Þingflokkur fundar - Framsókn boðnir fjórir stólar?

Geir H. HaardeNýr þingflokkur Sjálfstæðisflokksins situr nú á sínum fyrsta fundi í Alþingishúsinu. Á meðan ganga kjaftasögur um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nú þegar boðið Framsóknarflokknum fjóra ráðherrastóla í endurmyndaðri ríkisstjórn flokkanna. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bar á móti þeim sögum í fréttaviðtali rétt í þessu. Engan veginn er ljóst enn hver staða viðræðnanna er en að mínu mati þarf að ræða vel stöðu mála í þessum valkosti áður en aðrir fara upp á borðið í ljósi þess að stjórnin hélt velli.

Það er eflaust merkileg stund í Alþingishúsinu núna á fyrsta þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins eftir kosningar. Tíu nýjir alþingismenn eru að sitja þingflokksfund í fyrsta skipti. Það hefur orðið mikil uppstokkun og eðlilegt að Geir vilji fara yfir stöðu mála með þingmönnum flokksins. Þetta er fyrsti þingflokksfundurinn í þrjá áratugi þar sem að Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og þingforseti, situr ekki en hann var kjörinn þingmaður frá 1979 en lét af þingmennsku eins og flestir vita á laugardag.

Það verður fróðlegt að sjá hvort einhver niðurstaða komi af fundinum, þó eflaust sé þetta mun frekar formlegur fundur þar sem menn hittast, ræða stöðuna og bera saman bækur sínar. Eflaust sækist Geir þar eftir einhverju umboði til viðræðna. Staðan virðist mjög opin. Það er ljóst að þessi kjaftasaga um tilboð Sjálfstæðisflokks til Framsóknarflokks um fjóra stóla er ansi hávær og fróðlegt að vita hvort hún sé sönn. Beðið er eftir því hvað komi út úr viðræðum af þessu tagi en það er án vafa mikilvægt að kanna þennan valkost fyrstan allra, enda kaus þjóðin ekki stjórnina frá völdum.

Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður, sagði í svæðisfréttum RÚVAK fyrir stundu þá skoðun sína að Framsóknarflokkurinn ætti að sækjast eftir setu í ríkisstjórn. Það virtist gilda hvort sem er til hægri eða vinstri. Skiptar skoðanir virðast vera innan Framsóknarflokksins með það hvað gera skuli. Eflaust eru háværari kröfur á landsbyggðinni um að flokkurinn fari í stjórn. Þar varð enda Framsóknarflokkurinn fyrir mun minna afhroði en á höfuðborgarsvæðinu, enda þurrkaðist Framsókn út í höfuðborginni.

Hér í Norðausturkjördæmi hlaut Framsóknarflokkurinn þrjá þingmenn kjörna af sjö á landsvísu. Í raun og veru er forysta flokksins hér orðinn valdamesti hluti þingflokksins og skoðun forystunnar hér skiptir máli í þessu efni. Skoðun Höskuldar ómar eflaust skoðun Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra og leiðtoga flokksins í kjördæminu.

Valgerður þarf að segja sitt mat þykir mér. Valgerður er að mínu mati enda orðin sá forystumaður Framsóknarflokksins sem mest mark er tekið á í ljósi ráðandi leiðtogastöðu innan þingflokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Ég er sammála þér, Valgerður er fyrir löngu orðin forystumaður Framsóknarflokksins og tímabært að hún fái það hlutverk. Þar fer kraftmikil dugnaðarkona sem hefur staðið af sér margt pólitíska óveðrið. Hvergi á landinu hefur Framsóknarflokkurinn annan eins styrk og í Norðausturkjördæmi þar sem hún leiðir listann og það sama var upp á teningnum fyrir fjórum árum.

Lára Stefánsdóttir, 14.5.2007 kl. 18:36

2 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Þarna er ég hjartanlega sammála ykkur báðum.  Valgerður er kjarnakona sem fyrir löngu hefur sannað ágæti sitt sem stjórnmálamaður.  Hún hlýtur að hafa sterka stöðu núna í forystusveit Framsóknarflokksins og ef marka má jafnréttisáherslur hennar í utanríkisráðuneytinu er hún hugsanlega það sem flokkur hennar, og íslensk stjórnmál, þurfa á að halda þessa dagana.

Ég hef velt því fyrir mér á undanförnum vikum hvort ekki væri rétt að kjósa einstaklinga en ekki lista í Alþingiskosningum.   Ég hefði gríðarlegan áhuga á því.  Sjálfur er ég ekki flokkspólitískur og sé á öllum listum fólk sem ég mundi vilja að sæti á Alþingi.  Mér er því jafnan talsverður vandi á höndum í Alþingiskosningum.   Ég var einmitt að óska mér þess að ég gæti fengið kjörseðil með 10 auðum reitum og að á hann gæti ég skráð nöfn þeirra einstaklinga sem ég vildi að sætu á Alþingi.    Í alvöru talað tel ég að þetta væri þess virði að athuga það í næstu stjórnarskrárbreytingum.

Hreiðar Eiríksson, 14.5.2007 kl. 20:32

3 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Sæll StefánÞú varpst í 2.-3. sæti í hinni margrómuðu kosningagetraun hjá mér og átt því nokkur bjúgu hjá mér og eitt stykki álpappírspakka.  Bara spurning hvernig ég kem þessu til þín...Getur séð úrslitin hér:

Heimasíða:  http://www.sigfus.blog.iskk.,
Sigfús

Sigfús Þ. Sigmundsson, 14.5.2007 kl. 21:00

4 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

Þú bregst ekki Stefán frekar en fyrri daginn!

Sammála þér í því að Valgerður hlýtur ótvírætt að vera sá leiðtogi Framsóknarmanna sem er í hvað sterkustu stöðu innan flokksins. Hennar kjördæmi með 3 af 7 þingmönnum flokksins segir nú allt sem segja þarf.

"Ímu-gustur" ekki er mark takandi á mönnum sem ekki koma fram undir nafni. Þannig að ekki er takandi á þínum orðum. Hvað þá að reyna að svara þeim. Geri litla undantekningu hér með þessum orðum.

Með kveðju.

Jóhann Rúnar Pálsson, 14.5.2007 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband