli vekur að Sverrir Hermannsson, fyrrum bankastjóri og ráðherra, skipar heiðurssæti framboðslista Íslandshreyfingarinnar hér í kjördæminu. Það eru tveir áratugir á þessu ári síðan að Sverrir Hermannsson fór síðast fram í Austurlandskjördæmi. Hann var þingmaður kjördæmisins í 17 ár.

Sverrir á því svo sannarlega merka pólitíska sögu í þessu kjördæmi. Hann sat um árabil á þingi með Helga Seljan, móðurbróður mínum, og margir fleiri kappar eru eftirminnilegir í stjórnmálasögu Austfjarða á 20. öld. Ég hafði alltaf gaman af að lesa skrif Regínu Thorarensen, frænku minnar og kjarnakonunnar sönnu og austfirsku, um Sverri. Hún var sjálfstæðiskona par excellance. Hún fór þó eigin leið og var ekki blind í sínum flokki. Hún var einstök. Það var gaman að rifja upp skrif hennar um Sverri í ævisögunni um hana, sem ég las aftur nýlega.

Sverrir sagði af sér þingmennsku á árinu 1988 og varð þá bankastjóri Landsbanka Íslands, sem umdeilt varð. Hann tók við af Jónasi Haralz. Bloggvinur minn, Kristinn Pétursson, tók sæti hans á þingi. Ég hef reyndar lengi vel á eftir hugsað um hvernig frambjóðandi og þingmaður fyrir Austfirði hann Sverrir var. Merkilegt var reyndar að einmitt þar skyldi hann ávallt vera í framboði meðan að hann vann fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þar hafi hans pólitíska vígi verið. Hann átti reyndar eftir að taka aftur sæti á Alþingi en hann leiddi Frjálslynda flokkinn í kosningunum 1999 og komst inn sem jöfnunarmaður í Reykjavík.

Það eru merkileg tíðindi að sjá þá gömlu flokksfélaga og vinnufélaga á Alþingi um árabil, Sverri og Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og þingforseta, skipa heiðurssæti á listum sínum í kjördæminu. Þeir eiga mjög mikla pólitíska sögu saman, þó svo sannarlega ekki á seinni árum. Báðir eru eftirminnilegir karakterar svo sannarlega. Þetta er reyndar athyglisverður listi. Frændi minn, Hákon Seljan, er t.d. þarna á lista og nokkrir sem ég kannast við. Ég þekki þó ekki leiðtogann og dreg stórlega í efa að hann eigi möguleika á þingsæti.

En það er gaman að sjá Sverri í framboði, þó í heiðurssæti sé aðeins auðvitað, á fornum pólitískum slóðum.

mbl.is Sverrir Hermannsson í heiðurssæti Íslandshreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband